Trentemøller og Diplo á Sónar

Rétt í þessu var tilkynnt að danska raftónlistarmanninum Trentemøller og hinum bandaríska Diplo hafi verið bætt við dagskrá Sónar hátíðarinnar sem fram fer í febrúar. Trentemøller er sannkallaður íslandsvinur en hann kom fram á hátíðinni í fyrra sem plötusnúður og lék fyrir pakkfullum Norðurljósasal. Í þetta skipti kemur hann hins vegar fram með live hljómsveit en hann sendi frá sér fyrr á árinu hina frábæru breiðskífu Lost. Diplo er forsprakki Major Lazer hópsins sem er eitt aðalnúmer hátíðarinnar í ár en hann mun einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpunnar.

Þá hefur í íslensku deildinni verið bætt við FM Belfast, Tonik, Cell 7 og Gluteus Maximus auk þess sem Högni Egilsson úr Hjaltalín og Gus Gus mun heimsfrumflytja sóló verkefni sitt, HE. Aðrir flytjendur á hátíðinni eru meðal annars Bonobo, James Holden, Paul Kalkenbrenner og Jon Hopkins sem gaf út eina bestu plötu ársins, Immunity, og stóð sig feikna vel á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð. Miðasala á hátíðina er í fullum gangi en hægt er að kaupa miða hér og skoða dagskrána hér. Enn á eftir að tilkynna um fleiri listamenn sem koma munu fram. Hlustið á tóndæmi hér fyrir neðan.


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *