Fréttablaðið skýrði frá því um helgina að viðræður hafi átt sér stað um að halda tónlistarhátíðina All Tomorrow’s Parties í Reykjanesbæ í júní. Hátíðin færi fram á varnarliðssvæðinu en skipulagning hennar hefur staðið yfir frá árinu 2011. Samkvæmt Fréttablaðinu myndu sex til sjö erlend bönd spila á All Tomorrow’s Parties þar á meðal indie sveitin Deerhoof ásamt íslenskum böndum. Hátíðin hér á landi myndi vera frábrugðin ATP erlendis á þann hátt að ekki myndi ein hljómsveit stjórna dagskrá hátíðarinnar.
Dularfull auglýsing frá frönsku róbótunum í Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum. Í auglýsingunni birtist lógó hljómsveitarinnar og að lokum mynd af dúettinum meðan mjúkt diskófönk ómar undir. Nýjustu plötu sveitarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hana unnu þeir meðal annars í samstarfi við Chic-liðann Nile Rodgers og Giorgio Moroder. Enginn útgáfudagur hefur verið settur á plötuna en Nile Rodgers skrifaði á vefsíðu sína fyrir stuttu að hún kæmi út á þessu ári. Hvort að auglýsingin sé fyrirboði plötunnar eða hvort vélmennatvíeykið sé bara að minna á sig veit enginn en áhugasamir geta rýnt í skilaboðin og lesið milli línanna hér að neðan. Heil níu ár eru síðan síðasta hljóðversplata sveitarinnar, Human After All, kom út þannig að aðdáendur eru orðnir nokkuð langeygir eftir framhaldinu.
Af nóg er að taka fyrir tónleikaþyrsta um helgina:
Föstudagur 1. mars:
– Hljómsveitirnar Babies, Boogie Trouble og Nolo leiða saman hesta sína á tónleikastaðnum Faktorý. Öllum þeim sem vilja virkilega dansa sig af stað inn í helgina og óminnishegran er bent á að mæta stundvíslega og greiða aðgangseyri kr. 1000 við hurðina. Þeim sem mæta er lofað rúmum helgarskammti af gleði, dansi og glaumi. Efri hæðin á Fakotrý opnar kl. 22:00 og tónleikar byrja klukkan 23:00.
– Hin mannmarga reggísveit Ojba Rasta mun halda ókeypis tónleika á Hressó en sveitin mun stíga á svið um 23:00.
– Hljómsveitin Oyama heldur einnig ókeypis tónleika á Bar 11. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast 22:30
– Útgáfutónleikar Péturs Ben fara fram í Bæjarbíó Hafnafirði. Miðaverð er 2500 krónur og hefjast tónleikar stundvíslega kl 21.00. Pétur Ben gaf á dögunum út sína aðra sóló plötu God’s lonely man og hefur hún hlotið einróma lof gagnrýnenda auk þess sem hún var hlaut verðlaun Kraums og var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna. Strengjakvartettinn Amiina leikur með þeim á þessum einu tónleikum og hljómsveitin The Heavy Experience leikur á undan en þeir gáfu einmitt út plötuna Slowscope á síðasta ári.
– Skúli Mennski ásamt hljómsveitinni Þungri Byrði mun halda tónleika á Dillon og taka nokkur vel valin lög. Þeir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.
– Fyrsta útgáfan frá nýju plötufyrirtæki, Lady Boy Records, leit nýverið dagsins ljós, en hana er hægt að fá í afar sérstöku formi – sem gamaldags kassettu. Forsprakkar útgáfunnar fagna áfanganum með veglegri tónlistarveislu á Volta, þar sem fram koma margir af fremstu raftónlistarmönnum þjóðarinnar, þar á meðal Futuregrapher, Quadruplos, Bix, Krummi, ThizOne og margir fleiri. 500 kr. inn. Hefst kl. 21.
