Hálfsársuppgjör Straums

 

Adam Green & Binki Shapiro – Adam Green & Binki Shapiro 

Anti-folk söngvarinn Adam Green og Binki Shapiro úr Little Joy gáfu út þessa einlægu samnefndu plötu í byrjun ársins. Platan minnir margt á samstarf þeirra Lee Hazlewood og Nancy Sinatra á sjöunda áratugnum. Tregafullar raddir þeirra  Green og Shapiro smell passa saman og platan rennur ljúflega í gegn líkt þytur í laufi.

 

Tomorrow’s Harvest – Boards Of Canada

Eins og elding úr heiðbláum himni dúkkaði upp dularfull vínilplata merkt Boards of Canada í plötubúð í New York í maí. Á plötunni var ekkert nema vélræn rödd sem las upp talnarunu en hún setti af stað atburðarás sem á endanum leiddi í ljós fyrstu plötu BoC í 7 ár. Þegar Tomorrow’s Harvest kom loksins út olli hún engum vonbrigðum og hljómur hennar sór sig í ætt við fyrri verk sveitarinnar. Yfir verkinu hvílir ákveðinn heimsendadrungi en þó glittir í ægifegurð inni á milli. Heyra má bjagaðar og hálffalskar synthalínur, gnauðandi eyðimerkurvinda og strengi sem eru svo snjáðir að þeir hljóma eins og upptaka úr margra áratuga gömlu fischer price segulbandstæki. Gæti verið draugurinn í vélinni eða bergmál siðmenningar sem nýlega hefur verið eytt. Raftónlist sem smýgur inn í undirmeðvitundina og marar þar eins og kjarnorkukafbátur.

 

Lysandre – Christopher Owens

Þegar Christopher Owens tilkynnti um endarlok Girls á twitter síðu sinni síðasta sumar fór hrollur um marga aðdáendur þessarar einstöku sveitar sem skildi eftir sig tvær frábærar plötur – Album (2009) og Father, Son, Holy Ghost (2011). Í upphafi þessa árs var ljóst að þessar áhyggjur voru óþarfar þar sem Owens sendi frá sér plötu sem mætti segja að væri beint framhald af því sem hann gerði með fyrrum hljómsveit sinni. Lög á plötunni höfðu meira að segja sum heyrst á tónleikum Girls. Lysandre er heilsteypt þema plata um stúlku sem Owens varð ástfanginn af á tónleikaferð með Girls.

 

 

Hanging Garden – Classixx

Bandaríska DJ dúóið Classixx vakti fyrst athygli á sér með frábærum endurhljóðblöndunum á lögum með hljómsveitum á borð við Phoenix, Major Lazer og Yacht. Fyrsta smáskífa þeirra I’ll Get You kom út árið 2009 og frá því hafa margir beðið spenntir eftir fyrstu plötu þeirra sem kom loks út í lok maí. Hanging Garden er björt plata full af gæða rafpoppi sem á svo sannarlega heima á dansgólfinu á heitum sumarkvöldum.

 

 

 

Random Access Memories – Daft Punk

Meðan Boards of Canada héldu sig við það sem þeir kunna best þá umbreyttust Daft Punk liðar enn einu sinni við skiptar skoðanir aðdáenda. Random Access Memories er þeirra lífrænasta plata til þessa, 75 mínútna ferlíki af diskói, progrokki, fullorðinspoppi og vélrænum trega. Á henni var leitast við að endurskapa hljóðverðsstemmningu 8. áratugarins og tölvum og stafrænni tækni hent út í veður og vind. Þrátt fyrir að það hefði verið hægt að skera hana aðeins niður er ekki annað hægt en að dást að handverkinu og metnaðinum. Fyrir utan að gefa okkur sumarsmellinn Get Lucky, eru ótalmörg fantafín lög á plötunni eins og Doin’ it Right, Loose Yourself to Dance og Giorgio By Moroder.

 

 

 

Settle – Disclosure

Bræðra dúóið Disclosure gáfu út sína fyrstu plötu Settle þann 3. júní. Þrátt fyrir ungan aldur sýna þeir Guy (fæddur 1991) og Howard (fæddur 1994) Lawrence ótrúlegan þroska í lagasmíðum á plötunni sem er ein heilsteyptasta dansplata sem komið hefur frá Bretlandi í langan tíma.

