Tónleikahelgin 6.-8. mars

Fimmtudagur 6. mars

 

Tónleikar með tilgang, styrktartónleikar fyrir hinsegin fólk í Úganda, verða haldnir í Hörpu. Fram koma Páll Óskar, Sykur, Retro Stefson, Hinsegin kórinn og Sigga Beinteins og Stjórnin. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2000 krónur en allur ágóði af tónleikunum rennur óskiptur til samtaka hinsegin fólks í Úganda sem heyja hatramma baráttu gegn lagafrumvarpi sem kveður á um að lífstíðarfangelsi við samkynhneigð verði lögfest.

 

Reykjavík Folk Festival hefst á Kexinu en fram koma Skúli Sverrisson, Elín Ey, Kristín Ólafs og Drangar í þessari röð. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 en þetta er fyrsta kvöld af þremur og kostar 3000 krónur á stakt kvöld en 7999 ef keypt er armband á öll þrjú kvöldin.

 

Hljómsveitirnar Urban Lumber og Future Figment koma fram á Dillon. Ókeypis inn og byrjar 22:00.

 

Föstudagur 7. mars

 

Kippi Kaninus fagnar útgáfu plötunnar Temperaments með tónleikum í Mengi á Óðinsgötu 2. Kippi Kaninus er annað sjálf listamannsins Guðmundar Vignis Karlssonar. Sú var tíð að hann starfaði einn undir því nafni en nú er svo komið að Kippi Kaninus er hljómsveit sem telur sjö meðlimi og munu þeir flytja Temperaments í heild sinni í Mengi. Húsið opnar klukkan 20:30 og verða léttar veitingar í boði af tilefni útgáfunnar. Tónleikarnir sjálfir hefjast kl. 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Reykjavík Folk Festival heldur áfram á Kexinu en í þetta skiptið koma fram í eftirfarandi röð: Kristjana Arngríms, Hymnalaya, Bjartmar Guðlaugsson og Bubbi Morthens. Tónleikarnir hefjast sem fyrr klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3000 á kvöldið.

 

Hljómsveitin The Vintage Caravan er að flytja til Danmerkur að lokinni þriggja vikna tónleikaferð okkar um Evrópu og ætla af því tilefni að blása til kveðjutónleika á Gauk á Stöng. Oni sjá um upphitun, gleðin hefst 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Á Dillon kemur fram Slowsteps, ung hljómsveit úr Reykjavík, sem spilar melódískt rokk og vinnur nú í sinni fyrstu breiðskífu. Hún hefur leik 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 8. mars

 

Markús & The Diversion Sessions slá upp tónleikum í Mengi. Markús hefur gefið út 2 EP plötur sem Diversion Sessions en vinnur nú hörðum höndum að fyrstu plötu sinni í fullri lengd. Markús gerði garðinn áður mis-frægan í hljómsveitunum Sofandi & Skátum en átti óvæntan útvarpssmell síðastliðið ár þegar lag hans ‘É bisst assökunar’ hljómaði um allar trissur. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Síðast kvöld Reykjavík Folk Festival fer sem fyrr fram á Kexinu en þeir sem loka hátíðinni eru Steindór Andersen, Soffía Björg, KK og Snorri Helgason í réttri röð. Sem fyrr er aðgangseyrir 3000 krónur og leikar hefjast klukkan 20:00.

 

Músíktilraunasigurvegararnir í Vök koma fram á Dillon. Aðgangseyrir er 500 krónur og spilerí hefst 22:00.

 

Hljómsveitin Melrakkar mun spila Metallicu plötuna Kill’Em All í heild sinni á tónleikum á Gauk á Stöng. Sveitin var stofnuð gagngert til þess að spila hina áhrifamiklu þungarokksplötu en hana skipa meðlimir úr Sólstöfum, Mínus, Ham og Skálmöld en Kill’Em All verður spiluð frá byrjun til enda á tónleikunum. Uppselt er í forsölu en örfáir miðar verða seldir við hurð og miðaverð er 2500 krónur og tónleikarnir hefjast 23:00.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *