Fyrsta helgi nýja ársins fer rólega af stað en þó eru nokkrir tónleikar sem vert er að drífa sig út úr húsi fyrir.
Fimmtudagur 2. janúar
Á Gamla Gauknum koma fram Leiksvið Fáránleikans, Casio Fatso og Gímaldin Magister. Það er frítt inn og hurðin opnar klukkan 21:00.
Föstudagur 3. janúar
Pascal Pinion koma fram á hinum nýopnaða stað Mengi á Óðinsgötu 2. Systurnar spila lágstemmt jaðarpopp þar sem ýmis hljóðfæri koma við sögu, lítil og stór hljómborð, gítarar, fótbassar og trommupedalar. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.
Blásið verður til allsherjar rokkveisla á Gamla Gauknum. Íslensku rokksveitirnar Coral og Telepathetics ætla að rísa upp frá dauðum þessa einu kvöldstund og rokka kofann eins og árið sé 2004. Pönkhundarnir í Morðingjunum koma einnig fram. Aðgangseyrir er 500 krónur og tónleikarnir hefjast uppúr tíu en aðstandendur lofa sveittasta giggi ársins 2014.
Laugardagur 4. janúar
Þjóðlagapoppsveitin The Evening Guests kemur fram ásamt öðrum gestum á Gamla Gauknum. Það er ókeypis inn og dyrnar opnast 21:00.
Ólöf Arnalds heldur fyrstu tónleika sína á árinu á afmælisdegi sínum 4. janúar. Gleðin verður haldin á Mengi við Óðinsgötu 2.