Þegar ég mætti Atlantic Studios seinna kvöldið var eitursvali silfurrefurinn Jim Jarmuch á sviðinu með hljómsveit sinni Squrl. Lýsingin var myrk og ekki mikið um hreyfingu á sviðinu og tónlistin var hægfljótandi surgrokk í ætt við hljómsveitir eins og Galaxy 500. Þetta var ágætlega gert hjá þeim en samt var eins og vantaði einhvern frumleikaneista. Það verður líka að segjast eins og er að Jarmusch-inn er ekkert sérstakur söngvari. Sönglausu lögin voru best og stundum tókust þau á loft í töffaralegum fídbakk og fuzz köflum. Jarmuch er allavega talsvert betri á baki við kvikmyndatökuvélina en hljóðnemann.
Guð mætir á svið
Eftir að Squrl höfðu lokið sér af tók við rúmlega klukkutíma bið eftir manninum sem flestir voru komnir að sjá. Geði var blandað, hamborgurum sporðrennt og sígarettur reyktar á meðan að það tók að fjölga talsvert á hátíðarsvæðinu þegar líða dró nær tónleikunum. Það var greinilegt að Hellirinn trekkti að því talsvert meira af fólki var inni í Atlantic Studios rétt fyrir tónleikana en á kvöldinu áður. Þegar hljómsveitin var að koma sér fyrir var stigmagnandi eftirvænting í loftinu sem sprakk síðan út þegar Cave stormaði inn á sviðið, það var gærdeginum ljósara að einhvers konar guð var kominn í húsið. Cave spígsporaði um sviðið klæddur eins og ítalskur flagari í támjóum skóm, fjólublárri silkiskyrtu með svartlitað hárið sleikt beint aftur.
Hann byrjaði á tveimur lögum af sinni nýjustu plötu, Push The Sky Away. Flutningur sveitarinnar í Jubilee Street var óaðfinnanlegur, meðan Cave stjórnaði salnum eins og babtískur predikari. Alveg þangað til hann datt af sviðinu í lokakafla lagsins eins og þú hefur sjálfsagt lesið á hundrað vefmiðlum og horft á youtube myndbandið af tvisvar. Það sem mér fannst merkilegast var að hljómsveitin hélt áfram að rokka eins ekkert hefði í skorist og Cave stökk síðan aftur inn á sviðið mínútu síðar og byrjaði að hamra píanóið.
Kraftur á við Kárahnjúkavirkjun
Sérstaklega var gaman að fylgjast með Warren Ellis sem er með hártísku eins og rétttrúnaðargyðingur og fatastíl á við smekklegan heimilisleysingja. Hann þjösnaðist á fiðlu, gítar og þverflautu og reglulega henti hann fiðluboganum sínum upp í loftið eftir æsileg sóló. Það virtist vera starfsmaður hjá hljómsveitinni hvers helsta hlutverk var að hlaupa og ná í bogann aftur.
Sveitin spilaði í næstum tvo tíma, nýtt og gamalt efni í bland, og prógrammið innihélt marga af hans helstu slögurum eins og Weeping Song, Mercy Seat og Stagger Lee. Þetta eru listamenn og skemmtikraftar á heimsmælikvarða og krafturinn í Cave og slæmu fræjunum hans á þessum tónleikum hefði geta knúið heila Kárahnjúkavirkjun. Eftir að þeir löbbuðu út af sviðinu ærðustu áhorfendur í feikilegum fagnaðarlátum og ég hef sjaldan séð crowd jafn ákveðið í uppklapp. Hljómsveitin lét vinna vel fyrir sér en komu loks aftur og tóku Red Right Hand. Eftir tónleikana var einróma samkomulag meðal allra sem ég talaði við að þetta hefðu verið stórfenglegir tónleikar og jafnvel þeir sem höfðu séð Cave oft áður voru sammála um að hann hefði aldrei verið betri.
Jane Fonda á bassa
Hjaltalín voru ekki öfundsverð að fylgja þessu eftir en gáfu sig öll í það og máttu vel við sitt una. Þau léku aðallega efni af sinni nýjustu og að mínu mati bestu plötu, Enter 4. Lágstemmd elektróníkin og nýklassískir strengir höfðu dáleiðandi áhrif og Högni og Sigríður Thorlacious harmóneruðu sem aldrei fyrr. Deer Hoof voru næst á dagskrá og skiluðu frábærlega sýrðu gítarrokki af mikilli innlifun. Söngkona og bassaleikari sveitarinnar fór á kostum og tók meðal annars dansspor sem minntu á Jane Fonda leikfimiæfingar. Eitt af skemmtilegum smáatriðum sem gera hátíðina sérstaka var að inni í Atlantic Studios var boðið upp á nudd sem ég skellti mér á og að horfa á heimsklassa rokktónleika meðan verið er að nudda mann er reynsla sem gleymist seint.
Súrkálsrokkuð trúarathöfn
Sonic Youth guðinn Thurston Moore tók sviðið næstur með sveit sinni Chelsea Light Moving og lék á alls oddi. Það var boðið upp á hávaða, gítarhjakk, og surg og allt saman hrátt, hratt og pönkað. Moore tileinkaði lög Pussy Riot, Roky Eriksson úr 13th floor elevators og skáldinu William Borroughs og virðist ekkert vera að tapa orkunni með aldrinum. Síðasta sveit kvöldsins var síðan ofurtöffararnir í Dead Skeletons. Við upphaf tónleikanna var listamaðurinn og leiðtoginn Jón Sæmundur að mála mynd af hauskápu á tréplötu og færðist allur í aukanna eftir því sem tónlistin þyngdist. Tónlist þeirra er drungaleg og svöl með vænum skammti af súrkálsrokki og drone-i. Þau dreifðu reykelsi út í sal og komu nánast fram eins og költ og tónleikarnir báru keim af trúarathöfn. Mjög hugvíkkandi reynsla og góður endir á frábæru kvöldi.
All Tomorrow’s Parties fór í alla staði mjög vel fram og skipuleggjendur eiga lof skilið fyrir framtakið. Umhverfið í kringum tónleikasvæðið var mjög skemmtilegt og stemmningin einstök. Það voru svona smáatriði eins og að boðið væri upp á nudd inni í Atlantic Studios, búlluborgara á svæðinu fyrir utan og óvæntir og pönkaðir tónleikar heimamannanna í Ælu á laugardeginum sem gerðu herslumuninn. Hljóð og lýsing á tónleikunum var til fyrirmyndar og tímasetningar á hljómsveitum í dagskrá stóðust alltaf. Það hefði þó verið skemmtilegt að sjá aðeins betri mætingu, sérstaklega á föstudeginum en það kom ekki að sök og vonandi verður hátíðin að árlegum viðburði í framtíðinni.
Davíð Roach Gunnarsson