Tónleikar vikunnar

Það er af nægu að taka í tónlistarlífi höfuðborgarsvæðisins þessa vikuna og hér verður farið yfir það helsta.

 

Miðvikudagur 16. október

Reggístórsveitin Ojba Rasta fagnar útgáfu annarrar plötu sinnar með hlustunarteiti á Harlem. Teitin hefst klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis, sem og veigar fyrir þá sem mæta snemma.

Skelkur í bringu, Godchilla og Kælan Mikla stíga á stokk á Gamla Gauknum á tónleikum sem bera yfirskriftina „Punk is not Dead“ eða „Ræflarokkið er ekki látið“ eins og það gæti útlagst á ástkæra ylhýra. Þau skilaboð er vert að minna á reglulega en ókeypis er inn á tónleikana sem hefjast klukkan 21:00

Fimmtudagur 17. október

Systrasveitin Bleached frá Los Angeles heldur tónleika á  Harlem. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og um upphitun  sér íslenska harðkjarnasveitin Muck. Bleached er ein heitasta jaðarsveit Los Angeles í dag og er skipuð systrunum Jennifer og Jessie Clavin. Þær gáfu nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Ride Your Heart, sem hefur fengið einkar góða dóma hjá helstu tónlistarmiðlum, meðal annars 4/5 í Mojo. Tónleikar þeirra eru þeir fyrstu í langri tónleikaferð þeirra um alla Evrópu en miðasala er á midi.is og í verslunum Brim, Laugavegi og Kringlunni, miðaverð er 2000 krónur.

Harðkjarnatónleikar verða á Gamla Gauknum en þar koma fram Klikk, Trust the Lies, Mercy Buckets og Icarus. Aðgangseyrir er 1000 krónur og kjarninn byrjar að harðna klukkan 21:00.

Rafpoppsveitin Vök sem sigraði músíktilraunir fyrr á árinu fagnar útgáfu EP-plötunnar Tensions á Kex Hostel. Húsið opnar 20:30, tónleikarnir hefjast hálftíma síðar og miðaverð er 1500 krónur.

Föstudagur 18. október

Amaba Dama, Retrobot og Tuttugu efna til tónleikahalds á Gamla Gauknum. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gleðin hefst upp úr 22:00.

Pönkhljómsveitin Slugs sem er leidd af Sindra Eldon fagnar útgáfu sinnar annarrar plötu, Þorgeirsbola, á Bar 11. Þetta verða fyrstu tónleikar sveitarinnar í 3 ár en Skelkur í Bringu koma einnig fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 11 og kostar 500 kr inn.

Maya Postepski, trommuleikari kanadísku indie-elektró hljómsveitarinnar Austra, þeytir skífum á Harlem. Austra hefur átt mikilli velgengni að fagna beggja vegna Atlantshafs og var hljómsveitin meðal annars tilnefnd til Polaris verðlaunanna 2011 og komu fram á Iceland Airwaves sama ár. Postepski hefur leikinn á miðnætti í hliðarsal Harlem og aðgangur er ókeypis.

Laugardagur 19. október

Útgáfutónleikar Flugvélar og Geimskips verða á Kex Hostel. Sveitin gaf nýverið út plötuna Glamúr í Geimnum en á tónleikunum verða einnig í boði, kraftaverk, furðuleg kvikmynd, töfrar og ljósadýrð eins og fram kemur í tilkynningu frá sveitinni. Ævintýrið hefst 21:00 og það kostar 1000 krónur að taka þátt í því.

Tónleikar helgarinnar

Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.

Miðvikudagur 7. ágúst

Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.

Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.

Fimmtudagur 8. ágúst

Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.

Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.

Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 9. ágúst

Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.

Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 10. ágúst

Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Sunnudagur 11. ágúst

Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.

 

 

 

TV ON THE RADIO MEÐ SITT FYRSTA LAG Í TVÖ ÁR

 

Það hefur verið rólegt í tíðinni hjá TV On the Radio undanfarið þó hljómsveitin hafi komið fram reglulega hefur nýtt efni staðið á sér allt frá útgáfu síðustu plötu þeirra Nine Types of Light. Nú hefur bandið hins vegar snúið aftur með kraftminn smell sem ber titilinn „Mercy“. Lagið er öllu þyngra og rokkaðara heldur en efnið á Nine Types of Light og gæti vel verið tekið af meistarastykkinu Return To Cookie Mountain sem kom út 2006 og hljóta það að teljast góð tíðindi.

Tónleikar helgarinnar

Þessa síðustu helgi júlímánaðar er margt á döfinni í hljómleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu og verður hér farið yfir helstu atriði sem endranær.

Miðvikudagur 24. júlí

Hljómsveitirnar Amiina og Sin Fang halda tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík klukkan 20:30. Báðar hljómsveitir hafa sent frá sér nýtt efni á árinu og hafa verið iðnar við tónleikahald erlendis, en ekki komið mikið fram á Íslandi. Aðgangseyrir er 2500.

Tónleikar til heiðurs alþjóðlega tungumálsins Esperantó verða haldnir á Gamla gauknum. Fram koma Sindri Eldon & The Ways og harmonikkuleikarinn Kimo sem spilar ska tónlist og syngur á esperantó. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Bam Margera úr Jackass og Viva La Bam ásamt hljómsveitinni CKY kynna F***KFACE UNSTOPPABLE en þeir munu halda tónleika og ýmis uppátæki á Spot í Kópavogi. Vitleysingurinn Brandon Novak úr Jackass og Viva La Bam kemur einnig fram og hin frábæra íslenska hljómsveit Morðingjarnir munu taka sín bestu lög og sjá um að trylla lýðinn. Gleðskapurinn hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 4900 krónur.

Kvennarappkvöld verður haldið á 11-unni og hefst það klukkan 21:00.  Þar verður rappað, stappað, ljóðaslammað, sungið, spilað, bítboxað, spunnið, klappað og allur andskotinn að sögn skipuleggjanda. Fram kemur heill kvennaskari: Alvia Miakoda Islandia, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórdís Nadia Semichat, Solveig Pálsdóttir, Kolfinna Nikulásdóttir, Anna Tara Andrésdóttir, Katrín Helga Andrésdóttir, Agnes Björgvinsdóttir, La La Bitches!, Tinna Sverrisdóttir og fleiri nettar. Aðgangur eru ókeypis.

Fimmtudagur 25. júlí

Úr dimmum skúmaskotum Kópavogs, þar sem ungir pönkarar og vandræðaunglingar héngu áður fyrr mun nú aftur óma framandi tónlist. Hljóðgjörningafélagið HULK hefur hóað saman tónlistamönnum úr ýmsum áttum til að fylla undirgöngin undir Hamraborg (við Digranesveg) aftur af óhljóðum. Fram koma Rafmagnús, Mudd Mobb, Krakkbott og DJ Flugvél og geimskip. Ólætin hefjast klukkan 19:00 og standa fram eftir kvöldi og eru fríkeypis öllum sem mæta.

Fríða Dís Guðmundsdóttir spilar og syngur draumkennda tóna á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Fríða Dís flytur efni af væntanlegri sóló plötu sinni en hún hefur starfað um árabil með hljómsveitunum Klassart og Eldum. Pikknikk tónleikarnir eru hluti af órafmagnaðri Pikknikk tónleikaröð sem haldin er á fimmtudögum í sumar. Veitingar eru seldar í afgreiðslu Norræna hússins og bornar fram í pikknikk körfum.

Íslandselskhuginn John Grant kemur fram á tveimur tónleikum á Faktorý sem eru á sínum lokametrum fyrir yfirvofandi lokun í Ágúst. Uppselt er á tónleikana sem hefjast klukkan 22:00 en vegna mikilla eftirspurnar var bætt við öðrum tónleikum klukkan 19:30 sem enn eru til miðar á en aðgangseyrir er 3000 krónur. Grant sendi frá sér sýna aðra breiðskífu „Pale Green Ghosts“ fyrr á þessu ári og hefur hún fengið góða dóma hjá flestum helstu tónlistartímaritum heims.

Slegið verður upp Næntís Veizlu á barnum Harlem en skipuleggjendur hennar vilja koma eftirfarandi á framfæri: „Nú er kominn tími til að rifja upp gullna öld, öld þar sem menn voru ennþá viðkvæmir og misskildir og konur voru ennþá of kúl fyrir skólann sem þær voru ekki í. Já, ég er að tala um tíunda áratug síðustu aldar, áratug Doc Martens, köflóttra skyrtna og hettupeysna bundna um mittið.“  Á kvöldinu koma fram Dýrðin, Treisí, Sindri  Eldon & The Ways og svo mun Sindri Eldon þeyta skífum þar til opnunartíma þrýtur. Veislan byrjar 21:00, öllum er boðið og það er ókeypis inn.

Fjölsveitahópurinn Tónleikur heldur áfram að troða upp á Loft Hostel. Að þessu sinni stíga á stokk Ragnar Árni, val kyrja, Tinna Katrín, Pocket, Brynja, Ósk, FrankRaven og Johnny and the Rest. Leikar hefjast 20:30 og allir geta notið þeirra óháð efnahags.

