Nýtt frá Gangly

Hljómsveitin Gangly sem skipuð er þeim Sindra Má Sigfússyni úr Sin Fang, Jófríði Ákadóttur úr Samaris og Úlfi Alexander Einarssyni úr Oyama var að senda frá nýtt lag og myndband. Lagið heitir Holy Grounds og gerði Máni Sigfússon myndbandið við það. Þetta er fyrsta lagið sem kemur út með hljómsveitinni frá því að þau sendu frá sér sitt fyrsta lag Fuck With Someone Else fyrir um tveim árum. Einstaklega gott framhald hjá þessari mögnuðu sveit.

 

Lokatónleikar á Lunga laugardaginn 18. júlí

SYKUR, Grísalappalísa, Gangly, Reykjavíkurdætur, Sturla Atlas og dj. flugvél og geimskip koma fram á lokatónleikum Lunga sem fara fram á  laugardaginn. LungA fagnar 15 ára afmæli sínu í sumar og munu þessir stórtónleikar setja lokapunktinn á þessa frábæru hátíð. Tónleikasvæðið við gömlu fiskvinnsluna verður ævintýraleg upplifun í sjálfu sér og á sérsmíðuðu sviði LungA munu hljómsveitirnar koma fram

Athugið að miðinn kostar 5.900 kr á tix.is til miðnættis 17. júlí. Eftir að miðasölu lokar á netinu verður einungis hægt að versla miða við hurð á tónleikdardaginn, kostar þá miðinn 6.900 kr.

 

Bestu íslensku lög ársins 2014

30. Hossa Hossa – Amaba Dama

 

29. Svínin þagna – Úlfur Kolka

 

28. The Music – Worm Is Green

 

27. Specters – kimono

 

26. FM Acid Lover – Futuregrapher

 

25. 100 kg – Pretty Please

 

24. I’m Leaving – Low Roar

 

23. Quiet Storm – Asonat

 

22. Circus Life – Fufanu

 

21. Held – Kiasmos

 

20. Special Place – Muted

 

19. Old Snow – Oyama

 

18. Brewed In Belgium – Hermigervill

 

17. Until We Meet Again (Applescal Remix) – Tonik Ensemble

 

16. Cut – russian.girls

 

15. Mánadans – Kælan Mikla

 

14. Vinur vina minna – Teitur Magnússon

 

13. Absolute Garbage – Singapore Sling

 

12. Strange Loop – Sykur

 

11. Venter (Evian Christ remix) – Ben Frost

 

10. Steinunn – Boogie Trouble

Diskóið er eins og rottur og kakkalakkar, það mun aldrei deyja út, en þegar erfðaefnið er eins gott og Boogie Trouble eru allar líkur á því að það auki við kyn sitt. Eftirvæntingin eftir fyrstu breiðskífu Boogie Trouble er orðin umtalsverð og ekki minnkaði hún í vor þegar lagið Steinunn kom út. Fyrstu bassanóturnar framkalla strax kippi í líkamanum sem aukast þegar wah-wah gítarinn bætist við og í viðlaginu ætti allur líkaminn að vera kominn á mikla hreyfingu. Steinunn beyglar munninn því hún er að fara beinustu leið á ball.

9. Expanding – Páll Ivan frá Eiðum

Páll Ívan frá Eiðum stimplaði sig rækilega inn á árinu með þeim drungalega rafgjörningi sem lagið Expanding er. Hikstandi bassi, stafrænir skruðningar og draugaleg röddin er uppistaðan í þessari rafrænu hryllingsvögguvísu, og myndbandið er eitt það besta sem kom á árinu.

8. Distant Lover – Myndra

Firnasterkt indípopp með óaðfinnanlegum hljómi, grípandi viðlagi, singalong-kafla og óvenjulegum ryðma.


7. Evel Knievel – Pink Street Boys

Evel Knievel er eins og tónlistarlegt ígildi ryðgaðs hnífs sem er stungið í síðuna á þér og snúið og juggað í hringi og fram og til baka. Ekki tónlist til að slást við heldur tónlist sem slæst við þig. Rokk sem veður inn á skítugum strigaskónum og sparkar í rassa, punga, píkur og bara allt sem verður á vegi þess. Ekki ferskur andblær heldur sterk andremma sem fyllir upp í vit smáborgaralegrar fagurfræði og skilur eftir sig slóð eyðileggingar, tómra ódýrra bjórdósa og sígarettustubba.

6. The End – Fm Belfast

Gleðisveit landsins kemur með enn einn elektró-smellinn sem gætti brætt hjörtu allra hörðustu bölsýnismanna. Því FM Belfast eru vinir þeirra líka.

5. Ever Ending Never – M-band

Jon Hopkins hittir Gus Gus á bar í Berlín, þeir skella sér á Berghain og enda svo í eftirpartýi hjá Caribou snemma morguns þar sem sólin skín í gegnum gluggatjöldin. Svona kvöld sem þú vildir óska að myndi aldrei enda. Fljótandi tekknó sem seytlar jafnt inn í undirmeðvitundina og blóðrásina.

4. Flýja – Grísalappalísa

Á síðari plötu Grísalappalísu, Rökréttu Framhaldi, stækkuðu þeir út hljóðheim sinn og hvergi heyrðist það betur en í því stórbrotna ferðalagi sem lagið Flýja er. Hyldjúp ballaða sem hljómar á köflum eins og Lou Reed, Bob Dylan eða Serge Gainsbourg með epískri strengjaútsetningu sem á í samtali við lagið frekar en bara að fylgja því.

3. Crossfade – Gusgus

Crossfade er það sterkt lag að við mundum eftir því eftir tónleika á Sónar í febrúar 2013, alveg þangað til það kom loksins út rúmlega ári síðar í apríl á þessu ári. En biðin var vel þess virði, hljómurinn vélrænn en samt þokkafullur og textinn ljúfsár óður til upphafsára danstónlistarinnar í bland við kynferðislega undirtóna. Dökk og kynþokkafull rödd Daníels Ágúst bergmálar út í eilífðina í versunum og bjartur barítónn Högna í viðlaginu er fullkomið mótvægi.

2. Fuck With Someone Else – Gangly

Íslenskt svar við FKA Twigs, framúrstefnulegt Trip Hop með bragðaref af stafrænum, hliðrænum og lífrænum hljóðum og röddum sem eru skældar og teigðar í ótal áttir. Algjör andstæða við fyrsta sætið á listanum, frámunalega móðins, kosmópólítan og erlendis þar sem kúlið er meitlað í stein.

1. París Norðursins – Prins Póló

Það kom aldrei neitt annað til greina. Grófur synþabassinn, dúndrandi bassatromman og textinn eins og Hrafns Gunnlaugs-leg greining á stemmningu og helstu persónum í erkitýpísku íslensku sjávarþorpi. Knappt, hnyttið, beint í mjaðmirnar og ör í hjarta þjóðarsálar. Hljómar eins og diskókúla í síldarbrennslu eða reif í frystihúsi, eins íslenskt og það gerist. Meira að segja ofspilunin hefur ekki bitið á því. Prins Póló á Bessastaði!

Frumsýning á myndbandi frá GANGLY

 

Við fengum þetta myndband sent til okkar áðan frá nýrri íslenskri hljómsveit sem kallar sig GANGLY. Það kom hvergi fram hvaða aðilar standa að bandinu eða hver gerði myndbandið en bæði lag og myndband eru til fyrirmyndar. Lagið sem heitir Fuck With Someone Else mætti lýsa sem nútímalegri og vel útsettri poppsmíð sem er einstaklega vel raddað og skemmtilega skreytt. Hér er hægt að fylgjast með bandinu á facebook.