Airwaves yfirheyrslan – Siggi í UMTBS

Siggi úr Ultra Mega Technobandinu Stefáni situr fyrir svörum í Airwaves yfirheyrslu dagsins. Siggi hefur verið tíður gestur á Airwaves hátíðum liðinna ára og oft vakið athygli fyrir sviðsframkomu í æstari kantinum.

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Hef aldrei mætt sem gestur. Aðeins sem listamaður.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves?


Fyrsta skiptið sem UMTBS spilaði á Airwaves var á miðvikudegi Airwaves árið 2006 á Pravda. Pravda var þá notaður sem fjölmiðlafulltrúaaðsetur og fáir tónleikar fóru þar fram (fyrir utan atriði í kringum tilraunakennda plötusnúða). Við spiluðum á sama tíma og We are scientists – band síns tíma. Gerðu ábreiðu af Hoppípolla með Sigur Rós og allir misstu andlitið. Því vorum við í vondum málum. Við fórum í útvarpsviðtal hjá Steina eitthvaðnafnson umboðsmaður í dag fyrir einhverjar hljómsveitir (Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðmaður Hjaltalín) sem spurði hvort einhver ætlaði að mæta á okkur og hvort við værum nógu gamlir til þess að vera svona seint úti. Það mættu allir á okkur Steini. Enginn á We are scientists. Og ég var úti til miðnættis.

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?


Endalaust mörgum. Stanslaust frá árinu 2006 fyrir utan 2011.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Ég sá Gavin Portland eitt árið. Þeir voru magnaðir. Einnig sé ég ekki eftir að hafa tékkað á Samaris á miðvikudeginum í fyrra. Núna þarf ég aldrei að sjá Portishead. Ég nenni aldrei í Hafnarhúsið, of mikil röð. Allaveganna ekki eftir að listamannapassinn gaf manni ekki forgang fremst.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur?


Árið 2008 á Nasa með UMTBS. Þeir voru allt í lagi. Og á Hressó sama ár, þeir tónleikar voru hræðilegir.

 

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?


Listamannapassarnir gefa manni ekki lengur forgang fremst. Allt í góðu að selja fleiri miða og pakka staðina. Endilega selja á dýrari verði. Þetta verður að standa undir sér. En hleypa listamönnunum fremst eins og i den.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?


Núna? Það var Nasa. Hlakka til að sjá hvað kemur þangað í staðinn. Brillíant ákvörðun. En núna? Gamli Gaukurinn tekur náttúrulega við af Nasa og hljómar langbest af stöðunum niður í miðbæ, plús að hann rúmar sem flesta. En ég býst við að Harpan sé fín viðbót. Í fyrra pantaði ég mér hanastél á Airwaves og gekk í Hörpunni. Það héldu allir að ég væri svaka merkilegur. Það var gaman. Svo ég segi Harpan og Gaukurinn (ég get ekki svarað fyrir off venue, hef ekki kynnt mér það nógu vel). Ég gleymdi næstum því að spila sjálfur fyrir nokkrum árum. Það hefði verið pínu svekkjandi.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?


Þið getið mætt á hvaða tónleika sem þið viljið. Ekki bara kvöldið sem þið eruð að spila á. Og það er rosalega stór tónlistarhátíð í gangi út um allan miðbæ og víðar í Reykjavík. Ég hafði ekki hugmynd um það þegar ég spilaði fyrst á hátíðinni. Og ef þið haldið að listamannapassinn veiti ykkur forgang í tónleikaröðum þá nei…því miður.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár?


AlunaGeorge. Punktur. Er algjör fíkill í AlunaGeorge. Body Music sem er nýlega komin út er svakalega flott plata. Veit að mínir strákar vilja að ég segi Kraftwerk…en AlunaGeorge. Fyrirgefðu Arnþór, ég er bara meira spenntari fyrir AlunaGeorge. Hlustaðir þú á plötuna? Hún var brillíant.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Gífurlega mikla

 

Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þína hljómsveit?


Engin áhrif. Við höfum alltaf verið allt of seint á dagskránni til þess að einhver hagsmunaaðili innan tónlistariðnaðarins mæti. En það er alltaf mjög gaman að spila! Við erum í Hörpunni í ár snemma, þannig að við þurfum ekki jafn mikið kaffi til þess að halda okkur vakandi og seinustu ár. Það er mjög jákvætt (nema fyrir kaffifyrirtækin þarna úti eins og Nestlé…þótt ég drekki aldrei Nestlé).

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Í fyrra. Ég man best eftir henni. Sá líka Apparat í Hörpunni. Það var einstaklega skemmtilegt.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kostar aukalega inn á Kraftwerk? Náði ég því rétt? Pínu svekkjandi. Ef einhver býður mér á Kraftwerk mæti ég. Annars sé ég bara hitt bandið. Eða ekki. Kannski eitthvað annað band. Kraftwerk eða AlunaGeorge? Alltaf AlunaGeorge. Það kostar líka ekkert aukalega inn á AlunaGeorge. [Því skal komið á framfæri hér að ekkert aukalega kostar inn á Kraftwerk tónleikana sem loka hátíðinni, hins vegar er takmarkað magn miða sem verður útdeilt eftir „Fyrstur kemur – fyrstur fær“ reglu klukkan 16:00 föstudaginn 1. nóvember  í Hörpu. Því miður fyrir Sigga munu listamannapassar ekki heldur veita forgang í þá röð.]

 

Listasafnið eða Harpa?


Harpa. Engar raðir.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


UMTBS. Í Hörpunni klukkan 8 á föstudagskvöldinu. Einnig lokum við hátíðinni á Harlem. Held ég sé líka að spila í glugganum í Cintamani á föstudeginum (með Ultra þá). Gæti spilað meira. Tók vikuna frá.

 

Eitthvað sem þú villt koma á framfæri að lokum?


Mér finnst dálítið súrt að listamannapassinn hleypi manni ekki fremst lengur. Núna þarf maður að þykjast vera franskur pistlahöfundur sem týndi passanum sínum til þess að komast fremst. Dálítið leiðinlegt. Hef misst af nokkrum tónleikum sem ég ætlaði að sjá þegar fréttapassatrikkið virkaði ekki. Annars ekki neitt. Skemmtilegt fólk sem er alltaf að bóka mann á þessa hátíð. Vill allt fyrir mann gera og er ávallt einstaklega spennt fyrir fá mann. Hef búið í miðbænum í nokkur ár og finn alltaf fyrir breytingu á andrúmsloftinu þegar hátíðin fer fram. Það bönkuðu einu sinni þrír útlendingar upp hjá mér á sama deginum á Airwaves og spurðu hvort þeir væru mættir á Kex Hostel. Ég sagði vitanlega já og spilaði fyrir þá á píanóið. Þeir komust fljótt að því að íbúðin mín væri ekki Kex Hostel. Eins og ég segi. Jákvæðni. Og já. Breyta listamannapassanum og hleypa mér fremst. Takk.

Mynd: Leó Stefánsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *