Dream Central Station gefa út

 

Á næsta föstudag kemur út fyrsta plata hljómsveitarinnar Dream Central Station. Platan sem er samnefnd sveitinni kemur út á vegum útgáfufélagsins Kimi Records og mun fást í öllum helstu hljómplötuverslunum landsins. Þau Hallberg Daði Hallbergsson og Elsa María Blöndal eru í fararbroddi innan Dream Central Station og hafa verið að vinna að plötunni undanfarin ár. Hallberg var áður í hljómsveitinni Jakobínarína og Elsa María í Go-Go Darkness. Öll lög og textar eru eftir Hallberg fyrir utan ábreiðu af laginu Feel so Good með Brian Jonestown Massacre. Hljómsveitin mun halda útgáfutónleika um miðjan desember.

Im All On My Own:

      1. 01 I'm All On My Own

Feel So Good:

      2. 06 Feel So Good

The Fall:

      3. 10 The Fall

Hér má sjá viðtal sem við áttum við þau Elsu og Hallberg í sumar þar sem þau tóku órafmagnaða útgáfu af laginu Let The Rain (Wash Over Me) sem er á plötunni.  

Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson

Death Grips @ Pumpehuset

CPH:DOX heimildarmyndar hátíðin hófst formlega fyrir helgi og tónleikar með Californíska experemental hiphop þríeykinu ”Death Grips” frá Sacramento léku þar stóran þátt. Sveitin sem stofnuð var í lok desember árið 2010 samanstendur af söngvaranum Stefan”Mc Ride”Burnett og pródúsentateyminu Andy”Flatlander”Morin (hljómborð/sampler) og Zach Hill(trommur). Zach Hill þessi hefur getið af sér gott orð sem trommuleikari í hinum og þessum projectum þ.á.m ”Nervous Cop” með Greg Saunier(Deerhoof), “El Grupo Nuevo De Omar Rodriguez Lopez” með Omar Rodriguez Lopez(The Mars Volta, At The Drive In) og ”ONIBABA” með Mike Patton (Faith No More, Mr.Bungle, Fantómas ofl.).

Death Grips hafa útgefið tvennar plötur það sem af er þessu ári ”The Money Store” sem út kom um miðjan apríl sl á vegum ”Epic Records” útgáfufyrirtækisins, og sú seinni ”No Love Deep Web” láku þeir sjálfir út á internetið sökum ágreinings við ”Epic Records”, en album coverið hefur fengið mjög umdeild viðbrögð hjá tónlistarspekúlöntum víðsvegar um heiminn. Að lokum ber einnig að nefna að sveitin hefur áður remix-að tvö lög Bjarkar Guðmundsdóttur í ”Biophilia Remix Series” en það eru lögin ”Thunderbolt” og ”Sacrifice”.

Þetta hrekkjavöku kvöld er ”Mc Ride” málaður eins og  frontmaður afrísks kult’s frekar en hljómsveitar, íklæddur loðpelsi og leðurbuxum. Loðpelsinn fauk af strax í fyrsta lagi við mikinn fögnuð viðstaddra. Óhefðbundin uppsetning á trommusetti Zach Hill sem og trommuleikur hans er engum öðrum líkur, undirritaður man ekki eftir öðrum eins barningum. Tónleikarnir einkennast af þungum barningum bassatrommunar sem og lágtjúnuðum tom-toms í bland, og það sést langar leiðir að Zach þessi er sjálflærður þar sem hann sýnir trommunum enga miskun, trommustíllinn er engu að síður óaðfinnanlegur. Lagaval þessarar Californísku sveitar samanstóð af nokkrum af þeirra þekktustu lögum, þar ber helst að nefna; Guillotine, The Fever(AyeAye) og Beware en Beware lag þetta kom út á mixtape-i sem sveitin sendi frá sér í Apríl 2011 og hefur verið í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum síðan. Þetta voru einungis 12 laga tónleikar og lifðu í rétt rúmar 45 mínútur, en þeir félagar fá stórt hrós fyrir að það kom aldrei dauður punktur á meðan tónleikunum stóð, það var aldrei bil á milli laga, Mc Ride talaði aldrei við áhorfendur og Zach Hill stoppaði aldrei bassatrommuna, keyrslan var þvílík. Andy ”Flatlander” Morin steig aldrei á svið þetta hrekkjavökukvöld, en undirritaður þykist vita að ”Flatlander” þessi hafi leynst þarna á bakvið og stýrt þessu balli með dáleiðandi sampli í bland við taktfastar trommur Zach Hill.

