Fyrstu tónlistarverðlaun Reykjavík Grapevine

Í nýjasta hefti tímaritsins Reykjavík Grapevine er kunngert um fyrstu titilhafa nýtilkominna tónlistarverðlauna blaðsins, en hugmyndin með þeim er að hvetja og styðja við íslenska tónlistarmenn sem þykja bera af um þessar mundir. Dómnefnd á vegum blaðsins, sem samanstóð af útvarpsmanninum Andra Frey Viðarssyni, Kamillu Ingibergsdóttir frá Iceland Airwaves hátíðinni og fulltrúa tónlistarskríbenta blaðsins, Robert Cluness, valdi verðlaunahafa í sex flokkum í kjölfar stífra fundarhalda sem áttu sér stað við lok desembermánaðar, en einu fyrirmæli sem dómnefndin hlaut var að vera samkvæm sannfæringu sinni og úttala málin almennilega áður en komist væri að niðurstöðu.

Var það einróma dómur nefndarinnar að Hjaltalín hafi átt íslenska plötu ársins með Enter 4, sem kölluð er „framúrskarandi meistaraverk“ í rökstuðningi hennar. Lag ársins 2012 var hið sívinsæla Háa C með Moses Hightower, en þar þykir bæði textagerð, taktur og hljómagangur koma saman og mynda nær fullkomna heild sem seint verður þreytt í spilun.

Rafsveitin langlífa GusGus taldist vera besta tónleikasveit landsins, en þrátt fyrir að hún eigi öfluga keppinauta um þessar mundir og hafi ekki spilað mikið árið 2012 þótti dómnefnd ótækt annað en að sæma hana titlinum í þetta fyrsta skipti sem hann er veittur, enda hafa sporgöngusveitir á borð við Retro Stefson lært mikið af goðsögnunum sjálfum.

Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson þóttu eiga eina vanmetnustu plötu ársins með samstarfsverkefninu The Box Tree, en þeim titli er ætlað að varpa ljósi og vekja athygli á tónlist sem fór ef til vill undir radarinn á liðnu ári en á þó fullt erindi við hlustendur. Af eilítið ólíkum toga er titillinn „Hljómsveit til að muna“ sem hin sívinsæla sveit Botnleðja hlaut að þessu sinni, en þar er ætlunin að hvetja lesendur blaðsins til þess að kynna sér sveitir eða tónlistarmenn sem hafa skarað fram úr á liðnum árum og sett mark sitt með svo óyggjandi hætti að tónlistarlandslag dagsins í dag væri vart hið sama hefði þeirra ekki notið við. Verður ekki annað sagt en að Hafnfirðingarnir knáu séu vel að titlinum komnir.

Það voru svo rokk æringjarnir í Muck sem dómnefndin taldi ástæðu til að verðlauna sem „Hljómsveit til að fylgjast með á komandi ári!“, en þessi háværa rokksveit þykir hafa vaxið úr öllu valdi undanfarin misseri og bíða spekúlantar þess nú spenntir að hún springi í loft upp og hrífi hinn almenna hlustenda með æsispennandi hörkukjarnamúsík sinni.

Í litlu partýi sem haldið var til að fagna verðlaununum á skemmmtistaðnum Dolly sl. föstudag tóku verðlaunahafar við verðlaunapeningum og viðurkenningaskjölum frá dómnefndarfulltrúa, auk þess sem Hjaltalín og rapparinn Gísli Pálmi tóku lagið. „Hugmyndin með þessari verðlaunaafhendingu allri er að gefa fólki klapp á bakið sem á það vonandi skilið,“ segir Haukur S. Magnússon, yfirritstjóri Reykjavík Grapevine. “Við vildum ekki vera með neinn íburð eða neitt, bara búa til litla dómnefnd með kláru fólki og halda svo smá partý með bjór og næs sem fyrst og fremst var ætlað tónlistarmönnunum sjálfum, þar sem þeir gætu boðið vinum og vandamönnum að eiga með sér notalega kvöldstund.”

 

Auk verðlaunapeninga og viðurkenningaskjala hljóta sveitirnar einnig límmiða til að skreyta plötur sínar með, svo þær geti selt á túristamarkaðnum, en handhafar plötu ársins fengu einnig gistingu á Hótel Búðum og flytjendum lags ársins er boðið út að borða á Tapas Barnum. “Ákaflega margir viðriðnir útgáfu Reykjavík Grapevine hafa jafnframt staðið í tónlistarstússi og við vildum þessvegna reyna að gera þetta bara svona eins og við hefðum sjálf fílað ef við myndum vinna einhver verðlaun. Engar tilnefningar eða stress, bara medalíur og bjór og svona dót sem er vonandi gagnlegt, eins og þessir límmiðar,” segir Haukur.” Eins og allir vita byggjum við á Grapevine afkomu okkar á því að skrifa fyrir ferðalanga og enskumælandi Íslendinga og framlag íslenskra tónlistarmanna til þess að gera landið eftirsóknarvert til heimsókna og jafnvel langdvala verður seint ofmetið. Við reynum að fylgjast glöggt með þessum músíköntum allt árið um kring og umfjallanir um þá eru með vinsælasta efni blaðsins. Því er ekkert eðlilegra en að við reynum að þakka einhvernvegin fyrir okkur og ég held að svona verðlaunanæs sé alveg fín leið til þess.”

Nánari rökstuðning fyrir valinu í hverjum flokki fyrir sig, auk útskýringa á dómnefndarferlinu öllu má finna í nýju hefti Reykjavík Grapevine, sem kom á göturnar og á netið sl. föstudag og er að vanda stútfullt af allskyns kræsingum (meðal annars ótrúlega lofsamlegum dómi um Hjaltalín plötuna).