Fimmtudagur 4. september
Óregla og Bangoura Bandið koma fram á Gauknum. Tónleikarnir hefjast 22:00 og 1000 krónur veita aðgang að gleðinni.
Föstudagur 5. september
GusGus efna til útgáfutónleika fyrir nýjustu breiðskífu sína, Mexico, í Listasafni Reykjavíkur. Mexico kom út í vor og hefur hlotið prýðisdóma víðast hvar og er ein besta íslenska plata þess sem liðið er af árinu að mati Straums. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 5000 krónur.
Hljómsveitin Hjaltalín sem samið hefur tónlist við kvikmyndina Days of Gray munu flytja tónlist sína live undir sýningu myndarinnar í Kaldalónssal Hörpu. Kvikmyndatónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 3900 krónur.
Kría Brekkan spilar á tónleikum í Mengi. Kría Brekkan er Kristín Anna Valtýsdóttir; tónlistarkona, gjörningarlistamaður, lambaljósmóðir, stjörnuspekingur, myndlistar-og handverkskona, hænsna- og bílabóndi, hugmyndaarkítekt og áhugamanneskja um tengsl manneskjunnar við stokka, steina, sólkerfið sjálft, segulsvið þess og aðdráttarafl alls hvort heldur sem er eður ei. Hún mun leika og syngja frumsamin píanólög og tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
Dimma og Nykur efna til þungarokksveislu á Gauknum sem hefst 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.
Laugardagur 6. september
Uni Stefson og Young Karin leiða saman hesta sína á Kex Hostel. Uni Stefson er sólóverkefni Unnsteins Manuels Stefánssonar, söngvara Retro Stefson. Young Karin er samstarfsverkefni Loga Pedro og Karin Sveinsdóttur og kom sú sveit fyrst fram á sjónarsviðið undir nafninu Highlands árið 2013. Logi er eins margir vita bróðir Unnsteins og einnig meðlimur í Retro Stefson. Tónlist Uni Stefson og Young Karin er á margan hátt settlegri og jafnvel dramatískari en hljómsveit þeirra bræðra. Fyrsta smáskífa Uni Stefson leit dagsins ljós fyrir skömmu og heitir „Engin Grætur“ og var samin fyrr á árinu af Unnsteini í Berlín. Það fyrsta sem heyrðist frá Young Karin var smáskífan „Hearts“ og spannar hljóðheimur þeirra allt frá hip hop til listræns rafpopps.Tónleikarnir hefjast á slaginu 21:00 og það er ókeypis inn.
Rappkvennaherinn Reykjavíkurdætur kemur fram á Dillon en tónleikarnir hefjast stundvíslega 23:00 og það kostar 500 kall inn.
Tónlistarmaðurinn Loji kemur fram í Mengi. Loji er frá Reykjavík og spilar einnig tónlist undir eigin nafni. Hann hefur spilað með tveimur vinum sínum þeim Grím & Jóni síðan 2013 og saman spila þeir draumkennda popptónlist um lífið, vini og alheiminn. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.