Streymið nýju plötu Sleigh Bells

 

Ef þú ert orðin(n) þreytt(ur) á lélegum hljómgæðum í gömlu hátölurum og vantar bara herslumuninn uppá að sprengja þá til að hafa ástæðu til fjárfesta í nýjum ætti Bitter Rivals að vera svarið. Sleigh Bells koma til með að gefa plötuna út þann 8. október og verður hún sú þriðja sem kemur frá bandinu. Dúóið hefur hins vegar tekið forskot á sæluna og smellt plötunni í heild sinni á netið, þá er bara að botna græjurnar og hlusta á lætin hér.

jfm og steed lord gefa út lag

Í síðasta þætti Hljómskálans leiddu saman hesta sína stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon og stuðsveitinn Steed Lord. Útkoman var lagið „Viva La Brea“ sem er óður til Los Angeles borgar þar sem Steed Lord heldur til og myndbandið tekið á rúntinum um borgina þar sem Svala og Jakob spóka sig um í gömlum Audi. Daft Punk fýlingurinn leynir sér ekki í laginu og þó svo tónlistarstefnur þessara listamanna eigi ekki mikið sameiginlegt finna þau fullkominn milliveg.

Hlustið á fyrsta lag Starwalker

Hljómsveitinn Starwalker hefur nú gefið út sitt fyrsta lag sem nefnist Bad Weather. Starwalker er dúett Barða Jóhannssonar sem oft er kenndur við Bang Gang og J.B. Dunckel sem er best þekktur sem annar helmingur frönsku hljómsveitarinnar Air. Báðir eru þekktir sándpervertar og er hljómur lagsins eftir því, hnausþykkur synthabassi og retró orgel blandast píanó, kassagítar og strengjum og loftkennd rödd Barða svífur svo yfir öllu saman. Hlustið á lagið hér fyrir neðan en myndband við það er væntanlegt síðar í vikunni.

Straumur 30. september 2013

Í Straumi í kvöld kíkjum við á nýtt efni frá Oneohtrix Point Never, Danny Brown, Ben Khan, Mammút, Sky Ferreira, The Range, Lorde, Say Lou Lou  og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 í kvöld á X-inu 977!

Straumur 30. september 2013 by Straumur on Mixcloud

1) You’re Not The One – Sky Ferreira
2) 400 Lux – Lorde
3) Ribs – Lorde
4) The Mother We Share (Moonboots remix) – Chvrches
5) 25 Bucks (ft. Purity Ring) – Danny Brown
6) Clean Up – Danny Brown
7) Float On (ft. Charli XCX) – Danny Brown
8) Metal Swing – The Range
9) Celebraiting Nothing – Phantogram
10) Boring Angel – Oneohtrix Point Never
11) Zebra – Oneohtrix Point Never
12) Eden – Ben Khan
13) Green Window – Memory Tapes
14) In Time – Memory Tapes
15) Help Me Lose My Mind (ft. London Grammar) (Paul Woolford remix) – Disclosure
16) Blóðberg – Mammút
17) Feels Like We Only Go Backwards (Tame Impala cover) – Say Lou Lou
18) Shapeshifter – Elephant

 

Airwaves yfirheyrslan – Siggi í UMTBS

Siggi úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins. Siggi hefur verið tíður gestur á Airwaves hátíðum liðinna ára og oft vakið athygli fyrir sviðsframkomu í æstari kantinum.

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Hef aldrei mætt sem gestur. Aðeins sem listamaður.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?


Fyrsta skiptið sem UMTBS spilaði á Airwaves var á miðvikudegi Airwaves árið 2006 á Pravda. Pravda var þá notaður sem fjölmiðlafulltrúaaðsetur og fáir tónleikar fóru þar fram (fyrir utan atriði í kringum tilraunakennda plötusnúða). Við spiluðum á sama tíma og We are scientists – band síns tíma. Gerðu ábreiðu af Hoppípolla með Sigur Rós og allir misstu andlitið. Því vorum við í vondum málum. Við fórum í útvarpsviðtal hjá Steina eitthvaðnafnson umboðsmaður í dag fyrir einhverjar hljómsveitir (Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðmaður Hjaltalín) sem spurði hvort einhver ætlaði að mæta á okkur og hvort við værum nógu gamlir til þess að vera svona seint úti. Það mættu allir á okkur Steini. Enginn á We are scientists. Og ég var úti til miðnættis.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?


