Tónleikahelgin 23.-25. janúar

Fimmtudagur 23. janúar
Tónlistarmaðurinn Skúli Mennski verður með tónleika á hostelinu Hlemmur Square á laugarvegi 105. Aðgangur er ókeypis og spilamennska hefst klukkan 20:00.

 

Raftónlistarforlagið Möller Records stendur fyrir sínum mánaðarlega Heiladans á Bravó, laugavegi 22. Að þessu sinni mun Möller Records fagna nýjustu afurð forlagsins en það er breiðskífan Journey með raftónlistarmanninum Bistro Boy. Einnig koma fram Dj Myth & Lazybones, Árni² og Tranquil. Dagskráin hefst kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis.

 
Tónlistarmennirnir Indriði Arnar Ingólfsson og Tumi Árnason frumflytja nýtt efni í Mengi. Á þessum tónleikum munu þeir þræða og halda uppá tónlistarsamstarf og vinskap sinn, spila gömul lög og semja ný. Indriði Arnar Ingólfsson hefur meðal annars starfað sem gítarleikari hljómsveitarinnar Muck og með tónlistarmanninum Úlfi Hanssyni. Tumi Árnason er saxófónleikari sem hefur meðal annars starfað með hljómsveitunum Grísalappalísu, Ojba Rasta og The Heavy Experience, og hefur unnið með tónlistarmönnunum Úlfi Hanssyni og Tonik. Aðgangseyrir er 2000 krónur og leikar hefjast klukkan 21:00.

 
Fjöllistahópurinn Tónleikur stendur fyrir hljómleikum á Loft Hostel. Að þessu sinni stíga á stokk FrankRaven, Tré, Tinna Katrín og Ósk & Brynja. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangur er ókeypis.

 
Það verða heljarinnar Metal tónleikar á Dillon. Fram koma Darknote, Trust the Lies og Conflictions. Málmveislan hefst 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 
Föstudagur 24. janúar

 
Kira Kira er komin heim eftir 5 ára leiðangur og í tilefni heimkomunnar efnir hún til tónleika í Mengi við Óðinsgötu 2. Hennar þriðja breiðskífa, Feathermagnetik, kom nýverið út hjá Morr Music. Raftónlist samofin lifandi hljóðfæraleik með áherslu á brass, kontrabassahljóðfæri, heimatilbúið slagverk, óstýriláta analog hljóðgerfla og söng hvílir í hjarta plötunnar og þess sem Kira Kira fæst við þessa stundina. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 
Ómkvörnin, tónlistarhátíð tónsmíðanema, verður sett í Hörpu. Þar verða frumflutt tónverk tónsmíðanema við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem glæný og töfrandi tónlist verður til vitnis um hina fjölbreyttu flóru ungra íslenskra tónskálda. Tónleikarnir verða í Kaldalónssal Hörpu og hefjast klukkan 20:00 en aðgangur er ókeypis.

 
Laugardagur 25. janúar
Tinna Þorsteinsdóttir kemur fram á tónleikum í Mengi. Tinna er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni á Íslandi og hefur frumflutt um 50 verk í ýmsum birtingarformum. Á þessum tónleikum munu heyrast fjölbreytt verk fyrir dótapíanó, m.a. eftir John Cage, Pál Ivan Pálsson, Þráin Hjálmarsson og P.D.Q. Bach. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *