Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 31. 7

Hljómsveitin Grísalappalísa ætlar að blása til veislu á tónleikastaðnum Faktorý vegna nýútkominnar plötu sinnar, ALI. Með Grísalappalísu verða Ojba Rasta og DJ Flugvél og Geimskip. Húsið opnar 21:00. Það kostar 1000 krónur inn, eða 3000 krónur og fyrsta plata Grísalappalísu, ALI, fylgir með. 

 

 

Fimmtudagur 1. 8

Frumsýninga á heimildamyndinni um kvennapönkhljómsveitina Pussy Riot kl 19:30. Kvennapönkhljómsveitin Viðurstyggð mun hita allhressilega upp og léttar veitingar verða í boði frá kl 19:30, en myndin hefst á slaginu kl 20:00. Hægt er að tryggja sér miða á midi.is en einnig er hægt að kaupa miða á frumsýninguna í miðasölu Bíó Paradís en hún er opin daglega frá kl 17.

Í tilefni útgáfu stuttskífunnar Aquarium með kimono verður boðað til tónleika á Faktorý. Bandarísk-íslenski dúettinn Low Roar ætlar einnig að koma fram. Miðasala opnar kl 21:00 og hefjast tónleikarnir svo stundvíslega kl 22:00.
Miðaverð er 1500 kr.

Upphitun fyrir Innipúkann á Kex klukkan 21:00. Samaris leika fyrir gesti og hægt verður að kaupa armbönd á hátíðina sjálfa.

Myrra Rós og Elín Ey spila á tónleikum á Café Rósenberg klukkan 21. 1000 krónur inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Treisí spila á Dillon klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Bíó Paradís heldur áfram að bjóða upp á sumartónleika, en þetta verða þeir síðustu í bili og verða þeir því í stóra sal hússins og hefst tónlistin klukkan 22:00. Samaris og Arnljótur koma fram.

 

 

Föstudagur 2. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer fram í tólfta skipti í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Innipúkinn 2013 teygir sig yfir tvo daga og fer fram föstudags- og laugardagskvöld, dagana 2. og 3. ágúst. Hátíðin í ár fer fram á Faktorý. það kostar 3000 fyrir eitt kvöld en 4900 fyrir bæði kvöldin.

Föstudagur:
Gísli Pálmi
Valdimar
Steed Lord
Prins Póló
Skelkur í bringu

 

 

Thule kynnir útihátíð í bakgarðinum á Dillon um Verslunarmannahelgina. Verð fyrir eitt kvöld 2500 en 4500 fyrir þrjú kvöld. Dagskrá föstudags:

Dagskrá föstudags
21:00-22:00 Botnleðja
20:00-20:45 Leaves
19:15-19:45 Johnny And The Rest
18:30-19:00 Thingtak
17:45-18:15 Alchemia
17:00-17:30 Jósef “Elvis” Ólason/Grillveisla

 

 

 

Laugardagur 3. 8

Tónlistarhátíðin Innipúkinn heldur áfram á Faktory.

Laugardagur: 

Botnleðja
Geiri Sæm
Ylja
Agent Fresco
Grísalappalísa

 

Rykkrokk hátíð í Fellagörðum verður sérstakt off venue á Innipúkanum í ár. Rykkrokk var síðast haldið 1995 og verður dagskráin klæðskerasniðin nútímanum með nostalgísku ívafi. Allir sem koma fram hafa sterka tengingu við Breiðholtið:
-Langi Seli og Skuggarnir
-Prins Póló
-Gríspalappalísa
-Tanya & Marlon
-Samaris
Frítt inn! og innipúkar úr öllum hverfum Reykjavíkur hvattir til að koma uppí Fellagarða.Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Blaz Roca
20:00-20:45 Vintage Caravan
19:15-19:45 Sindri Eldon & The Ways
18:30-19:00 The Wicked Strangers
17:45-18:15 Rekkverk
17:00-17:30 Grillveisla
Sunnudagur 4. 8

 

Thule  útihátíð í bakgarðinum á Dillon heldur áfram

21:00-22:00 Brain Police
20:00-20:45 Dimma
19:15-19:45 Esja
18:30-19:00 TBA
17:45-18:15 Herbert Guðmundsson
17:00-17:30 Grillveisla

Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Fyrstu tónlistarverðlaun Reykjavík Grapevine

Í nýjasta hefti tímaritsins Reykjavík Grapevine er kunngert um fyrstu titilhafa nýtilkominna tónlistarverðlauna blaðsins, en hugmyndin með þeim er að hvetja og styðja við íslenska tónlistarmenn sem þykja bera af um þessar mundir. Dómnefnd á vegum blaðsins, sem samanstóð af útvarpsmanninum Andra Frey Viðarssyni, Kamillu Ingibergsdóttir frá Iceland Airwaves hátíðinni og fulltrúa tónlistarskríbenta blaðsins, Robert Cluness, valdi verðlaunahafa í sex flokkum í kjölfar stífra fundarhalda sem áttu sér stað við lok desembermánaðar, en einu fyrirmæli sem dómnefndin hlaut var að vera samkvæm sannfæringu sinni og úttala málin almennilega áður en komist væri að niðurstöðu.

Var það einróma dómur nefndarinnar að Hjaltalín hafi átt íslenska plötu ársins með Enter 4, sem kölluð er „framúrskarandi meistaraverk“ í rökstuðningi hennar. Lag ársins 2012 var hið sívinsæla Háa C með Moses Hightower, en þar þykir bæði textagerð, taktur og hljómagangur koma saman og mynda nær fullkomna heild sem seint verður þreytt í spilun.

Rafsveitin langlífa GusGus taldist vera besta tónleikasveit landsins, en þrátt fyrir að hún eigi öfluga keppinauta um þessar mundir og hafi ekki spilað mikið árið 2012 þótti dómnefnd ótækt annað en að sæma hana titlinum í þetta fyrsta skipti sem hann er veittur, enda hafa sporgöngusveitir á borð við Retro Stefson lært mikið af goðsögnunum sjálfum.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson þóttu eiga eina vanmetnustu plötu ársins með samstarfsverkefninu The Box Tree, en þeim titli er ætlað að varpa ljósi og vekja athygli á tónlist sem fór ef til vill undir radarinn á liðnu ári en á þó fullt erindi við hlustendur. Af eilítið ólíkum toga er titillinn „Hljómsveit til að muna“ sem hin sívinsæla sveit Botnleðja hlaut að þessu sinni, en þar er ætlunin að hvetja lesendur blaðsins til þess að kynna sér sveitir eða tónlistarmenn sem hafa skarað fram úr á liðnum árum og sett mark sitt með svo óyggjandi hætti að tónlistarlandslag dagsins í dag væri vart hið sama hefði þeirra ekki notið við. Verður ekki annað sagt en að Hafnfirðingarnir knáu séu vel að titlinum komnir.

Það voru svo rokk æringjarnir í Muck sem dómnefndin taldi ástæðu til að verðlauna sem „Hljómsveit til að fylgjast með á komandi ári!“, en þessi háværa rokksveit þykir hafa vaxið úr öllu valdi undanfarin misseri og bíða spekúlantar þess nú spenntir að hún springi í loft upp og hrífi hinn almenna hlustenda með æsispennandi hörkukjarnamúsík sinni.

Í litlu partýi sem haldið var til að fagna verðlaununum á skemmmtistaðnum Dolly sl. föstudag tóku verðlaunahafar við verðlaunapeningum og viðurkenningaskjölum frá dómnefndarfulltrúa, auk þess sem Hjaltalín og rapparinn Gísli Pálmi tóku lagið. „Hugmyndin með þessari verðlaunaafhendingu allri er að gefa fólki klapp á bakið sem á það vonandi skilið,“ segir Haukur S. Magnússon, yfirritstjóri Reykjavík Grapevine. “Við vildum ekki vera með neinn íburð eða neitt, bara búa til litla dómnefnd með kláru fólki og halda svo smá partý með bjór og næs sem fyrst og fremst var ætlað tónlistarmönnunum sjálfum, þar sem þeir gætu boðið vinum og vandamönnum að eiga með sér notalega kvöldstund.”

 

Auk verðlaunapeninga og viðurkenningaskjala hljóta sveitirnar einnig límmiða til að skreyta plötur sínar með, svo þær geti selt á túristamarkaðnum, en handhafar plötu ársins fengu einnig gistingu á Hótel Búðum og flytjendum lags ársins er boðið út að borða á Tapas Barnum. “Ákaflega margir viðriðnir útgáfu Reykjavík Grapevine hafa jafnframt staðið í tónlistarstússi og við vildum þessvegna reyna að gera þetta bara svona eins og við hefðum sjálf fílað ef við myndum vinna einhver verðlaun. Engar tilnefningar eða stress, bara medalíur og bjór og svona dót sem er vonandi gagnlegt, eins og þessir límmiðar,” segir Haukur.” Eins og allir vita byggjum við á Grapevine afkomu okkar á því að skrifa fyrir ferðalanga og enskumælandi Íslendinga og framlag íslenskra tónlistarmanna til þess að gera landið eftirsóknarvert til heimsókna og jafnvel langdvala verður seint ofmetið. Við reynum að fylgjast glöggt með þessum músíköntum allt árið um kring og umfjallanir um þá eru með vinsælasta efni blaðsins. Því er ekkert eðlilegra en að við reynum að þakka einhvernvegin fyrir okkur og ég held að svona verðlaunanæs sé alveg fín leið til þess.”

Nánari rökstuðning fyrir valinu í hverjum flokki fyrir sig, auk útskýringa á dómnefndarferlinu öllu má finna í nýju hefti Reykjavík Grapevine, sem kom á göturnar og á netið sl. föstudag og er að vanda stútfullt af allskyns kræsingum (meðal annars ótrúlega lofsamlegum dómi um Hjaltalín plötuna).