Iceland Airwaves 2015 lýkur með sannkölluðum stórtónleikum í Valsheimilinu sunnudaginn 8. nóvember. Þetta verður eins konar “hátíð inni í hátíðinni” og er markmiðið að ljúka 5 daga dagskrá með 7 klukkustunda gleði og dansi.
Hin frábæra hljómsveit Hot Chip frá Bretlandi hefur bæst í hóp listamanna þessa árs og mun hún stíga á stokk ásamt nokkrum af okkar heitustu íslensku böndum. Einnig mun hinn magnaði dúett frá Nottingham, Sleaford Mods koma fram en þeir hafa vakið mikla athygli fyrir einstaka texta og afar líflega sviðsframkomu.
Hot Chip þarf nú vart að kynna en sveitin hefur verið starfandi í 15 ár, gefið út 6 plötur og er þekkt fyrir hreint út sagt frábæra tónleika. Þeir hafa þrisvar spilað hérlendis, m.a. á Iceland Airwaves 2004 við frábærar undirtektir.
Við tilkynnum einnig FM Belfast til leiks en sú magnaða sveit sannar það aftur og aftur sem framúrskarandi tónleikaband.
Auk þeirra koma fram Intro Beats, dj flugvél og geimskip, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Úlfur Úlfur. Allt eru þetta frábærir listamenn sem eru að gera gríðalega góða hluti um þessar mundir. Þess má geta að Agent Fresco og Úlfur Úlfur hafa hlotið mikið lof fyrir sínar nýjustu plötur og tróna á toppi vinsældalista.
Extreme Chill festival mun síðan taka yfir aðra hæðina í Valsheimilinu og færa fólki rjómann af íslenskri raftónlist – dásamleg tónlistarleg vin!
Miðar á hátíðina seljast hratt og hvetja skipuleggjendur alla til að tryggja sér miða í tíma. Búið er að tilkynna yfir 100 listamenn á Iceland Airwaves og stefnir í frábæra hátíð í ár. Í lok ágúst verður búið að tilkynna öll nöfn sem koma fram á hátíðinni en gert er ráð fyrir að um 210 atriði komi fram.