Endalaust mörgum. Stanslaust frá árinu 2006 fyrir utan 2011.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Ég sá Gavin Portland eitt árið. Þeir voru magnaðir. Einnig sé ég ekki eftir að hafa tékkað á Samaris á miðvikudeginum í fyrra. Núna þarf ég aldrei að sjá Portishead. Ég nenni aldrei í Hafnarhúsið, of mikil röð. Allaveganna ekki eftir að listamannapassinn gaf manni ekki forgang fremst.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?


Árið 2008 á Nasa með UMTBS. Þeir voru allt í lagi. Og á Hressó sama ár, þeir tónleikar voru hræðilegir.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?


Listamannapassarnir gefa manni ekki lengur forgang fremst. Allt í góðu að selja fleiri miða og pakka staðina. Endilega selja á dýrari verði. Þetta verður að standa undir sér. En hleypa listamönnunum fremst eins og i den.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?


Núna? Það var Nasa. Hlakka til að sjá hvað kemur þangað í staðinn. Brillíant ákvörðun. En núna? Gamli Gaukurinn tekur náttúrulega við af Nasa og hljómar langbest af stöðunum niður í miðbæ, plús að hann rúmar sem flesta. En ég býst við að Harpan sé fín viðbót. Í fyrra pantaði ég mér hanastél á Airwaves og gekk í Hörpunni. Það héldu allir að ég væri svaka merkilegur. Það var gaman. Svo ég segi Harpan og Gaukurinn (ég get ekki svarað fyrir off venue, hef ekki kynnt mér það nógu vel). Ég gleymdi næstum því að spila sjálfur fyrir nokkrum árum. Það hefði verið pínu svekkjandi.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?


Þið getið mætt á hvaða tónleika sem þið viljið. Ekki bara kvöldið sem þið eruð að spila á. Og það er rosalega stór tónlistarhátíð í gangi út um allan miðbæ og víðar í Reykjavík. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég spilaði fyrst á hátíðinni. Og ef þið haldið að listamannapassinn veiti ykkur forgang í tónleikaröðum þá nei…því miður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?


AlunaGeorge. Punktur. Er algjör fíkill í AlunaGeorge. Body Music sem er nýlega komin út er svakalega flott plata. Veit að mínir strákar vilja að ég segi Kraftwerk…en AlunaGeorge. Fyrirgefðu Arnþór, ég er bara meira spenntari fyrir AlunaGeorge. Hlustaðir þú á plötuna? Hún var brillíant.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Gífurlega mikla

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?


Engin áhrif. Við höfum alltaf verið allt of seint á dagskránni til þess að einhver hagsmunaaðili innan tónlistariðnaðarins mæti. En það er alltaf mjög gaman að spila! Við erum í Hörpunni í ár snemma, þannig að við þurfum ekki jafn mikið kaffi til þess að halda okkur vakandi og seinustu ár. Það er mjög jákvætt (nema fyrir kaffifyrirtækin þarna úti eins og Nestlé…þótt ég drekki aldrei Nestlé).

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Í fyrra. Ég man best eftir henni. Sá líka Apparat í Hörpunni. Það var einstaklega skemmtilegt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kostar aukalega inn á Kraftwerk? Náði ég því rétt? Pínu svekkjandi. Ef einhver býður mér á Kraftwerk mæti ég. Annars sé ég bara hitt bandið. Eða ekki. Kannski eitthvað annað band. Kraftwerk eða AlunaGeorge? Alltaf AlunaGeorge. Það kostar líka ekkert aukalega inn á AlunaGeorge. [Því skal komið á framfæri hér að ekkert aukalega kostar inn á Kraftwerk tónleikana sem loka hátíðinni, hins vegar er takmarkað magn miða sem verður útdeilt eftir „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ reglu klukkan 16:00 föstudaginn 1. nóvember  í Hörpu. Því miður fyrir Sigga munu listamannapassar ekki heldur veita forgang í þá röð.]

 

Listasafnið eða Harpa?


Harpa. Engar raðir.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


UMTBS. Í Hörpunni klukkan 8 á föstudagskvöldinu. Einnig lokum við hátíðinni á Harlem. Held ég sé líka að spila í glugganum í Cintamani á föstudeginum (með Ultra þá). Gæti spilað meira. Tók vikuna frá.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?


Mér finnst dálítið súrt að listamannapassinn hleypi manni ekki fremst lengur. Núna þarf maður að þykjast vera franskur pistlahöfundur sem týndi passanum sínum til þess að komast fremst. Dálítið leiðinlegt. Hef misst af nokkrum tónleikum sem ég ætlaði að sjá þegar fréttapassatrikkið virkaði ekki. Annars ekki neitt. Skemmtilegt fólk sem er alltaf að bóka mann á þessa hátíð. Vill allt fyrir mann gera og er ávallt einstaklega spennt fyrir fá mann. Hef búið í miðbænum í nokkur ár og finn alltaf fyrir breytingu á andrúmsloftinu þegar hátíðin fer fram. Það bönkuðu einu sinni þrír útlendingar upp hjá mér á sama deginum á Airwaves og spurðu hvort þeir væru mættir á Kex Hostel. Ég sagði vitanlega já og spilaði fyrir þá á píanóið. Þeir komust fljótt að því að íbúðin mín væri ekki Kex Hostel. Eins og ég segi. Jákvæðni. Og já. Breyta listamannapassanum og hleypa mér fremst. Takk.

Mynd: Leó Stefánsson

Mugison, Jónas Sig og Ómar Guðjóns stofna band!

Drangar er ný hljómsveit sem er skipuð þeim Mugison, Jónasi Sig & Ómari Guðjóns. Hljómsveitin var stofnuð í nóvember á síðasta ári þegar þeir Jónas Sig og Ómar Guðjóns voru á tónleikaferð um landið. Þeir fengu Mugison með sér á svið á tónleikum á Vagninum á Flateyri og varð þar til þetta þriggja manna bræðralag. Síðan í febrúar hafa þeir verið við vinnslu á plötunni og hefur megnið af vinnunni farið fram á Súðavík, Borgarfirði Eystri og Álafoss kvosinni. Platan Drangar með Dröngum kemur í verslanir um miðjan október og eru öll lög og textar eftir þá Mugison, Jónas Sig og Ómar Guðjóns. Auk þess eru þeir félagar búnir að skipuleggja mikla tónleikaferð í kringum landið núna í október og nóvember og verður sú ferð auglýst nánar á næstu dögum. Hér fylgir með fyrsta lag af plötunni Drangar sem ber það nafnið Bál.

Airwaves yfirheyrslan – Gunnar í Grísalappalísu

Sá sem situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins er söng- og öskurspíran Gunnar Ragnarsson. Hann var eitt sinn í ungstirnisbandinu Jakobínurínu en þenur nú raddböndin með sveitinni Grísalappalísu, sem hefur vakið mikla athygli á þessu ári fyrir sínu fyrstu breiðskífu og kraftmikla tónleika.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Það var árið 2004 og ég var 15 ára gamall. Móðir mín hafði talað við umsjónarmenn hátíðarinnar til þess að fulltryggja að ég kæmist á hátíðina þar sem ég væri nú góður drengur sem elskaði tónlist og væri ekki til vandræða. Ég fór ásamt Sigurði vini mínum sem var einu ári yngri og það var ekkert vesen fyrir okkur að komast inn á staðina og upplifunin var frábær fyrir okkur, vernduðu úthverfisdrengina. Mér eru eftirminnilegastir tónleikar The Shins á Gauknum en ég var mikill aðdáandi þeirra á þessum tíma enda algjört indípeð í pólóbol á þessu skeiði.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?

 

Það var árið 2005 með hljómsveitinni Jakobínurínu á Grandrokki. Eins og eflaust margir muna varð eiginlega allt vitlaust og þetta kvöld hafði mikil áhrif á næstu ár í lífi okkar. Við fengum svaka athygli og frábæra dóma fyrir sjóvið m.a. frá David Fricke, Rolling Stone skríbenti og fréttaflutningur var í þá átt að við höfðum nánast „unnið“ Airwaves það árið. Við vorum algjör smábörn og atburðarrásin frá því að vera á Shins árið áður og fíla sig sem einhverskonar stjörnu árið eftir var nokkuð lygileg. Ég man óljóst eftir tónleikunum sjálfum nema að stemmningin var alveg frábær, áhorfendur voru allir sem einn með bros á vör og einfaldlega furðu slegnir yfir að sjá okkur smápollana hoppa og skoppa um sviðið. Ég held að spilagleðin hjá okkur á þessum tíma hafa verið svakalega smitandi – enda var þetta ótrúlega skemmtilegt fyrir okkur. Eftir tónleikana vildu allir tala við okkur og hrósa okkur í hástért, manni fannst þetta vera stærra kvöld en Músíktilraunir sem við höfðum unnið um vorið.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

 

2005, 2006, 2007 með Jako og nú er Grísalappalísa mætt í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

 

!!! (2007), fannst mér alveg frábært. Við vinirnir tættum í okkur Louden Up Now á sínum tíma en höfðum eiginlega gleymt þeim og vorum svo allt í einu mættir á þetta frábæra djamm hjá þeim nokkrum árum seinni. Frábært live band.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?

