Pixies til Íslands í sumar

Bandaríska rokksveitin Pixies er væntanleg til Íslands í sumar og mun halda tónleika í Laugardalshöllinni þann 11. júní. Sveitin sem var upp á sitt besta í lok 9. áratugarins og upphafi þess 10. með plötum eins og Surfer Rosa og Dolittle, hefur áður komið til Íslands en hún lék á tveimur tónleikum fyrir troðfullum Kaplakrika árið 2004. Nýlega hafa Pixies gefið frá sér tvær stuttskífur og von er á breiðskífu frá þeim á árinu.

Tónleikahelgin 30. jan – 1. feb

Fimmtudagur 30. janúar 

Rafdúettinn Haust heldur ókeypis tónleika á Kex hostel sem hefjast klukkan 19:00.

Two Toucans, DJ Flugvél og Geimskip og CELL7 koma fram á Kex Hostel í tilefni af útgáfu fyrsta tölublaðs Neptúns. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 20:00 og er frítt inn.

Hljómsveitin Mammút heldur útgáfutónleika fyrir sína þriðju breiðskífu “Komdu til mín svarta systir” í Gamla Bíó. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og kostar miðinn 2900 krónur á midi.is

Söngvaskáldið Myrra Rós kemur fram á ókeypis tónleikum á Hlemmur Square klukkan 20:00.

Hljómsveitin Kiss the Coyote heldur tónleika á Rósenberg ásamt Smára Tarf. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og það er frítt inn.

Raftónlistarmennirnir Futuregrapher og Skurken koma fram á Café Ray Liotta (kjallarinn á Celtic Cross). Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitin Urban Lumber heldur tónleika á Dillon ásamt TInnu Katríni. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 22:00

 

Föstudagur 31. janúar

Rapp, ást og kærleikur á Loft Hostel! Reykjavíkurdætur stíga á stokk með trylltum látum og nýjum spilltum rímum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er frítt inn.

 

Hljómsveitin Morgan Kane fagnar nýútkominni EP-plötu sinni, The Way to Survive Anything, með tónleikum á Dillon. Modnine-sveitin Casio Fatso kemur einnig fram en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

 

Laugardagur 1. febrúar

Úlfur úlfur, Emmsjé Gauti, Larry Brd (Hlynur og Heimir Skyttumeðlimir) og Kött Grá Pjé ætla sjóða saman töfrandi tóna laugardaginn 1. febrúar á Gamla Gauknum. Allur ágóði tónleikanna mun renna óskiptur til Barnaspítala Hringsins en listamenn og aðrir sem að þeim koma gefa vinnu sína. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Jim Black er einn áhrifamesti jazz-trommuleikari okkar tíma. Hann hefur leikið um allan heim með Tim Berne, Uri Cain, Ellery Eskelin, Dave Liebman, Dave Douglas og mörgum fleirum. Hann er íslendingum að góðu kunnur enda hefur hann margoft leikið hér á landi undanfarin 20 ár. Í þetta sinn leikur hann ásamt Eiríki Orra Ólafsyni á trompet og Hilmari Jenssyni á gítar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Flaming Lips á Iceland Airwaves

Tilkynnt var um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Iceland Airwaves hátíð í dag og þar ber hæst bandarísku indísveitina Flaming Lips, en hún mun loka hátíðinni á sunnudagskvöldinu. Af öðrum erlendum sveitum má nefna frönsku rafpönksveitina La Femme og Suður-Afríska tónlistarmanninn John Wizards. Aðrir erlendir listamenn eru East India Youth, Jungle og Blaenavon frá Bretlandi, hinn finnski Jaakko Eino Kalevi og Tiny Ruins frá Nýja Sjálandi.

 

Þá hafa íslensku sveitirnar Just Another Snake Cult, Highlands, Samaris, Mammút, Grísalappalísa, Vök, Muck, Snorri Helgason og Tonik verið bókaðar á hátíðina. Þrátt fyrir að fókus Iceland Airwaves sé á nýjar og upprennandi hljómsveitir hefur sú hefð komist á undanfarin ár að fá þekkta tónlistarmenn til að loka hátíðinni. Flaming Lips sem eru sannkallaðir risar í indíheiminum munu sjá um það hlutverk að þessu sinni ásamt annarri sveit, sem tilkynnt verður um síðar, að fram kemur í tilkynningu frá Iceland Airwaves. Flaming Lips hafa áður spilað á Iceland Airwaves árið 2000, en hátíðin fer fram í 15. sinn þann 5. til 9. nóvember næstkomandi.


