Seinna kvöldið á ATP

Þegar ég mætti Atlantic Studios seinna kvöldið var eitursvali silfurrefurinn Jim Jarmuch á sviðinu með hljómsveit sinni Squrl. Lýsingin var myrk og ekki mikið um hreyfingu á sviðinu og tónlistin var hægfljótandi surgrokk í ætt við hljómsveitir eins og Galaxy 500. Þetta var ágætlega gert hjá þeim en samt var eins og vantaði einhvern frumleikaneista. Það verður líka að segjast eins og er að Jarmusch-inn er ekkert sérstakur söngvari. Sönglausu lögin voru best og stundum tókust þau á loft í töffaralegum fídbakk og fuzz köflum. Jarmuch er allavega talsvert betri á baki við kvikmyndatökuvélina en hljóðnemann.

Guð mætir á svið

Eftir að Squrl höfðu lokið sér af tók við rúmlega klukkutíma bið eftir manninum sem flestir voru komnir að sjá. Geði var blandað, hamborgurum sporðrennt og sígarettur reyktar á meðan að það tók að fjölga talsvert á hátíðarsvæðinu þegar líða dró nær tónleikunum. Það var greinilegt að Hellirinn trekkti að því talsvert meira af fólki var inni í Atlantic Studios rétt fyrir tónleikana en á kvöldinu áður. Þegar hljómsveitin var að koma sér fyrir var stigmagnandi eftirvænting í loftinu sem sprakk síðan út þegar Cave stormaði inn á sviðið, það var gærdeginum ljósara að einhvers konar guð var kominn í húsið. Cave spígsporaði um sviðið klæddur eins og ítalskur flagari í támjóum skóm, fjólublárri silkiskyrtu með svartlitað hárið sleikt beint aftur.

Hann byrjaði á tveimur lögum af sinni nýjustu plötu, Push The Sky Away. Flutningur sveitarinnar í Jubilee Street var óaðfinnanlegur, meðan Cave stjórnaði salnum eins og babtískur predikari. Alveg þangað til hann datt af sviðinu í lokakafla lagsins eins og þú hefur sjálfsagt lesið á hundrað vefmiðlum og horft á youtube myndbandið af tvisvar. Það sem mér fannst merkilegast var að hljómsveitin hélt áfram að rokka eins ekkert hefði í skorist og Cave stökk síðan aftur inn á sviðið mínútu síðar og byrjaði að hamra píanóið.

Kraftur á við Kárahnjúkavirkjun

Sérstaklega var gaman að fylgjast með Warren Ellis sem er með hártísku eins og rétttrúnaðargyðingur og fatastíl á við smekklegan heimilisleysingja. Hann þjösnaðist á fiðlu, gítar og þverflautu og reglulega henti hann fiðluboganum sínum upp í loftið eftir æsileg sóló. Það virtist vera starfsmaður hjá hljómsveitinni hvers helsta hlutverk var að hlaupa og ná í bogann aftur.

Sveitin spilaði í næstum tvo tíma, nýtt og gamalt efni í bland, og prógrammið innihélt marga af hans helstu slögurum eins og Weeping Song, Mercy Seat og Stagger Lee. Þetta eru listamenn og skemmtikraftar á heimsmælikvarða og krafturinn í Cave og slæmu fræjunum hans á þessum tónleikum hefði geta knúið heila Kárahnjúkavirkjun. Eftir að þeir löbbuðu út af sviðinu ærðustu áhorfendur í feikilegum fagnaðarlátum og ég hef sjaldan séð crowd  jafn ákveðið í uppklapp. Hljómsveitin lét vinna vel fyrir sér en komu loks aftur og tóku Red Right Hand. Eftir tónleikana var einróma samkomulag meðal allra sem ég talaði við að þetta hefðu verið stórfenglegir tónleikar og jafnvel þeir sem höfðu séð Cave oft áður voru sammála um að hann hefði aldrei verið betri.

Jane Fonda á bassa

Hjaltalín voru ekki öfundsverð að fylgja þessu eftir en gáfu sig öll í það og máttu vel við sitt una. Þau léku aðallega efni af sinni nýjustu og að mínu mati bestu plötu, Enter 4. Lágstemmd elektróníkin og nýklassískir strengir höfðu dáleiðandi áhrif og Högni og Sigríður Thorlacious harmóneruðu sem aldrei fyrr. Deer Hoof voru næst á dagskrá og skiluðu frábærlega sýrðu gítarrokki af mikilli innlifun. Söngkona og bassaleikari sveitarinnar fór á kostum og tók meðal annars dansspor sem minntu á Jane Fonda leikfimiæfingar. Eitt af skemmtilegum smáatriðum sem gera hátíðina sérstaka var að inni í Atlantic Studios var boðið upp á nudd sem ég skellti mér á og að horfa á heimsklassa rokktónleika meðan verið er að nudda mann er reynsla sem gleymist seint.

