Yuck gefa út fyrsta lagið af væntanlegri plötu

Margir efuðust um framtíð indie rokk sveitarinnar Yuck eftir að aðalöngvarinn Daniel Blumberg yfirgaf bandið til að einbeita sér að sólóferli undir nafninu Hebronix. Hljómsveitin sem nú starfar sem tríó hefur hins vegar svarað þeim efasemdum og sent frá sér lagið „Rebirth“ og er önnur plata þeirra í bígerð þó ekki sé enn kominn staðfestur útgáfudagur.
Yuck gáfu út sjálftitlaðan frumburð árið 2010 sem innihélt fuzzað 90‘ indí rokk og var þeim líkt við bönd á borð við Pavement, Dinosaur Jr. og My Bloody Valentine.
Þó stórt skarð hafi hoggið í Yuck við brotthvarf Blumberg virðist hljómsvein höndla það ágætlega og nýja lagið „Rebirth“ ekki alslæmt þó 90‘ fýlingurinn sé ekki alveg sá sami og á fyrstu plötunni og nálgast bandið nær shoegaze stefnunni.

Fyrsta plata Mazzy Star í 17 ár væntanleg

Draumkennda alternative hljómsveitin Mazzy Star hefur verið starfrækt frá árinu 1988 með nokkrum hléum og á þeim tíma gefið út þrjár plötur og er sú fjórða Season Of Your Day væntanleg þann 24. September. Síðasta breiðskífa Mazzy Star Among My Swan kom út árið 1996 en sveitin virðist engu hafa gleymt og hafa þau sent frá sér lagið „California“ því til staðfestingar.

Classixx remixa The Preatures

Classixx er bandarískur dj-dúett sem samanstendur af þeim Michael David og Tyler Blake og kom fyrsta plata þeirra Hanging Gardens út í maí á þessu ári. Þeir hafa nú tekið lagið „Is This How You Feel“ frá hljómsveitinni The Preatures og gefið því nýtt líf með ferskum synthatónum sem fara laginu ákaflega vel.

Tónleikar vikunnar

Þriðjudagur 16. júlí

R&B stórstjarnan Frank Ocean heldur tónleika í  Laugardalshöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það kostar 8.900 kr í stæði og 13900 í stúku, enn er hægt að kaupa miða á midi.is

Stroff, Skelkur í bringu og Sindri Eldon spila á neðri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Á jazzkvöldi KEX kemur fram kvartett kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar eru þeir Eyþór Gunnarsson á píanó, Samuel J. Samúelsson á básúnu og slagverk og Sigtryggur Baldursson á conga trommur. Tónlistin hefst kl. 20:30 og stendur í u.þ.b. 2 klst., með hléi. Sem fyrr er aðgangur ókeypis

 

Miðvikudagur 17. júlí

Hjómsveitin Chic undir styrkri handleiðslu stofnandans Nile Rodgers mun koma fram á tónleikum í Silfurbergi Hörpu. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sisi Ey munu opna kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Enn er hægt að kaupa miða á midi.is og kostar 8.500 kr inn.

Raftónlistarpartý á Harlem -Tvíeykið MRC Riddims frá New York [nánar tiltekið Harlem] leikur á tónleikum á nýopnuðum innri sal Harlem (áður Volta). Ghostigital, AMFJ og Lord Pusswhip spila einnig í partíinu og Berglind Ágústsdóttir kemur sérstaklega fram með sín eigin lög í miðju setti MRC Riddims. Partýið stendur frá 22:00 – 01:00 og kostar 1000 kr. inn.

Ylja, Hymnalaya og Stormur halda tónleika á efri hæð Faktorý sem hefjast klukkan 22:00. Það kostar 1500 kr inn.

 

 

Fimmtudagur 18. júlí

Hljómsveitin Boogie Trouble spilar ljóðrænan diskó í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum kl 17:00.

NÆNTÍS VEIZLA í boði Sindra Eldon á Harlem Bar: TREISÍ, JÓN ÞÓR og SINDRI ELDON & THE WAYS koma fram auk þess sem Sindri mun Dj-a til lokunnar.

Gítarveisla í Bíó Paradís en þar stíga á stokk hljómsveitirnar Stroff, Skelkur í Bringu, Bárujárn og Dreprún. Tónleikarnir hefjast 22:00 og er frítt inn.

Sign og We Made God spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 2000 kr inn.

 

 

Föstudagur 19. júlí

Hljómsveitin Hymnalaya hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu, „Hymns“. Sveitin ætlar að fagna því með léttum ókeypis tónleikum í 12 Tónum á Skólavörðustíg sem hefjast klukkan 17:30.

Moses Higtower og 1860 spila á efri hæð Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það kostar 1500 kr inn.

 

 

Laugardagur 20. júlí

KEX Hostel, KEXLand og bandaríska útvarpsstöðin KEXP ætla að bjóða öllum á útitónleikana KEXPORT við Kex Hostel laugardaginn 20. júlí næstkomandi. Tónleikarnir fara fram í portinu við Kex Hostel og hefjast kl. 12 á hádegi og lýkur um miðnætti. Alls munu 12 hljómsveitir koma fram á klukkutímafresti á þessum maraþon tónleikum. Fram koma: BABIES // BOOGIE TROUBLE // HJALTALÍN // KIPPI KANINUS // LOJI // MOSES HIGHTOWER // MUCK // NOLO // SAMÚEL J SAMÚELSSON BIG BAND // SÍSÍ EY // SYKUR //

 

Hjaltalín heldur tónleika á Faktorý, laugardagskvöldið 20. júlí. Um upphitun sér hljómsveitin Japam. Húsið opnar klukkan 22 og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22:45. Miðasala fer eingöngu fram við hurð og er aðgangseyrir 1.500 krónur.

 

 

 

 

 

Edward Sharpe and the Magnetic Zeros platan aðgengileg hlustunar

Þó enn sé vika í útgáfu sjálftitlaðrar plötu Edward Sharpe and the Magnetic Zeros hefur hljómsveitin skellt plötunni á netið og gert hana aðgengilega hlustunar. Þetta er þriðja breiðskífa bandsins sem fylgir á eftir plötunni Here sem kom út í fyrra en frumburður sveitarinnar Up from Below kom út árið 2009.
Edward Sharpe and the Magnetic Zeros (platan) er í takt við fyrra efni hljómsveitarinnar og inniheldur mjúkt sveitalegt þjóðlagarokk sem ætti að koma flestum í gott skap. Platan sem kemur formlega út 23. júlí inniheldur 12 lög og fyrir rúmlega mánuði síðan kom út fyrsta smáskífan „Better Days“.
Leppur hljómsveitarinnar Alex Ebert er virkilega ánægður með væntanlega plötu og segir þetta hráasta og frjálslegasta efni  sem komið hefur frá Edward Sharpe and the Magnetic Zeros til þessa. Hlustið hér!

 

Mike D úr Beastie Boys sendir frá sér lag

Þó svo Beastie Boys hafi lagt upp laupana eftir andlát Adam Yauch á síðasta ári hefur Mike D ekki lagt hljóðnemann endanlega á hilluna. Mike fékk beiðni frá tískuhátíð um að semja efni fyrir sýningu og úr varð 10 mínútna langt  lag „Humberto Vs the New Reactionaries (Christine and the Queens Remix“. Síðasta plata Beastie Boys Hot Sauce Committee Part Two innihélt lagið To Many Rappers (New Reactionaries) en rapparinn Nas átti einnig þátt í því lagi. Með  útgáfu lagsins vill Mike heiðra harðkjarna bönd eins og Bad Brains og Cirle Jerks sem höfðu mikil áhrif á tónsmiðar hans.
Mike D er greinilega ekkert mýkjast upp með aldrinum og stendur vel undir nafni því lagið er þungt framtíðar raf pönk þar sem hann lætur hljóðnemann finna vel fyrir því. Mike segir þetta ekki sitt síðasta verk en þó sé ekkert væntanlegt frá honum í bili.