Metronomy sendir ástarbréf

Metronomy sendi í dag frá sér lagið Love Letters. Í því rær hann á mið 7. og 8. áratugarins í lagi sem er í senn bítla- og bowie-legt. Það eru skoppandi píanóhljómar sem drífa það áfram og viðlagið er eins og eitthvað úr hippasöngleiknum Hárinu. Metronomy fékkst aðallega við raftónlist í byrjun ferilsins en á sinni síðustu plötu, The Englis Riviera frá 2010, sneri hann sér hins vegar að skúturokki. Love Letters er önnur smáskífan og titillagið af væntanlegri breiðskífu Metronomy sem kemur út 10. mars næstkomandi. Í haust kom út lagið I’m Aquarius og af hljómi laganna, titlum og myndinni á hulstrinu að dæma, virðist platan vera undir sterkum áhrifum frá sumari ástarinnar og hippatímabilinu.

Tónleikahelgin 23.-25. janúar

Fimmtudagur 23. janúar
Tónlistarmaðurinn Skúli Mennski verður með tónleika á hostelinu Hlemmur Square á laugarvegi 105. Aðgangur er ókeypis og spilamennska hefst klukkan 20:00.

 

Raftónlistarforlagið Möller Records stendur fyrir sínum mánaðarlega Heiladans á Bravó, laugavegi 22. Að þessu sinni mun Möller Records fagna nýjustu afurð forlagsins en það er breiðskífan Journey með raftónlistarmanninum Bistro Boy. Einnig koma fram Dj Myth & Lazybones, Árni² og Tranquil. Dagskráin hefst kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis.

 
Tónlistarmennirnir Indriði Arnar Ingólfsson og Tumi Árnason frumflytja nýtt efni í Mengi. Á þessum tónleikum munu þeir þræða og halda uppá tónlistarsamstarf og vinskap sinn, spila gömul lög og semja ný. Indriði Arnar Ingólfsson hefur meðal annars starfað sem gítarleikari hljómsveitarinnar Muck og með tónlistarmanninum Úlfi Hanssyni. Tumi Árnason er saxófónleikari sem hefur meðal annars starfað með hljómsveitunum Grísalappalísu, Ojba Rasta og The Heavy Experience, og hefur unnið með tónlistarmönnunum Úlfi Hanssyni og Tonik. Aðgangseyrir er 2000 krónur og leikar hefjast klukkan 21:00.

 
Fjöllistahópurinn Tónleikur stendur fyrir hljómleikum á Loft Hostel. Að þessu sinni stíga á stokk FrankRaven, Tré, Tinna Katrín og Ósk & Brynja. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangur er ókeypis.

 
Það verða heljarinnar Metal tónleikar á Dillon. Fram koma Darknote, Trust the Lies og Conflictions. Málmveislan hefst 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 
Föstudagur 24. janúar

 
Kira Kira er komin heim eftir 5 ára leiðangur og í tilefni heimkomunnar efnir hún til tónleika í Mengi við Óðinsgötu 2. Hennar þriðja breiðskífa, Feathermagnetik, kom nýverið út hjá Morr Music. Raftónlist samofin lifandi hljóðfæraleik með áherslu á brass, kontrabassahljóðfæri, heimatilbúið slagverk, óstýriláta analog hljóðgerfla og söng hvílir í hjarta plötunnar og þess sem Kira Kira fæst við þessa stundina. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 
Ómkvörnin, tónlistarhátíð tónsmíðanema, verður sett í Hörpu. Þar verða frumflutt tónverk tónsmíðanema við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem glæný og töfrandi tónlist verður til vitnis um hina fjölbreyttu flóru ungra íslenskra tónskálda. Tónleikarnir verða í Kaldalónssal Hörpu og hefjast klukkan 20:00 en aðgangur er ókeypis.

 
Laugardagur 25. janúar
Tinna Þorsteinsdóttir kemur fram á tónleikum í Mengi. Tinna er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni á Íslandi og hefur frumflutt um 50 verk í ýmsum birtingarformum. Á þessum tónleikum munu heyrast fjölbreytt verk fyrir dótapíanó, m.a. eftir John Cage, Pál Ivan Pálsson, Þráin Hjálmarsson og P.D.Q. Bach. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

Fyrsta lagið af þriðju plötu Mac DeMarco

Þeir sem sóttu tónleika Mac DeMarco á Airwaves hátíðinni í fyrra tóku eflaust eftir því að hann er frekar fyndinn gaur. Það sást og heyrðist meðal annars í ábreiðum hans og hljómsveitarinnar af lögum eins og „Break Stuff“, “Enter Sandman“ og „Blackbird“ þar sem flutningur laganna var nokkuð skondin snilld.
Til að tilkynna væntanlega plötu sína nú á dögunum gaf DeMarco út nýtt lag sem mun ekki verða á plötunni og kallast “Gimme Pussy / A little bit of Pussy“. Þar fylgdu skilaboðin að platan væri ekki væntanleg fyrr en árið 2019 en blessunarlega mun henni þó  leka talsvert fyrr og mun hún líta dagsins ljós 1. Apríl þessa árs. Titillinn er Salad Days og fyrsta smáskífan hefur verið gefin út og kallast „Passing Out Pieces“. Einnig hefur DeMarco gefið út promo myndband fyrir plötuna sem er að finna hér að neðan ásamt báðum lögnum.

