New York hljómsveitin The Strokes sendi í kvöld frá sér fyrstu smáskífuna af fimmtu plötu sveitarinnar Comedown Machine sem kemur út 26. mars. Lagið heitir All The Time og þykir hljómur þess minna á hljóm upphafsára hljómsveitarinnar sem gáfu út sína fyrstu plötu Is This It árið 2001. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.
Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti
Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.
Squarepusher
Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.
Sísí Ey
Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.
Modeselektor
Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.
LFO
LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.
Alva Noto og Ryuichi Sakamoto
Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.
Beck endurtúlkar Sound And Vision
Í tilefni af því að 26 ár eru síðan smellurinn Sound and Vision með David Bowie kom út hefur hinn vísindakirkjurækni Beck í samstarfi við hljómsveit á stærð við her smáríkis tekið upp sína eigin túlkun af laginu. Hún er níu mínútna löng og á köflum hádramatísk og gæsahúðarvaldandi. Herlegheitin voru svo tekin upp með nýrri 360º myndbandstækni og hægt á að vera að upplifa flutninginn úr hvaða sæti sem er í salnum með því að velja mismunandi sjónarhorn á síðunni helloagain á næstu dögum. Þangað til það verður geta lesendur horft á hefðbundna upptöku hér fyrir neðan sem er þó ein og sér alveg stórbrotin upplifun.
Kurt Vile með nýja plötu
Kurt Vile mun gefa út plötuna Walkin On A Pretty Daze þann 9. apríl. Platan sem er 69 mínútur að lengd var tekin upp af upptökustjóranum John Agnello í hinum ýmsu upptökuverum í Bandaríkjunum seinni hluta síðasta árs. Síðasta plata Vile Smoke Ring For My Halo var plata ársins hér í Straumi árið 2011. Hlustið á opnunarlagið af plötunni hér fyrir neðan.
Opnunartónleikar Volta í kvöld
Tónleikastöðum í Reykjavík hefur farið fækkandi undanfarið, það var sorglegt að sjá á eftir Nasa og nú styttist í að Faktorý verði rifinn vegna uppbyggingar á reit Hjartagarðarins. Þess vegna fagna því allir góðir menn þegar nýir tónleikastaðir opna og Straumur er þar ekki undanskilinn. Í kvöld opnar skemmti- og tónleikastaðurinn Volta á Tryggvagötu 22 með stórtónleikum þar sem fram koma Hjaltalín, Bloodgroup, Ojba Rasta og Sóley.
Þetta er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur en Hjaltalín hafa hlotið mikið lof fyrir sína nýjustu plötu, Enter 4, sem meðal annars var valin plata ársins af tímaritinu Grapevine. Stórdöbbsveitin Ojba Rasta hefur einnig hlotið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu plötu sem kom út á árinu og Bloodgroup gáfu út sína þriðju plötu Tracing Echoes fyrir örfáum dögum en hennar hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Þá hefur Sóley verið að sigra heiminn á liðnu ári með undurfögrum söng sínum.
Miklu hefur verið tjaldað til með staðinn sem er á tveimur hæðum með fatahengi, kokteilbar og setustofu á neðri hæð en bar, dansgólfi, reykherbergi og sviði með heimsklassa hljóðkerfi og hágæða ljósabúnaði á þeirri efri. Straumur hvetur alla þá sem geta haldið á hanska að láta sjá sig og styðja við þessa nýjustu viðbót í tónleikaflóru borgarinnar.
Nýtt lag með James Blake
Enski rafsálartónlistarmaðurinn James Blake sem er á leiðinni til Íslands á Sonar hátíðina eftir viku frumflutti nýtt lag í útvarpsþætti á BBC í dag. Lagið heitir Retrograde og sver sig í ætt við hans bestu lög eins og Wilhelm Scream og Limit to Your Love. Ægifögur röddin er í forgrunni en þegar líða tekur á lagið taka sírenuhljómandi hljóðgervlar að óma og undirstrika sálarfullan sönginn. Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu, Overgrown, sem kemur út 8. apríl. James Blake mun bæði halda tónleika og þeyta skífum á Sonar hátíðinni næstu helgi en tilkynnt var í gær að bætt hafi verið við fleiri miðum á hátíðina vegna mikillar eftirspurnar. Hlustið á lagið hér fyrir neðan sem hefst eftir einnar mínútu viðtal og lesendum er ráðlagt að hækka í botn þar sem hljóðstyrkurinn á upptökunni er í lægri kantinum.
