Sampha sendir frá sér lag

Tónlistarmaðurinn Sampha hefur nú sent frá sér lagið „Without“ og er þetta er eitt af fyrstu lögunum sem hann gefur út aðeins undir sínu nafni. Sampha hefur unnið sér inn gott orð sem hægri hönd Aaron Jerome í SBTRKT  auk þess að hafa unnið náið með Jessie Ware og nýlega að lagi með Drake.
29. júlí mun Sampha  senda frá sér 6 laga EP-plötu undir titlinum Dual sem unnin er í samstarfi við útgáfufyrirtækið Young Turks og mun platan innihalda „Without“ auk 5 annara laga.

POSTILJONEN gefa út lag og plata á leiðinni

Skandinavíska tríóið POSTILJONEN hefur sent frá sér lagið „Atlantis“ af væntanlegum frumburði þeirra Skyer sem kemur út 22. júlí. Hljómsveitin saman stendur af norsku söngkonunni Miu Bøe og fjölhæfu tónlistarmönnunum Daniel Sjörs og Joel Nyström sem koma frá Svíðþjóð. Skyer einkennist af ljúfu draumkenndu rafpoppi og ekki skemma saxafón sólóin og sumarlegir ambiant tónar fyrir sem minna helst á hljómsveitirnar M83 og Air. Mia Bøe bindur lögin vel saman með heillandi dularfullri rödd  sem gerir POSTILJONEN að seiðandi tónum sem vert er að gefa hlustun.
Þó enn séu rúmar tvær vikur í útgáfu Skyer er platan aðgengileg á Spotify og hægt er að gæða sér á henni í heild sinni þar.

Seinna kvöldið á ATP

Þegar ég mætti Atlantic Studios seinna kvöldið var eitursvali silfurrefurinn Jim Jarmuch á sviðinu með hljómsveit sinni Squrl. Lýsingin var myrk og ekki mikið um hreyfingu á sviðinu og tónlistin var hægfljótandi surgrokk í ætt við hljómsveitir eins og Galaxy 500. Þetta var ágætlega gert hjá þeim en samt var eins og vantaði einhvern frumleikaneista. Það verður líka að segjast eins og er að Jarmusch-inn er ekkert sérstakur söngvari. Sönglausu lögin voru best og stundum tókust þau á loft í töffaralegum fídbakk og fuzz köflum. Jarmuch er allavega talsvert betri á baki við kvikmyndatökuvélina en hljóðnemann.

Guð mætir á svið

Eftir að Squrl höfðu lokið sér af tók við rúmlega klukkutíma bið eftir manninum sem flestir voru komnir að sjá. Geði var blandað, hamborgurum sporðrennt og sígarettur reyktar á meðan að það tók að fjölga talsvert á hátíðarsvæðinu þegar líða dró nær tónleikunum. Það var greinilegt að Hellirinn trekkti að því talsvert meira af fólki var inni í Atlantic Studios rétt fyrir tónleikana en á kvöldinu áður. Þegar hljómsveitin var að koma sér fyrir var stigmagnandi eftirvænting í loftinu sem sprakk síðan út þegar Cave stormaði inn á sviðið, það var gærdeginum ljósara að einhvers konar guð var kominn í húsið. Cave spígsporaði um sviðið klæddur eins og ítalskur flagari í támjóum skóm, fjólublárri silkiskyrtu með svartlitað hárið sleikt beint aftur.

Hann byrjaði á tveimur lögum af sinni nýjustu plötu, Push The Sky Away. Flutningur sveitarinnar í Jubilee Street var óaðfinnanlegur, meðan Cave stjórnaði salnum eins og babtískur predikari. Alveg þangað til hann datt af sviðinu í lokakafla lagsins eins og þú hefur sjálfsagt lesið á hundrað vefmiðlum og horft á youtube myndbandið af tvisvar. Það sem mér fannst merkilegast var að hljómsveitin hélt áfram að rokka eins ekkert hefði í skorist og Cave stökk síðan aftur inn á sviðið mínútu síðar og byrjaði að hamra píanóið.

Kraftur á við Kárahnjúkavirkjun

Sérstaklega var gaman að fylgjast með Warren Ellis sem er með hártísku eins og rétttrúnaðargyðingur og fatastíl á við smekklegan heimilisleysingja. Hann þjösnaðist á fiðlu, gítar og þverflautu og reglulega henti hann fiðluboganum sínum upp í loftið eftir æsileg sóló. Það virtist vera starfsmaður hjá hljómsveitinni hvers helsta hlutverk var að hlaupa og ná í bogann aftur.

Sveitin spilaði í næstum tvo tíma, nýtt og gamalt efni í bland, og prógrammið innihélt marga af hans helstu slögurum eins og Weeping Song, Mercy Seat og Stagger Lee. Þetta eru listamenn og skemmtikraftar á heimsmælikvarða og krafturinn í Cave og slæmu fræjunum hans á þessum tónleikum hefði geta knúið heila Kárahnjúkavirkjun. Eftir að þeir löbbuðu út af sviðinu ærðustu áhorfendur í feikilegum fagnaðarlátum og ég hef sjaldan séð crowd  jafn ákveðið í uppklapp. Hljómsveitin lét vinna vel fyrir sér en komu loks aftur og tóku Red Right Hand. Eftir tónleikana var einróma samkomulag meðal allra sem ég talaði við að þetta hefðu verið stórfenglegir tónleikar og jafnvel þeir sem höfðu séð Cave oft áður voru sammála um að hann hefði aldrei verið betri.

Jane Fonda á bassa

Hjaltalín voru ekki öfundsverð að fylgja þessu eftir en gáfu sig öll í það og máttu vel við sitt una. Þau léku aðallega efni af sinni nýjustu og að mínu mati bestu plötu, Enter 4. Lágstemmd elektróníkin og nýklassískir strengir höfðu dáleiðandi áhrif og Högni og Sigríður Thorlacious harmóneruðu sem aldrei fyrr. Deer Hoof voru næst á dagskrá og skiluðu frábærlega sýrðu gítarrokki af mikilli innlifun. Söngkona og bassaleikari sveitarinnar fór á kostum og tók meðal annars dansspor sem minntu á Jane Fonda leikfimiæfingar. Eitt af skemmtilegum smáatriðum sem gera hátíðina sérstaka var að inni í Atlantic Studios var boðið upp á nudd sem ég skellti mér á og að horfa á heimsklassa rokktónleika meðan verið er að nudda mann er reynsla sem gleymist seint.

Súrkálsrokkuð trúarathöfn

Sonic Youth guðinn Thurston Moore tók sviðið næstur með sveit sinni Chelsea Light Moving og lék á alls oddi. Það var boðið upp á hávaða, gítarhjakk, og surg og allt saman hrátt, hratt og pönkað. Moore tileinkaði lög Pussy Riot, Roky Eriksson úr 13th floor elevators og skáldinu William Borroughs og virðist ekkert vera að tapa orkunni með aldrinum. Síðasta sveit kvöldsins var síðan ofurtöffararnir í Dead Skeletons. Við upphaf tónleikanna var listamaðurinn og leiðtoginn Jón Sæmundur að mála mynd af hauskápu á tréplötu og færðist allur í aukanna eftir því sem tónlistin þyngdist. Tónlist þeirra er drungaleg og svöl með vænum skammti af súrkálsrokki og drone-i. Þau dreifðu reykelsi út í sal og komu nánast fram eins og költ og tónleikarnir báru keim af trúarathöfn. Mjög hugvíkkandi reynsla og góður endir á frábæru kvöldi.

All Tomorrow’s Parties fór í alla staði mjög vel fram og skipuleggjendur eiga lof skilið fyrir framtakið. Umhverfið í kringum tónleikasvæðið var mjög skemmtilegt og stemmningin einstök. Það voru svona smáatriði eins og að boðið væri upp á nudd inni í Atlantic Studios, búlluborgara á svæðinu fyrir utan og óvæntir og pönkaðir tónleikar heimamannanna í Ælu á laugardeginum sem gerðu herslumuninn. Hljóð og lýsing á tónleikunum var til fyrirmyndar og tímasetningar á hljómsveitum í dagskrá stóðust alltaf. Það hefði þó verið skemmtilegt að sjá aðeins betri mætingu, sérstaklega á föstudeginum en það kom ekki að sök og vonandi verður hátíðin að árlegum viðburði í framtíðinni.

Davíð Roach Gunnarsson

Jamie T snýr aftur með reitt pönk

Ekkert hefur heyrst né spurst til breska tónlistarmannsins Jamie T síðan hann gaf út aðra plötu sína King & Queens árið 2009 fyrir utan smá daður þegar hann söng inn á lagið „Wrongful Suspicions“ um áramótin með pönkaranum Tim Armstrong úr hljómsveitinni Rancid. Jamie sem stundum hefur verið kallaður „one man Arctic Monkey“ er fjölbreyttur þegar kemur að tónsmíðum og er honum fátt heilagt en hann er helst titlaður sem hip-hop indí flytjandi. Hann sló í gegn með frumburði sínum Panic Prevention árið 2007 og var fyrir vikið tilnefndur til Mercury verðlaunanna auk þess að slá út mönnum eins og Jarvis Cocker og Thom York þegar hann vann til verðlauna sem besti sóló flytjandinn á NME verðlaununum árið 2007.
Hjólin virðast aftur vera farinn að snúast á ný hjá Jamie T og hefur Tribes leppurinn Johnny Lloyd sagt að hann sé þessa dagana að aðstoða Jamie við gerð nýrrar plötu. „ Ég er að spila með Jamie og hann er að klára nýja plötu. Þetta er frábært efni, mjög hægt og reitt pönk.“ Sagði Lloyd í samtali við NME.

Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Babyshambles með plötu í bígerð

Rokkræfillinn Pete Doherty hefur náð að halda sér nógu lengi úr fangelsi til að taka upp plötu sem er væntanleg frá hljómsveit hans Babyshambles 2. September og hefur hlotið titilinn Sequel To The Prequel. Pete býr þessa dagana í París ásamt Macauley Culkin en sá hefur þurft að sitja einn heima undanfarið á meðan félegarnir úr Babyshambles tóku upp plötuna þar um slóðir ásamt upptökustjóranum Stephen Street. Sequel To The Prequel mun innihalda 12 lög, verður þriðja plata Babyshambles og fylgir á eftir Shooter‘s Nation sem kom út árið 2007. „Nothing Comes To Nothing“ verður fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu og kemur út 26. ágúst.
„Ég vil ekki að þetta verði eitthvað hálfkák, ég vil fokking stúta þessu. Babyshambles eru ekki að snúa aftur, þetta band hefur aldrei farið.“ Sagði 34. ára gamli Doherty um Sequel To The Prequel í viðtali við NME.

„Dr. No“ verður að finna á væntanlegri plötu Babyshambles.

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop

Beck gefur út lag og hellingur af efni á leiðinni

Hinn óútreiknanlegi tónlistarmaður Beck Hansen hefur sent frá sér lagið „I Won‘t Be Long“ mánuði eftir að hann gaf út raf-ballöðuna „Defriended“. Þessi tvö lög eiga ekki margt sameiginlegt fyrir utan að hvorugt lagið mun fá pláss á plötu frá Beck þó hann sé að vinna að tveimur breiðskífum þessa dagana. Önnur platan verður órafmögnuð og er fyrr væntanleg en hin á að fylgja eftir Modern Guilt sem kom út árið 2008 og var unnin í samstarfi við Danger Mouse.
„I Wont Be Long“ er draumkennt indí popp lag með þéttri bassalínu og skemmtilegu rafknúðu mynstri sem vinnur á þegar líður á lagið sem myndi sóma sig vel á rúntinum. Smáskífan kemur formlega út 8. júlí og mun 14 mínútna rímix af laginu fylgja með.

Nýtt myndband frá Phoenix

Franska „indie“ bandið Phoenix hefur sent frá sér myndband við lagið „Trying to Be Cool“ sem er að finna á nýjustu plötu þeirra Bankrupt!. „Trying to Be Cool“ er önnur smáskífan sem kemur út af plötunni og fylgir á eftir „stadium“ smellinum „Entertainment“. Sápukúlur, api og skvísur í bikiní eru eru dæmi um það sem bregður fyrir í myndbandinu sem fer um víðan völl í hljóðveri Phoenix.