Fyrsta stóra plata Azealia Banks – Broke With Expensive Taste hefur verið lengi í bígerð. Samkvæmt Banks mun platan innihalda 16 lög – þar á meðal smellinn 212. Hún hefur einnig skýrt frá því að Pharrell Williams og þrír aðrir gestasöngvarar verði á plötunni og að hún sé 80% tilbúin. Fyrr í dag “lak” útvarpsupptaka af laginu Atm Jam þar sem Williams kemur fram með henni á netið. Hlustið á það hér fyrir neðan.
Category: Fréttir
Ferskt bílskúrsrokk frá Twin Peaks
Úr ómáluðum bílskúr í Chicago borg kemur hljómsveitin Twin Peaks sem inniheldur fjóra spólgraða „dropout“ pönkara á unglingsaldri. Þeir Cadien, Clay, Connor og Jack gáfu sjálfstætt út frumburð sinn Sunken í fyrra en útgáfufyrirtækið Autumn Tone hefur tekið Twin Peaks að sér og gefa plötuna út að nýju þann 9. júlí.
Twin Peaks fæst við draumkennt Lo-fi rokk sem hljómar svolítið eins og blanda af Beach House og Buzzcocks. Nýlega sendi hljómsveitin frá sér lagið „Irene“ og myndbönd við lögin „Fast Eddie“ og „Stand In The Sand“ sem öll verða að finna á væntanlegri plötu. Þó svo drengirnir séu ekki nógu gamlir til að koma fram á skemmtistöðum hefur hljómsveitin verið iðin við kolann jafnt á smáum hverfisbörum sem og stórum tónlistarhátíðum þar sem sagt hefur verið að þeir slái út stórum nöfnum með frammistöðu sinni.
Meðlimir Twin Peaks segja að lögin sín fjalli um sætar stelpur, drykkju, dóp og reykingar. Þeir standa vörð um ungdóminn, forðast kjaftæði og gefa út ferska tónlist beint úr bílskúrnum.
Nýtt lag frá Pixies
Hin goðsagnakennda og áhrifamikla hljómsveit Pixies gáfu í dag út lagið Bagboy en það er fyrsta nýja efnið með hljómsveitinni frá því að lagið Bam Thwok kom út árið 2004. Hægt er að nálgast lagið frítt á heimasíðu hljómsveitarinnar. Bassaleikari sveitarinnar Kim Deal sagði á dögunum skilið við bandið en hún var höfundur Bam Thwok. Hlustið á Bag Boy hér fyrir neðan.
Tónleikar helgarinnar 27.-29. júní
Þessa síðustu helgi júlímánaðar er margt um að vera í tónleikadeildinni en stærsti viðburðurinn er þó líklega All Tomorrow’s Parties hátíðin sem fram fer á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Dagskrá hátíðarinnar má finna hér og umfjöllun straum.is um hátíðina má finna hér. Fréttamyndin er af tónleikum sýrurokksveitarinnar The Oh Sees sem spila á hátíðinni á föstudagskvöldið.
Fimmtudagur 27. júní
Þjólagasveitin Danielle Ate The Sandwich kemur fram ásamt Bluegrass-bandinu Illgresi á Loft Hostel í Bankastræti. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangur er ókeypis.
Meira af þjóðlagatónlist á hostelum því hin angurværa sveit Árstíðir slær upp tónleikum á Kex Hostel. Þeir hefjast klukkan 9 og eru einu tónleikar sveitarinnar þangað til hún kemur fram á Airwaves hátíðinni í lok október.
í dag hefst sumartónleikaröð Cafe Flóru árið 2013! Tónleik mætti kalla hagsmunasamtök fátækra tónlistarmanna í Reykjavík og á þessu kvöldi koma fram:
Tryggvi heiðar
Pocket
Brynja
Ósk
Þorgerður Jóhanna
Þorvaldur Sigurbjörn
Raffaella
FrankRaven
Tinna Katrín
Sebastian Storgaard
Föstudagur 28. júní
All Tomorrow’s Parties tónlistarveislan hefst á Faktorý þar sem ótal íslensk og erlend bönd koma fram en fulla dagskrá má nálgast hér. Tilkynnt var í dag að Botnleðja hefði bæst við dagskránna á föstudeginum og við vísum fólki á umfjöllun straums um erlendar hljómsveitir hátíðarinnar hér.
Jaðarpoppdúettinn Nolo heldur tónleika í hliðarsal hins frábæra tónleikastaðar Faktorý, sem mun því miður verða jafnaður við jörðu von bráðar. Nolo segjast spila alla þá tónlist sem þeir komast upp með en hljóðfæra-skipan þeirra hefur tekið stakkaskiptum undanfarið, en í dag notast þeir við gítar, hljómborðs-syntha og HP-tölvu sem sér um ýmis hljóð, og jafnvel óhljóð. Sveitin gaf nýverið út plötuna Human á síðunni Bandcamp. Eftir tónleikana munu hljómsveitarmeðlimir þeyta skífum í hliðarsalnum ásamt Dj Alex J.E. a.k.a. Bob Blondie. Aðgangur er ókeypis og Nolo fara á svið klukkan 23:00.
Raftónlistarmaðurinn GERFiSykur spilar á Prikinu. Leikar hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn eins og venjulega.
Laugardagur 29. júní
All Tomorrow’s Parties hátíðin verður áfram í blússandi gangi á laugardagskvöldinu en þar er Nick Cave & The Bad Seeds stærsta númerið.
Pollock bræðurnir eru lifandi goðsagnir í íslensku tónlistarlífi en þeir koma fram á tónleikum á Dillon. Þessir andlegu stríðsmenn og brautryðjendur í pönki lofa andlegri upplifun og engum aðgangseyri. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.
The Vaccines senda frá sér nýtt lag undir nýjum áhrifum
Árni Hjörvar Árnason og félagar úr hljómsveitinni The Vaccines hafa sent frá sér lagið „Melody Calling“ og mun það vera fyrsta efnið sem heyrist frá bandinu síðan platan Come of Age kom út árið 2012. Lagið ber nafn með rentu og eru drengirnir að greinilega að fikra sig áfram með ljúfari og melódískri hljóm sem fer þeim ákaflega vel.
Justin Young söngvari The Vaccines sagði í viðtali að hljómsveitinn ætti nokkur lög í pokahorninu sem þeir væru að vinna úr. „Þessi lög eru eins og brú yfir í eitthvað annað, hugsanlega plötu númer þrjú. Ég er mjög frjósamur þessa daga og við erum að prófa margt í fyrsta skipti.“
Yeah Yeah Yeahs á toppi Empire State
Karen O og félagar hennar Nick Zinner og Brian Chase úr Yeah Yeah Yeahs hafa sent frá sér myndband við lagið „Despair“ sem tekið er af nýjustu plötu þeirra Mosquito. Myndbandið var tekið upp á toppi Empire State byggingarinnar í New York og er þetta í fyrsta sinn tónlistarmyndband er tekið upp á staðnum. Karen hefur látið hafa eftir sér að það hefði verið draumi líkast að fá að taka upp þetta myndband og hún er ekkert að leyna gleðinni skoppandi um í gula diskógallanum á toppi skýjakljúfsins.
ATP Festival upphitun á KEX Hostel
Tónlistarhátíðin ATP Festival fer fram um komandi helgi og í tilefni af því mun KEX Hostel hita upp fyrir hátíðina með kvikmyndasýningum og tónleikum. Upphitun fer fram í kvöld á KEX Hostel en þar verða þrjár kvikmyndir sýndar ásamt því að Snorri Helgason mun halda tónleika. Kvikmyndirnar sem verða sýndar hafa verið sérstaklega valdar af þeim listamönnum sem koma fram á hátíðinni. Þær eru:
Koyannisqatsi (1982)
Koyannisqatsi er einskonar heimildarmynd og sjónrænir tónleikar við tónverk eftir Philip Glass. Myndin er í raun samansafn mynda hvaðanæva að úr heiminum og mun breyta sýn áhorfandans á heiminn.
Au Hasard Balthazar (1966)
Au Hasard Balthazar fjallar um asnann Baltazar og erfiða ævi hans. Samhliða sjáum við sömuleiðis líf stúlkunnar sem nefndi hann en líf þeirra beggja er samtvinnað.
Repo Man (1984)
Repo Man fjallar um ungan mann sem gerist innheimtumaður og undarleg ævintýri hans í því starfi.
Dagskrá:
GYM & TONIC:
17:00 – Koyannisqatsi (Valin af Valgeiri Sigurðssyni)
18:40 – Au Hasard Balthazar (Valin af Chelsea Light Moving)
20:30 – Repo Man (valin af Thee Oh Sees)
KEX RESTAURANT:
22:15 – Snorri Helgason flytur tónlist sína
Daft Punk rímixa sjálfa sig
Daft Punk hafa lofað því að sjá sjálfir um að endurhljóðblanda lög af plötu sinni Random Access Memories sem kom út 20. maí síðast liðinn og nú hefur fyrsta rímixið í seríunni litið dagsins ljós. Það er smáskífan Get Lucky sem hefur tröllriðið útvarpstækjum og dansgólfum landsmanna undanfarna mánuði. Rímixið er ekki róttæk endurgerð en þeir teygja lagið upp í rúmlega 10 mínútur og bæta við rafrænni takti og pumpandi bassatrommu. Auk þess láta þeir rödd Pharrel Williams kallast á við sínar eigin róbótaraddir í miklum mæli. Hlustið á lagið hér á Spotify tónlistarveitunni.
Ný, krefjandi MGMT plata í haust
Benjamin Goldwasser og Andrew VanWyngarden sem saman mynda hljómsveitina MGMT hafa nú loksins tilkynnt útgáfudag sinnar þriðju breiðskífu þann 17. september og verður sjálftitluð MGMT. Félagarnir hafa staðið í ströngu ásamt upptökustjóranum Dave Fridmann við að leggja lokahönd á plötuna sem átti upphaflega að koma út í þessum mánuði. Þeir lentu í deilum við útgáfufyrirtækið Columbia sem var ekki ánægt með þær viðtökur sem önnur breiðskífa þeirra Congratulations fékk árið 2010 og vildi heyra aðgengilegra efni á þriðju plötunni. Benjamin og Andrew virðast hafa óhlýðnast fyrirmælunum og hafa sagt að nýja platan innihaldi krefjandi tónlist sem ekki allir muni skilja við fyrstu hlustun.
MGMT (platan) mun hafa að geyma 10 lög þar á meðal ábreiðu af laginu „Introspection“ sem Faine Jade gaf út á sjöunda áratugnum. Fyrr á árinu slepptu MGMT frá sér laginu „Alien Days“ og mun það vera að finna á væntanlegri plötu auk „Mystery Disease“ sem þeir byrjuðu nýlega að flytja á tónleikum. Í kjölfarið kemur út aukaefni tengt plötunni undir heitinu „the Optimizer“ og mun innihalda myndbönd og „CGI“ sjónarspil.
All Tomorrow’s Parties sjónvarpsviðtal
Nú styttist óðum í að fyrsta All Tomorrow’s Parties hátíðin verði haldin á Íslandi. Dagskráin hefst seinnipart föstudags og lýkur aðfararnótt sunnudags. Við settumst niður með þeim Barry Hogan sem stofnaði ATP árið 1999 og Deborah Kee Higgins sem hefur unnið fyrir hana frá árinu 2004 og ræddum við þau um hátíðina.
Dagskráin tilbúin
Dagskrá hátíðarinnar er nú komin á netið. Þar má sjá hvenær hljómsveitirnar koma fram, hvaða bíómyndir verða sýndar í Andrews Theater og hvenær Popppunkturinn og Bókarbingó ATP fer fram o.s.frv.
Til að hlaða niður dagskránni í PDF skjali, smelltu hér.
Tilda Swinton velur kvikmyndir ásamt Jim Jarmusch
Þegar hátíðin var tilkynnt í apríl var sagt frá því að Jim Jarmusch leikstjóri myndi velja bíómyndirnar annan daginn í Andrews Theater. Hinn daginn mun Óskarsverðlaunahafinn Tilda Swinton velja kvikmyndirnar sem sýndar verða. Í dagskránni sem nú er komin er á netið má sjá hvaða myndir þau Jim Jarmusch og Tilda Swinton völdu.
Miðar með gistingu uppseldir
Miðar með gistingu seldust upp fyrir skömmu en í boði voru bæði miðar með herbergi fyrir tvo gesti og miðar með herbergi fyrir fjóra gesti. Þessir miðar eru nú uppseldir. Dagspassar á 9.900 kr. og helgarpassar á 16.900 kr. eru fáanlegir á midi.is.
Rútuferðir á ATP
Til að auðvelda höfuðborgarbúum lífið selur Reykjavík Excursions miða á hátíðina sem fela í sér rútuferðir fram og til baka á hátíðina. Það er bæði hægt að fá helgarpassa og dagpassa með rútuferðum en einnig er hægt að kaupa rútuferðir fyrir alla helgina eða staka daga. Athugið að rúturnar fara upp á Ásbrú frá BSÍ kl. 18:00 og brottför aftur til Reykjavíkur er klukkan 02:00.