 

 

 

Lesser Evil – Doldrums

Eftir frábæra tónleika Airick Woodhead (Doldrums) á Iceland Airwaves síðasta haust var ljóst að fyrsta plata hans innihéldi eitthvað bitastætt. Woodhead sveik ekki neinn með með Lesser Evil sem er tilraunakennd dansplata sem leiðir hlustendur í gegnum ferðalag um hugarheim Woodhead sem oft á tíðum er ansi dökkur.

 

 

 

 

We Are The 21st Century Ambassadors of Peace and Magic – Foxygen

Foxygen eru tveir rétt rúmlega tvítugir strákar frá kaliforníu sem á þessari frábæru breiðskífu fara á hundavaði yfir margt af því besta í rokktónlist frá seinni hluta 7. áratugarins og fyrri hluta þess 8. Söngvarinn Sam France stælir Mick Jagger, Lou Reed og Bob Dylan jöfnum höndum en samt aldrei á ófrumlegan eða eftirhermulegan hátt. San Fransisco er eins og týnd Kinks ballaða og On Blue Mountain bræðir saman Suspicous Minds með Elvis og groddaralegustu hliðar Rolling Stones. Ótrúlega áheyrileg plata sett saman af fádæma hugmyndaauðgi og smekkvísi.

 

 

 

Immunity – Jon Hopkins

Immunity stígur jafnvægisdans á milli draumkennds tekknós og seiðandi ambíents listlega vel og hljómurinn er silkimjúkur draumaheimur þar sem gott er að dvelja í góðum heyrnatólum.

 

 

 

Yeezus – Kanye West

Að upphefja sjálfan sig hefur alltaf verið stór hluti af hipp hoppi en Kanye West hefur þó á undanförnum árum sett nýjan mælikvarða á mikilmennskubrjálæði sem jaðrar við að vera sjálfstætt listform. Yeezuz er tónlistarlega og textalega hans dekksta og harðasta verk og hann tekst á við kynþáttahatur á frumlegan og djarfan hátt í lögum eins og New Slaves og Black Skinhead.

 

 

 

 

Walkin On A Pretty Daze – Kurt Vile

Síðasta plata Vile Smoke Ring for My Halo var efsta platan á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2011. Á Walkin On A Pretty Daze heldur Vile áfram uppteknum hætti þó hún sé ögn epískari á köflum.

 

 

 

 

Cold Spring Fault Less Youth – Mont Kimbie

Lástemmd en þó kraftmikil og dansvæn plata og stórt skref fram á við fyrir breska dúettinn. Sérstaklega er gaman að heyra samstarf þeirra við hinn hæfileikaríka söngvara King Krule í tveimur lögum þar sem ólíkir stílar listamannanna smella eins og flís við rass.

 

 

 

M B V – My Bloody Valentine

Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine gaf út sína þriðju plötu, þá fyrstu frá því að platan Loveless kom út árið 1991, 2. febrúar. Platan mbv er níu laga og er vel biðarinnar virði. Söngvari sveitarinnar Kevin Shields skýrði frá því á síðasta ári að hann hefði hafið gerð plötunnar á tíunda áratugnum og sögusagnir segja að hann hafi hent gríðarlega miklu efni við gerð hennar.

 

 

 

 

 

Run the Jewels – Run the Jewels

Eftir frábæra sólóskífu El-P á síðasta ári og ekki síðri plötu Killer Mike sem sá fyrrnefndi pródúseraði var samstarfsverkefni þeirra, Run The Jewels, rökrétt framhald. Það gefur fyrri skífum ekkert eftir í harðsoðnum töktum og platínuhörðum rímum. Taktarnir hjá El-P hafa sjaldan verið betri, eru hráir og vélrænir en á sama tíma fönkí og lifandi, fullir af sírenum, sci-fi syntum og allra handa óhljóðum. Rapportið milli rapparanna tveggja er síðan sérdeilis skemmtilegt þar sem þeir toppa hvorn annan í orðaleikjum og töffaraskap.

 

 

 

 

 

Flowers – Sin Fang

Sindri Már Sigfússon er einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um þessar mundir en gæðastandarinn á efninu er þó alltaf jafn hár. Hann er stöðugt að þróast sem lagasmiður og Young Boys og What’s wrong with your eyes eru með allra bestu lögum ársins. Platan er tekin upp af Alex Somers sem galdrar fram ævintýralega hljóm þar sem fyllt er upp í hverja einustu glufu með áhugaverðum hljóðum án þess þó að verða nokkurn tímann ofhlaðinn.

 

 

 

Torres – Torres

Hin 22 ára Mackenzie Scott frá Nashville í Tennessee gengur undir listamannsnafninu Torres. Torres sendi frá sér sjálftitlaða plötu í janúar sem er uppfull af trega, sorg og sannfæringu. Ein af heiðarlegri plötum þessa árs.