Lag og myndband frá Damon Albarn

Damon Albarn frumsýndi á netinu rétt í þessu myndband við titillag væntanlegrar sólóskífu sinnar, Everyday Robots. Platan kemur út þann 28. apríl og meðal gesta á henni verða Brian Eno og Natasha Khan úr Bat for Lashes. Lagið er lágstemmt og angurvært með hikandi raftakti, blúsuðu píanói og ómstríðum fiðluhljóðbút. Myndbandið er allsérstætt en í því er sneiðmyndaskönnun og tölvuteikningum beitt til að endurskapa höfuðlag Damons sjálfs á gallsúran hátt. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Nýtt lag með Beck

Hinn fjölhæfi tónlistarmaður Beck Hansen gaf út lagið Blue Moon í dag, en það er hið fyrsta til að heyrast af væntanlegri breiðskífu, Morning Phase, sem kemur út síðar á árinu. Lagið er ljúfsár ballaða sem minnir nokkuð á plötu Beck frá 2002, Sea Change. Heil sex ár eru liðin frá síðustu hljóðversplötu Beck, Modern Guilt, sem hann vann í samstarfi við upptökustjórann Dangermouse árið 2008. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 16. – 18. janúar

Fimmtudagur 16. janúar

Snorri Helgason kemur einn fram í menningarhúsinu Mengi að Óðinsgötu 2 vopnaður alls kyns gíturum og banjó & mun spila gamla þjóðlaga- & sálartónlist eftir aðra ásamt nóg af nýrri, frumsaminni tónlist. Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

Good Moon Deer spila á tónleikum á Harlem ásamt dj flugvél og geimskip og Just Another Snake Cult. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar 1000 kr inn.

Metalböndin Aeterna, Narthrall og Wistaria koma fram á Gamla Gauknum. Frítt inn.

 

Föstudagur 17. janúar

Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta heldur útgáfutónleika á nýrri plötu sinni, Línur í menningarhúsinu Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

Skúli mennski blæs til sóknar 2014 og heldur sína fyrstu tónleika á árinu á Café Rosenberg. Tónleikarnir hefjast því sem næst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

Á Gamla Gauknum munu Cell7, Amaba Dama, Les Ballet Barkan, Rvk Soundsystem, Kött Grá Pje og Ribbaldarnir sjóða saman heljarinnar tónlistarveislu til að fagna nýju ári. Húsið opnar kl.21 og tónleikarnir hefjast kl.22. Aðgangseyrir er 1000 kr

 

 

Laugardagur 18. Januar

dj. flugvél og geimskip kemur fram í Mengi.  Aðgangseyrir er 2000 krónur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00.

 

Kurt Vile og Swans á ATP

Sex erlendum hljómsveitum hefur nú verið bætt við dagskrá All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar sem fer fram á Ásbrú 10.-12. júlí næstkomandi: Kurt Vile & The Violators, Swans, Fuck Buttons, The Haxan Cloak, Forest Swords og Eaux. Kurt Vile var áður í hljómsveitinn War on Drugs en síðasta sólóskífa hans, Walking on a Pretty Daze, hefur hlotið afbragðsdóma gagnrýnanda og var fimmta besta plata ársins að mati straum.is. Hin sögufræga stórsveit Swans átti að koma til Íslands á þarsíðustu Airwaves hátíð en þurfti frá að hverfa vegna fellibylsins Sandy, og þess vegna ánægjulegt að hana reki loksins á strandir landsins.

Kurt Vile & The Violators og Swans verða á meðal þeirra sem koma fram fimmtudaginn 10. júlí. Fuck Buttons og The Haxan Cloak koma fram föstudaginn 11. júlí ásamt Portishead sem tilkynnt var að kæmi fram á hátíðinni í síðustu viku. Forest Swords og Eaux munu spila á lokadegi hátíðarinnar laugardaginn 12. júlí ásamt Interpol sem einnig var tilkynnt í síðustu viku.

Áður var einnig búið að tilkynna hljómsveitirnar Mammút, For a Minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar á hátíðina. Fleiri hljómsveitir sem fram koma á hátíðinni verða kynntar á næstu vikum en hægt er að lesa umfjöllun straum.is um síðustu All Tomorrow’s Parties hátíð hér. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.