Reykvíska hljómsveitin Tilbury snýr til baka með sína aðra plötu rétt fyrir Iceland Airwaves. Hljómsveitin sendi á dögunum frá sér lagið Northern Comfort sem verður að finna á plötunni. Lagið hefur að geyma stórbrotinn hljóðheim sem vísar líklega í lífið hér á norðurslóðum.
Category: Fréttir
Mugison, Jónas Sig og Ómar Guðjóns stofna band!
Drangar er ný hljómsveit sem er skipuð þeim Mugison, Jónasi Sig & Ómari Guðjóns. Hljómsveitin var stofnuð í nóvember á síðasta ári þegar þeir Jónas Sig og Ómar Guðjóns voru á tónleikaferð um landið. Þeir fengu Mugison með sér á svið á tónleikum á Vagninum á Flateyri og varð þar til þetta þriggja manna bræðralag. Síðan í febrúar hafa þeir verið við vinnslu á plötunni og hefur megnið af vinnunni farið fram á Súðavík, Borgarfirði Eystri og Álafoss kvosinni. Platan Drangar með Dröngum kemur í verslanir um miðjan október og eru öll lög og textar eftir þá Mugison, Jónas Sig og Ómar Guðjóns. Auk þess eru þeir félagar búnir að skipuleggja mikla tónleikaferð í kringum landið núna í október og nóvember og verður sú ferð auglýst nánar á næstu dögum. Hér fylgir með fyrsta lag af plötunni Drangar sem ber það nafnið Bál.
Fyrsta plata Haim komin á netið
Frumburður systra tríósins Haim hefur verið settur á netið en platan kemur formlega út þann 30. september. Afrekið nefnist Days Are Gone og hafa nú þegar fjögur lög af plötunni komið út sem smáskífur en í heildina inniheldur hún 11 lög. 70‘s andi svífur yfir plötunni en hljómsveitinni hefur helst verið líkt við Fleetwood Mac og standast þær stöllur vel þann samanburð.
Hlustið hér.
Tónleikar vikunnar
Þriðjudagur 24. september
Bandaríski tónlistarmaðurinn C.J. Boyd spilar á Harlem bar ásamt The Heavy Experience og Þórir Georg. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 1000 krónur inn.
Tómas R. verður með Latin Jazz á Kex Hostel. Ókeypis inn og jazzinn hefst klukkan 8:30.
Miðvikudagur 27. september
Hjalti Þorkelsson heldur haustveðurstónleika á Rósenberg. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.
Fimmtudagur 26. september
Tilraunakenndir fjáröflunartónleikar á Gamla Gauknum á fimmtudaginn sem óhljóða og jaðarlista félagskapurinn FALK (Fuck Art Let’s Kill) stendur fyrir. AMFJ og KRAKKKBOT spila og Þóranna aka Trouble og Harry Knuckles hita upp um kvöldið sem hefst klukkan 21:00. Það kostar 1000 krónur inn.
Sindri Eldon kemur fram ásamt The Ways næstkomandi á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Föstudagur 27. september
Hljómsveitin Nolo frumflytur nýtt efni á Kaffibarnum. M-band sér um upphitun og hefjast tónleikarnir klukkan 21:30 og ókeypis er inn.
IfThenRun, 7oi, Nuke Dukem, Steve Sampling og Subminimal koma fram á Heiladans 28 á Bravó. Fjörið hefst klukkan 20 og er ókeypis inn en Möller Records biðlar til fólks um að styrkja útgáfuna vegna ferðalags hennar til Þýskalands í byrjun október.
Laugardagur 28. september
Hljómsveitirnar Klikk, Mass og Aria Lamia leiða saman hesta sína á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Moby gerir plötuna Innocents aðgengilega
Skallapopparinn Moby kemur til með að gefa út sína elleftu breiðskífu Innocents um næstkomandi mánaðarmót en platan hefur nú þegar verið gerð aðgengileg á netinu.
Moby var ekki einmanna í hljóðverinu við gerð plötunnar og voru það Mark Lanegan, Damien Jurado, Skyler Grey og Wayne Coyne úr The Flaming Lips ásamt fleiri listamönnum sem lögðu hönd á plóg. Upptökustjórinn Mark „Spike“ Stent stjórnaði upptökum á plötunni en hann hefur m.a. unnið með Björk, Muse, Oasis, Massice Attack, Coldplay og svo mætti lengi telja. Útkoman er vönduð svæfandi raftónlist sem fer um víðan völl en kemur líklegast ekki til með heyrast á diskótekum.
Hlustið hér
Tonmo gefur út
Hinn 19 ára gamli reykvíkingur Tómas Davíð sem gengur undir listamannsnafninu Tonmo gaf í síðustu viku út sína fyrstu ep plötu. Platan sem nefnist 1 er 8 laga raftónlistarplata undir áhrifum hip-hop og chillwave sem rennur ljúft í gegn. Tómas samdi og tók upp plötuna þegar hann bjó í Huntington Beach í Kaliforníu fyrr á þessu ári. Hlustið á plötuna á Bandcamp hér fyrir neðan.
Sky Ferreira með nýtt lag
Bandaríska söngkonan Sky Ferreira sendi fyrr í dag frá sér smáskífuna You’re Not The One sem verður að finna á væntanlegri plötu hennar Night Time, My Time sem kemur út 29. október. Ferreira komst í fréttirnar á dögunum þegar hún var handekin ásamt unnusta sínum, Zachary Cole Smith söngvara hljómsveitarinnar DIIV, í New York með 42 skammta af heróíní. Hlustið á hið frábæra lag You’re Not The One hér fyrir neðan.
Nýtt frá Leaves
Reykvíska hljómsveitin Leaves sendi fyrr í dag frá sér aðra smáskífuna af plötunni See You In The Afterglow sem kemur út á vegum Records Records þann 11. október næstkomandi. Lagið heitir Ocean og er eitt það besta sem við höfum heyrt frá sveitinni frá því að platan Breathe kom út árið 2002.
Beliefs spila á Harlem í kvöld
Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem í kvöld en tónleikarnir eru fyrsta stoppið á löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á þessu ári á miðlum eins og Pitchfork, Stereogum, NME og Guardian. Beliefs sækir stíft í arf sveita á borð við My Bloody Valentine og áhugamenn um ómstríða gítarveggi, effektapedala og loftkenndar raddir ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem. Hlustið á lagið Gallows Bird hér fyrir neðan og horfið á myndband við lagið Lilly.
Tónleikar Helgarinnar
Helgin byrjar að venju snemma á straum.is og hér verður farið yfir það markverðasta í tónlistarflutningi á höfuðborgarsvæðinu fram yfir helgi.
Miðvikudagur 18. september
Snorri Helgason og hljómsveit gáfu út sína þriðju plötu, Autumn Skies, 13. september síðast liðinn og að því tilefni mun sveitin blása til útgáfutónleika í Fríkirkjunni. Sveitin mun leika tónlist af nýju plötunni í bland við efni af tveimur eldri plötum sveitarinnar, I’m Gonna Put My Name On Your Door (2009) og Winter Sun (2011). Áður en Snorri Helgason stígur á stokk munu tónlistarmennirnir Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson flytja nokkur lög af plötunni The Box Tree (2012) sem hlaut m.a. verðlaun fyrir hljómplötu ársins í flokki djass og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor. Dyr Fríkirkjunnar opna klukkan 19:30 en tónleikarnir hefjast stundvíslega hálftíma síðar, aðgangseyrir er 2500 krónur. Eftirpartý eftir tónleikana verður haldið á Harlem þar sem Múm, Hjaltalín, FM Belfast og Sin Fang verða með DJ sett, en þangað er ókeypis inn.
Rafpopparinn Kristján Hrannar sem áður var í þjóðlagasveitinni 1860 heldur útgáfutónleika fyrir plötu sína Anno 2013 sem kom út fyrir skemmstu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 í þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og aðgangseyrir er 2500 krónur. Einar Lövdahl sem einnig gaf út sína fyrstu plötu nýlega sé um upphitun.
Allt er þegar þrennt er, en trommarinn Ásgeir Óskarsson fagnar einnig útgáfu á plötu sinni, Fljúgðu með mér, í Kaldalónssal Hörpu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3500 krónur.
Fimmtudagur 19. september
Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem en tónleikarnir eru fyrsta stoppið í löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á miðlum eins og Pitchfork, Steregum, NME og Guardian og áhugamenn um marglaga gítarveggi og effektapedala ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem.
Hljómsveitin 1860 gaf nýverið út sína aðra hljóðversplötu, Artificial Daylight, og halda í tilefni af útgáfu hennar tónleika í Iðnó. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.
Föstudagur 20. september
Kanadíska rokksveitin The Stanfield heldur tónleika á KEX Hostel. Hljómsveitin er á leið í tónleikaferð til Evrópu og ákváðu að skella í eina órafmagnaða tónleika í stuttu stoppi þeirra á Íslandi. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og ókeypis er á tónleikana.
Skoski tónlistarmaðurinn Ste Mccabe kemur fram á Dillon. Hann spilar electro pönk í anda Rapeman og Big Black en um upphitun sjá Re-Pete & The Wolf Machine. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangur er ókeypis.
Miðnæturtónleika Hide Your Kids á Gauknum. Það er frítt inn og húsið opnar klukkan 24:00. Hide your kids stígur á svið klukkan 00:30
Laugardagur 21. september
Við leggjum ekki í vana okkar að auglýsa kvikmyndasýningar í þessum lið en þó verður ekki hjá því komast að vekja athygli á því að heimildamyndin Shut Up And Play The Hits, verður sýnd í Bíó Paradís klukkan 20:00. Myndin fjallar um lokatónleika sveitarinnar LCD Soundsystem sem voru haldnir í Madison Square Garden í New York fyrir tveimur árum síðan. Tónleikaatriði myndarinnar eru mögnuð og nokkrir bjórar yfir sýningunni eru tilvalin byrjun á laugardagskvöldi. Miðaverð er einungis 700 krónur en evrópskri dansmenningu verður fagnað eftir sýninguna þar sem DJ Yamaho og DJ Housekell munu halda uppi evrópskri klúbbastemningu fram á rauða nótt.
Sænska postmetalhljómsveitin Cult of Luna stígur á stokk á Gamla Gauknum. Hljómsveitin hefur verið starfrækt síðan 1998 og er oft nefnd í sömu andrá og Neurosis og Isis en nýjasta plata þeirra, Vertikal, hefur hlotið nær einróma lof erlendra miðla. Um upphitun sjá ein fremsta hljómsveit íslensku þungarokkssenunnar, Momentum ásamt Wackenhetjunum í Gone Postal og dauðarokkurunum í Angist. Húsið opnar kl. 22:00 og miðinn kostar 2500 kr í forsölu.