 

Jakobínarína 2005 á Grandrokki sem ég lýsti áðan en svo voru tónleikarnir árið eftir á Listasafninu alveg jafn eftirminnilegir, sennilega bestu tónleikarnir okkar. Airwaves verðlaunuðu okkur fyrir frammistöðuna árið áður og gáfu okkur frábært slott á milli Apparat Organ Quartet og Go! Team. Við vorum mjög þéttir eftir stíf tónleikaferðalög og það elskuðu okkur allir í salnum og manni fannst maður vera algjör töffari eftir þetta sjóv. Eftir þessa tónleika spiluðum við sjaldan á Íslandi og mér fannst fólk svolítið missa áhugann á okkur, sem var algjörlega skiljanlegt þar sem við vorum ennþá að spila sama efni og vorum aldrei heima og líka með slatta af gelgjustælum. En Airwaves 2005 og 2006 voru algjörir hápunktur hjá þessari blessuðu hljómsveit.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

 

Ég hef nú reyndar ekkert farið síðan ég spilaði síðast. Vinir mínir kvarta frekar mikið yfir röðunum og það sé kannski of margir miðar seldir. Sömuleiðis að gæðin á erlendu músíköntunum hafi farið dvínandi, en lænöppið í ár er nú sennilega með því besta frá upphafi svo það á ekki lengur við.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

 

Grandrokk/Faktorý, út af tilfinningalegum ástæðum.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

 

Spiluðu Graveslime einhvern tímann á Airwaves? Og jú, öllum tónleikum Megasar & Senuþjófana.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

 

Æfa vel, vera metnaðarfullur og fyrst og fremst að njóta þess að spila.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?
Kraftwerk og off-venue tónleikum Veirumanna. Annars er ég spenntastur fyrir því að komast í Airwaves gír með Grísalappalísu.

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

 

$ böns af monnís mah’r! Stökkpallur og allt það, bla bla. Fyrst og fremst gott partí samt – og ástæða fyrir alla að vera í sínu besta formi.

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit/hljómsveitir?

 

Airwaves 2005 hafði þau áhrif að Jakobínarína fékk fína og dannaða breska umboðsmenn, spiluðu á South by Southwest vorið eftir, og gaf út 7″ hjá Rough Trade. Þetta voru svona bein áhrif af því. Svo signuðu Parlophone okkur seinna meir.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

 

Tveimur, þetta er búið að breytast síðan ég var síðast í geiminu.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?

 

2013, þetta verður rafmagnað!

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

 

Krafwerk er algjört uppáhald. Sá þá 2004 í Kaplakrika – með flottari tónleikum sem ég hef farið á.

Listasafnið eða Harpa?

 

Listasafnið, hef aldrei farið á Airwaves í Hörpunni.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

 

Með Grísalappalísu, við opnum hátíðína í Listasafninu kl 20 á miðvikudaginn. Svo erum við í 12 tónum á fimmtudeginum, 17.30/18.15 – man ekki. Svo erum við á Gamla Gauknum, kl 21.40 á föstudeginum og fögnum við þynnkunni kl 12.30 í Hörpunni á off-venue tónleikum fyrir utan 12 tóna verzlunina þar. Svo er aldrei að vita nema við komum ykkur á óvart á förnum vegi þegar þið búist alls ekki við því.

 

 

 

Fyrsta plata Haim komin á netið

 

Frumburður systra tríósins Haim hefur verið settur á netið en platan kemur formlega út þann 30. september.  Afrekið nefnist Days Are Gone og hafa nú þegar fjögur lög af plötunni komið út sem smáskífur en í heildina inniheldur hún 11 lög. 70‘s andi svífur yfir plötunni en hljómsveitinni hefur helst verið líkt við Fleetwood Mac og standast þær stöllur vel þann samanburð.

Hlustið hér.