Þrátt fyrir stutta og laga fáa tónleika áttaði undirritaður sig fljótt á því að hann gekk fullmettur út af einstaklega vel útfærðu setti sem margar hljómsveitir mættu taka sér til fyrirmyndar, ”Less is Often More”. CPH:DOX festival var sparkað í gang af öllu afli og Death Grips er hljómsveit sem ég hlakka hvað einna mest til að heyra meira frá í náinni framtíð.

Undirritaður,

Hjalti H. Jónsson

Kaupmannahöfn

Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd: Sigurður Ástgeirsson

 

Á þriðja í Airwaves er hátíðin og veðrið farið að taka sinn toll. Ég reif mig þó upp úr sófanum til að sjá Útidúr spila í Hafnarhúsinu klukkan níu. Þar voru fáir mættir en dramatíkin var engu að síður keyrð í botn og kammerpoppið fór vel í þá sem voru farnir á stað. Apparat Organ Quartet voru í orgasmísku orgelstuði í Silfurbergssal Hörpu og höfðu með sér fjórar stelpur í 80’s fötum með gosbrunna í hárinu sem að sungu í nokkrum lögum og lífguðu upp á tónleikana. Á eftir þeim spilaði kanadíska indíbandið Half Moon Run fyrir meðalfullum sal og tónlistin var vönduð en afar venjuleg. Indípopp eins og það gerist mest óspennandi og meðalmennskan var í hávegum höfð.

Dómsdagsdöbb

Næstir á svið í Silfurbergi voru Hjálmar ásamt finnska gúrúinum Jimi Tenor. Ég hef séð Hjálma spila hundrað sinnum áður en þetta var eitthvað annað. Jimi Tenor var klæddur í pallíettuslopp og með Prins Valíant hárgreiðslu og var dáleiðandi sem frontmaður. Hann söng, spilaði á saxafón og hljóðgervil og var yfirgengilega svalur. Tónlistin var reggí og döbb en talsvert dekkri en maður á að venjast frá Hjálmum. „Dat was Doom,“ sagði Tenórinn eftir eitt lagið og hafði mikið til síns máls, þetta var nokkurs konar drungalegt dómsdagsdöbb. Hjálmarnir voru líka í yfirstærð og höfðu með sér fimm blásturshljóðfæraleikara og Sigtrygg Baldursson á áslætti sem beitti stálkeðjum á bongótrommurnar sínar. Það verður svo sannarlega spennandi að heyra plötuna sem er væntanleg frá þessum áhugaverðu listamönnum og þetta var skemmtilegasta atriðið sem ég hef orðið vitni að á Airwaves hingað til.

Reykjavíkurnætur

Næst á svið í Silfurbergi voru Fm Belfast sem ég náði þremur og hálfu lagi með. Þau hafa engu gleymt og keyrðu stemmninguna í Silfurbergi upp í hæstu hæðir. Tónlistin er svo sem ekki flókin en þau kunna upp á hár að spila á áhorfendur og rafræna gleðipoppið þeirra kveikti svo sannarlega í þeim þetta kvöld. Þvínæst hélt ég á Þýska Barinn til að sjá Reykjavík! og fékk næstum því Bóas, söngvara sveitarinnar, í hausinn þegar ég var nýkominn inn. Hann stagedive-aði eins og óður maður og eyddi meiri tíma út í salnum meðal fólksins en uppi á sviðinu og Reykjavíkurrokkið æsti mig upp fyrir ævintýri næturinnar.

Tunnur af töffaraskap

Eftir að hafa hlaðið nikótíni og áfengi í blóðrásina fór ég aftur inn á Þýska Barinn og varð vitni að rokksveitinni Dream Central Station. Hún er hugafóstur Hallbergs Daða Hallbergssonar og í þetta skipti naut hann aðstoðar Henriks úr Singapore Sling á gítar og plötusnúðsins Kristins Gunnars Blöndals á hljómborði. Þrátt fyrir að það hafi verið farið að síga á seinni hluta kvöldsins og ekkert sérstaklega margir í salnum náðu þau að heilla mig með unaðslegum samsöng, rifnum rafmagnsgítarriffum og tunnum af töffaraskap.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Annar í Airwaves

Mynd: Iona Sjöfn

Ég hóf annað kvöld Airwaves á Kex Hostel þar sem tvær Hip Hop sveitir frá Seattle lögðu saman krafta sína. Shabazz Palaces er verkefni Ishmael Butler, sem var forsprakki rappsveitarinnar Digable Planets í byrjun tíunda áratugarins og hefur lengi verið í uppáhaldi hjá undirrituðum. Í Shabazz Palaces rær hann þó á tilraunakenndari mið með bassaþungum og draugalegum hljóðheimi og afar pólitískum textum. Hann kom fram ásamt trommara og kvennarappsveitinni Theesatifaction. Tónleikarnir voru um margt góðir en aðstæður á Kex Hostel eru þó ekki til fyrirmyndar, ekkert svið er til staðar svo það er nánast ómögulegt að sjá hljómsveitina.

Hressilegt powerpopp

Eftir að hafa sett batteríin í hleðslu með bjórsötri í heimahúsi hélt ég niður í Hafnarhúsið að sjá bandarísku indísveitina Phantogram. Þau voru einungis þrjú á sviðinu en hljóðheimurinn var í engu samræmi við fjöldann. Hljómsveitin spilar nokkurs konar maximalískt powerpopp með hip hop áhrifum og þau náðu upp mjög góðri stemmningu í pökkuðu listasafninu. Eftir að þau höfðu lokið sér af rölti ég yfir á Amsterdam og fylgdist með Gang Related sem voru í rokna rokkstuði. Hljóðið var frábært og letilegt slakker-rokkið var flutt af strákslegri gleði sem skein af hverju riffi.

Upplýstar trommur

Þvínæst rölti ég yfir götuna á Þýska barinn og náði þremur lögum með rapparanum Gísla Pálma. Það er hægt að nota mörg orð um Gísla Pálma en hefðbundið er ekki eitt af þeim. Mér finnst eins og hann sé ekki alvöru persóna heldur karakter úr bíómynd eftir Todd Solondz eða Harmony Korine. Það er alltaf upplifun að sjá hann á sviði og hann rappaði af guðs náð og áhorfendur hreinlega átu stemmninguna úr lófa hans. Þá var haldið aftur í Hafnarhúsið til að sjá hæpaðasta band kvöldsins, Purity Ring. Þau voru tvö á sviðinu, söngkona og græjukall, og fluttu framsækið tölvupopp af miklu öryggi. Sérstaklega skemmtilegt voru einhvers konar lampatrommur, sem að hljómuðu eins og stáltrommur og lýstust upp þegar barið var á þær. Tónleikarnir voru frambærilegir en stóðu kannski ekki alveg undir hæpinu og stemmningin var líflegri hjá Phantogram.