 

 

 

Modern Vampire Of The City – Vampire Weekend

Þriðja plata Vampire Weekend er þrátt fyrir asnalegan titil alveg hreint frábært verk og gefur þeim fyrri lítið eftir. Þeir vinna í fyrsta skiptið með utanaðkomandi upptökustjóra sem skilar sér aukinni tilraunamennsku og skrefum út fyrir sinn hefðbundna hljóðramma, auk þess sem lagasmíðar eru sterkar og grípandi. Ef það væri eitthvað sumar á Íslandi í ár væri þetta hin fullkomna sumarplata.

 

 

Curiosity – Wampire

Portland bandið Wampire hefur verið starfandi frá árinu 2007 og gaf loks út sína fyrstu plötu í júní. Á Curiosity blandar bandið saman áhrifum frá sýrurokki, 70s poppi og new wave á skemmtilegan máta.

 

 

Cerulean Salt – Waxahatchee

Hin 24 ára gamla Katie Crutchfield sendi frá sér aðra plötuna undir nafninu Waxahatchee á innan við ári núna í mars. Á Cerulean Salt er að finna pönkaða þjóðlagatónlist flutta með ótrúlegri tilfinningu og heiðarleika sem skín í gegn í hverju einasta lagi.

 

Wondrous Bughouse – Youth Lagoon

Svefnherbergis pródúserinn Trevor Powers átti eina af betri plötum árins 2011 með The year of hibernation. Á þessari annari plötu Powers undir nafni Youth Lagoon er hann kominn út úr svefnherberginu inn í hljóðver og útkoman er stærri hljóðheimur án þess að gefa eftir í lagasmíðum.

 

Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Erlendu sveitirnar á ATP

Það hefur varla farið framhjá tónlistaraðdáendum og lesendum þessarar síðu að fyrsta útgáfa All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðarinnar verður haldin á varnarliðssvæðinu í Keflavík eftir tvo daga. Hátíðin er orðin þekkt vörumerki í tónlistarheiminum og er um margt ólík öðrum festivölum sem er hægt að finna í tugatali í bæði Evrópu og Bandaríkjunum á hverju sumri. Sérstaða hennar felst einna helst í vinalegu andrúmslofti, þar sem allar hljómsveitir gista á svæðinu þar sem hátíðin er haldin og leitast er við að má út landamæri milli almennra gesta og tónlistarmannanna, og er þess vegna ekkert VIP svæði á hátíðinni. Annað sem hátíðin sker sig úr fyrir er að allar hljómsveitirnar spila tónleika því sem næst í fullri lengd, en ekki þessi hálftíma til 45 mínútna „festival-slot“ eins og á venjulegum hátíðum.

Þá leggur ATP mikið upp úr annars konar dægradvöl á meðan hátíðinni stendur og má þar nefna kvikmyndasýningar í Andrews Theater þar sem Jim Jarmusch og Tilda Swinton velja kvikmyndir, fótboltaleiki á milli hljómsveita á aðdáenda, og popppunktskeppni sem Dr Gunni mun halda. Að lokum má nefna að matur verður seldur á hátíðarsvæðinu svo gestir þurfa í raun ekki að leita neitt annað á meðan hátíðinni stendur. Enn er hægt að kaupa bæði helgar- og dagpassa á hátíðina á midi.is og straum.is hvetur lesendur sína til að láta þessa einstöku upplifun ekki framhjá sér fara. Fulla dagskrá hátíðarinnar má finna hér og margar af bestu hljómsveitum Íslands koma fram. Hér að neðan er hins vegar stutt kynning og tóndæmi á þeim erlendu hljómsveitum sem munu stíga á stokk.

Nick Cave & The Bad Seeds

Nick Cave er algjör óþarfi að kynna en við gerum það bara samt. Hann hefur í hátt í þrjá áratugi framleitt hágæða rokk, pönk og myrkar ballöður, með Birthday Party og Grinderman, undir eigin nafni með og án Slæmu Fræjanna, en sú frægasta sveit hans verður einmitt með honum í för á All Tomorrow’s Parties. Um tónleika fárra núlifandi listamanna hefur undirritaður heyrt ausið jafn miklu lofi og Nick Cave en hann hefur spilað þrisvar áður á Íslandi. Hér að neðan má heyra útgáfu hans af hinu frábæra Velvet Underground lagi sem ATP hátíðin tekur nafn sitt frá.

Thee Oh Sees

Thee Oh Sees er sækadelik sýrurokkssveit frá San Fransisco og hefur orð á sér að vera ein besta tónleikasveit heims um þessar mundir. Sveitin spilar í Atlantic Studios klukkan 00:15 á föstudagskvöldinu á undan íslensku rokkrisunum í Ham. Lagið Flood’s New Light er frábært lag sem krystallar kraftinn í bandinu.

SQÜRL

Leikstjórinn Jim Jarmusch hefur alltaf haft gott eyra fyrir töffaralegri músík til að setja í bíómyndirnar sínar og hefur í þeim tilgangi meðal annars leitað til RZA úr Wu Tang í Ghost Dog og Neil Young í Dead Man. Hann er nú kominn með sína eigin hljómsveit og sándið er alveg jafn svalt og myndirnar hans, töffaralegt og útúrfözzað gítarsurg. Þetta er rokktónlist sem tekur aldrei niður sólgleraugun.

The Notwist
Þýska indíbandið The Notwist hefur í hátt í 20 ár verið eitt helsta flaggskip Morr-útgáfunnar sem einnig hefur gefið út íslensku sveitirnar Múm og Sing Fang. Sveitin leikur skemmtilega fléttu af indírokki með rafáhrifum sem má heyra glöggt í laginu One With The Freaks af plötu þeirra Neon Golden frá 2002.

Deerhoof

Deerhoof hefur ferðast um lendur óhlóðarokks, indí og hugvíkkandi strauma á tveggja áratuga ferli og enginn hefur getað séð fyrir hvert hljómsveitin fer næst. Þeir sóttu Ísland heima á Iceland Airwaves hátíðina árið 2007 og þóttu tónleikarnir sérdeilis vel heppnaðir.

Chelsea Light Moving

Eftir að upp úr slitnaði hjá Sonic Yoth hjónakornunum tók Thurston Moore sig til og stofnaði nýtt band, Chelsea Light Moving. Þar heldur hann áfram þar sem frá var horfið með Sonic Youth, í því að misþyrma rafmagnsgíturum af öllum stærðum og gerðum og framleiða úrvalshávaða með melódískum þræði. Á fyrstu plötu sveitarinnar sem kom út í byrjun árs er talsverðra áhrifa að gæta frá pönki og harðkjarnatónlist.

 

Portugal. The Man gefa út nýja plötu undir leiðsögn Danger Mouse

Portugal. The Man er bandarískt psychedelic pop/rock band sem gefur í dag þann 4. júní út sína sjöundu breiðskífu Evil Friends.  Hljómsveitin hefur liggur við átt heima í hljóðveri frá árinu 2006 þegar þeir gáfu út sína fyrstu plötu Waiter: „You Vultures!“. Síðan þá hafa þeir gefið út plötu árlega allt til ársins 2011 þegar In the Mountain in the Cloud kom út. Nú tók hljómsveitin með þá John Gourley og Zach Carothers í farabroddi sér lengri tíma við gerð plötunnar og fengu þeir til liðs við sig snillinginn Brian Joseph Burton eða Danger Mouse eins og hann er betur þekktur sér til aðstoðar við upptökur á plötunni. Leikarinn Kane Ritchotte trommar í fyrsta skipti með Portugal. The Man á þessari plötu en auk hans hefur hljómborðsleikarinn Kyle O‘ Quin gengið til liðs við bandið.
Danger Mouse er ekki þekktur fyrir að senda frá sér efni nema það sé vænlegt til árangurs og má þar nefna Broken Bells, Gnarls Barkley og Sparklehorse verkefnin því til stuðnings. Hann klikkar ekki frekar en fyrri daginn og virðist hafa fínpússað stefnu sveitarinnar og komið þeim í aðeins útvarpsvænni búning. Platan ber vott af tilraunastarfsemi og hefur að geyma frumleg syntha hljóð sem hafa einkennt fyrri plötur sveitarinnar. Aðdáendur Portugal. The Man gætu orðið fyrir vonbrigðum og fundist þeir vera poppa sig of mikið upp en bassaleikarinn Zach Carothers hefur ekki áhyggjur af því. „Ég elska popp, ég vil búa til góða popp tónlist og gera hana kúl. Við höfum ákveðin stíl og náum ennþá að fylgja honum eftir.“ Markmið Carothers virðist hafa tekist með Evil Friends og gæti hún alveg prílað upp lista hér og þar og fengið spilun í útvarpi með undirskriftinni aðgengilegt psychadelic pop/rock.

