1. í Airwaves – Straumur fer á flakk

Mynd: Alexander Matukhno

Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.

 

Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.

Flæðandi fönk og seiðandi sveimur

Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.

Jakob Fusion Magnússon

Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.

Fer vel af stað

Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.

 

Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.

Davíð Roach Gunnarsson

Remix og myndband með Ojba Rasta

Lagið Jolly Good með reggíhljómsveitinni Ojba Rasta hefur nú verið klætt upp í spánýjan búning með endurhljóðblöndun og myndbandi. Það er svuntuþeysarasérfræðingurinn Hermigervill sem sér um remixið en hann hefur á síðustu tveimur plötum sínum klætt íslensk dægurlög í rafrænan búning og telst því sérfræðingur í faginu. Myndbandið er eftir Hauk Valdimar Pálsson en í því fylgjumst við með einmana mótorhjólakempu í asa stórborgar sem að hverfur inn í afrískt draumaland eftir að hafa reykt skrýtna sígarettu. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Önnur plata Pascal Pinon

Önnur plata íslensku hljómsveitarinnar Pascal Pinon  kemur út hjá þýska plötufyrirtækinu Morr Music á miðvikudaginn. Platan sem ber nafnið  Twosomeness var tekin upp af Alex Somers sem hefur áður unnið með Sin Fang, Úlfi, Jónsa og Sigur Rós. Hljómsveitin er  skipuð tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum og hefur verið virk frá árinu 2009.

Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó á miðvikudagskvöld. Þar munu einnig koma fram hljómsveitarinnar FM Belfast, Prinspóló, Sóley og Sin Fang. Twosomeness inniheldur 12 lög og eru textar fluttir á íslensku, ensku og sænsku. Hlustið á þrjú lög af plötunni hér fyrir neðan.

Ekki vanmeta – á íslensku

      1. 01 Ekki Vanmeta

Þerney (one thing) – á ensku

      2. 02 Þerney (One Thing)

Fernando – á sænsku

      3. 10 Fernando

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Giorgio Moroder kominn á Soundcloud

Hinn goðsagnakenndi pródúsant og lagahöfundur Giorgio Moroder stofnaði nýverið ekki bara eina, heldur tvær soundcloud síður. Þar hefur hann hlaðið upp ótal lögum frá löngum og farsælum ferli, en sumt af því er afar sjaldgæft efni. Hinn ítalski tónlistarmaður var helsti lagahöfundur og upptökustjóri Donnu Summer á hápunkti ferils hennar en hann hefur einnig gefið út tónlist undir eigin nafni og samið tónlist við fjölda kvikmynda, þar á meðal Scarface, Midnight Express og Top Gun. Þá hefur hann unnið með mörgum stjórstjörnum svo sem Bonnie Tyler, Freddy Mercury, David Bowie og Debby Harry og hlotið þrjú óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist. Hann hætti að mestu afskiptum af tónlistarbransanum í byrjun 10. áratugarins en hefur síðan öðlast költ status meðal margra tónlistaráhugamanna. Hér fyrir neðan má hlusta á endurhljóðblandaða útgáfu af From here to Eternity frá 1977 og lag af plötunni EINZELGÄNGER frá 1975.

Dirty Projectors minnast bassaleikara TV On The Radio

Hljómsveitin Dirty Projectors sem kemur fram á Iceland Airwaves um þar næstu helgi mun gefa út ep plötuna About to Die  þann 6. nóvember næstkomandi. Á plötunni er að finna lagið While You’re Here sem var samið til minningar um Gerard Smith fyrrum bassaleikara hljómsveitarinnar TV on the radio sem lést úr lungnakrabbameini á síðasta ári. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.

Nýtt lag og myndband frá Lay Low

Söngkonan Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir sem er best þekkt undir listamannsnafninu Lay Low sendi í dag frá sér tveggja laga vinyl plötu í takmörkuðu og númeruðu upplagi. Lögin á plötunni heita The Backbone og Rearrangement. Fyrra lagið er nýtt en seinna kom út á plötunni Brostinn strengur í fyrra undir nafninu Gleym mér ei. Lay Low sendi einnig frá sér myndband við lagið The Backbone sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan.

Bedroom Community bæta við sig listamanni

Hin íslenska útgáfa Bedroom Community hefur nú samið við bandaríkjamanninn Paul Corley um útgáfu á hans fyrstu plötu. Corley hefur unnið náið með meðlimum útgáfunnar í fjölmörg ár, en hann kom til að mynda að plötum á borð við SÓLARIS eftir þá Ben Frost og Daníel Bjarnason, By The Throat eftir Ben Frost, Draumalandið eftir Valgeir Sigurðsson auk Ravedeath 1972 eftir Tim Hecker o.fl.

Plata Paul Corley – Disquiet- kemur út þann 5. nóvember á heimsvísu, en sérstök forsala verður á bandcamp síðu hans sem og í völdum búðum hér á landi fyrir Iceland Airwaves, en þar kemur Corley einmitt fram í fyrsta sinn. Hlustið á tóndæmi hér fyrir neðan.