Enski tónlistarmaðurinn og leikarinn Tricky gaf út sína tíundu plötu False Idols í dag. Tricky eða Adrian Nicholas Matthews Thaws eins og hann var skýrður af móður sinni sem fyrirfór sér þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall hefur getið sér orð sem einn af frumkvöðlum trip-hop stefnunar. Hann var meðlimur í hljómsveitinni Massive Attack en tók aðeins þátt í fyrstu plötu sveitarinnar Blue Lines sem var gefin út árið 1991. Í framhaldi af því þróuðust hugmyndir hans í aðra átt og úr varð fyrsta sóló plata hans Maxinquaye sem er einmitt titluð í höfuðið á móðir hans. Síðan þá hefur hann m.a. unnið með Björk, Bobby Gillespie, Cyndi Lauper og leikið í hasar myndinni The Fifth Element.
False Idol hefst á laginu „Somebody’s Sins“ þar sem Tricky fær lánaða línuna „ jesus died for someone‘s sins, but not mine“ úr laginu „Gloria“ eftir Patty Smith. Söngkonan Nneka og Peter Silberman úr The Antlers eru meðal þeirra sem láta í sér heyra á plötunni en auk þeirra ljá Francesca Belmonte og Fifi Rong Tricky rödd sína og í laginu „Chinese Interlude“ er sungið á kínversku. Platan er hálfgert aftur hvarf til Maxinquaye og eru gagnrýnendur sammála um að Tricky sé að rifja upp gamla góða takta sem hafi týnst í millitíðinni. Sjálfum er Tricky alveg sama hvort fólki finnst nýja platan góð eða ekki, því nú sé hann búinn að finna sjálfan sig aftur og er að gera það sem hann vill.
– Daníel Pálsson