Súrkálsrokkuð trúarathöfn

Sonic Youth guðinn Thurston Moore tók sviðið næstur með sveit sinni Chelsea Light Moving og lék á alls oddi. Það var boðið upp á hávaða, gítarhjakk, og surg og allt saman hrátt, hratt og pönkað. Moore tileinkaði lög Pussy Riot, Roky Eriksson úr 13th floor elevators og skáldinu William Borroughs og virðist ekkert vera að tapa orkunni með aldrinum. Síðasta sveit kvöldsins var síðan ofurtöffararnir í Dead Skeletons. Við upphaf tónleikanna var listamaðurinn og leiðtoginn Jón Sæmundur að mála mynd af hauskápu á tréplötu og færðist allur í aukanna eftir því sem tónlistin þyngdist. Tónlist þeirra er drungaleg og svöl með vænum skammti af súrkálsrokki og drone-i. Þau dreifðu reykelsi út í sal og komu nánast fram eins og költ og tónleikarnir báru keim af trúarathöfn. Mjög hugvíkkandi reynsla og góður endir á frábæru kvöldi.

All Tomorrow’s Parties fór í alla staði mjög vel fram og skipuleggjendur eiga lof skilið fyrir framtakið. Umhverfið í kringum tónleikasvæðið var mjög skemmtilegt og stemmningin einstök. Það voru svona smáatriði eins og að boðið væri upp á nudd inni í Atlantic Studios, búlluborgara á svæðinu fyrir utan og óvæntir og pönkaðir tónleikar heimamannanna í Ælu á laugardeginum sem gerðu herslumuninn. Hljóð og lýsing á tónleikunum var til fyrirmyndar og tímasetningar á hljómsveitum í dagskrá stóðust alltaf. Það hefði þó verið skemmtilegt að sjá aðeins betri mætingu, sérstaklega á föstudeginum en það kom ekki að sök og vonandi verður hátíðin að árlegum viðburði í framtíðinni.

Davíð Roach Gunnarsson

Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Erlendu sveitirnar á ATP

Það hefur varla farið framhjá tónlistaraðdáendum og lesendum þessarar síðu að fyrsta útgáfa All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðarinnar verður haldin á varnarliðssvæðinu í Keflavík eftir tvo daga. Hátíðin er orðin þekkt vörumerki í tónlistarheiminum og er um margt ólík öðrum festivölum sem er hægt að finna í tugatali í bæði Evrópu og Bandaríkjunum á hverju sumri. Sérstaða hennar felst einna helst í vinalegu andrúmslofti, þar sem allar hljómsveitir gista á svæðinu þar sem hátíðin er haldin og leitast er við að má út landamæri milli almennra gesta og tónlistarmannanna, og er þess vegna ekkert VIP svæði á hátíðinni. Annað sem hátíðin sker sig úr fyrir er að allar hljómsveitirnar spila tónleika því sem næst í fullri lengd, en ekki þessi hálftíma til 45 mínútna „festival-slot“ eins og á venjulegum hátíðum.

Þá leggur ATP mikið upp úr annars konar dægradvöl á meðan hátíðinni stendur og má þar nefna kvikmyndasýningar í Andrews Theater þar sem Jim Jarmusch og Tilda Swinton velja kvikmyndir, fótboltaleiki á milli hljómsveita á aðdáenda, og popppunktskeppni sem Dr Gunni mun halda. Að lokum má nefna að matur verður seldur á hátíðarsvæðinu svo gestir þurfa í raun ekki að leita neitt annað á meðan hátíðinni stendur. Enn er hægt að kaupa bæði helgar- og dagpassa á hátíðina á midi.is og straum.is hvetur lesendur sína til að láta þessa einstöku upplifun ekki framhjá sér fara. Fulla dagskrá hátíðarinnar má finna hér og margar af bestu hljómsveitum Íslands koma fram. Hér að neðan er hins vegar stutt kynning og tóndæmi á þeim erlendu hljómsveitum sem munu stíga á stokk.

Nick Cave & The Bad Seeds

Nick Cave er algjör óþarfi að kynna en við gerum það bara samt. Hann hefur í hátt í þrjá áratugi framleitt hágæða rokk, pönk og myrkar ballöður, með Birthday Party og Grinderman, undir eigin nafni með og án Slæmu Fræjanna, en sú frægasta sveit hans verður einmitt með honum í för á All Tomorrow’s Parties. Um tónleika fárra núlifandi listamanna hefur undirritaður heyrt ausið jafn miklu lofi og Nick Cave en hann hefur spilað þrisvar áður á Íslandi. Hér að neðan má heyra útgáfu hans af hinu frábæra Velvet Underground lagi sem ATP hátíðin tekur nafn sitt frá.

