Miðvikudagur 2. júlí
Snorri Helgason og Mr. Silla stíga á stokk á Húrra. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.
Fimmtudagur 3. júlí
Franski tónlistarmaðurinn LAFIDKI kemur fram á Loft Hostel. Hann vinnur bæði mikið með myndræna hlið tónleika sinna og leikur óhljóðakennda raftónlist. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangur er ókeypis.
Trúbatrixurnar Myrra Rós og Elín Ey koma fram á Húrra. Leikar hefjast 21:00 og aðgangseyrir er enginn.
Stúdíó Hljómur verður með rólegheitakvöld á Gauk á Stöng en þar koma fram sveitirnar Milkhouse, Lily Of The Valley, Icelandic Band, Sister Sister og Höghus. Hefst 21:00 og frítt inn.
Dorian Gray og The Roulette leiða saman hesta sína á Dillon. Ókeypis inn og byrjar 22:00.
Berglind Ágústsdóttir myndlistar- og tónlistarkona spilar á tónleikum í Mengi og hefur leik 21:00 en aðgangseyrir er 2000 krónur.
Föstudagur 4. júlí
Hljómsveitin GusGus verður með hlustunarpartí og mexíkóska veislu í tilefni af útgáfu sinnar 8. breiðskífu, Mexico á Boston. Fyrir þá sem mæta snemma verður boðið uppá mexíkósk matföng frá Santa Karamba og mexíkóska drykki. Hunk Of A Man og President Bongo munu svo kitla viðstöddum undir dansiljunum.
Hljómsveitirnar Sushi Submarine, Náttfari og Hellvar leika á Dillon. Það kostar 500 krónur inn á herlegheitin sem hefjast 22:00.
Hljómsveitin Mercy Buckets heldur tónleika á Gauk á Stöng í tilefni útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu, Lumberjack Fantasies, sem kemur út sama dag. Í tilefni þess verður skellt í útgáfutónleika og veislu á Gauknum sama kvöld. Um upphitun sjá We Made God, Elín Helena og Conflictions. Tónleikarnir byrja upp úr 21:00 og það er frítt inn.
Laugardagur 5. júlí
Jazztrompetleikarinn Wynton Marsalis mun koma fram í Eldborgarsal Hörpu ásamt hljómsveit sinni Jazz at the Lincoln Centre Orchestra. Tónleikarnir byrja 20:00 og miðaverð er frá 5.900 til 12.900.
Hljómsveitin Mógil kemur fram í Mengi en hún flytur frumsamda blöndu af djass-, klassík- og þjóðlagatónlist. Þau hefja leik 21:00 og það kostar 2000 krónur inn.