Spennandi tónar á Sónar – Seinni hluti

Sónar tónlistarveislan hefst í dag og Straumur hvetur alla sem á hanska geta haldið til að sjá eftirtalda listamenn en þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á hátíðina.

James Blake

Hinn breski Blake er einungis 24 ára gamall en skaust upp á stjörnuhimininn með sinni fyrstu breiðskífu samnefndri listamanninum sem kom út í byrjun árs 2011. Þar blandaði hann saman dubstep og sálartónlist á einstaklega smekklegan hátt og var tilnefndur til hinnar virtu Mercury tónlistarverðlauna fyrir vikið. Fyrsta smáskífan af breiðskífu sem er væntanleg í vor kom út í síðustu viku og vonandi fáum við að heyra nýtt efni frá kappanum á tónleikum hans á laugardaginn. Þá mun hann einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpu á föstudagskvöldinu.

Gus Gus

Gus Gus eru fyrir löngu orðin að stofnun í íslenskri raftónlist og tónleikar þeirra eru á heimsmælikvarða á alla hljóð- og sjónræna kanta. Þeirra síðasta plata, Arabian Horse, fékk nánast einróma lof gagnrýnandi og er af mörgum talin þeirra besta verk. Þeir munu frumflytja nýtt efni á hátíðinni.

Trentemøller

Anders Trentemøller er einn fremsti raftónlistarmaður í Danaveldi og hefur heiðrað Íslendinga ófáum sinnum bæði með live tónlistarflutningi og skífuþeytingum. Hann mun leggja stund á hið síðarnefnda á í Norðurljósasal Hörpu á laugardagskvöldið og undirritaður getur staðfest að enginn verður svikinn af Trentemøller dj-setti. Þau eru  þung en jafnframt aðgengileg þar sem hann spilar oft eigin remix af þekktum poppslögurum.

Mugison

Ólafur Örn Elíasson, betur þekktur sem Mugison, hefur verið ein helsta poppstjarna Íslands undanfarin ár og selt meira en 30.000 eintök af sinni nýjustu plötu. Í byrjun ferilsins spilaði þó raftónlistin meiri rullu í tónlist hans og á Sónar hátíðinni mun hann notast við hljóðgervil sem hann smíðaði sjálfur, ásamt Páli Einarssyni félaga sínum, frá grunni. Ekki er ólíklegt að hann muni sína á sér sjaldséða hlið á hátíðinni og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara.

Hermigervill

Hermigervill er frábær tónlistarmaður sem á sínum tveimur síðustu plötum hefur dundað sér við að uppfæra helstu dægurlagasmelli Íslandssögunnar yfir í rafrænan búning. Tónleikar með honum eru einstök upplifun þar sem hann kemur fram einn ásamt lager af raftólum og djöflast af mikilli innlifun á hljóðgervla, samaplera, plötuspilara, þeramín, og grípur jafnvel í fiðlu ef vel liggur á honum. Heyrst hefur að hann sitji á nýju frumsömdu efni og verður spennandi að heyra það á tónleikum hans um helgina.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *