Tónleikahelgin 19.-22. mars

 

Miðvikudagur 19. mars

 

Jordan Dykstra, Blewharp og Grímur koma fram á Gauk á Stöng. Jordan Dykstra er bandarískur fiðluleikari sem hefur unnið með listamönnum á borð við Dirty Projectors, Gus Van Sant og Atlas Sound. Blewharp er söngvaskáld frá Bandaríkjunum sem býr í Frakklandi sem blandar saman djassi og þjóðlagatónlist. Grímur hefur svo látið að sér kveða í akústísku senunni á Íslandi undanfarið. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar en það er ókeypis inn.

 

Latínsextett Tómasar R. Og Ojba Rasta halda tónleika í Kaldalónssal Hörpu. Latínsveit kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar leikur efnisskrá á lögum á nýjum geisladiski Tómasar, Bassanótt, sem kom út s.l. haust. Ojba Rasta hafa verið að gera það gott undanfarið ár með líflegu reggíi með íslenskum textum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 3000 krónur, en 2000 fyrir nema og eldri borgara og miðasala er á midi.is og harpa.is.

 

Fimmtudagur 20. mars

 

Hin nýstofnaða sveit Highlands sem inniheldur Loga Pedro Stefánsson bassaleikara Retro Stefson og söngkonuna Karin Sveinsdóttur spilar á Funkþáttarkvöldi á Boston. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Steindór Grétar Kristinsson leikur á tónleikum í Mengi. Steindór Grétar er raftónskáld og meðlimur raftónlistabandsins Einóma (Touching Bass, Vertical Form, LMALC, Shipwreck). Tónleikar Steindórs verða í samstarfi við listakonuna Lilju Birgisdóttur og sviðs- og búningahönnuðinn Eleni Podara þar sem lifandi raftónlist blandast rödd og sjónrænum þáttum sem eru lauslega byggðir á verkunum Vertical on Flow eftir Steindór og Vessel orchestra eftir Lilju. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Morðingjarnir, Strigaskór nr. 42, For a Minor Reflection og Smári Tarfur koma fram á styrktartónleikum fyrir Kristin Arinbjörn Guðmundsson á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast 22:00.

 

Þjóðlagaskotna rokksveitin Bellstop spilar á Hlemmur Square Hostelinu. Tónleikarnir hefjast 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Pungsig og Black Desert Sun koma fram á Dillon og stíga á svið 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 21. mars

 

Margrét Hrafnsdóttir söngkona og Þórarinn Sigurbergsson gítarleikari koma fram á tónleikum í Mengi. Þau munu leika m.a. lög eftir Petr Eben og John Dowland en lögin á efnisskránni spanna yfir 400 ár og margbreytileikinn eftir því, frá heitum ástarljóðum til dökkrar og drungalegrar dauðaþrár. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 22. mars

 

Good Moon Deer koma fram í Mengi. Good Moon Deer er tónlistarsjálf grafíska hönnuðarins Guðmundar Inga Úlfarssonar sem hófst með smávægilegu svefnherbergisgutli en í samkrulli með vininum og trommaranum Ívari Pétri Kjartanssyni (FM Belfast, Benni Hemm Hemm & Miri) hefur það tekið á sig áþreifanlegri mynd. Tónlistinni hefur verið lýst sem djass fyrir stafræna öld en á tónleikum Good Moon Deer má búast við framúrstefnulegum og geðklofnum smölunarbútum í bland við þunga trommutaktar og margvíslega, lifandi sjónræna skreytingar.

 

Rafsveitin Samaris sem mikið suð hefur verið í kringum kemur fram á tónleikum á Dillon en þeir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Frost, Different Turns og Morgan Kane koma fram á rokktónleikum á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1500 krónur og leikar hefjast 22:00.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *