Hér verður stiklað á stóru sem smáu í tónleikahaldi helgarinnar.
Fimmtudagur 21. nóvember
Þungarokkstónleikar verða á Gauk á stöng og hljómsveitirnar Jötunmóð, Aeterna, Moldun og Wistaria koma fram. Aðstandendur tónleikana vilja sjá slamm, sveitta moshpitta og bjór í hverri hendi en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.
Föstudagur 22. nóvember
Söngkonan Lay Low blæs til útgáfutónleika fyrir nýútkomna plötu sína Talking About The Weather í Fríkirkjunni. Sérstakur gestur á tónleikunum verður Snorri Helgason en þeir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.
Það verður sannkölluð Pönkveisla á Gauknum þegar hin fornfræga sveit Fræbbblarnir halda upp á 35 ára afmæli sitt. Fræbbblarnir munu stíga á stokk með gamalt og nýtt efni að vopni en þeir hafa unnið hörðum höndum að nýju plötustórvirki undanfarið. Einnig munu þeir sýna áhrifavöldum sínum virðingu sína og spila klassískar pönklagasmíðar sem mótuðu Fræbbblana. Húsið opnar klukkan 9 og það er frítt inn.
Ghostigital verða með dj sett ásamt Steindóri Jónssyni í hliðarsal Harlem. Dansveislan hefst upp úr miðnætti og stendur eins lengi og lög um vínveitingar leyfa og það er ókeypis inn.
Mánaðarlegur reggae/dub/dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Dollý. Gestur kvöldsins er 7berg sem hefur hingað til verið kenndur við Hip Hop en í þetta skiptið ætlar hann að rokka mækinn yfir reggítaktinn. Gleðin hefst klukkan 23:00 og stendur fram eftir nóttu.
Laugadagur 23. nóvember
Pick a Piper sem er hliðarverkefni Brad Weber, trommara Caribou, spilar á tónleikum í hliðarsal Harlem. Sveitin spilar samblöndu af líf- og rafrænni tónlist og tvö trommusett verða nýtt á tónleikunum. Raftónlistarmaðurinn Tonik sem átti stjörnuleik á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð hitar upp en tónleikarnir hefjast hálf 12 og aðgangur er ókeypis.
Þungarokkstónleikar verða á Gauk á Stöng en fram koma Shogun, We Made God, Endless Dark og Conflictions. Hurðin opnar 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur en einn bjór er innifalinn í því verði.