Fyrsta lagið af þriðju plötu Mac DeMarco

Þeir sem sóttu tónleika Mac DeMarco á Airwaves hátíðinni í fyrra tóku eflaust eftir því að hann er frekar fyndinn gaur. Það sást og heyrðist meðal annars í ábreiðum hans og hljómsveitarinnar af lögum eins og „Break Stuff“, “Enter Sandman“ og „Blackbird“ þar sem flutningur laganna var nokkuð skondin snilld.
Til að tilkynna væntanlega plötu sína nú á dögunum gaf DeMarco út nýtt lag sem mun ekki verða á plötunni og kallast “Gimme Pussy / A little bit of Pussy“. Þar fylgdu skilaboðin að platan væri ekki væntanleg fyrr en árið 2019 en blessunarlega mun henni þó  leka talsvert fyrr og mun hún líta dagsins ljós 1. Apríl þessa árs. Titillinn er Salad Days og fyrsta smáskífan hefur verið gefin út og kallast „Passing Out Pieces“. Einnig hefur DeMarco gefið út promo myndband fyrir plötuna sem er að finna hér að neðan ásamt báðum lögnum.

Miami Horror með nýja afurð

Áströlsku diskó drengirnir úr Miami Horror hafa sent frá sér lagið „Coulors In The Sky“. Þetta er annar smellurinn sem bandið sendir frá sér á stuttum tíma en lagið „Real Slow“ kom út fyrir um tveimur mánuðum síðan. „Coulors In The Sky“ byggist á töluvert hægara tempói en venjan er þegar Miami Horror á í  hlut. Samt sem áður gleðilegt lag með björtum og sumarlegum syntha tónum. Það vantar þó eitthvað uppá og lagið verður heldur flatt þegar líður á og spurning hvort það þurfi ekki aðeins að spýta í lófana ef næsta plata á að vera eitthvað í líkingu við frumburðinn „Illumination“.

Nýtt lag frá Bombay Bicycle Club

Það var kominn tími til að indí sveitin Bombay Bicycle Club léti í sér heyra. Ekkert nýtt efni hefur komið frá þeim félögum síðan 2011 þegar þriðja plata þeirra A Different Kind Of Fix kom út. Sveitin vinnur hins vegar nú að sinni fjórðu breiðskífu og hefur fyrsta smáskífan fengið að líta dagsins ljós. Lagið ber titilinn „Carry Me“ og á samkvæmt meðlimum að marka breytingu á tónlistarstefnu bandsins. Lucy Rose sem áður hefur sungið með hljómsveitinni á heiðurinn að lofkenndri bakrödd í laginu. Einnig fylgir útgáfu lagsins frumlegt myndband sem sjá má hér.

Broken Bells með lag af væntanlegri plötu

Broken Bells tvíeykið staðfesti nýlega útgáfu plötunnar After the Disco sem kemur út í janúar á næsta ári. Síðan þá hafa þeir félagar James Mercer og Danger Mouse sem skipa sveitana sent frá sér trailer og sjö mínútna stuttmynd í tilefni útgáfunnar. Nú hefur fyrstu smáksífunni verið gefið líf og kallast hún „Holding On For Life“.
Lagið er í léttari kantinum miðað við innihald fyrri plötu sveitarinnar  sem kom út 2010. Fönkaður bassataktur og 80‘ synthatónar gefa góð fyrirheit um það sem koma skal á væntanlegri plötu.

Nýjasta plata Cut Copy aðgengileg

Fjórða breiðskífa Cut Copy flokksins, Free Your Mind, hefur verið smellt á heimasíðu hljómsveitarinnar og gerð aðgengileg til hlustunar. Áherslur plötunnar eru í takt við fyrra efni og enginn stökkbreyting á sér stað í þróun tónsmíða þó sýru hús tónlist fái aukið vægi að þessu sinni. 4 smáskífur af plötunni höfðu áður fengið að líta dagsins ljós en í heildina eru lögin 14. Dansþyrstir aðdáendur bandsins ættu að fá eitthvað fyrir sinn snúð þó þetta sé eitthvað frá því besta sem heyrst hefur frá sveitinni.

Streymið nýju plötu Sleigh Bells

 

Ef þú ert orðin(n) þreytt(ur) á lélegum hljómgæðum í gömlu hátölurum og vantar bara herslumuninn uppá að sprengja þá til að hafa ástæðu til fjárfesta í nýjum ætti Bitter Rivals að vera svarið. Sleigh Bells koma til með að gefa plötuna út þann 8. október og verður hún sú þriðja sem kemur frá bandinu. Dúóið hefur hins vegar tekið forskot á sæluna og smellt plötunni í heild sinni á netið, þá er bara að botna græjurnar og hlusta á lætin hér.

jfm og steed lord gefa út lag

Í síðasta þætti Hljómskálans leiddu saman hesta sína stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon og stuðsveitinn Steed Lord. Útkoman var lagið „Viva La Brea“ sem er óður til Los Angeles borgar þar sem Steed Lord heldur til og myndbandið tekið á rúntinum um borgina þar sem Svala og Jakob spóka sig um í gömlum Audi. Daft Punk fýlingurinn leynir sér ekki í laginu og þó svo tónlistarstefnur þessara listamanna eigi ekki mikið sameiginlegt finna þau fullkominn milliveg.

Fyrsta plata Haim komin á netið

 

Frumburður systra tríósins Haim hefur verið settur á netið en platan kemur formlega út þann 30. september.  Afrekið nefnist Days Are Gone og hafa nú þegar fjögur lög af plötunni komið út sem smáskífur en í heildina inniheldur hún 11 lög. 70‘s andi svífur yfir plötunni en hljómsveitinni hefur helst verið líkt við Fleetwood Mac og standast þær stöllur vel þann samanburð.

Hlustið hér.