Tíunda Aldrei fór ég suður hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 29. og 30. mars næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í kvöld fyrstu listamennina sem koma fram í ár. Þeir eru: Borko, Duro, Futuregrapher, Jónas Sig, Langi Seli, Oyama, Prinspóló og Ylja. Það má lesa nánar um þessa listamenn á vef Aldrei fór ég suður.
Category: Fréttir
Raftónlistarkvöld til heiðurs Biogen
Á næsta laugardag mun fara fram raftónlistarkvöld til minningar um raftónlistarmanninn Sigurbjörn Þorgrímsson sem var þekktastur undir listamannsnafninu Biogen. Kvöldið er haldið undir yfirskriftinni Babel, sem var minna þekkt listamannsnafn Sigurbjarnar sem lést fyrir tveimur árum. Kvöldið er haldið af Weirdcore samsteypunni í samstarfi við Möller forlagið á skemmtistaðnum Dolly frá klukkan 22:00 til 1:00 þann 23. febrúar en Sigurbjörn hefði orðið 38 ára á miðnætti það kvöld.
Þeir tónlistarmenn sem heiðra minningu Biogen þetta kvöldið eru Futuregrapher & Árni Vector, Tanya & Marlon, Bix, Agzilla, Thizone, Beatmakin Troopa og Skurken, ásamt því sem spilað verður viðtal við Biogen sem Hallur Örn Árnason tók á sínum tíma.
Sigurbjörn Þorgrímsson var einn af frumkvöðlum í íslensku dans- og raftónlistarsenunni. Hann var meðlimur í reifsveitinni Ajax og naut mikillar virðingar fyrir tónlist sína innanlands sem utan. Hann gaf út 3 plötur undir viðurnefninu Biogen ásamt því að gefa út plötuna ‘B-Sides The Code Of B-Haviour’ hjá Elektrolux forlaginu undir listamannsheitinu Babel.
Straumur 18. febrúar 2013
Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni með Kurt Vile, The Knife, Atoms For Peace, Youth Lagoon, The Strokes og mörgum fleirum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!
1. hluti:
2. hluti:
3. hluti:
1) Retrograde (Ion The Prize remix) – James Blake
2) All The Time – The Strokes
3) Walkin On A Pretty Day – Kurt Vile
4) Light Out – Javelin
5) Judgement Nite – Javelin
6) A Tooth For an Eye – The Knife
7) Entertainment – Phoenix
8) A Tattered Line Of String – The Postal Service
9) Before Your Very Eyes – Atoms For Peace
10) Dropped – Atoms For Peace
11) The Cleansing – ∆ ∆
12) Domo23 – Tyler, The Creator
13) Daydream (Mörk’s Epic Snare Remix) – Youth Lagoon
14) Mute – Youth Lagoon
Nýtt frá Phoenix
Franska hljómsveitin Phoenix sem átti eina af betri plötum ársins 2009 Wolfgang Amadeus Phoenix snýr til baka með sína fimmtu plötu Bankrupt! 23. apríl. Í dag rataði fyrsta lagið af plötunni á netið. Lagið heitir Entertainment og hægt er að hlusta á það hér fyrir neðan.
Lag með múm og Kylie Minogue
Samstarfsverkefni íslensku hjómsveitarinnar múm og söngkonunnar Kylie Minogue leit dagsins ljós í dag. Lagið Whistle var unnið með Árna Rúnari úr FM Belfast og var notað í kvikmyndinni Jack & Diane. Hljómsveitin stefnir á útgáfu á nýrri plötu næsta haust og er líklegt að lagið verði þar að finna.
Spennandi tónar á Sónar – Seinni hluti
Sónar tónlistarveislan hefst í dag og Straumur hvetur alla sem á hanska geta haldið til að sjá eftirtalda listamenn en þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á hátíðina.
James Blake
Hinn breski Blake er einungis 24 ára gamall en skaust upp á stjörnuhimininn með sinni fyrstu breiðskífu samnefndri listamanninum sem kom út í byrjun árs 2011. Þar blandaði hann saman dubstep og sálartónlist á einstaklega smekklegan hátt og var tilnefndur til hinnar virtu Mercury tónlistarverðlauna fyrir vikið. Fyrsta smáskífan af breiðskífu sem er væntanleg í vor kom út í síðustu viku og vonandi fáum við að heyra nýtt efni frá kappanum á tónleikum hans á laugardaginn. Þá mun hann einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpu á föstudagskvöldinu.