Bird by Snow hefur Evróputúr á Faktorý
Bandaríski folk-tónlistarmaðurinn Bird by Snow mun hefja tónleikaferðalag sitt um Evrópu með því að troða upp á Faktorý næsta laugardagskvöld. Hann spilar lágstemmda þjóðlagatónlist og hefur verið líkt við listamenn á borð við Mount Eerie og Karl Blau. Á tónleikunum koma einnig fram kammerpoppsveitin Útidúr sem hyggjast gefa út EP plötu í vor, lo-fi skrýtipopp sveitin Just Another Snake Cult og spunakenndi rafdúettinn Good Moon Deer. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.
Söngvari The Troggs látinn
Reg Presley söngvari bresku hljómsveitarinnar The Troggs lést í gærkvöldi 71 árs að aldri eftir baráttu við lungnakrabbamein. Presley gerði garðinn frægan ásamt hljómsveit sinni á 7. áratugnum með lögum á borð við Wild Thing, With a Girl Like You og Love Is All Around. The Troggs hafa haft gríðarleg áhrif á hina ýmsu bílskúrsrokk tónlistarmenn og hljómsveitir í gegnum tíðina og hægt er nefna MC5, Iggy Pop og Buzzcocks í því samhengi. Presley var helst þekktur í seinni tíð fyrir skrif sín um geimverur en árið 2002 gaf hann út bókina Wild Things They Don’t Tell Us. Allar tekjur sem hann fékk fyrir ábreiðu Wet Wet Wet á lagi hans Love Is All Around sem var notað í kvikmyndinni Four Weddings and A funeral gaf hann til rannsókna á hinum dularfullu„cropcircles“ eða akurhringjum. Fyrir neðan má sjá The Troggs flytja lagið With a Girl Like You og einnig heyra ábreiðu Dave Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio af laginu.
Straumur 4. febrúar 2013
Í Straumi í kvöld skoðum við fyrstu plötu My Bloody Valentine í 22 ár, kíkjum á væntanlega plötu frá Adam Green & Binki Shapiro og heyrum nýtt efni frá Iceage, Surfer Blood, Wavves og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!
1. hluti:
2. hluti:
3. hluti:
1) New you – My Bloody Valentine
2) Only Tomorrow – My Bloody Valentine
3) If I Am – My Bloody Valentine
4) Weird Shapes – Surfer Blood
5) Roundkick – The Embassy
6) International – The Embassy
7) Here I Am – Adam Green & Binki Shapiro
8) I Never Found Out – Adam Green & Binki Shapiro
9) Pity Love – Adam Green & Binki Shapiro
10) Timeaway – Darkstar
11) You Don’t Need A Weatherman – Darkstar
12) Demon To Lean On – Wavves
13) In Haze – Iceage
14) Morals – Iceage
15) Wounded Hearts – Iceage
16) Who Sees You – My Bloody Valentine
Þriðja plata My Bloody Valentine komin út
Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine gaf út sína þriðju plötu, þá fyrstu frá því að platan Loveless kom út árið 1991, í gærkvöldi. Platan heitir mbv, er níu laga og er vel biðarinnar virði. Söngvari sveitarinnar Kevin Shields skýrði frá því á síðasta ári að hann hefði hafið gerð plötunnar á tíunda áratugnum og sögusagnir segja að hann hafi hent gríðarlega miklu efni við gerð hennar. Hægt er að nálgast plötuna á heimasíðu hljómsveitarinnar. Hlustið á lögin Who Sees You, Only tomorrow og New You hér fyrir neðan