Airwaves yfirheyrslan – Axel í Rökkurró

Axel sem leikur á gítar með Rökkurró sat fyrir svörum í yfirheyrslu dagsins. Rökkurró snéru nýlega aftur eftir um tveggja ára pásu með nýtt lag í farteskinu, Killing Time, og mæta fersk til leiks á Airwaves í ár.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?
Ef mig misminnir ekki þá var fyrsta hátíðin sem ég fór á sem gestur árið 2005 og ég man rosalega vel eftir tónleikum Skáta í Hafnarhúsinu. Þvílík stemmning og þvílíkt band! Þeirra er og verður ávallt sárt saknað.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?
Ég spilaði fyrst 2008 eða 2009 eftir að ég gekk til liðs við Rökkurró. Man ekki hvort það var. Við spiluðum á Listasafninu og það var frekar geggjað.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður mín fimmta hátíð sem listamaður.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?
Hún er alltaf að stækka og verða betri. Aðbúnaður og skipulag er nánast óaðfinnanlegt og slíkt er ekki gefins á svona hátíðum. Verst finnst mér að hátíðin sem og íslensk tónlistarmenning í heild sinni er aðeins farin að finna fyrir þessari absúru hótelbyggingaráráttu.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Á Íslandi er það Iðnó. Draumasalur. Ótrúlega gamalt og fallegt andrúmsloft þar inni. Góð aðstaða fyrir tónlistarmenn sem og gesti og stórt svið sem rúmar fjölmennar og ofvirkar hljómsveitir og það er líka nógu hátt til að þú sjáir uppá það sama hvar þú stendur. Rjómasound líka.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?
Sjitt ég veit það ekki. Ég er löngu hættur að reyna að skipuleggja mig eitthvað fyrir þessa hátíð því ég enda alltaf á því að missa af öllu sem ég planaði. Ég fylgi yfirleitt bara einhverju fæði og ramba inná eitthvað stöff með góðu fólki. Maður á ekki að svekkja sig á því sem maður missir af, miklu betra að njóta þess sem maður sér. Kannski ætti ég samt að segja !!! árið sem þeir, Bloc Party og Chromeo voru á sama tíma. Fór á BP í Flensborgarskólanum kvöldið áður og endaði síðan á Chromeo en eftirá að hyggja hefði ég kannski átt að safna grýlukertum á undirvagninn á mér í röð fyrir utan !!! til að ná nokkrum lögum.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Ekki hafa áhyggjur af slottinu þínu. Airwaves er frekar ólíkt almennri íslenskri tónleikamenningu þar sem allir mæta á svæðið nokkrum klukkutímum of seint eftir stífa for-bjórun í heimahúsi sökum óbærilegs áfengisverðs og almenns slugsagangs. Bransafólk er óútreiknanlegt og mikilvægast er að vera glaður og hress því það skilar sér alltaf í frammistöðuna. Það skiptir ekki öllu að þú sért að spila á erfiðu slotti fyrir framan hálftóman sal. Það kemur Airwaves á eftir þessu Airwaves-i og bjór er góður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Omar Souleyman og Fucked Up eru þeir erlendu listamenn sem ég er spenntastur fyrir. Verst að þetta er á sama tíma. Ég hugsa að Souleyman verði fyrir valinu hjá mér enda ekki á hverjum degi sem manni gefst færi á að sjá Sýrlenskt skemmtaragúru leika slagara á borð við “Saddam Habibi”. Ég alla veganna hoppaði hæð mína af gleði þegar ég sá að við vorum færð í dagskránni og það varð raunhæfur möguleiki fyrir mig að komast á Omar. Af íslenska dótinu er ég einna spenntastur fyrir Grísalappalísu, ég hef heavy gaman af plötunni þeirra. Oyama líka. Djöfull eru þau öll sæt og klár. Einnig er ég spenntur fyrir nýju stöffi frá bæði Agent Fresco og For a Minor Reflection og svo má enginn missa af Samaris og Ojbarasta.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?
Þetta er lífæð íslensku tónlistarsenunnar. Þetta er skemmtilegasta vika ársins og í raun og veru stærsta og besta tækifæri íslenskra tónlistarmanna að leika fyrir fersk eyru og einnig er frábært og alls ekkert sjálfgefið fyrir hinn almenna tónlistaráhugamann að fá það ferskasta og mest spennandi að utan hingað heim.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?
Í ár spila ég fimm sinnum en einu sinni þá spiluðum við held ég 7 sinnum. Það er alltof mikið. Mig minnir að einhver hafi sagt mér að stórsveitin Reykjavík! hafi afrekað það að spila 15 sinnum árið 2008. Djöfull er það klikkað. Djöfull eru þeir klikkaðir. Kannski er þetta samt allt helber lygi…

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?
Kraftwerk.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði ágætis staðir til síns brúks.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Ég er bara að spila með hljómsveitinni Rökkurró og dagskráin okkar er sem stendur:

Miðvikudagurinn 30. Okt:
17.30 12 Tónar (off venue)
20:00 Kaffibarinn (off venue)

Föstudagurinn 1. Nóv:
18:00 Loft Hostel (off venue)
22:30 *ON VENUE SHOW* Harpa Reykjavik Concert and Conference Centre -KALDALÓN

Laugardagurinn 2. Nóv:
18:30 Kex Hostel – KEXP Showcase (off venue)

Ef þetta hentar þér illa geturðu svosum bara fylgst með mér úr fjarska á meðan ég baða mig eða eitthvað…

Airwaves viðtal: Zola Jesus

Bandaríska söngkonan Nika Roza Danilova sem er best þekkt undir listamannsnafninu Zola Jesus er aðeins 24 ára gömul en hefur samt sem áður sent frá sér heilmikið af gæða efni frá því hún hóf sinn feril. Nika kemur fram í Gamla Bíó á Iceland Airwaves hátíðinni klukkan 1:00 næsta laugardag. Við tókum hana í stutt spjall á dögunum.

 

 

 

 

Nýtt lag frá Good Moon Deer

Rafdúettinn Good Moon Dear sem er skipaður þeim Guðmundi Inga Úlfarssyni og Ívari Pétri Kjartansyni sendi frá sér nýtt lag í dag sem ber heitir Again. Lagið er marglaga samsuða úr brotnum töktum, klipptum hljóðbútum og angurværum melódíum; í senn flókið og kaflaskipt, en þó einfalt og aðgengilegt áhlustunar. Hægt er að hlusta á lagið hér fyrir neðan eða njóta þess á þar til gerðri heimasíðu sem myndskreytir lagið.

Airwaves yfirheyrslan – Sindri Eldon

Sindri Eldon hefur reynslu af Iceland Airwaves bæði sem blaðamaður fyrir Reykjavík Grapevine og sem tónlistarmaður með hljómsveitunum Dáðadrengjum, Dynamo Fog og Sindra Eldon & The Ways. Við spjölluðum við Sindra um hátíðina.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Að spila með Dáðadrengjum á Airwaves 2003. Ég svona semi vissi hvaða hátíð þetta var fyrir það, en vissi ekkert að þetta væri eitthvað mikið mál. Ég var sautján ára og nýbyrjaður að drekka (ég blómstraði seint), og svo allt í einu var ég á NASA að opna fyrir Quarashi fyrir framan fullan sal af útlendingum. Það var ýkt kúl, eins og maður sagði gjarnan 2003.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Uuu, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og svo núna 2013, með ýmsum hljómsveitum, þannig að þær verða tíu allt í allt.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ekkert stendur upp úr í fljótu bragði.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Sindri Eldon & the Ways í fyrra. Við vorum með svo geðveikt slot, maður! Hálftvö á laugardagsnótt, Amsterdam smekkfullt af blindfullu fólki í góðum fílíng, við í geðveiku formi, tókum klukkutímasett eins og einhvers konar goð meðal manna. Nei djók. Eða þú veist samt ekki djók, við vorum ógeðslega góðir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin? 

Veitekki… hún var fyrst bara einhver svona vonlaus íslendinga-ófagmennska þar sem við vorum reddandi öllu með því að plögga dóti með lánum og loforðum. Svo varð þetta að einhverju svona kúl thing, þökk sé Sjálfstæðisflokknum og Dóra Ásgríms. Matadorpeningarnir flæddu óheflaðir um æðar efnahagsins, og stóru nöfnin byrjuðu að mæta. Síðan pompaði náttúrulega botninn undan öllu því hérna um árið, og hátíðin var mjög lágstemmd í nokkur ár, bara íslensk númer og einhverjir desperate útlendingar. Síðan þá er Airwaves búin að skríða aftur inn í ágætis sess, sem eitthvað svona fyrir-hruns-revival-fyrirbæri, aðallega þökk sé kvikmyndaiðnaðnum, og stóru nöfnin byrjuð að mæta aftur. The sky’s the limit!

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Finnst þeir allir alveg ýkt lélegir á heimsmælikvarða. Allir bestu staðirnir eru off-venue. Fuck the system!

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Úff, ég veit ekki… það eru alltaf einhverjir typpatrúðar ráfandi um röflandi um hvað Ghostigital eða Bloodgroup eða Reykjavík! eða einhverjir hafi verið svo geðveikir, maður er löngu hættur að taka mark á þessu.

 

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Hvort sem þú talar ensku eða íslensku við salinn, ekki útskýra af hverju þú ert að tala íslensku/ensku. Öllum er sama, fíflið þitt. Ekki biðja fólk um að koma nær sviðinu, ekki láta fólk klappa í takt, ekki segja okkur um hvað lögin eru, ekki reyna að vera fyndinn, ekki reyna að púlla íslenskan aulahúmor á útlendingana, ekki tala um hversu fullur/þunnur þú ert… bara ekki fokking vera óþolandi fáviti talandi um ömurlegt kjaftæði. Mér er alveg sama hversu lengi ég beið í röð eftir að sjá bandið þitt, ef ég heyri þig segja sögu af því hvernig lagið þitt var samið meðan bassaleikarinn var með flensu eða eitthvað svoleiðis, ég fokking grýti þig með glerflösku. Haltu fokking kjafti.

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Neinei, finnst bara best að ráfa milli venuea að sjá hvað fólk hefur upp á að bjóða.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hún er mjög gott showcase fyrir það besta sem íslensk tónlist hefur upp á að bjóða. Öll böndin gera sitt besta til að vera kúl fyrir útlendingana, og það er bara rokk.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Engin.

 

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

U, ég held við höfum verið með tíu gigg allt í allt 2011, og við þurftum að afbóka eitt þeirra. Síðan þá höfum við farið aðeins varlegara í að bóka off-venue gig.

 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Ekki gott að segja… þær hafa verið mjög hressar margar hverjar.

 

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo. Ég hef séð Kraftwerk tvisvar, og þetta er bara ljósashow með góðri tónlist. Ég veit ekki hversu lífleg YLT eru, en þau hljóta að vera meiri spennandi að horfa á en Kraftwerk.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Fokking hvorugt. Sportbarinn í Ármúla.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Sindri Eldon & the Ways! www.facebook.com/events/1392415404323527

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Rokk í smettið!

Airwaves viðtal: Goat

Hin tilraunakennda, fjölbreytta og dularfulla hljómsveit Goat kemur að eigin sögn frá litlum bæ frá norður Svíþjóð að nafninu Korpilombolo. Ekkert er vitað um meðlimi hljómsveitarinnar nema að samkvæmt þeim sjálfum eru þau aðeins lítill hluti stærri hóps fólks sem kallar sig einnig Goat og telur yfir 200 manns. Þau hafa öll búið í bænum þar sem fólk hefur stundað voodoo galdra í margar aldir auk tónlistar. Við fengum símanúmer hjá ónefndum meðlim bandsins í gegnum krókaleiðir sem sagðist spila á trommur. Hann vildi ekki geta nafns þegar við slógum á þráðinn.

Viðtal við ónefndan meðlim Goat:

 

Let It Bleed

Goadhead

Tónleikar með hljómsveitinni frá því í sumar

Airwaves Straumur 28. október 2013

Í Straumi í kvöld munum við halda áfram að fara yfir það helsta á Iceland Airwaves í ár. Kíkjum á nokkra af þeim erlendu listamönnum sem koma fram á hátíðinni auk þess sem við spilum viðtöl sem við áttum við Jon Hopkins, Mac Demarco, Zola Jesus og Goat! Airwaves Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Airwaves Straumur 28. október 2013 by Straumur on Mixcloud

1) Center Of Gravity – Yo La Tengo
2) Baby’s Wearing Blue Jeans – Mac DeMarco
3) Young Blood – Mac DeMarco
– Viðtal við – Mac DeMarco
4) Freaking Out The Neighborhood – Mac DeMarco
5) Corvette Cassette – Slow Magic
6) Goathead – Goat
– Viðtal við Goat
7) Let It Bleed – Goat
8) Misses – Girls In Hawaii
9) We Disappear – Jon Hopkins
– Viðtal við Jon Hopkins
10) Open Eye Signal – Jon Hopkins
11) Lunar Phobia – No Joy
12) In Your Nature – Zola Jesus
– Viðtal við – Zola Jesus
13) Avalanche (slow) – Zola Jesus
14) Sugarcube – Yo La Tengo

Airwaves yfirheyrslan – Tonik

Í yfirheyrslu dagsins þjörmuðum við að Antoni Kaldal Ágústsyni sem framleiðir græjumúsík undir listamannsnafninu Tonik. Hann var auðveldur viðureignar og sagði okkur allt sem hann veit um Airwaves hátíðina í svo mörgum orðum.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Það var árið 2003. Trabant á Nasa og svo var Mugison með eftirminnilega frammistöðu á Pravda.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

Sama ár á Grandrokk (síðar Faktory/iðnaðarsvæði/eitthvað random hótel). Lék með tölvuprojektinu Tonik, Jón Þór úr Lada Sport/Love & Fog spilaði á gítar. Spiluðum á undan Sk/um, sem var samstarfsverkefni Jóhanns Ómarssonar (Skurken) og Þorsteins Ólafssonar (Prince Valium).

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Níu hátíðum.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?
Útitónleikarnir með Elektro Guzzi í fyrra voru frekar eftirminnilegir. Einnig gæti ég talið til Dirty Projectors og Moderat.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Erfitt val. Þegar kemur að Tonik, þá hafa síðustu ár farið í markvissar tilraunir og þróun með lifandi flutning og því margt sem kemur upp í hugann. Þessi þróun er enn í gangi, en tónleikarnir í fyrra eru þó eftirminnilegir. Þar varð til eitthvað á sviði sem við erum að skrásetja og koma á plötu.

Tonik – Snapshot One (Live at Iceland Airwaves Festival 2012) from Tonik on Vimeo.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mest megnis hafa breytingar verið af jákvæðum toga og eiga skipuleggjendurnir mikið lof
skilið. Ég upplifi hátíðina markvissari en áður. Augljós breyting er að ferðamenn eru í meiri hluta. Það mun koma betur í ljós í ár hvernig dagsetningarnar kring um mánaðamótin október nóvember séu að virka.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Satt best að segja á ég mér ekki uppáhalds tónleikastað.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Sumarið eftir að Klaxons spilaði, þá sá ég svolítið eftir að hafa ekki séð þá.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Njóta.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Úr erlendu deildinni væru það Sun Glitters, Anna Von Hausswolff og Jon Hopkins. Ég sá Gold Panda árið 2010 og get mælt með honum. Úr íslensku deildinni mun ég reyna að sjá Úlf Eldjárn, Emiliönu Torrini og Samúel Jón Samúelsson Big Band.

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Heilmikla.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig?

Allskonar. Það eru ýmis tækifæri sem hægt er að rekja beint til Iceland Airwaves.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Jon Hopkins?

 

Listasafnið eða Harpa?

Harlem?

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?
Það mun vera Tonik. http://facebook.com/tonikmusic

Tonik – Snapshot Two (feat. Jóhann Kristinsson) from Tonik on Vimeo.