Í dag bárust þau miklu gleðitíðindi að áhrifamesta rafhljómsveit sögunnar, Kraftwerk, hefði boðað komu sína á Iceland Airwaves hátíðina í ár. Hljómsveitin mun loka hátíðinni á sunnudagskvöldinu og þrívíddargleraugu eru nauðsynleg til að njóta þeirra til fulls. Sveitin var iðin við tónleikahald á síðasta ári og kom meðal annars fram á rómaðri tónleikaröð í Museum og Modern Art listasafninu í New York. Fyrir neðan má sjá upptöku af sveitinni flytja lagið Trans Europe Express á þeim tónleikum. Kraftwerk hafa áður komið til Íslands en þeir spiluðu á frábærum tónleikum í Kaplakrika árið 2004.