Fyrrum hljómborðsleikari Of Monsters and Men með nýtt band

Árni Guðjónsson hljómborðsleikari sem yfirgaf hljómsveitina Of Monsters and Men síðasta haust hefur nú stofnað rafpopphljómsveitina Blóðberg. Hljómsveitin hefur seinustu þrjá mánuði unnið að sex laga smáskífu þar sem sungið er bæði á íslensku og ensku. Upptökur fóru fram í Hljómi á Seltjarnarnesi og upptökustjórn var í höndum Páls Orra Péturssonar.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru Valborg Ólafsdóttir (söngur), Árni Guðjónsson (hljómborð,synthar), Helgi Kristjánsson (slagverk, rafgítar og synthar), Hjörvar Hans Bragason (synthabassi, rafbassi) og Orri Guðmundsson (raftrommur).

Þau hafa komið víða við á sínum tónlistarferli og hafa leikið með hljómsveitum á borð við Lovely Lion, Ásgeiri Trausta, Ylju, Orphic Oxtra, Útidúr, Fjallabræður, Vicky og Of Monsters and Men.

Hlustið á fyrstu smáskífu Blóðberg – Óskir hér fyrir neðan. Á upptöku lagsins leikur Hrafnkell Gauti Sigurðsson á rafgítar en hann er þekktastur fyrir leik sinn í hljómsveitum á borð við Ojba rasta og Berndsen.

Tónleikar helgarinnar

Straum.is er snemma í því að þessu sinni að taka saman tónleika helgarinnar vegna þess að miðvikudagskvöldið er óvenju öflugt í tónleikahaldi í þessari viku. Lesið, njótið og mætið.

Miðvikudagur 10 júlí

Síðustu daga Faktorý nálgast nú óðum og undanfarið hafa ýmsir þekktir tónlistarmenn kvatt þennan ástkæra tónleikastað með því sem þeir kunna best, að halda hljómleika. Í kvöld munu Sin Fang og Pascal Pinion segja bless við Faktorý en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Hin aldna söngdíva Dionne Warwick syngur á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Hana er óþarfi að kynna en ennþá eru til miðar á midi.is

Breski plötusnúðurinn Mixmaster Morris sem kominn er hingað til lands til að leika á Extrem Chill hátíðinni á Hellissandi mun þeyta skífum í plötubúðinni Lucky Records frá 16 til 19 í dag.

Grísalappalísa heldur útgáfugleðskap á Kex Hostel sem hefst klukkan 20:00. Glænýtt tónlistarmyndband verður frumsýnt og veigar verða í boði, auk þess sem reggísveitin Amaba Dama stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.

Fimmtudagur 11. júlí

Samaris halda útgáfutónleika á Volta af því tilefni að EP-plöturnar Hljómar Þú og Stofnar falla hafa nú verið gefnar út saman í einum pakka, en þær voru uppseldar og þess vegna ófáanlegar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur, eða 2500 og þá fylgir geisladiskurinn með. Einnig koma fram Yagya og Dj Yamaho.

Skúli Mennski er nýkominn í bæinn eftir vel heppnaða tónleikaferð um landsbyggðina og til að fagna því slær hann upp uppskeruhátíð á Rósenberg. Þar munu Skúli mennski og Robert the Roommate tefla fram sínu allra besta eftir túrinn. Herlegheitin hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 1500.

Fjöllistahópurinn Tónleikur kemur fram á Loft Hostel. Leikurinn og leikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangseyrir er enginn eins og venjulega.

Þetta kvöldið verða það rapparar sem sjá um að kveðja Faktorý þegar Forgotten Lores, Heimir BjéJoð (úr Skyttunum), B-Ruff og nýstirnið Kött Grá Pé leiða saman hesta sína og rímur. Dyrnar opnast 21:00, rappleikarnir hefjast klukkutíma síðar og það kostar 1500 inn, en stór bjór fylgir fyrir þá 150 fyrstu sem kaupa sig inn.

Klukkan 20:00 mun áhöfnin á Húna sigla til Reykjavíkur og halda risatónleika í Gömlu höfninni í Reykjavík. Sem fyrr ætlar áhöfnin að styrkja björgunarsveitirnar í landinu með því að gefa alla vinnu sína og rennur aðgangseyrir beint til björgunarsveitanna í Reykjavík. Téður eyrir er 1500 krónur en ókeypis er einn fyrir börn 12 ára og yngri.

Hljómsveitin Ylja spilar hugljúfa folk tónlist í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum klukkan 17:00.

Föstudagur 12. júlí

Hljómsveitin Bárujárn og tónlistarmaðurinn Jón Þór leiða saman bikkjur sínar og glamra á gaddavíra á Hressó í kvöld. Brimbrettarokksveitin Bárujárn gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu og fyrsta plata Jón Þórs, Sérðu mig í Lit, fékk góðar viðtökur þegar hún kom út seint á síðasta ári. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og það er ókeypis inn en hægt verður að kaupa plötur af listamönnunum á staðnum.

Tónleikarnir Upp rís úr rafinu, sem helgaðir eru akústískri raftónlist, verða haldnir í Kaldalóni Hörpu klukkan 20:00. Þar munu tónskáldin Árni Guðjónsson, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Finnur Karlsson, Gunnar Gunnsteinsson, Halldór Smárason og Haukur Þór Harðarson temja skepnur rafsins hver á sinn hátt svo þær leiki um skyn áheyrandans ýmist í samhljómi með akústískum hljóðfærum eða syngjandi einar síns liðs. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Að lokum er vert að minnast á tvær frábærar en mjög ólíkar tónlistarhátíðir sem hefjast báðar á föstudeginum, Raftónlistarveisluna Extreme Chill á Hellissandi á Snæfellsnesi og svo þungarokkshátíðin Eistnaflug sem haldin er á Neskaupstað. Hátíðirnar standa fram á sunnudag.

Laugardagur 13. júlí

Listamenn af Rauðasandi Festival 2013 ætla að þakka fyrir sig með tónleikum á Gamla Gauknum en fram koma Nolo, Babies, Amaba Dama og Hljómsveitt. Ballið hefst klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

Síðasta fastakvöld RVK Soundsystem verður haldið á Faktory í hliðarsalnum og hefst það að venju á slaginu miðnætti.

Útgáfupartý Grísalappalísu

Fyrsta plata reykvísku sveitarinnar Grísalappalísu kemur út í dag og ber hún heitið Ali. Platan er ferskur andblær í íslenska tónlistarsenu, hrærigrautur af fönkuðu pönki, nýbylgju og súrkáli með íslenskum textum sem eiga meira skylt við ljóð en hefðbundna rokktexta. Í tilefni af útgáfunni verður haldið teiti á KEX Hostel klukkan 20:00 í kvöld en þá verður frumsýnt myndband við lagið Hver er ég? Léttar veigar verða í boði og hljómsveitirnar Amaba Dama og Létt á bárunni leika fyrir dansi og gleði.

Listahátíð á Stöðvarfirði

Pólar festival er tveggja daga lista- og frumkvöðlahátíð sem verður haldin á Stöðvarfirði næstu helgi. Hátíðin er haldin í samvinnu við Maður er manns gaman, sjálfbæra þorpshátíð sem hefur verið starfrækt á Stöðvarfirði undanfarin ár.

Pólar byggir á hugmyndafræði sem mætti þýða á íslensku sem hæfileikasamfélag (e. skillsharing).  Ætlunin er að  ná saman fólki úr ólíkum áttum og margvíslegum skapandi greinum til þess að deila reynslu sinni og þekkingu og rannsaka nýja möguleika í samvinnu, sköpun og framleiðslu. Dagskráin felst í stuttum og fjölbreyttum námskeiðum, fyrirlestrum og ýmsum listviðburðum.

Á laugardeginum verður svo slegið upp heljarinnar tónleikum þar sem diskóboltarnir í Boogie Trouble og lo-fi grallararnir í Just Another Snake Cult stíga á stokk ásamt trip hop sveitinni Urban Lumber.