-Daníel Pálsson

CocoRosie gefa út nýja plötu með hjálp Valgeirs Sigurðssonar

Bianca Casady og Sierra Casady eru betur þekktar undir nöfnunum „Coco“ og „Rosie“ og saman mynda þær franska/bandaríska dúettinn CocoRosie. Þær eru systur og sendu frá sér sína fimmtu plötuna Tales Of A Grass Widow þann 27. maí en þær sendu fyrst frá sér plötuna La maison de mon reve árið 2004. Erfitt er að skilgreina hvers konar tónlist þær stöllur fást við en „freak folk“ kemst allavega nálægt því. Þær koma báðar að söngnum en „Rosie“ sér að mestu leyti um hljóðfæraleikinn en „Coco“ notaðist fyrst um sinn helst við barnahljóðfæri við gerð tónlistarinnar og framkallaði hin furðulegustu hljóð.
Valgeir Sigurðsson sá um upptökur á Tales Of A Grass Widow en hann er enginn nýgræðingur og hefur m.a. unnið með Björk, Thom Yorke, Bonnie Prince Billy og Feist. Á nýju plötunni virðist meira vera notast við synthesizera og trommuheila en áður ásamt taktkjafti sem lætur á sér bera í nokkrum laganna 11. Hin kynvillti Antony Hegarty úr Antony and the Johnsons syngur með stelpunum í laginu „Tears For Animals“ af mikilli einlægni eins og ella. Platan er þung og sumir hafa haft orð á því að hún sé of niðurdrepandi á köflum en síðasta lagið er rúmar 18 mínútur og er helmingur lagsins þögn. Tales Of A Grass Widow fær hins vegar fína dóma hjá flestum gagnrýnendum og greinilegt að Valgeir hefur unnið gott verk.

Lög af plötunni Tales Of A Grass Widow

-Daníel Pálsson

Alveg sama hvort fólki finnist nýja platan góð

Enski tónlistarmaðurinn og leikarinn Tricky gaf út sína tíundu plötu False Idols í dag. Tricky eða Adrian Nicholas Matthews Thaws eins og hann var skýrður af móður sinni sem fyrirfór sér þegar hann var aðeins fjögurra ára gamall hefur getið sér orð sem einn af frumkvöðlum trip-hop stefnunar. Hann var meðlimur í hljómsveitinni  Massive Attack en tók aðeins þátt í fyrstu plötu sveitarinnar Blue Lines sem var gefin út árið 1991. Í framhaldi af því þróuðust hugmyndir hans í aðra átt og úr varð fyrsta sóló plata hans Maxinquaye sem er einmitt titluð í höfuðið á móðir hans. Síðan þá hefur hann m.a. unnið með Björk, Bobby Gillespie, Cyndi Lauper og leikið í hasar myndinni The Fifth Element.
False Idol hefst á laginu „Somebody’s Sins“ þar sem Tricky fær lánaða línuna „ jesus died for someone‘s sins, but not mine“  úr laginu „Gloria“ eftir Patty Smith. Söngkonan Nneka og Peter Silberman úr The Antlers eru meðal þeirra sem láta í sér heyra á plötunni en auk þeirra ljá Francesca Belmonte og Fifi Rong Tricky rödd sína og í laginu „Chinese Interlude“ er sungið á kínversku. Platan er hálfgert aftur hvarf til Maxinquaye og eru gagnrýnendur sammála um að Tricky sé að rifja upp gamla góða takta sem hafi týnst í millitíðinni. Sjálfum er Tricky alveg sama hvort fólki finnst nýja platan góð eða ekki, því nú sé hann búinn að finna sjálfan sig aftur og er að gera það sem hann vill.

– Daníel Pálsson

All tomorrows Parties – Öðruvísi tónleikahátíð

Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.

All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.

Vannýttar byggingar

Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.

Tónleikar í fullri lengd

Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.

Tónlist, bíó og takkaskór

Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.

Alltaf fer ég vestur

Straumur var í fríi yfir páskahelgina en hann sat þó ekki auðum höndum því ritstjórnin eins og hún leggur sig (en hún telur tvær manneskjur) lagði land undir fót og fór vestur á Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem undirritaður sækir hátíðina heim og ég get staðfest að það er ekki hægt á eyða páskunum á betri stað. Veðrið skartaði sínu blíðasta á leiðinni þegar sikk sakkað var í gegnum þrönga og spegilslétta firði Vestfjarðakjálkans og stoppað var í náttúrulaug á leiðinni. Fimmtudagskvöldið var tekið tiltölulega rólega en við sóttum þó tónleika á öldurhúsinu Krúsinni, sem lítur út að innan eins og barinn í myndinni Shining. Blúsaða búgí-ið hans Skúla Mennska var viðeigandi inn í gamaldags salnum og hljómsveitin Fears bauð upp á hefðbundið gítardrifið indírokk. Þetta var þó einungis laufléttur forréttur að þeirri þriggja rétta tónleikaveislu sem beið okkar.

Rifin MugiRödd

Það var stofnandi AFS, Mugison, sem að setti hátíðina klukkan sex á þessum langa föstudegi og ég hljóp á harðaspretti niður í tónleikaskemmuna til að missa ekki af honum. Mugison á Ísafirði um páskana er náttúrulega heimavallarstemmning eins og KR í Frostaskjóli eða Liverpool á Anfield. Þegar ég nálgaðist svæðið heyrði ég reffilega orgelriffið úr Mugiboogie óma út yfir fjörðinn. Á hátíð sem þessari þar sem tími á hljómsveit er knappur og spilað er fyrir hipstera, heimamenn, ömmur og barnabörn er mikilvægt að lagavalið sameini alla þessa ólíku hópa það kann Mugison upp á hár. Hver einasta sál í skemmunni „Stakk af“ með honum út í spegilsléttan Skutulsfjörðinn og sungu viðlagið hástöfum með. Hann endaði á ansi rokkaðri útgáfu af smellnum Murr Murr og hrá sandpappírsrödd hans reif í hljóðhimnur áhorfenda.

Öskrað á athygli

Að spila á eftir Mugison er ekki auðvelt en söngkonan Lára Rúnars leisti það farsællega úr hendi með fagmannlegu popprokki, ljúfum söng og frábæru bandi. Þvínæst var röðin komin að Athygli sem samanstóð af fjórum unglingspiltum frá Vestfjarðakjálkanum. Þeim leiddist svo sannarlega ekki athyglin og nutu sín hins ýtrasta á sviðinu og bílskúrsrokkuðu af lífs og sálarkröftum. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina og gerir hana jafn einstaka og raun ber vitni er einmitt breiddin og uppröðun í hljómsveitavali. Hvergi annars staðar sér maður nýjustu hip hljómsveit Reykjavíkur spila á milli bílskúrsbands frá Bolungarvík og rótgróinnar sveitaballahljómsveitar.

Siglt undir fölsku flaggi

Þvínæst var röðin komin að Blind Bargain sem voru þéttspilandi gítarrokkband með básúnuleikara innbyrðis. Ég hafði sérstaklega gaman að blúsuðum gítarleik og textum, og hjó eftir brotum eins og „Svefndrukkinn og ringlaður, hann siglir undir fölsku flaggi.“ Hljómsveitin Ylja fylgdi á eftir en hún spilaði áferðarfallegt þjóðlagapopp undir miklum áhrifum frá folkbylgju sjöunda áratugarins. Samsöngur söngkvennanna harmóníseraði fallega og slidegítar og bongótrommur gáfu lögunum vissan eyðimerkurkeim. Þá voru kjarnyrtir textar um útilegur á Íslandi einstaklega viðeigandi á hátíð sem þessari.

Vopnaður kynnir

Þegar hér er komið við sögu er kannski rétt að kynna kynni hátíðarinnar, Pétur Magg, sem er jafnframt eitt helsta skemmtiatriði hennar. Kraftmeiri kynni hefur undirritaður aldrei séð á tónlistarhátíð og það skiptir engu máli hvaða band er næst á svið, innlifunin og öskrin eru slík að það er alltaf eins og Rolling Stones séu næstir á dagskrá. Þá hélt hann iðulega á risastóru trésverði og sveiflaði því í allar áttir milli þess sem hann kom með tilkynningar á borð við að bannað væri að reykja í skemmunni og að tiltekin bíll væri fyrir og þyrfti að fjarlægja. En í þetta skiptið sagði hann frá því að grunnskólakennari frá Drangnesi, einnig þekktur sem Borkó, væri næstur á dagskrá. Sá mætti með heljarinnar band og byrjaði á sínu vinsælasta lagi, Born to be Free, og hélt góðum dampi í settinu með vönduðu og grípandi gáfumannapoppi. Borkó hefur gott nef fyrir frumlegum útsetningum og hugvitssamlegir blásturskaflar vöktu athygli mína.

Skemman fríkar úti og inni

Skúli Mennski er fyrir löngu orðin goðsögn á þessum slóðum og fastagestur á hátíðinni. Þessi knái blúsari og pulsusali lét engan ósnortinn með viskílegnum drykkjusöng sínum um Dag Drykkjumann. Hljómsveitin hans var líka lífleg og oft brast á með dylan-legum munnhörpusólóum og öðru gúmmelaði. Ragga Gísla og Fjallabræður leiddu saman hesta sína í næsta atriði en þá hafði slíkur mannfjöldi safnast saman í skemmunni að ekki var nokkur leið fyrir mig að troðast inn í hana aftur eftir stutta klósettferð á milli banda. Það kom þó ekki að sök því skemman er opin í annan endann og fátt er íslenskara en grýlu- og stuðmannasmellir undir berum himni við undirleik karlakórs. Ég fann hreinlega fánalitina myndast í kinnunum þegar þau hófu leik og áhorfendur ætluðu að missa vitað í lokalaginu Sísí og reyndu hvað þeir gátu að yfirgnæfa Röggu og kórinn með eigin söng.

Bubbi mætir loksins vestur

Það var nokkuð erfitt fyrir indípopparana í Sing Fang að stíga á svið á eftir sturluninni sem átti sér stað í síðasta lagi Röggu en hægt og bítandi náði hann þó salnum á sitt band og var kominn á blússandi siglingu í laginu Sunbeam undir lokin. Það eru mikil tíðindi að Bubbi Morthens spili loks á hátíðinni sem kennd er við lag hans. Undirritaður er ekki mesti aðdáandi á landinu en á þessum tímapunkti á þessum stað skemmti ég mér alveg einstaklega vel þegar Bubbi renndi í gegnum nokkra af sínum óteljandi slögurum og tók að sjálfsögðu Aldrei fór ég Suður. Hann endaði á Fjöllin hafa vakað og ég er nokk viss um að snævi þaktir tindarnir sem gnæfðu yfir firðinum hafi verið glaðvakandi. Ég stóð meira segja sjálfan mig að því að syngja með nokkrum sinnum.

Leður, læti og sólgleraugu

Langi Seli og skuggarnir mættu löðrandi í leðri, sólgleraugum og almennum töffaraskap og sönnuðu að rokkabillíið er alls ekki dautt úr öllum æðum. Stafrænn Hákon voru næstir og spiluðu melódískt indírokk og hlóðu risastórra múrsteinsveggji með ómstríðum gítarhávaða og feedbakki. Valdimar byrjuðu með látum og héldu þeim áfram út í nóttina og lokuðu kvöldinu með sínum lager af blásturshljóðfærum. Þá var haldið áfram út í ævintýri næturinnar en þau eru vart birtingarhæf á jafn virðulegum vefmiðli og straum.is gefur sig út fyrir að vera.

Belle, Boards og morgunbjór

Ég vaknaði á laugardeginum við trítilóða timburmenn sem börðu mig í hausinn en hristi þá fljótt af mér með lautarferð í góða veðrinu. Morgunmatur og morgunbjór, i-pod með Belle and Sebastian og Boards of Canada og heiðskýrt útsýni yfir kajakræðara á firðinum. Bættu við sundferð í Bolungarvík og þú ert kominn með uppskrift að fullkomnum þynnkudegi á Ísafjarðarpáskum. Á þriðja degi í djammi þarf maður samt smá tíma til að gera sig sætan og því var ég ekki mættur fyrr en um hálfníuleitið seinna kvöldið þar sem ég sá Fears spila í annað skipti. Þeir eru sérdeilis þétt spilandi band en mér fannst vanta einhverja brún í tónlistina sjálfa, eitthvað sem aðskilur þá frá svipuðum breskum og bandarískum gítarrokksveitum.

Ég var alveg fáránlega hress

Áður en Pétur Magg kynnti Monotown á svið kom hann með skilaboð frá æðri máttarvöldum um að fólk skyldi ganga hægt um gleðinnar dyr. Monotown fygldu ráðum hans með hæglátu og útpældu indípoppi með smekklegum hljómborðsleik. Prins Póló létu hins vegar varnarorð Péturs Magg sem vind um eyrun þjóta og komu á harðaspretti inn um téðar gleðidyr og sáu, heyrðu, lyktuðu og sigruðu þetta kvöldið. Spilagleðin var óþrjótandi og spilamennskan einhvern veginn þétt, en á sama tíma losaraleg og afslöppuð. Mér finnst alltaf sjarmerandi að sjá Kristján tromma standandi og Borkó var síðan mættur prinsinum til halds og trausts og fór hamförum á ýmsum raftólum og kúabjöllum. Þau tóku öll mín uppáhaldslög og hressleikinn lak af hverri einustu nótu.

Siggi Hlö með athyglisbrest

Dolby er víst lókal ballband sem sérhæfir sig í mjög sérstöku tónlistarformi; syrpum (medley) af 80’s slögurum. Þetta var eins og hljómsveitarlegt ígildi dj-setts hjá Sigga Hlö ef hann myndi bara spila 20 sekúndur úr hverju lagi. Viðlag á eftir viðlagi úr Eye of the Tiger, Living on a Prayer, Hold the Line, Þrisvar í viku og svo framvegis og framvegis. Þau voru síðan öll klædd bleikum bolum og þetta var allavega eitthvað annað, þó það sé kannski dálítið stór biti að innbyrða 80 80’s smelli á 20 mínútum. Oyama eru eitt af hraðast rísandi nýstyrnum í Reykjavíkursenunni og rokkuðu skemmuna í ræmur þetta kvöld. Raddir Úlfs og Júlíu kölluðust á við marglaga veggi af ómstríðum gítaróhljóðum frá Kára sem á köflum hömpaði hátalarastæðurnar í æstum feedbakk-dansi.

Titrandi kamrar – Reif í skemmuna

Á þessum tímapunkti neyddist ég til að hlaupa á klósett til að losna við vökva en á meðan hófu Samaris að spila og kamrasamstæðan nötraði öll undan hyldjúpum bassanum. Jófríður söngkona var í essinu sínu og sýndi all Bjarkarlega takta í sviðsframkomu og í síðasta laginu umbreyttist dubstep takturinn yfir í æsilegt drum’n’bass og skemman breyttist í reif. Ojba Rasta héldu upp merkjum reggísins á hátíðinni og gerðu það með miklum sóma. Teitur er orðinn vel sjóaður í sviðsframkomu, nánast eins og Axl Rose Íslands, og fór í kostum í Hreppstjóranum. Fólk faðmaðist og söng með í Baldursbrá þegar tær og ósnortin gleði sveif yfir vötnum og firðinum.

Hamingjan var þar

Það er ekki til betri tónlistarmaður en Jónas Sig til að loka hátíð eins og Aldrei fór ég Suður og til að gulltryggja frábært sett fékk hann Lúðrasveit Ísafjarðar til liðs við sig. Strax í fyrsta lagi greip hann salinn og hélt honum þéttingsfast í hendi sér þar til yfir lauk. Hann er sterkur persónuleiki á sviði og marserandi brasskaflar lúðrasveitarinnar smellpössuðu við lögin hans. Lúðrasveitin kom sérstaklega sterk inn í Baráttusöng uppreisnarklansins á skítadreifurunum en á þeim tímapunkti greip ég í alla sem stóðu nálægt mér og hoppaði í hringi þar til ég varð ringlaður. Síðasta lagið, Hamingjan er hér, hefði ekki getað verið meira viðeigandi –og nú ætla ég að gerast væminn- því hún var vissulega akkúrat þarna í skemmunni á Ísafirði þetta kvöld. Heilsteypt og óbeisluð hamingjan var sem rauður þráður í gegnum bæði kvöldin og fólst í samspili góðrar tónlistar, félagsskaps, ölvunar, samkenndar, veðurs, magnaðrar staðsetningar og sennilega ótal annarra þátta sem erfitt er að festa fingur á. En hún var þarna, og tilfinningin var nánast áþreifanleg. Hamingjunni var síðan haldið gangandi á skemmtistaðnum Húsinu þar sem ritstjórn Straums þeytti skífum fyrir dansi langt fram eftir nóttu.

Þetta kann allt saman að hljóma eins og óþarflega halelújandi lofrulla en ég get bara ekki líst upplifuninni öðruvísi. Ég hvet eindregið alla sem á hanska geta haldið að drífa sig vestur um næstu páska. Ég fer þangað. Alltaf. Þó ég neyðist til að snúa aftur suður í raunveruleikann á endanum.

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur fer í Sónar – Seinni hluti

Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.

Táldregin tilraunadýr

James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.

Lyftingar og LED-hjálmar

Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.

Reif í heilann

Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.

Mugison á Mirstrument

Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.

Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun – Fyrri hluti

Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.

Kraftwerk á krakki

Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.

Kampavín og sígarettur

Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.

Nýtt efni frá Gus Gus

Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.

Ógrynni af Ást

Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.

Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.

Davíð Roach Gunnarsson