Skipulögð óreiða

Eftir að Purity Ring höfðu lokið sér af fór ég ásamt góðum hópi íslendinga og Kanadabúa yfir á Iðnó til að sjá listamanninn Doldrums frá Montreal. Tónlistin sem hann framreiddi var alveg dásamlega skipulögð óreiða. Hann kom fram ásamt trommuleikara og græjugellu en sjálfur sá hann um söng og óheyrilegt magn af tólum og tækjum, þar á meðal plötuspilara. Söngröddin hans var kraftmikil og afskaplega kvenleg og hann dansaði um sviðið og djöflaðist í græjum milli þess sem hann söng af innlifun og sveiflaði hljóðnemanum í allar áttir. Frábær lokapunktur á öðrum í Airwaves og hressasta atriðið hingað til.

 

Davíð Roach Gunnarsson

1. í Airwaves – Straumur fer á flakk

Mynd: Alexander Matukhno

Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.

 

Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.

Flæðandi fönk og seiðandi sveimur

Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.

Jakob Fusion Magnússon

Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.

Fer vel af stað

Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.

 

Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.

Davíð Roach Gunnarsson

Remix og myndband með Ojba Rasta

Lagið Jolly Good með reggíhljómsveitinni Ojba Rasta hefur nú verið klætt upp í spánýjan búning með endurhljóðblöndun og myndbandi. Það er svuntuþeysarasérfræðingurinn Hermigervill sem sér um remixið en hann hefur á síðustu tveimur plötum sínum klætt íslensk dægurlög í rafrænan búning og telst því sérfræðingur í faginu. Myndbandið er eftir Hauk Valdimar Pálsson en í því fylgjumst við með einmana mótorhjólakempu í asa stórborgar sem að hverfur inn í afrískt draumaland eftir að hafa reykt skrýtna sígarettu. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Önnur plata Pascal Pinon

Önnur plata íslensku hljómsveitarinnar Pascal Pinon  kemur út hjá þýska plötufyrirtækinu Morr Music á miðvikudaginn. Platan sem ber nafnið  Twosomeness var tekin upp af Alex Somers sem hefur áður unnið með Sin Fang, Úlfi, Jónsa og Sigur Rós. Hljómsveitin er  skipuð tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum og hefur verið virk frá árinu 2009.

Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó á miðvikudagskvöld. Þar munu einnig koma fram hljómsveitarinnar FM Belfast, Prinspóló, Sóley og Sin Fang. Twosomeness inniheldur 12 lög og eru textar fluttir á íslensku, ensku og sænsku. Hlustið á þrjú lög af plötunni hér fyrir neðan.

Ekki vanmeta – á íslensku

      1. 01 Ekki Vanmeta

Þerney (one thing) – á ensku

      2. 02 Þerney (One Thing)

Fernando – á sænsku

      3. 10 Fernando

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Giorgio Moroder kominn á Soundcloud

Hinn goðsagnakenndi pródúsant og lagahöfundur Giorgio Moroder stofnaði nýverið ekki bara eina, heldur tvær soundcloud síður. Þar hefur hann hlaðið upp ótal lögum frá löngum og farsælum ferli, en sumt af því er afar sjaldgæft efni. Hinn ítalski tónlistarmaður var helsti lagahöfundur og upptökustjóri Donnu Summer á hápunkti ferils hennar en hann hefur einnig gefið út tónlist undir eigin nafni og samið tónlist við fjölda kvikmynda, þar á meðal Scarface, Midnight Express og Top Gun. Þá hefur hann unnið með mörgum stjórstjörnum svo sem Bonnie Tyler, Freddy Mercury, David Bowie og Debby Harry og hlotið þrjú óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist. Hann hætti að mestu afskiptum af tónlistarbransanum í byrjun 10. áratugarins en hefur síðan öðlast költ status meðal margra tónlistaráhugamanna. Hér fyrir neðan má hlusta á endurhljóðblandaða útgáfu af From here to Eternity frá 1977 og lag af plötunni EINZELGÄNGER frá 1975.