Thee Oh Sees

Thee Oh Sees er sækadelik sýrurokkssveit frá San Fransisco og hefur orð á sér að vera ein besta tónleikasveit heims um þessar mundir. Sveitin spilar í Atlantic Studios klukkan 00:15 á föstudagskvöldinu á undan íslensku rokkrisunum í Ham. Lagið Flood’s New Light er frábært lag sem krystallar kraftinn í bandinu.

SQÜRL

Leikstjórinn Jim Jarmusch hefur alltaf haft gott eyra fyrir töffaralegri músík til að setja í bíómyndirnar sínar og hefur í þeim tilgangi meðal annars leitað til RZA úr Wu Tang í Ghost Dog og Neil Young í Dead Man. Hann er nú kominn með sína eigin hljómsveit og sándið er alveg jafn svalt og myndirnar hans, töffaralegt og útúrfözzað gítarsurg. Þetta er rokktónlist sem tekur aldrei niður sólgleraugun.

The Notwist
Þýska indíbandið The Notwist hefur í hátt í 20 ár verið eitt helsta flaggskip Morr-útgáfunnar sem einnig hefur gefið út íslensku sveitirnar Múm og Sing Fang. Sveitin leikur skemmtilega fléttu af indírokki með rafáhrifum sem má heyra glöggt í laginu One With The Freaks af plötu þeirra Neon Golden frá 2002.

Deerhoof

Deerhoof hefur ferðast um lendur óhlóðarokks, indí og hugvíkkandi strauma á tveggja áratuga ferli og enginn hefur getað séð fyrir hvert hljómsveitin fer næst. Þeir sóttu Ísland heima á Iceland Airwaves hátíðina árið 2007 og þóttu tónleikarnir sérdeilis vel heppnaðir.

Chelsea Light Moving

Eftir að upp úr slitnaði hjá Sonic Yoth hjónakornunum tók Thurston Moore sig til og stofnaði nýtt band, Chelsea Light Moving. Þar heldur hann áfram þar sem frá var horfið með Sonic Youth, í því að misþyrma rafmagnsgíturum af öllum stærðum og gerðum og framleiða úrvalshávaða með melódískum þræði. Á fyrstu plötu sveitarinnar sem kom út í byrjun árs er talsverðra áhrifa að gæta frá pönki og harðkjarnatónlist.

 

ATP Festival upphitun á KEX Hostel

Tónlistarhátíðin ATP Festival fer fram um komandi helgi og í tilefni af því mun KEX Hostel hita upp fyrir hátíðina með kvikmyndasýningum og tónleikum. Upphitun fer fram í kvöld á KEX Hostel en þar verða þrjár kvikmyndir sýndar ásamt því að Snorri Helgason mun halda tónleika. Kvikmyndirnar sem verða sýndar hafa verið sérstaklega valdar af þeim listamönnum sem koma fram á hátíðinni. Þær eru:

Koyannisqatsi (1982)
Koyannisqatsi er einskonar heimildarmynd og sjónrænir tónleikar við tónverk eftir Philip Glass. Myndin er í raun samansafn mynda hvaðanæva að úr heiminum og mun breyta sýn áhorfandans á heiminn.

Au Hasard Balthazar (1966)
Au Hasard Balthazar fjallar um asnann Baltazar og erfiða ævi hans. Samhliða sjáum við sömuleiðis líf stúlkunnar sem nefndi hann en líf þeirra beggja er samtvinnað.

Repo Man (1984)
Repo Man fjallar um ungan mann sem gerist innheimtumaður og undarleg ævintýri hans í því starfi.

Dagskrá:

GYM & TONIC:
17:00 – Koyannisqatsi (Valin af Valgeiri Sigurðssyni)
18:40 – Au Hasard Balthazar (Valin af Chelsea Light Moving)
20:30 – Repo Man (valin af Thee Oh Sees)

KEX RESTAURANT:
22:15 – Snorri Helgason flytur tónlist sína

All Tomorrow’s Parties sjónvarpsviðtal

Nú styttist óðum í að fyrsta All Tomorrow’s Parties hátíðin verði haldin á Íslandi. Dagskráin hefst seinnipart föstudags og lýkur aðfararnótt sunnudags. Við settumst niður með þeim Barry Hogan sem stofnaði ATP árið 1999 og Deborah Kee Higgins sem hefur unnið fyrir hana frá árinu 2004 og ræddum við þau um hátíðina.

Dagskráin tilbúin

Dagskrá hátíðarinnar er nú komin á netið. Þar má sjá hvenær hljómsveitirnar koma fram, hvaða bíómyndir verða sýndar í Andrews Theater og hvenær Popppunkturinn og Bókarbingó ATP fer fram o.s.frv.

Til að hlaða niður dagskránni í PDF skjali, smelltu hér.

Tilda Swinton velur kvikmyndir ásamt Jim Jarmusch
Þegar hátíðin var tilkynnt í apríl var sagt frá því að Jim Jarmusch leikstjóri myndi velja bíómyndirnar annan daginn í Andrews Theater. Hinn daginn mun Óskarsverðlaunahafinn Tilda Swinton velja kvikmyndirnar sem sýndar verða. Í dagskránni sem nú er komin er á netið má sjá hvaða myndir þau Jim Jarmusch og Tilda Swinton völdu.

Miðar með gistingu uppseldir
Miðar með gistingu seldust upp fyrir skömmu en í boði voru bæði miðar með herbergi fyrir tvo gesti og miðar með herbergi fyrir fjóra gesti. Þessir miðar eru nú uppseldir. Dagspassar á 9.900 kr. og helgarpassar á 16.900 kr. eru fáanlegir á midi.is.

Rútuferðir á ATP
Til að auðvelda höfuðborgarbúum lífið selur Reykjavík Excursions miða á hátíðina sem fela í sér rútuferðir fram og til baka á hátíðina. Það er bæði hægt að fá helgarpassa og dagpassa með rútuferðum en einnig er hægt að kaupa rútuferðir fyrir alla helgina eða staka daga. Athugið að rúturnar fara upp á Ásbrú frá BSÍ kl. 18:00 og brottför aftur til Reykjavíkur er klukkan 02:00.

 

 

Straumur 24. júní 2013

Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Austra, Kanye West, Todd Terje, jj, Sophie og mörgum öðrum. Við verðum einnig með umfjöllun um tónlistarhátiðina All Tomorrows Parties sem verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi um næstu helgi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Við hittum þau Barry Hogan og Deborah Kee Higgins aðstandendur hátíðarinnar á dögunum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977!

Straumur 24. júní 2013 by Olidori on Mixcloud

1) Super Duper Rescue Heads! – Deerhoof
2) Strandbar (bonus version) – Todd Terje
3) Bipp – Sophie
4) Rise – Du Tonc
5) Góða Tungl (Sei A remix) – Samaris
6) What We Done? – Austra
7) New Slaves – Kanye West
8) Send It Up – Kanye West
9) Bound 2 – Kanye West
10) Flood’s New Light – Thee Oh Sees

– Viðtal við Barry Hogan og Deborah Kee Higgins frá ATP

11) I Need Seeds – Thee Oh Sees
12) The Perfect Me – Deerhoof
13) Heavenmetal – Chelsea Light Moving
14) 3am Spirtual – Smith Westerns
15) Glossed – Smith Westerns
16) XXIII – Smith Westerns
17) Fågelsången – jj

All tomorrows Parties – Öðruvísi tónleikahátíð

Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.

All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.

Vannýttar byggingar

Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.

Tónleikar í fullri lengd

Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.

Tónlist, bíó og takkaskór

Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.

Nick Cave and the Bad Seeds aðalnúmerið á All tomorrow’s parties

Nick Cave mun verða aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn.

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
THE FALL
THE NOTWIST
THEE OH SEES
DEERHOOF
MÚM
HAM
DEAD SKELETONS
MUGISON
SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
AMIINA
VALGEIR SIGURÐSSON
GHOSTIGITAL
PUZZLE MUTESON
ÆLA
KIMONO
APPARAT ORGAN QUARTET
HJALTALÍN
SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

All Tomorrows Parties á Íslandi staðfest

Nú hefur verið staðfest að tónlistarhátíðin All Tomorrows Parties verði haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Áður hefur komið fram að viðræður við aðstandendur hátíðarinnar stæðu yfir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu 6-7 erlendar sveitir koma fram, þar á meðal hljómsveitin Deerhoof. Í tilkynningu frá aðstandendum í dag kemur þó ekkert slíkt fram, aðeins að full dagskrá hátíðarinnar verði kynnt þann 16. þessa mánaðar eða eftir 2 vikur. Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

All Tomorrow’s Parties í Keflavík?

Fréttablaðið skýrði frá því um helgina að viðræður hafi átt sér stað um að halda tónlistarhátíðina All Tomorrow’s Parties  í Reykjanesbæ í júní. Hátíðin færi fram á varnarliðssvæðinu en skipulagning hennar hefur staðið yfir frá árinu 2011. Samkvæmt Fréttablaðinu myndu sex til sjö erlend bönd spila á All Tomorrow’s Parties þar á meðal indie sveitin Deerhoof ásamt íslenskum böndum. Hátíðin hér á landi myndi vera frábrugðin ATP erlendis á þann hátt að ekki myndi ein hljómsveit stjórna dagskrá hátíðarinnar.