Dularfull auglýsing frá frönsku róbótunum í Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum. Í auglýsingunni birtist lógó hljómsveitarinnar og að lokum mynd af dúettinum meðan mjúkt diskófönk ómar undir. Nýjustu plötu sveitarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hana unnu þeir meðal annars í samstarfi við Chic-liðann Nile Rodgers og Giorgio Moroder. Enginn útgáfudagur hefur verið settur á plötuna en Nile Rodgers skrifaði á vefsíðu sína fyrir stuttu að hún kæmi út á þessu ári. Hvort að auglýsingin sé fyrirboði plötunnar eða hvort vélmennatvíeykið sé bara að minna á sig veit enginn en áhugasamir geta rýnt í skilaboðin og lesið milli línanna hér að neðan. Heil níu ár eru síðan síðasta hljóðversplata sveitarinnar, Human After All, kom út þannig að aðdáendur eru orðnir nokkuð langeygir eftir framhaldinu.