Nú þegar Iceland Airwaves hátíðin er að bresta á þá höldum við í hefðina og deilum með ykkur þeim erlendu listamönnum sem eru í mestu uppáhaldi hjá Straumi. Fylgist svo vel með næstu daga því eins og undanfarin ár verður Straumur með daglegar fréttir um það sem hæst ber á hátíðinni.
Let’s Eat Grandma
Tvær breskar stelpur sem gera hægt og seigfljótandi rafpopp með bjöguðum röddum sem eru í senn barnalegar og draugalegar.
Digable Planets
Áttu eina uppáhalds plötu fyrstu íslensku hip hop kynslóðarinnar sem er reglulega uppgötvuð af þeim sem á eftir komu. Mjúk eins og silki, djössuð eins og Dizzie og spikfeit af andblásinni þekkingu.
The Internet
Nútíma R’n’B innblásið af sálartónlist framtíðarinnar. Seiðandi draugur sem smýgur undan rúminu þínu til að ríða þér milli svefns og vöku.
Santigold
Ein skærasta stjarna heimstónlistarpoppsins og sem slík hefur hún ekki klikkað ennþá. Ekki alveg jafn beitt og M.I.A. en bætir það upp með exótískum aðgengileika.
Frankie Cosmos
Bandaríska söngvara/lagahöfundar pían Frankie Cosmos lítur bæði til fortíðar og framtíðar í undur hugvitssömum lagasmíðum, áhyggjulausum söng og textum sem kinka kolli í áttina að tregablandinni sjálfsmeðvitund.
The Sonics
Bandið sem fann upp bílskúrsrokkið. Jafn sækó og þeir eru gamlir.
PJ Harvey
Indídrottningin sem hristi upp í Englandi svo það er ekki ennþá samt. Við sáum hana á Primavera í sumar og hún hefur engu gleymt. Klassík en ekki klisja. Sjáið hana.
Julia Holter
Kanadísk söngkona sem galdrar fram undurfallegt tilraunapopp með rafrænni áferð þar sem ímyndunaraflið er í aðalhlutverki.
Warpaint
Desemberdimmt draumapopp framreitt af fjórum konum frá Los Angeles af fádæma listfengi.