Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: siggi

Ég hóf leikinn á föstudeginum með því að sjá eins manns sveitina M-Band á Skuggabarnum við Hótel Borg. Ég hafði þó séð hann áður á hátíðinni því þessi fjölhæfi tónlistarmaður kom einnig fram með Nolo og Tonik. Hann leikur framsækið rafpopp og kemur fram með risastórt hlaðborð af alls konar tækjum og tólum og gaman að segja frá því að engin tölva var þar á meðal. Mér finnst eins og það sé langt síðan ég sá síðast performans hjá raftónlistarmanni þar sem engin Apple tölva er í augsýn. Hann var líflegur á sviðinu þar sem hann djöflaðist í græjum og söng og settið var skemmtilegt en þó stutt, og það hefði verið gaman að sjá fleiri í salnum.

 

Ferðinni var svo haldið í Hörpu þar sem ég hafði heyrt góða hluti um norsku sveitina Electric Eye. Þeir léku sýrulegna sækadelíu, mestmegnis án söngs, og náðu góðu flugi í löngum spunaköflum og framsæknum hljóðpælingum. Ég sótti síðan tónleika múm í Fríkirkjunni en þar náði röðin heilan hring í kringum bygginguna. Mikilfengleg kirkjan rammaði inn frábæra frammistöðu og lágstemmt rafpoppið töfraði safnaðarmeðlimi upp úr spariskónum.

 

Hugvíkkandi Hljóðsúpa

 

Úr Fríkirkjunni hjólaði ég beinustu leið yfir í Hörpu þar sem John Grant kom fram ásamt hljómsveit sinni. Ég hafði verið i mikilli varnarstöðu gagnvart honum sem tónlistarmanni vegna þrálátrar mótþróaröskunar og yfirgengilegrar ástar alls landsins á þessum mesta íslandsvini síðari tíma. En hann náði að vinna mig á sitt band með frábærum tónleikum í sumar og hann sveik engan í Silfurbergi þetta kvöld. Hljómsveitin er þrusuþétt og hann er einstaklega karismatískur frontmaður. Nýja efnið hans er þó er sérstöku uppáhaldi hjá mér, enda pródúserað af Bigga Veiru úr Gus Gus og hljómurinn minnir um margt á þá frábæru sveit.

 

Eftir það hélt ég yfir í Norðurljósasalinn þar sem sænska sækadelik-hljómsveitin Goat kom fram. Þau voru eitt af þeim böndum sem ég var hvað spenntastur fyrir og stóðu undir öllum mínum væntingum. Þau blanda alls kyns afrískum áhrifum og rokki í hugvíkkandi hljóðsúpu og koma fram með grímur í einhvers konar töfralæknabúningum. Söngkonurnar tvær frömdu magnaðan galdur og dönsuðu um allt sviðið auk þess sem lyfjuðu myndbandi var varpað á vegginn fyrir aftan þau. Þetta minnti helst á einhvers konar trúarathöfn hjá frumstæðum ættbálki og var feikilega fínt heppnað.

 

Besti söngvarinn á ballinu

 

Eftir frábæra tónleika Goat kom síðan annar hápunktur strax á eftir í formi kanadíska söngvarans Sean Nicholas Savage. Hann kom fram ásamt einum hljómborðsleikara og spilaði lo-fi popp í anda 9. áratugarins, mörg lögin voru í grunninn hálfgerðar “prom” ballöður. Hann er hreint út sagt frábær söngvari og nánast reif út eigið hjarta og matreiddi fyrir áhorfendur, svo tilfinningaþrunginn var flutningurinn.

 

Eftir þessa tvo framúrskarandi tónleika náði ég í skottið á harðkjarnabandinu Fucked Up sem voru afskaplega líflegir á sviði en aðallega utan þess. Söngvari sveitarinnar var greinilega með mjög langa míkrafónsnúru því hann hljóp salinn á enda og dansaði við áhorfendur og krádsörfaði af miklum móð. Tónlistin þeirra er ekki alveg mín ella en spilagleðin og krafturinn voru smitandi. Til að loka kvöldinu sótti ég svo tónleika Sykurs í þjóðleikhúskjallaranum sem settu allt í botn og keyrðu á trylltum dansi inn í nóttina.

 

Þriðja kvöldið á Airwaves var það besta hingað til og Goat og Sean Nicholas Savage eru toppar hátíðarinnar hjá undirrituðum. Umfjöllun straums um fyrstu tvö kvöldin má lesa hér og hér.

Davíð Roach Gunnarsson

Airwaves viðtal: Goat

Hin tilraunakennda, fjölbreytta og dularfulla hljómsveit Goat kemur að eigin sögn frá litlum bæ frá norður Svíþjóð að nafninu Korpilombolo. Ekkert er vitað um meðlimi hljómsveitarinnar nema að samkvæmt þeim sjálfum eru þau aðeins lítill hluti stærri hóps fólks sem kallar sig einnig Goat og telur yfir 200 manns. Þau hafa öll búið í bænum þar sem fólk hefur stundað voodoo galdra í margar aldir auk tónlistar. Við fengum símanúmer hjá ónefndum meðlim bandsins í gegnum krókaleiðir sem sagðist spila á trommur. Hann vildi ekki geta nafns þegar við slógum á þráðinn.

Viðtal við ónefndan meðlim Goat:

 

Let It Bleed

Goadhead

Tónleikar með hljómsveitinni frá því í sumar

Fyrstu listamennirnir tilkynntir á Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 12 listamenn sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru eru; Gold Panda, Goat, Omar Souleyman, Fatima Al Qadiri, Anna Von Hausswolf og No Joy. Hátíðin tilkynnti einnig um sex íslenska listamenn; Hjaltalín, Pascal Pinon, Valdimar, Tilbury, Ojba Rasta og Momentum. Hægt er að nálgast upplýsingar um þessa listamenn á heimasíðu Iceland Airwaves.