Diskósúpersveitin Chic sem leidd er af gítarleikaranum Nile Rodgers mun halda tónleika hér á landi í Laugardalshöll þann 17. júlí næstkomandi. Chic var ein helsta sveitin í diskósenu New York borgar á ofanverðum 8. áratugnum og eftir hana liggja ótal smellir eins og Le Freak, Everybody Dance og I Want Your Love. Þá var sveitin ötul í lagasmíðum og upptökum fyrir aðra listamenn eins og Sister Sledge og Diana Ross og sem slík ábyrg fyrir ódauðlegum slögurum eins og We are Family og Upside Down. Nile Rodgers hefur einnig stjórnað upptökum á plötum á borð við Let’s Dance með David Bowie og Like a Virgin með Madonnu. Þá ætti hann að vera hlustendum samtímans kunnugur þar sem hann er í stöðugri útvarps- og dansgólfaspilun um þessar mundir í Daft Punk laginu Get Lucky sem hann fönkar all svaðalega upp með sínum óviðjafnanlega gítarleik. Annar helmingur Chic, hinn frábæri bassaleikari Bernand Edwards, er því miður látinn en koma sveitarinnar ætti þó að vera diskóboltum og grúvhundum mikið fagnaðarefni. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sísí Ey sjá um upphitun á tónleikunum en miðasala hefst á föstudaginn á midi.is. Hlustið á lögin Everybody Dance og Good Times hér fyrir neðan.
Category: Fréttir
Myndband frá Foxygen
Bandaríska indie-rokk dúóið Foxygen frá Westlake Village í Kaliforníu gáfu út sína aðra plötu We Are The 21st Century Ambassadors of Peace & Magic þann 22. janúar. Lagið No Destruction er án efa einn af hápunktum plötunnar en því mætti lýsa eins og skemmtilegri blöndu af Velvet Underground, Bob Dylan og Pavement. Hljómsveitin sendi í dag myndband við þetta frábæra lag.
Tónleikar helgarinnar 8. -12. maí
Miðvikudagur 8. maí
Mosi Frændi, Fræbblarnir, Hellvar, Saktmóðgur og Skelkur í bringu spila á Gamla Gauknum, tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er ókeypis inn.
Á Volta koma fram hljómsveitirnar Ojba Rasta, Mammút og Geimfarar. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það kostar 1500 kr inn.
Fimmtudagur 9. maí
Á Loft Hostel verða ókeypis tónleikar með Útidúr sem hefjast klukkan 21.
Birgir Örn Steinarsson sem var áður í hljómsveitinni Maus og Hjalti Jón Sverrisson úr Miri munu halda tónleika á Hemma á Valda. Frítt inn og tónleikarnir hefjast stundvíslega kl 22.
Shadez of Reykjavík kynna new school djöflashit ásamt Freskimos og GERViSYKUR. Húsið opnar 22 og það kostar 1000 kr inn.
Föstudagur 10. maí
Hljómsveitin Sykur fagnar próflokum með ókeypis tónleikum á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22.
Dikta, Friðrik Dór og 1860 koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.
Laugardagur 11. maí
Vínylmarkaðurinn mætir aftur til leiks á Kex Hostel næstkomandi laugardag. Þar verður hægt að kaupa íslenskar vínylplötur.Markaðurinn hefst kl. 13 og stendur til kl. 20. Hljómsveitir koma fram og leika listir sínar af útgefnum vínylplötum!
15:00 Kippi Kaninus
16:00 Low Roar
17:00 Valdimar
18:00 Hjaltalín
FM Belfast og Vök koma fram á próflokadjammi Faktory. Armband fyrir föstudag og laugardag kostar 3000 kr. Stakir miðar á 2.000 kr við inngang á tónleikadag ef húsrúm leyfir.
Langi Seli og Skuggarnir koma fram á tónleikum á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22 og það er frítt inn.
Mynd: Elín Lóa
Yo La Tengo á Iceland Airwaves
Tilkynnt var um 25 nýja listamenn sem munu koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni í dag og þar ber hæst hina mikilsvirtu bandarísku indísveit Yo La Tengo. Aðrir í erlendu deildinni eru Tape og El Rojo frá Svíþjóð, Carmen Villain frá Noregi, Moon King frá Kanada og Jakob Juhkam frá Eistlandi. Af íslenskum listamönnum sem bætt hefur verið við má nefna Ólaf Arnalds, Sólstafi, Prins Póló, Samaris, Low Roar, Nolo, UMTBS og Lord Pusswhip. Hægt er að skoða öll böndin sem bættust við á heimasíðu airwaves.
Nýtt lag frá Vök
Sigurvegarar músíktilrauna í ár Vök sendu í dag frá sér lagið Ég bíð þín. Lagið er sungið á íslensku og var mixað og masterað af Möller Records. Hlustið á það hér fyrir neðan.
mynd: Brynjar Gunnarsson
Nýtt lag með Vampire Weekend
Indípoppsveitin Vampire Weekend var að senda frá sér nýtt lag rétt í þessu. Lagið heitir Ya Hey og er af væntanlegri plötu þeirra, Modern Vampires of the City, sem kemur út þann 13. maí. Í myndbandinu má sjá hljómsveitina sprauta úr kampavínsflöskum eins og þeir hafi unnið Formúlu 1 hundarð sinnum. Myndbandið má horfa á hér fyrir neðan og hlusta á lögin Diane Young og Step sem einnig eru á væntanlegri plötu.
Tónleikar helgarinnar
Í föstum liðum eins og venjulega mun Straumur leiðbeina lesendum um rjómann í tónleikahaldi á þessari fyrstu helgi maí mánuðar.
Fimmtudagur 2. maí
Það verður þungarokksmessa í Austurbæ í kvöld þegar tvær helstu þungarokkssveitir landsins, Dimma og Sólstafir, leiða saman hesta sína. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðinni „Náttfararnir“ en sveitirnar hafa ferðast saman um landið síðustu misseri til að kynna nýjustu plötur sínar fyrir rokkþyrstum áheyrendum. Dimma gáfu út plötuna Myrkraverk í lok síðasta árs sem fékk einróma lof gagnrýnenda og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum ásamt vel völdu eldra efni. Sólstafir eru nýkomnir úr mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu og er þess vegna í rokna rokkformi um þessar mundir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2900 krónur.
Föstudagur 3. maí
Pink Street Boys, Foma og Lord Pusswhip koma fram á fríkeypis tónleikaröð Dillon sem haldin eru vikulega og samviskusamlega á föstudagskvöldum. Pink Street Boys var stofnuð á grunni hinnar stórskemmtilegu sækadelik hljómsveitar Dandelion Seeds sem nú hefur lagt upp laupana. Lord Pusswhip er pródúsant, plötusnúður og rappari að nafni Þórður Ingi Jónsson sem gerir hip hop tónlist undir áhrifum frá fjólubláu hóstasafti, djassi, kvikmyndatónlist, skóglápsrokki og ýmsu öðru. Hann hefur smíðað takta fyrir inn- og erlenda rappara úr ýmsum áttum, þar á meðal fyrir Mudd Mob crew-ið sem hann er meðlimur í. Á tónleikunum mun hann njóta aðstoðar rapparans Svarta Laxness. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.
Kiriyama Family er um þessar mundir að semja efni á nýja breiðskífu en hafa ákveðið að taka sér hlé frá hljóðverinu og halda tónleika á Hressó með nýkrýndum sigurvegurum músíktilrauna Vök. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukkan 22:00.
Grasrótartónleikarröðin heldur áfram á Faktorý og að þessu sinni koma fram sveitirnar Sónn og Klaus. Sónn er nýstofnuð sveit skipuð ungum tónlistarnemum úr FÍH og spila vandaða dægurtónlist með tregafullum og sálarskotnum undirtón. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 23:00 og það er fríkeypis inn.
Laugardagur 4. maí
Það verður boðið upp á heljarinnar rokk- og diskókokteil á Volta þar sem sveitirnar Oyama, Muck, The Heavy Experience og Boogie Trouble venda kvæðum sínum í kross. Allar þessar sveitir eru með hressari tónleikaböndum landsins og að þær safnist saman undir sama þaki ætti virka ákaflega stuðvekjandi á áhorfendur. Gleðinnar dyr opnast klukkan 22:00 og 1000 krónur veita inngöngu að þeim.
Skúli mennski flytur brot af sínum bestu verkum frá árunum 2010-2013 auk þess sem óútgefnar perlur fá að njóta sín á Rósenberg. Við verkið mun hann njóta aðstoðar úrvals hljóðfæraleikara á bassa, gítar, trommur og munnhörpu en flutningurinn hefst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.
Tónlistarkonan Lay Low bryddar upp á þeirri nýbreytni að halda tónleika heima í stofu hjá sér sem verður streymt í gegnum veraldarvefinn. Streymið af tónleikunum er hægt að nálgast án gjalds á þessari vefslóð og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 21:00.
Rokkbrýnin í Brain Police halda tónleika ásamt Alchemiu og Why Not Jack á Gamla Gauknum. Miðaverð er 1500 krónur og húsið opnar klukkan 21:00.
Sunnudagur 5. maí
Straumur vill vekja athygli á Sunnu-djazzinum, vikulegum djasstónleikum á Faktorý þar sem ungir og efnilegir spilarar leika efni úr ýmsum áttum af fingrum fram. Þeir eru á hverjum sunnudegi og hefjast ávallt 21:30 í hliðarsalnum og ókeypis er inn.
Nýtt myndband með Retro Stefson
Það er skammt stórra högga á milli hjá gleðidanssveitinni Retro Stefson sem í dag frumsýndi glænýtt myndband við lagið Qween sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum landsins á síðasta ári. Einungis mánuður er síðan síðasta myndband sveitarinnar leit dagsins ljós en þar klæddu þrír hljómsveitarmeðlimir sig upp í dragi. Í nýja myndbandinu sem er tekið upp við rætur Esjunnar er söngvarinn Unnsteinn Manuel í veiðimannaham og skýtur hvítan ref með riffli. Refurinn umbreytist við það í skjannahvíta fegurðardís og óvænt atburðarás tekur við. Myndbandinu er leikstýrt af Reyni Lyngdal og hægt er að horfa á það hér fyrir neðan.
Aukatónleikar með Kraftwerk í Eldborg
Elektrófrumkvöðlarnir í Kraftwerk sem spila á Iceland Airwaves hátíðinni í byrjun nóvember hafa nú bætt við aukatónleikum hér á á landi. Tónleikarnir verða í Eldborgarsal Hörpu mánudaginn 4. nóvember og miðasala hefst á hádegi 6. maí eða næstkomandi mánudag, en þeir sem hafa tryggt sér miða á Airwaves býðst að kaupa miða í forsölu sem hefst á föstudaginn. Ekki er þó nauðsynlegt að eiga miða á Airwaves til að kaupa miða á aukatónleikana og miðaverð er 8.900, 11.900 eða 12.900 eftir staðsetningu í salnum.
Fyrri tónleikar sveitarinnar verða sunnudaginn 3. nóvember og munu slá botninn í Iceland Airwaves en þeir verða einnig í Eldborg og miðum á þá verður dreift til gesta hátíðarinnar í Hörpu föstudaginn 1. nóvember eftir „Fyrstur kemur, fyrstu fær“ reglu og er þá einn miði á hvert armband. Tónleikar sveitarinnar eru mikil upplifun fyrir augu og eyru og þrívíddargleraugu eru nauðsynleg til að njóta sjónarspilsins til fulls.
Myndband frá Legend
Hljómsveitin Legend sendi fyrr í mánuðinum frá sér myndband við lagið Benjamite Bloodline af plötunni Fearless sem kom út í fyrra. Hljómsveitin sem er skipuð Krumma Björgvinssyni og Halldóri Á Björnssyni tóku upp myndbandið fyrir tæpum tveimur árum en kláruðu það nýverið.