Miðvikudagur 16. apríl
Blúshátíð í Reykjavík er í blússandi gangi en í kvöld koma fram Victor Wainwright og félagar á Hótel Nordica. Victor er ein skærasta stjarnan í blúsheiminum um þessar mundir og var m.a. sæmdur hinum virtu „Pinetop Perkins Piano Player of the Year“ verðlaunum á síðasta ári. Hann kemur fram með gítarleikaranum Nick Black en Blússveit Jonna Ólafs, Spottarnir hans Eggerts feldskera og Johnny and the rest koma einning fram í kvöld. Aðgangseyrir er 4490 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.
Hljómsveitin Mosi kemur fram á Dillon og byrjar að spila 22:30 en aðgangur er ókeypis.
Hjaltalín koma fram í Eldborgarsal Hörpu en á þá gleði er því miður uppselt.
Fimmtudagur 17. apríl
Skattheimta Reglu hins öfuga pýramída fer fram á Paloma. Fram koma Low Roar, Kælan Mikla, Knife Fights og Godchilla. Sérstakir gestir verða Fríyrkjan og ballið byrjar kl 21:00 að viðurlögðum 1000 krónu inngönguskatti.
Spunameistararnir Hilmar Jensson og Borgar Magnason leiða saman hesta sína á tónleikum í Mengi og leika verkið „5 senur fyrir gítar og kontrabassa“. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.
Blúshátíð heldur áfram á Hotel Nordica en þar munu Egill Ólafsson og gamlir félagar úr Þursaflokknum koma á óvart með blúsuðum Þursalögum. Vinir Dóra 25 eiga svo 25 ára afmælis og munu því verða í sparifötunum og spila alla sína bestu blúsa ásamt blúsdrottningunni Andreu Gylfadóttur og fleiri góðum gestum. Aðgangseyrir er 4490 og tónleikarnir hefjast 20:00.
Slor (Ný sveit úr iðjum hljósmveitarinnar Tundra) og Black Desert Sun (ný sveit sem spilar öfga stoner-rokk) koma fram á Dillon. Hefst 22:00 og ókeypis inn.
Föstudagur 18. apríl
Útgáfan Lady boy Records stendur fyrir tónleikum á Paloma. Fram koma AMFJ, Harry Knuckles, Krakkbot, THIZONE, Nicolas Kunisz, X.O.C., Gravediggers, (/Apacitated) og Sindri Vortex. Forsvarsmenn útgáfunnar munu svo þeyta skífum inn í nóttina að tónleikunum loknum.
Dodda Maggý sýnir og flytur ný og eldri verk í Mengi, en sum þeirra hafa ekki verið flutt áður opinberlega á Íslandi. Hún hefur unnið mikið með tónlist í myndlistarsamhengi en sjaldan tekið þátt í lifandi gjörningum en mun nota tækifærið og opna á nýjar gáttir í Mengi. Leikurinn hefst 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
Megas heldur áfram yfirferð sinni á passíusálmum Hallgríms Péturssonar en rokkið tekur völdin í lokakaflanum. Síðustu sautján sálmana syngja sem fyrr þau Megas og Magga Stína og nú er það Píslarsveitin, stór rokkhljómsveit skipuð einvala liði tónlistarmanna ásamt strengjakvartett, sem slær botninn í píslarsöguna. Söngfjelagið, 60 manna kór sem Hilmar Örn stjórnar, syngur nýjar útsetningar valinna tónsetjara svo búast má við afar kraftmiklum og fjölbreyttum hátíðartónleikum á föstudaginn langa. Tónleikarnir hefjast 15:00 og aðgangseyrir er 3900 krónur.
Laugardagur 19. apríl
Hin feikihressa elektrósveit Sykur kemur fram á Dillon. Þau hefja leik 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.
Unnur Sara Eldjárn ætlar að flytja frumsamið efni ásamt sínum uppáhaldslögum eftir aðra á tónleikum í Mengi. Á þessum tónleikum mun hún notast við eigin rödd og gítarundirleik en lögunum hennar mætti lýsa sem draumkenndri popptónlist undir áhrifum frá jazz og þjóðlagatónlist. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.