Hljómsveitin A & E Sounds safnar nú fyrir útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu á Karolina Fund. A & E Sounds er samstarfsverkefni Þórðar Grímssonar og Kolbeins Soffíusonar og hafa þeir síðastliðna mánuði verið að leggja lokahönd á skífuna. Hugmyndin að henni kviknaði hjá Þórði vorið 2014 þegar hann stundaði nám við Weissensee listaháskólann í Berlín og samdi hann þar um 30 lög sem hann gaf út á Soundcloud.
Kolbeinn er nýútskrifaður úr hljóðtækni frá Stúdíó Sýrlandi og var umrædd plata lokaverkefni hans í því námi. Þórður útskrifast í vor úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun fyrir lokasýningu LHÍ hanna allt myndrænt útlit plötunnar sem verður í 500 prentuðum 180 gramma vínyl eintökum.
Meðal tónlistarmanna sem koma fram á plötunni eru organistinn Steinar Logi, kórinn Bartónar, trommarinn Orri Einarsson, píanóleikarinn Þóranna Dögg Björnsdóttir og söngkonan Jessica Meyer. Upptökurnar voru gerðar í Stúdíó Sýrlandi, Hallgrímskirkju og í hljóðveri þeirra Kolbeins og Þórðar á Skúlagötu. Söfnunin stendur til 6. apríl og geta þeir sem styrkja söfnunina pantað eintak af plötunni í forsölu.
Hér fyrir neðan má horfa á myndband við lagið Sunday Driver og kynningarstiklu fyrir plötuna.