Gus Gus
Gus Gus eru fyrir löngu orðin að stofnun í íslenskri raftónlist og tónleikar þeirra eru á heimsmælikvarða á alla hljóð- og sjónræna kanta. Þeirra síðasta plata, Arabian Horse, fékk nánast einróma lof gagnrýnandi og er af mörgum talin þeirra besta verk. Þeir munu frumflytja nýtt efni á hátíðinni.
Trentemøller
Anders Trentemøller er einn fremsti raftónlistarmaður í Danaveldi og hefur heiðrað Íslendinga ófáum sinnum bæði með live tónlistarflutningi og skífuþeytingum. Hann mun leggja stund á hið síðarnefnda á í Norðurljósasal Hörpu á laugardagskvöldið og undirritaður getur staðfest að enginn verður svikinn af Trentemøller dj-setti. Þau eru þung en jafnframt aðgengileg þar sem hann spilar oft eigin remix af þekktum poppslögurum.
Mugison
Ólafur Örn Elíasson, betur þekktur sem Mugison, hefur verið ein helsta poppstjarna Íslands undanfarin ár og selt meira en 30.000 eintök af sinni nýjustu plötu. Í byrjun ferilsins spilaði þó raftónlistin meiri rullu í tónlist hans og á Sónar hátíðinni mun hann notast við hljóðgervil sem hann smíðaði sjálfur, ásamt Páli Einarssyni félaga sínum, frá grunni. Ekki er ólíklegt að hann muni sína á sér sjaldséða hlið á hátíðinni og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara.
Hermigervill
Hermigervill er frábær tónlistarmaður sem á sínum tveimur síðustu plötum hefur dundað sér við að uppfæra helstu dægurlagasmelli Íslandssögunnar yfir í rafrænan búning. Tónleikar með honum eru einstök upplifun þar sem hann kemur fram einn ásamt lager af raftólum og djöflast af mikilli innlifun á hljóðgervla, samaplera, plötuspilara, þeramín, og grípur jafnvel í fiðlu ef vel liggur á honum. Heyrst hefur að hann sitji á nýju frumsömdu efni og verður spennandi að heyra það á tónleikum hans um helgina.
Fyrsta smáskífan af fimmtu plötu The Strokes
New York hljómsveitin The Strokes sendi í kvöld frá sér fyrstu smáskífuna af fimmtu plötu sveitarinnar Comedown Machine sem kemur út 26. mars. Lagið heitir All The Time og þykir hljómur þess minna á hljóm upphafsára hljómsveitarinnar sem gáfu út sína fyrstu plötu Is This It árið 2001. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.
Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti
Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.
Squarepusher
Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.
Sísí Ey
Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.
Modeselektor
Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.
LFO
LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.
Alva Noto og Ryuichi Sakamoto
Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.
Beck endurtúlkar Sound And Vision
Í tilefni af því að 26 ár eru síðan smellurinn Sound and Vision með David Bowie kom út hefur hinn vísindakirkjurækni Beck í samstarfi við hljómsveit á stærð við her smáríkis tekið upp sína eigin túlkun af laginu. Hún er níu mínútna löng og á köflum hádramatísk og gæsahúðarvaldandi. Herlegheitin voru svo tekin upp með nýrri 360º myndbandstækni og hægt á að vera að upplifa flutninginn úr hvaða sæti sem er í salnum með því að velja mismunandi sjónarhorn á síðunni helloagain á næstu dögum. Þangað til það verður geta lesendur horft á hefðbundna upptöku hér fyrir neðan sem er þó ein og sér alveg stórbrotin upplifun.
Kurt Vile með nýja plötu
Kurt Vile mun gefa út plötuna Walkin On A Pretty Daze þann 9. apríl. Platan sem er 69 mínútur að lengd var tekin upp af upptökustjóranum John Agnello í hinum ýmsu upptökuverum í Bandaríkjunum seinni hluta síðasta árs. Síðasta plata Vile Smoke Ring For My Halo var plata ársins hér í Straumi árið 2011. Hlustið á opnunarlagið af plötunni hér fyrir neðan.