Laugardagur 2. mars
– Kviksynði #5
Kviksynði kvöldin hafa undanfarin misseri fest sig í sessi sem helstu techno-tónlistar kvöld Reykjavíkur. Fram koma að þessu sinni Captain Fufanu, Bypass, Ewok og Árni Vector. Hefst kl. 23. 500 kr. inn fyrir kl. 1 og 1000 kr. eftir það.
– Hljómsveitin Bloodgroup mun spila á tónleikum á Bar 11 og frumflytja efni af sinni þriðju plötu Tracing Echoes. Húsið opnar klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.
– Bræðrabandið NOISE er nú að leggja lokahönd á upptökur og hljóðblöndun af fjórðu plötu bandsins sem lítur dagsins ljós í sumar og ætla af því tilefni að frumflytja nokkur lög af nýju plötunni á Dillon kl.23:00
Azealia Banks sendi fyrr í kvöld frá sér ábreiðu af laginu Barely Legal sem er að finna á fyrstu plötu hljómsveitarinnar The Strokes – Is This It frá árinu 2001. Banks er ekki óvön því að senda frá sér slíkar ábreiður, hún sendi t.d frá sér lagið Slow Hands eftir hljómsveitina Interpol fyrir nokkrum árum.
Thom Yorke söngvari Radiohead hefur tekið fram dansskóna á nýjan leik fyrir myndband við lagið Ingenue af plötu stjörnubandsins Atoms For Peace en Yorke er þar fremstur meðal jafningja. Síðast mátti sjá Yorke dansa í myndbandinu við lagið Lotus Flower af síðustu plötu Radiohead The King of Limbs frá árinu 2011.
Nýstofnuð plötuútgáfa að nafninu Lady Boy Records mun halda útgáfuhóf í tilefni af útgáfu á safnplötunni Lady Boy Records 001 á Volta á föstudaginn. Að plötuútgáfunni standa þeir Frímann Ísleifur Frímannsson og Nicolas Kunysz og kom safnplatan út á kassettu í takmörkuðu upplagi á dögunum. Húsið opnar klukkan 21 og tónleikarnir hefjast klukkan 22. Þeir listamenn sem koma fram eru:
X.O.C. Gravediggers Inc.(/Apacitated)
Harry Knuckles
Nicolas Kunysz
Futuregrapher
Quadruplos
Rafsteinn
ThizOne
Krummi
Bix
Miðaverð er 500 kr og verður kassettan til sölu um kvöldið á 3000 krónur. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á plötuna.
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 8 listamenn sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Þeir listamenn sem tilkynntir voru eru; Múm, Sin Fang, danska söngkonan MØ, Bloodgroup, Metz frá Kanada, Young Dreams frá Noregi, Oyama og Sumie Nagano frá Svíþjóð.
Goðsögnin David Bowie sendi frá sér annað myndbandið fyrir lag af væntanlegri plötu sinni The Next Day í gærkvöldi. Myndbandið er við lagið The Stars (Are Out Tonight) og leikur Bowie í því sjálfur ásamt leikkonunni Tilda Swinton.
Bowie hefur látið lítið fara fyrir sér undanfarin ár en þetta verður fyrsta breiðskífa hans frá því Reality kom út árið 2003. Upptökum á plötunni stjórnaði Tony Visconti sem hefur áður unnið með Bowie, meðal annars á plötunum Young Americans, Low og Heroes. Hægt er að horfa á myndbandið við lagið, The Stars (Are Out Tonight), hér fyrir neðan en söguþráður þess er sá að venjulegt par (leikið af Bowie og Swinton) er elt uppi af öðru pari öllu frægara.
Fyrsta smáskífan af fjórðu plötu New York sveitarinnar Yeah Yeah Yeahs var frumflutt fyrr í dag. Lagið heitir Sacrilege, inniheldur gospelkór og verður að finna á plötunni Mosquito sem kemur út 16. apríl næstkomandi á vegum Interscope. David Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio stjórnaði upptökum með hjálp frá Nick Launay.
Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.
Táldregin tilraunadýr
James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.
Lyftingar og LED-hjálmar
Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.
Reif í heilann
Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.
Mugison á Mirstrument
Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.
Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.