Airwaves yfirheyrslan – Sindri Eldon

Sindri Eldon hefur reynslu af Iceland Airwaves bæði sem blaðamaður fyrir Reykjavík Grapevine og sem tónlistarmaður með hljómsveitunum Dáðadrengjum, Dynamo Fog og Sindra Eldon & The Ways. Við spjölluðum við Sindra um hátíðina.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

Að spila með Dáðadrengjum á Airwaves 2003. Ég svona semi vissi hvaða hátíð þetta var fyrir það, en vissi ekkert að þetta væri eitthvað mikið mál. Ég var sautján ára og nýbyrjaður að drekka (ég blómstraði seint), og svo allt í einu var ég á NASA að opna fyrir Quarashi fyrir framan fullan sal af útlendingum. Það var ýkt kúl, eins og maður sagði gjarnan 2003.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Uuu, 2003, 2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og svo núna 2013, með ýmsum hljómsveitum, þannig að þær verða tíu allt í allt.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Ekkert stendur upp úr í fljótu bragði.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

Sindri Eldon & the Ways í fyrra. Við vorum með svo geðveikt slot, maður! Hálftvö á laugardagsnótt, Amsterdam smekkfullt af blindfullu fólki í góðum fílíng, við í geðveiku formi, tókum klukkutímasett eins og einhvers konar goð meðal manna. Nei djók. Eða þú veist samt ekki djók, við vorum ógeðslega góðir.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin? 

Veitekki… hún var fyrst bara einhver svona vonlaus íslendinga-ófagmennska þar sem við vorum reddandi öllu með því að plögga dóti með lánum og loforðum. Svo varð þetta að einhverju svona kúl thing, þökk sé Sjálfstæðisflokknum og Dóra Ásgríms. Matadorpeningarnir flæddu óheflaðir um æðar efnahagsins, og stóru nöfnin byrjuðu að mæta. Síðan pompaði náttúrulega botninn undan öllu því hérna um árið, og hátíðin var mjög lágstemmd í nokkur ár, bara íslensk númer og einhverjir desperate útlendingar. Síðan þá er Airwaves búin að skríða aftur inn í ágætis sess, sem eitthvað svona fyrir-hruns-revival-fyrirbæri, aðallega þökk sé kvikmyndaiðnaðnum, og stóru nöfnin byrjuð að mæta aftur. The sky’s the limit!

 

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Finnst þeir allir alveg ýkt lélegir á heimsmælikvarða. Allir bestu staðirnir eru off-venue. Fuck the system!

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Úff, ég veit ekki… það eru alltaf einhverjir typpatrúðar ráfandi um röflandi um hvað Ghostigital eða Bloodgroup eða Reykjavík! eða einhverjir hafi verið svo geðveikir, maður er löngu hættur að taka mark á þessu.

 

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Hvort sem þú talar ensku eða íslensku við salinn, ekki útskýra af hverju þú ert að tala íslensku/ensku. Öllum er sama, fíflið þitt. Ekki biðja fólk um að koma nær sviðinu, ekki láta fólk klappa í takt, ekki segja okkur um hvað lögin eru, ekki reyna að vera fyndinn, ekki reyna að púlla íslenskan aulahúmor á útlendingana, ekki tala um hversu fullur/þunnur þú ert… bara ekki fokking vera óþolandi fáviti talandi um ömurlegt kjaftæði. Mér er alveg sama hversu lengi ég beið í röð eftir að sjá bandið þitt, ef ég heyri þig segja sögu af því hvernig lagið þitt var samið meðan bassaleikarinn var með flensu eða eitthvað svoleiðis, ég fokking grýti þig með glerflösku. Haltu fokking kjafti.

 

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Neinei, finnst bara best að ráfa milli venuea að sjá hvað fólk hefur upp á að bjóða.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Hún er mjög gott showcase fyrir það besta sem íslensk tónlist hefur upp á að bjóða. Öll böndin gera sitt besta til að vera kúl fyrir útlendingana, og það er bara rokk.

 

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir? 

Engin.

 

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

U, ég held við höfum verið með tíu gigg allt í allt 2011, og við þurftum að afbóka eitt þeirra. Síðan þá höfum við farið aðeins varlegara í að bóka off-venue gig.

 

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Ekki gott að segja… þær hafa verið mjög hressar margar hverjar.

 

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo. Ég hef séð Kraftwerk tvisvar, og þetta er bara ljósashow með góðri tónlist. Ég veit ekki hversu lífleg YLT eru, en þau hljóta að vera meiri spennandi að horfa á en Kraftwerk.

 

 

Listasafnið eða Harpa?

Fokking hvorugt. Sportbarinn í Ármúla.

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Sindri Eldon & the Ways! www.facebook.com/events/1392415404323527

 

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?

Rokk í smettið!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *