Esben & the Witch spila á Íslandi

Enska rokksveitin Esben & the Witch mun koma fram á tónleikum á skemmtistaðnum Harlem næstkomandi laugardag 31. ágúst kl. 22. Um upphitun sjá Good Moon Deer og Stroff. Miðasala fer fram á midi.is og í verslunum Brim. Miðar munu einnig fást við hurðina.

Esben & the Witch koma frá Brighton í Englandi og eru á mála hjá hinu frábæra plötufyrirtæki Matador Records, sem meðal annars gefa út plötur hljómsveita á borð við Queens of the Stone Age og Yo La Tengo. Sveitin hefur gefið út tvær breiðskífur og sú seinni, Wash the Sins Not Only the Face, kom út fyrr á árinu við góðar undirtektir.

Stroff er spáný hljómsveit frá Hafnarfirði skipuð þungavigtarmönnum úr íslenskri jaðarrokksenu. Good Moon Deer er austfirzkur raftónlistardúett. 

Tónleikar helgarinnar

Straum.is heldur áfram að leiðbeina lesendum um helstu tónlistarviðburði helganna. Þessi helgi er sérstök fyrir þær sakir að á laugardeginum er menningarnótt sem er langstærsti tónleikadagur ársins.

Föstudagur 23. ágúst

Melodica hátíðin sem helguð er órafmagnaðri tónlist fer fram á Rósenberg í kvöld. Þar koma fram Lucy Hall, Bernhard Eder, Myrra Rós, Gariboff, Honig og leynisgestur sem ekki verður ljóstrað upp um hér. Dagskráin hefst klukkan 21:00.

Tónleikarnir Nýjar Víddir Orgelsins fara fram í Hallgrímskirkju. Nokkrir fremstu ungu raftónlistarmenn Íslands framkalla nýjan hljómheim m.a. með endurgerðum tölvubúnaði Klaisorgelsins. Þar verða flutt ný verk eftir Inga Garðar Erlendsson, Arnljót, Pál Ivan Frá Eiðum, Gudmund Stein Gunnarsson, Aki Asgeirsson og Jesper Pedersen. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 24. ágúst menningarnótt

Ef við ættum að útlista öll þau tónlistaratriði sem fara fram á þessum viðburðaríka degi yrði þessi grein á við doktorsritgerð að lengd þannig að hér á eftir fara þau tónlistaratriði sem að við mælum sérstaklega með.

Í Silfurbergsal í Hörpu koma fram Vök, Grísalappalísa og Muck, en tónleikarnir standa frá 16:00 til 18:00.

Á Loft Hostel í Bankastræti koma fram Einar Lövdahl, Solar, Helga Ragnarsdóttir, Babies og Húsband Loft Hostel, Gold Funk and Geysir. Gleðin hefst klukkan 16:00.

Í garðinum við Ingólfsstræti 21a spila Útidúr, Samaris og Helgi Valur. Þá verður einnig boðið upp á kaffi og vöfflur. Helgi Valur stígur á stokk 14:10, Samaris, 14:40 og Útidúr klukkan 15:30.

Á Kex Hostel verða tónleikar frá 18:00 til 21:00. Fram koma í þessari röð; Borko, Retro Stefson og Megas & Uxa

Í æfingarhúsnæðinu Járnbraut á Hólmaslóð 2 út á Granda verður eftirfarandi tónlistardagskrá í boði:
14:30 – Dj Flugvél og Geimskip
15:00 – ROKKMARAÞON – Hlaupið verður hring um Grandasvæðið. Leðurjakki og strigaskór skilyrði!
16:00 – Gaupan
16:30 – Kristín Ómarsdóttir les upp úr nýrri bók
17:00 – Babies
18:00 – Gunnar Gunnsteinsson
19:00 – Pétur Ben + Brautin
20:00 – Jóhann Kristinsson
21:00 – Útidúr
22:00 – Grísalappalísa

Á Kalda barnum á klapparstíg verða tónleikar og dj-ar að spila í portinu;
19:30 – DjDeLaRosa
20:45 – Sísý Ey
21:20 – Sometime DJ
22:00 – Pedro Pilatus

Festisvall er árlegur listviðburður sem að þessu sinni er haldinn í Artima gallery Skúlagötu. Ótal myndlistarmenn sýna verk sín en einnig koma fram tónlistarmennirnir Björn Halldór Helgason, Dj Alex Jean, Futuregrapher, Georg Kári Hilmarsson, Good Moon Deer, LXC [DE], Tanya & Marlon, Tonik og Urban Lumber.

Hústónlistarútgáfan Lagaffe Tales blæs til allsherjar húsveislu með rjómanum af íslenskum plötusnúðum í Hjartagarðinum frá 14:00 til 23:00.

Ísfirðingurinn Skúli Mennski flytur frumsamda tónlist við upplýsingamiðstöðina Around Iceland, Laugavegi 18b. Kjörorð Skúla eru frelsi, virðing og góð skemmtun.

1 árs afmæli straum.is

Mynd: Alexander Matukhno

Síðasta sumar höfðu undirritaðir fengið sig fullsadda af skorti á tónlistarumfjöllun á hinum íslenska hluta alnetsins og tóku höndum saman um stofnun nýrrar síðu, þeirrar sem þú ert að lesa núna. Undanfarið ár höfum við haldið úti reglulegri umfjöllun um nýja og ferska tónlist, íslenska sem erlenda, og höfum í því skyni birt yfir 400 fréttir á vefnum. Á liðnu ári höfum við einnig bætt við okkur pennum og hafið samstarf við tímaritið Grapevine þar sem við erum með dálk og förum yfir helstu fréttir úr íslenskri tónlist. Þann 21. júlí síðast liðinn var eins árs afmæli síðunnar og það kom svo flatt upp á okkur að við höfðum ekki tíma til að skipuleggja hátíðarhöld, fyrr en nú. Í dag á  vefritið eins árs, eins mánaðar og eins dags afmæli og í tilefni af því sláum við upp veislu á skemmtistaðnum Harlem. Kammerpoppsveitin Útidúr og Lo-fi tilraunabandið Just Another Snake Cult munu stíga á stokk og leika listir sínar en báðar komu við sögu á árslista vefritsins fyrir síðasta ár. Ritstjórnarfulltrúar straum.is munu þeyta skífum fyrir dansi í hliðarsal og eftir tónleikana og eitthvað af ókeypis bjór verður í boði fyrir stundvísa gesti, en hátíðarhöldin hefjast klukkan 21:00. Við bjóðum alla lesendur og ömmur þeirra hjartanlega velkomna til að fagna með okkur og lofum að láta ekki deigan síga heldur bæta bara í á næsta starfsári síðunnar.

Óli Dóri og Davíð Roach

Síðbúinn sumarsmellur frá Holy Ghost

 

Diskódúettinn Holy Ghost hefur sent frá sér lagið „Okay“ sem mun verða að finna á væntanlegri plötu þeirra sem kemur út 10. September undir titlinum Dynamics. Nick Millahiser og Alex Frankel eru mennirnir á bakvið baneitraða danstóna Holy Ghost og hafa þeir áður gefið út eina sjálftitlaða plötu árið 2011 sem unnin var í samstarfi við James Murphy úr LCD Soundsystem. Ekki er laust við að drengirnir séu enn undir áhrifum lærimeistarans og svipar „Okay“ óneitanlega til lagsins „I Can Change“ með síðargreindu bandi.

Zammuto senda frá sér lag

 

Bóndinn Nick Zammuto er lítt þekkt nafn innan tónlistarinnar en hann er helst þekktur sem helmingur hljómsveitarinnar The Books sem lagði upp laupana á síðasta ári. Nú er hann fjórðungur tilraunakenndu raf hljómsveitarinnar Zammuto sem hefur gefið út eina plötu og er önnur í vinnslu.
Nýverið sendu þeir frá sér lagið „Corduroys“ sem minnir helst á gamalt og gott TV on the Radio lag, ekki er það leiðum að líkjast.

Two Step Horror með Ricky Nelson ábreiðu

Reykvíska tvíeykið Two Step Horror sendu fyrr í dag frá sér demo ábreiðu af laginu Lonesome Town sem samið var af Baker Knight og flutt af söngvaranum Ricky Nelson á 6. áratugnum. Í flutningi Two Step Horror má segja að lagið verði ögn drungalegra og þau geri það að sínu.

Tears For Fears með dubstep ábreiðu af Arcade Fire

Breska new wave bandið Tears For Fears sendu í gær frá sér dubstep ábreiðu af laginu Ready To Start sem var á þriðju plötu kanadísku hljómsveitarinnar Arcade Fire – The Suburbs frá árinu 2010. Þetta er fyrsta nýja efnið sem Tears for Fears senda frá sér frá því að platan Everybody Loves A Happy Ending kom út árið 2004.

Volcano Choir streyma sinni annarri plötu, hlustið

 

Justin Vernon verður seint sakaður um aðgerðarleysi þessa dagana, auk þess að vera forsprakki Bon Iver hefur hann gefið út plötu með hljómsveit sinni The Shouting Matches, komið að gerð plötu Colin Stetson New History Warfare Vol. 3 To See More Light og Yeezus plötu Kanye West. Allt þetta hefur hann gert á árinu 2013 og nú bætist platan Rapave í safnið en hana gefur hann út með hljómsveit sinni Volcano Choir. Þetta er önnur breiðskífa sveitarinnar og fylgir á eftir Unmap sem kom út árið 2009. Rapave kemur formlega út 3. september en henni hefur þegar verið streymt á netið.
Afraksturinn er ljúfar melódíur, tilraunakenndar dramatískar rokkballöður sem kunna að vera nokkuð yfirþyrmandi fyrir viðkvæma.

Hlustið hér.

 

Earl Sweatshirt gerir plötu sína aðgengilega

 

Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall hefur Earl Sweatshirt stimplað sig rækilega inn í rappheiminn og hafa margir beðið með vatnið í munninum eftir fyrstu plötu hans Doris. Earl er þekktastur fyrir að vera hluti af Odd Future grúbbunni og hefur platan verið sett á netið í gegnum síðu sveitarinnar en hún var ekki væntanleg fyrr en 20. ágúst.
Fjöldi tónlistarmanna ljáir Earl rödd sína á plötunni t.d. Mac Miller, Tyler, the Creator, Domo Genesis og rappandi Frank Ocean sem fer á kostum og lætur Chris Brown heyra það.

Hlustið hér.