Mynd: Anita Björk. Squarepusher í Silfurbergi.
Ég hóf leikinn á öðrum í Sónar með því að sjá ofursveitina Gangly í Silfurbergi. Raddir Sinda, Úlfs og Jófríðar harmóneruðu með og án átótúns og framsækin trip hop bítin minntu um margt á hljóðheim Bjarkar og FKA Twigs. Á eftir þeim sá ég Tonik spila frábært sett á Sonarpub. Hann stóð fyllilega fyrir sínum án Harðar sem oft syngur með honum. Sándið hans er hlýtt og taktarnir uppfullir af hliðrænu braki og brestum. Þá átti Tumi saxafónleikar frábæra innkomu.
Kraftwerk + Rokk + Bach
Apparat Organ Quartet fóru á kostum í Silfurbergi. Þeir byrjuðu í rokkaðri keyrslu og héldu fullum dampi þegar fram leið eins og vel smurð dísilvél. Sándinu þeirra og sviðsframkomu mætti lýsa sem Kraftwerk + Rokk + Bach, sem er ansi gott reikningsdæmi. Ég rölti svo yfir í Norðurljósasalinn á Vaginaboys sem voru að vinna með nýtt live setup. Einn hljómborðsleikari og nokkrir gaurar með klúta fyrir andlitunu sem stundum sátu við tölvu eða bara röltu um sviðið. En tónlistin var ægifögur, nokkurs konar vangalög nýrrar kynslóðar. Svo var ótrúlega flottum myndböndum varpað á tjald, þau voru eins og tónlist Vaginaboys væmin, klámfengin og listræn í jöfnum hlutföllum.
Næst sá ég svo tónlistarkonuna Holly Herndon sem var mjög sérstök upplifun. Þetta var brotakennd og yfirdrifið agressív raftónlist mörkuð af áunnum athyglisbresti internetkynslóðarinnar. Hún vann mikið með eigin rödd live og klippti, beyglaði og teygði í allar áttir. Þá hafði hún tölvugaur meðferðis sem skrifaði texta á tölvuna í rauntíma sem birtis á tjaldi fyrir aftan þau og vann með mjög framúrstefnulega vídjóverk. Þá náði ég nokkrum lögum með Floating Points sem voru með live band og spiluðu danstónlist með djass- og krautrokkáhrifum.
Hljóð- og sjónræn hryðjuverk
Þá var röðin komin Oneohtrix Point Never í Norðurljósasalnum en ekkert hafði undirbúið mig fyrir þá upplifun. Þetta var tónlist sem tengir fram hjá sálinni og miðar beint á líkamann. Þú finnur fyrir henni á húðinni. Þetta er list sem er hafin yfir einfaldar skilgreiningar eins og „taktar“ og „melódíur“ og er eiginlega bara einn allsherjar samruni. Svo voru þeir með strobeljós sem voru svo öflug að ég held þau hafi verið kjarnorkuknúin. Ég var á tímabili hræddur um að skemma í mér augun. Oneohtrix Point Never framkvæmdu hljóð- og sjónræn hryðjuverk á skynfærum saklausra áhorfenda þetta kvöld og það var unun að vera fórnarlamb þeirra.
Squarepusher kom fram grímuklæddur og flutti sína snældutrylltu tónlist af fádæma öryggi. Hann er meistari taktsins, tekur hann í sundur live eins og legókubba og raðar saman aftur á endalausa frumlega vegu. Eftir uppklappið kom hann svo fram grímulaus og tók upp sitt aðalhljóðfæri, bassann, og grúvaði inn í nóttina. Þá var bara eftir að loka kvöldinu með ferð í bílastæðakjallarann að hlýða á plötusnúðinn Bjarka. Þar var niðamyrkur og steinhart dýflissutekknó í gangi og troðstappaður kjallarinn dansaði inn í eilífðina.
Davíð Roach Gunnarsson