Fleiri hljómsveitir á Reykjavík Music Mess

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess verður haldin 24. til 26.  maí á tónleikastaðnum Volta og Kex Hostel. Miðasala er hafin á midi.is og eru miðar á tilboði til 16. apríl eða meðan birgðir endast.

Fleiri hljómsveitir hafa bæst í hóp þeirra sem munu koma fram á hátíðinni. Monotown, Stafrænn Hákon, Boogie Trouble, Loji og Tonik munu allar spila. Hljómsveitin PVT frá Ástralíu er meðal þeirra sem koma fram, en þeir eru á mála hjá breska útgáfufélaginu Warp. Þrjár íslenskar hljómsveitir hafa bæst sömuleiðis í hópinn en þær eru SykurJust Another Snake Cult og Good Moon Deer. Alls hafa 10 hljómsveitir staðfest komu sína en um 15 hljómsveitir munu koma fram á Reykjavík Music Mess. Nánari upplýsingar og hlekkir á hljómsveitirnar má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Listi hinna staðfestu:

BLOODGROUP

DZ DEATHRAYS (AUS)

GOOD MOON DEER

JUST ANOTHER SNAKE CULT

MAMMÚT

MUCK

OYAMA

PVT (AUS)

SYKUR

WITHERED HAND (UK)

Nick Cave and the Bad Seeds aðalnúmerið á All tomorrow’s parties

Nick Cave mun verða aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Nick Cave spilaði síðast á Íslandi árið 2006 en hljómsveitin hans, The Bad Seeds, kom síðast fram á Íslandi árið 1986 þegar Nick Cave heimsótti Ísland í fyrsta sinn.

Tónlistardagskrá hátíðarinnar verður ekki af verri endanum en auk Nick Cave & The Bad Seeds munu eftirtaldar hljómsveitir koma fram:

CHELSEA LIGHT MOVING (með forsprakka Sonic Youth, Thurston Moore í fararbroddi)
THE FALL
THE NOTWIST
THEE OH SEES
DEERHOOF
MÚM
HAM
DEAD SKELETONS
MUGISON
SQÜRL (með leikstjórann Jim Jarmusch fremstan í flokki)
AMIINA
VALGEIR SIGURÐSSON
GHOSTIGITAL
PUZZLE MUTESON
ÆLA
KIMONO
APPARAT ORGAN QUARTET
HJALTALÍN
SNORRI HELGASON

Auk tónlistardagskrár verður í boði kvikmyndadagskrá í Andrews Theather sem Jim Jarmusch mun meðal annarra sjá um og Popppunktur í boði Dr. Gunna.

Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.

Útidúr senda frá sér Detour

Indípoppsveitin Útidúr gefur út sína aðra plötu, Detour, næstkomandi mánudag en í vikunni var gripurinn settur í forspilun á Gogoyoko. Platan er nokkur viðbrigði frá þeirra fyrstu plötu sem innhélt að mestu leiti akústískt kammerpopp en á Detour róa þau á öllu rafrænni og stuðsæknari mið. Platan var tekin upp á síðustu tveimur árum í hinum ýmsu stofum, svefnherbergjum og kjöllurum af Kára Einarssyni, bassaleikara sveitarinnar. Sveitin skrifaði nýverið undir samning við þýskt útgáfufyrirtæki sem mun dreifa Detour og This Mess We’ve Made, fyrstu plötu Útidúrs, þar í landi. Í sumar mun sveitin svo leggja land undir fót með heljarinnar tónleikaferð um Þýskaland. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á lögin Maelstrom og Vultures af plötunni Detour.

Prins Póló bjóða upp á Bragðarefi

Gleðigengið í Prins Póló setti nýtt lag í spilun á tónlistarveitunni Gogoyoko í dag. Lagið ber heitið Bragðarefirnir og vísar væntanlega til hinnar vinsælu nammiísblöndu, en Prinsinn er þekktur fyrir tíðar tilvísanir í matvæli í textum sínum. Lagið er nokurs konar lágstemmdur stuðsmellur og textinn er afar hnyttinn og súrrealískur. Ekkert annað band á Íslandi í dag kemst upp með línur eins og þessa: “Við keyrum flotta bíla og notum endaþarmsstíla, innflutta frá kína massadrullufína.”

Tónleikadagskráin 11.-13. apríl

Helgin hefst snemma að venju á straum.is sem af einskærri góðmennsku og útsjónarsemi leiðbeinir lesendum sínum um það helsta í tónleikalandslagi helgarinnar.

Fimmtudagur 11. apríl

Grísalappalísa, Oyama og Nolo boða til hljómleika á skemmtistaðnum Volta. Grísalappalísa er ný viðbót í tónlistarflóru höfuðborgarsvæðisins en forsprakki hennar, Gunnar Ragnarsson, var áður söngvari Jakobínurínu. Sveitin gaf út sitt fyrsta lag, Lóan er komin, á dögunum sem er ólgandi pönkfönkaður nýbylgjusmellur af bestu gerð. Fyrsta breiðskífa þeirra kemur út von bráðar á vegum 12 tóna og lofar sveitin því að hún muni valda miklum usla í tilfinningalífi landans. Tilraunapoppsveitin Nolo gaf nýverið frá sér EP plötuna Human á bandcamp og ómstríðu óhljóðabelgirnir í Oyama hafa verið iðnir við kolann í tónleikahaldi undanfarið. Þá lofa tónleikahaldarar að leynigestur muni koma fram og eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að skýra frá því hver hann er. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og kostar einn þúsara inn.

 

Ólöf Arnalds ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og heldur útgáfutónleika fyrir sína nýjustu plötu, Sudden Elevation, í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Platan var tekin upp á tveimur vikum haustið 2011 í sumarbústað í Hvalfirðinum en Skúli Sverrisson stjórnaði upptökum. Húsið opnar klukkan 21:00, tónleikarnir hefjast 21:30 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Wireless tónleikasería tónlistarveitunnar Gogoyoko heldur áfram í kvöld þegar Borko stígur á stokk á Kex Hostel. Hann kemur fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en á næstunni heldur hann í tónleikaferð um Evrópu og ætti því að vera í keppnisformi á kexinu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og 1500 krónur veita aðgöngu að gleðinni.

 

Snorri Helgason hefur undanfarin tvö ár komið fram með Mr. Sillu, Guðmundi Óskari úr Hjaltalín og Magnúsi Elíasen trommara (sem er í of mörgum hljómsveitum til að ég muni þær) á tónleikum en þau hafa nú stigið skrefið til fulls og stofnað The Snorri Helgason Band. Þau eru nú að vinna í sinni fyrstu plötu undir því nafni og ætla að prufukeyra nýja efnið á Faktorý. Einnig koma fram Mr Silla og Pétur Ben sem hlaut einróma lof fyrir sína nýjustu plötu, God’s Lonely Man. Tónleikarnir hefjast 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Föstudagur 12. apríl

Á Kex Hostel verður slegið upp tónleikum í tilefni af því að 83 dagar eru til festivalsins á Rauðasandi. Fjórar hljómsveitir sem munu spila á hátíðinni ætla að taka forskot á sæluna en þær eru: Boogie Trouble, Nolo, Hljómsveitt og Hymnalaya. Aðgangur er ókeypis og jafnframt munu þeir fyrstu þyrstu til að mæta fá ókeypis glaðning í gleri en herlegheitin hefjast 20:30. Þá munu aðstandendur Rauðsandsfestivalsins kynna fyrirkomulag hátíðarinnar og miðasölu.

 

Undiraldan heldur sínu striki í Hörpunni en á föstudaginn koma fram Vök, sigursveit músíktilrauna, og tónlistar- og myndlistarkonan Berglind Ágústsdóttir. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 17:30 og aðgangur er sem fyrr ókeypis en vakin skal athygli á því að í þetta skiptið eru tónleikarnir haldnir á Kolabrautinni á fjórðu hæð hússins, en ekki í Kaldalónssalnum.

 

Leaves, Stafrænn Hákon og Monotown slá upp tónleikaveislu á Volta en í tilkynningu frá þeim kemur fram að á viðburðinum verði kafað djúpt ofan í hyldýpi og áður óþekktar tíðnir kannaðar. Þá séu Leaves með nýtt efni í bígerð og að nýjasta plata Stafræns Hákons hafi verið tekin upp með höfuðið í hanskahólfi Massey Ferguson gröfu. Hvort að grafan verði með á sviðinu á Volta kemur ekki fram en þetta hljómar óneitanlega spennandi. Húsið opnar 21:00 og miðaverð er 1500 krónur.

 

Rvk Soundsystem láta engan bilbug á sér finna og halda áfram með fastakvöld sín á Faktorý þar sem þeir leika reggí, dancehall og dub fyrir dansþyrsta eyjarskeggja. Gestasnúður kvöldsins er Dj Cyppie og gestir eru hvattir til að brenna niður Babýlon og dansa af sér skónna. Að venju er senan í hliðarsal Faktorý, plötusnúðarnir hefja gleðina rétt fyrir miðnætti og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Á efri hæð Faktorý verða tónleikar til styrktar Regnbogabörnum, samtökum sem berjast gegn einelti. Fram koma Fm Belfast, Prins Póló, Úlfur Úlfur, Kjurr og sigursveit músíktilrauna, Vök. Aðgangseyrir er 1500 krónur og rennur óskiptur til Regnbogabarna.

Laugardagur 13. apríl

Á Bar 11 verður haldið ROKKFEST 2013 þar sem sex þekktar og minna þekktar rokksveitir koma fram. Á fb-síðu viðburðarins kemur fram að nóg sé komið af poppi og metal og Rokkfestið sé fyrsta skrefið í yfirvofandi upprisu rokksins. Þær sveitir sem hafa boðað koma sína eru Mammút, Sindri Eldon & The Ways, Japanese Super Shift and the Future Band, Dorian Gray, Treisí og Casio Fatso. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Hljómsveitirnar Knife Fights og Spy Kids 3D munu koma og spila tryllt indí pönk fyrir rokkþyrsta geðsjúklinga á Dillon.

Það verður þungur laugardagur í Lucky Records plötubúðinni á Rauðarárstígnum en þar munu harðkjarnasveitirnar Muck, In The Company of Men og Klikk leika fyrir slammi en hljómleikarnir hefjast klukkan 15:00. Aðgangur er ókeypis en straumur mælir með því að fólk styrki þessa stórgóðu plötubúð með vínilkaupum.

 

Á  Rósenberg verða tónleikar með Krístjáni Hrannari, Smára Tarf og Þoku. Kristján mun spila lög af fyrstu sólóplötu sinni sem kemur út í sumar. Leikar hefjast kl 21:00 og það kostar 1500 krónur inn

Á Gamla Gauknum munu leiða saman hesta sína hljómsveitirnar Momentum og Kontinuum. Sérstakir gestir verður hljómsveitin We Made God. Tónleikarnir hefjast kl 23:00 en húsið opnar 21:00. Aðgangseyrir eru 1500 kr.

Frumflytja plötuna á landbúnaðarhátíð í Ástralíu

Nú hefur verið staðfest að væntanleg Daft Punk plata, Random Access Memories, verði frumflutt í heild sinni þann 17. maí á landbúnaðarhátíð í smábænum Wee Waa í Ástralíu. Platan verður spiluð af playbakki í heild sinni af sérsmíðuðu sviði og einungis 4000 þúsund miðar eru í boði á hátíðina, en ókeypis aðgangur er fyrir íbúa Wee Waa sveitarfélagsins. Á hátíðinni verða einnig í boði hefðbundnari skemmtiatriði eins og hundahástökk, trúðahópur, músakapphlaup og flugeldasýning. Wee Waa er 2100 manna bær í um 8 klukkustunda fjarlægð frá Sidney og hefur verið nefndur bómullarhöfuðborg Ástralíu. Random Access Memories kemur út 21. maí en fyrir neðan má horfa á viðtöl við Giorgio Moroder og Todd Edwards um aðkomu þeirra að plötunni.

Tilkynnt um fleiri listamenn á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um yfir  20 listamenn sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári. Þeir erlendu listamenn sem tilkynntir voru eru; AlunaGeorge, Zola Jesus, Robert Foster, Mariam The Believer, On An On, DIANA og Stealing Sheep. Þeir íslensku listamenn sem bættust í hópinn eru; Mammút, Pedro Pilatus, Muck, Grísalappalísa, Vök, In The Company Of Men, Aragrúi, Reptilicus, Rúnar Magnússon, Jónas Sen, Þóranna Dögg Björnsdótir/Trouble, Björk Viggósdóttir/Lala Alaska og AMFJ.

Casablancas og Pharrel Williams á nýju Daft Punk?

Nýja Daft Punk platan sem allir diskóboltar og danstónlistarnerðir heimsins bíða eftir eins og endurkomu krists kemur út 21. maí en í dag bárust fregnir af öllum tónlistarmönnum sem leika gestahlutverk á henni. Áður hefur verið sagt frá því að Nile Rodgers og Giorgio Moroder hafi komið að gerð hennar en í dag upplýsti franska vefsíðan konbini.com að Julian Casablancas, söngvari Strokes, syngi í einu lagi og Pharrel Williams í tveimur. Þar kemur einnig fram að Noah Lennox úr Animal Collective syngi eitt lag og gamla House-kempan Todd Edwards, sem einnig söng á Discovery, annað. Þetta hefur þó ekki verið opinberlega staðfest af Daft Punk-liðum en upplýsingarnar koma þó heim og saman við það sem áður hefur komið fram um plötuna. Ef þetta er rétt er svo sannarlega enn meiri ástæða til að vera spenntur, fréttaritari straums er alla vega við það að pissa á sig. Fyrir neðan má skoða allan gestalistann á plötunni sem að kombini sagði frá en titlar laganna eru enn á huldu.

1 – Nile Rodgers (Guitar), Paul Jackson Jr. (Guitar) – 4:34
2 – Instrumental – 5:21
3 – Giorgio Moroder (Synth) – 9:04
4 – Gonzales (Piano) – 3:48
5 – Julian Casablancas (Vocals) – 5:37
6 – Loose yourself to dance – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 5:53
7 – Paul Williams (Vocals and Lyrics) – 8:18
8 – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 6:07
9 – Paul Williams (Lyrics) – 4:50
10 – Instrumental – 5:41
11 – Todd Edwards (Vocals) – 4:39
12 – Noah Benjamin Lennox (Panda Bear – Vocals) – 4:11
13 – Dj Falcon – 6:21

Tónleikar helgarinnar 4. – 6. apríl

 

Fimmtudagur 4. apríl:

Á Kex Hostel mun Grísalappalísa gefa áhugasömum formsmekk af nýrri plötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Hljómsveitirnar Legend, Muck og Japam slá til tónleikaveislu á Volta Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og byrja tónleikarnir stuttu eftir það. Miðaverð er 1000 kr. 

Agent Fresco og Kiriyama Family halda tónleika á efri hæðinni á Faktorý. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og kostar 1500 kr inn.

 

Föstudagur 5. apríl 

Plötuverslunin 12 Tónar fagnar nú 15 ára afmæli sínu. Af því tilefni verður opið hús á Skólavörðustíg 15 næstkomandi föstudag, 5. apríl á milli 17 og 19. Hljómsveitin Rökkurró mun leika nokkur lög fyrir gesti og gangandi. Boðið verður uppá veitingar að hætti hússins og eru allir vinir, velunnarar og viðskiptamenn 12 Tóna hjartanlega velkomnir.

Hljómsveitirnar Babies og Beatless leiða sama hesta sína með hjartslætti og rythma svo að allir geti farið dansandi inn í helgina á Faktory. Beatless hefja tónleikana kl 23:00 og Babies spila uppúr miðnætti. Miðaverð er 1000 kr. 

Skúli hinn mennski heldur tónleika á Rósenberg ásamt Þungri byrði. Tónleikarnir klukkan 22:00. Verðið er ákkúrat mátulegt eða 1500 krónur á mann og ofbeldi ógildir miðann.

 

Laugardagur 6. apríl

VORVINIR 2013: Í tilefni af væntanlegri plötuútgáfu hefur hljómsveitin Mammút ákveðið að blása til heljarinnar söfnunartónleika svo hægt sé að klára plötuna með stæl. Uppáhaldshljómsveitir Mammút voru svo yndislegar að leggja bandinu lið og eru þar samankomnar helstu kanónur og snillingar tónlistarsenunnar í dag. Ásamt Mammút munu OJba Rasta, Samaris og Oyama koma fram. Húsið (efri hæð Faktorý) opnar kl 21 og tónleikarnir hefjast STUNDVÍSLEGA kl 22. Miðaverð er 1500 kr. 

Tónlistarmaðurinn Jón Þór mun heiðra tónleikagesti á Bar 11 með nærveru sinni og flytja þar lög af sinni fyrsti breiðskífu, Sérðu mig í lit. Húsið opnar klukkan 21:00 og er aðgangur ókeypis.