Lokauppgjör Airwaves – Laugardagur og Sunnudagur

Mynd: Óskar Hallgrímsson

 

Laugardagurinn á Airwaves hófst ekki vel þegar fréttir bárust af því að skoska sveitin Django Django hafi þurft að aflýsa tónleikum sínum í Hörpu vegna veikinda. Það var það atriði sem ég var einna spenntastur fyrir á hátíðinni en hafði þó þau áhrif að ég þurfti ekki að velja milli þeirra og Dirty Projectors sem áttu spila á sama tíma og ég var líka mjög spenntur fyrir.

 

Skógláp í kjallara

 

Laugardagskvöldið mitt hófst í myrkum kjallara 11-unnar þar sem skóglápararnir í Oyama, höfðu komið sér fyrir. Oyama spila melódískt hávaðarokk í anda My Bloody Valentine og svipaðra sveita sem voru upp á sitt besta í byrjum 10. áratugarins, og stóðu sig með stakri prýði. Ég þurfti ekki að leita langt í næsta skammt af tónlist því á eftir hæðinni hafði Just Another Snake Cult nýhafið leik. Síðast þegar ég sá hann var hann með stóra hljómsveit með sér en nú naut hann einungis liðfylgis fiðlu og sellóleikara en sjálfur sá hann um söng, syntha og ýmis raftól. Angurvært og tilraunakennt rafpoppið rann vel niður, þetta var oft á mörkum þess að vera falskt, en samt svo óheyrilega fallegt. Hann toppaði í síðasta laginu Way Over Yonder in the Minor Key.

 

Hnökralaus flutningur

 

Næst þurfti ég að gera hlé á tónleikadagskrá vegna næringar og ritstarfa en mætti þó galvaskur í Listasafn Reykjavíkur til að sjá Brooklyn-sveitina Friends. Þau spiluðu hressilegt rafpopp og voru nokkuð mörg að hamast á sviðinu en náðu þó ekki að fanga athygli áhorfenda sérstaklega vel sem líklega voru flestir komnir til að sjá nágranna þeirra úr Brooklyn, Dirty Projectors. Þau stigu á svið á miðnætti og höfðu salinn í hendi sér frá fyrsta lagi. Aðallega voru flutt lög af nýjustu plötu sveitarinnar, Swing Lo Magellan, og var flutningurinn svo að segja hnökralaus. Það var hreint út sagt magnað að verða vitni að flóknum raddsetningum og framúrstefnulegum útsetningunum á sviðinu að því er virðist án þess að neitt hafi verið spilað af bandi. Oft kölluðust raddir söngkvennanna á við tilraunakennd gítarsóló og gæsahúð og taumlaus gleði fylgdi í kjölfarið. Tónleikarnir náðu hámarki í hinu dramatíska en þó mínímalíska The Gun Has No Trigger og þetta voru án efa bestu tónleikarnir sem ég sá á Airwaves í ár.

 

Ég hljóp þá yfir í Hafnarhúsið til að ná Gus Gus sem ég hafði ekki séð síðan þeir spiluðu sína síðustu tónleika á Nasa. Gus Gus eru orðin vel sjóuð af tónleikahaldi og sveitin kann upp á hár að rífa upp stemmningu með vel skipulögðum uppbyggingum og ná oft að teygja lögin sín upp í meira en tíu mínútur án þess að nokkrum leiðist þófið eða dansinn hætti að duna.

 

Sunnudagskvöld

 

Þrátt fyrir að fáir höndli yfirleitt að fara út á sunnudeginum eftir fjögurra daga maraþon djamm og tónleikaviðveru þá hefur sunnudagskvöldið löngum verið eitt af mínum uppáhalds á Airwaves. Því miður voru ekki stórir tónleikar á Nasa eins og undanfarin ár en þó var ýmislegt í boði og sörf-rokksveitin Bárujárn var fyrst á dagskrá á Gamla Gauknum. Sindri er afskaplega skemmtilegur gítarleikari og hann fór hamförum í flottum sólóum og snaggaralegum riffum, ekki síst í laginu Skuggasveinn.

 

Þvínæst rölti ég niður á Þýskabarinn þar sem trúbatrixan Elín Ey var að koma sér fyrir. Hún hefur afskaplega fallega rödd en innhverf kassagítardrifin trúbadortónlistin var ekki alveg minn expressóbolli og ég vonaðist eftir meira stuði. Það mætti á svæðið með hinni ákaflega vel stílíseruðu Sometime og 90’slegri danstónlist þeirra. Á köflum trip hop-leg en stundum meira út í reif og stemmningin var á uppleið.

 

Bassinn tekinn í göngutúr

 

Síðasta atriði kvöldsins voru diskóboltarnir í Boogie Trouble sem hljóta að vera eitt mest grúvandi band á Íslandi um þessar mundir. Ingibjörg tók bassann í göngutúr og gítarinn minnti á útúrkókað diskófönk úr klámmyndum frá öndverðum áttunda áratugnum. Þau lokuðu kvöldinu með stæl en mig þyrsti í meira. Því var haldið yfir í Iðusali þar sem Rafwaves var enn í fullum gangi og Oculus dúndraði dýrindis djöflatekknói ofan í þær 20 hræður sem enn voru eftir og dönsuðu úr sér líftóruna.

 

 

Heilt yfir var þessi Airwaves hátíð frábærlega vel heppnuð þrátt fyrir að ýmislegt hafi unnið á móti henni. Þar mætti helst nefna veðrið og nokkrar afbókanir hjá stórum nöfnum. Hápunktarnir hjá mér í ár voru Doldrums á fimmtudagskvöldinu, Hjálmar og Jimi Tenor á föstudaginn og Dirty Projectors á laugardaginn. Þá verð ég að minnast á að ég sá hvorki né heyrði af mörgum risastórum röðum, sem oft áður hafa hrjáð hátíðina, og er það afar góðs viti.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *