Mynd: Sigurður Sigurjónsson
Ég hóf föstudagskvöld í Hörpu með því sjá aYia í annað skipti á hátíðinni. Dökka tilrauna tripp-hoppið þeirra naut sín vel í myrku Silfurberginu og hljóðið var til fyrirmyndar. Þá hljóp ég yfir í Fríkirkjuna til að sjá Mugison, ekki síst út af því að nýja platan hans sem var að koma út er frábær, að einhverju leiti afturhvarf í Mugimama is this Monkey Music tímabilið. Hann byrjaði á því að koma hitturunum frá, tók syrpu af sínum stærstu slögurum eins og Stingum af og Murr Murr. Hann fór síðan í nýtt efni og fór á kostum með bandinu.
Delores Haze spilaði indírokk á Gauknum en það hljómaði ekki spennandi auk þess sem mér hefur alltaf fundist efri hæðin þar leiðinlegur tónleikastaður. Lord Pusswhip var hins vegar í miklu stuði ásamt gestaröppurum á Húrra. Taktarnir hans eru eins og hryllingsmyndasándtrökk í bland við Parkódín Forte, og ég kunni vel að meta það.
Næst ætlaði ég að sjá Warpaint en það var bara algjörlega ómögulegt að komast inn í Silfurberg á þessum tímapunkti. Í staðinn fór ég á hljómsveitina Thunder Pussy í Norðurljósum. Það helsta sem hægt er að segja um það band er að nafnið þeirra er mun betra tónlistin. Ég hélt þetta væri svona kaldhæðnislegt glysrokk nafn en svo voru þær bara full blown hármetal drasl.
Lágstemmdur kraftur
Frankie Cosmos í Gamla bíó á straumskvöldinu var hins vegar miklu betri. Ótrúlega smekklegt indípopp, lágstemmt en samt kraftmikið. En svo var allt keyrt í botn á Kiasmos í Silfurbergi. Dúndrandi nýklassískt tekknó sem sómir sér jafnvel myrkri skemmu eins og Silfurbergi og á íþróttaleikvöngum. Þeir eru þegar orðnir nokkuð vinsælir erlendis og ef þeir halda áfram á þessari braut eru þeir næsta Gus Gus í uppsiglingu.
Þá var það poppstjarnan Santigold sem fylgdi þeim eftir með glæsibrag. Hún er svona dálítið eins og diet útgáfa af M.I.A. og ég meina það ekki á slæman hátt. Hún var með sjarma í tonnatali og frábæra dansara. Þá var bara að loka dagskránni með því að snúa aftur á Straumskvöldið í Gamla Bíó þar sem Hermigervill dúndraði eigin raftónlist og gömlum íslenskum slögurum í áhorfendur af rokna krafti og öryggi. Þegar hann spilaði á þeramínið var það töfrum líkast.
Heilt yfir dásemd. Tvö kvöld eftir. Sjáumst í Straumi.
Davíð Roach Gunnarsson