Heiladanskvöld númer 26 verður haldið á hinum nýopnaða Bravó við laugaveg 22 og þar verður framsækinni raftónlist komið á framfæri sem endranær. Í þetta skipti munu DJ Dorrit, Atom Max, Radio Karlsson og Árni² leiða heilafrumur viðstaddra í trylltum dansi en ókeypis er inn á viðburðinn. Dansinn byrjar að duna klukkan 21:00.

Föstudagur 26. júlí

Hljómsveitin Grísalappalísa efnir til tónleika í plötubúðinni og höfuðstöðvunum 12 Tónum á Skólavörðustíg. Grísalappalísa hefur undanfarin misseri verið að gera garðinn frægan fyrir hnífskarpan flutning sinn og ólætin í söngvaranum honum Gunnari. Plata þeirra, ALI, kom út 10. júlí síðastliðin og hefur fengið einróma lof og hylli þjóðar og gagnrýnanda. Lætin byrja klukkan 18:00.

Hljómsveitirnar Agent Fresco, Mammút og Benny Crespo’s Gang kveðja Faktorý með tónleikum eins og margar af helstu sveitum landsins hafa gert undanfarið. Efri hæð opnar 22:00, tónleikar hefjast 23:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Laugardagur 27. júlí

Hljómsveitirnar RIF og Kjarr leiða saman hesta sína og blása til allsherjar sumargleði á Rósinberg. Lagið Sól í sinni með RIF hefur verið að sörfa ljósvakann í sumar við góðann orðstýr en strákarnir eru nú að sjóða saman í sína fyrstu breiðskífu. Kjarr gaf út plötu samnefnda sveitinni fyrir tveimur árum síðan en hefur enn ekki flutt efnið fyrir okkur íslendinga, þar má finna smelli eins og Beðið eftir sumrinu og Quanum leap. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

Sunnudagur 28. júlí

Snorri Helgason heldur tónleika ásamt hljómsveit í Gljúfrasteini í Mosfellsbæ. Hann hefur spilamennsku stundvíslega klukkan 16:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

 

 

 

 

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.

Tónleikar um Hvítasunnuhelgina

Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.

Fimmtudagur 16. maí

Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.

Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.

Föstudagur 17. maí

Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.

Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.

Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.

Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.

Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.

Laugardagur 18. maí

Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.

Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.

Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.

Sunnudagur 19. maí

Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.

Nýtt lag með Vampire Weekend

Indípoppsveitin Vampire Weekend var að senda frá sér nýtt lag rétt í þessu. Lagið heitir Ya Hey og er af væntanlegri plötu þeirra, Modern Vampires of the City, sem kemur út þann 13. maí. Í myndbandinu má sjá hljómsveitina sprauta úr kampavínsflöskum eins og þeir hafi unnið Formúlu 1 hundarð sinnum. Myndbandið má horfa á hér fyrir neðan og hlusta á lögin Diane Young og Step sem einnig eru á væntanlegri plötu.


Tónleikar helgarinnar

Í föstum liðum eins og venjulega mun Straumur leiðbeina lesendum um rjómann í tónleikahaldi á þessari fyrstu helgi maí mánuðar.

Fimmtudagur 2. maí

Það verður þungarokksmessa í Austurbæ í kvöld þegar tvær helstu þungarokkssveitir landsins, Dimma og Sólstafir, leiða saman hesta sína. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðinni „Náttfararnir“ en sveitirnar hafa ferðast saman um landið síðustu misseri til að kynna nýjustu plötur sínar fyrir rokkþyrstum áheyrendum. Dimma gáfu út plötuna Myrkraverk í lok síðasta árs sem fékk einróma lof gagnrýnenda og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum ásamt vel völdu eldra efni. Sólstafir eru nýkomnir úr mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu og er þess vegna í rokna rokkformi um þessar mundir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2900 krónur.

Föstudagur 3. maí

Pink Street Boys, Foma og Lord Pusswhip koma fram á fríkeypis tónleikaröð Dillon sem haldin eru vikulega og samviskusamlega á föstudagskvöldum. Pink Street Boys var stofnuð á grunni hinnar stórskemmtilegu sækadelik hljómsveitar Dandelion Seeds sem nú hefur lagt upp laupana. Lord Pusswhip er pródúsant, plötusnúður og rappari að nafni Þórður Ingi Jónsson sem gerir hip hop tónlist undir áhrifum frá fjólubláu hóstasafti, djassi, kvikmyndatónlist, skóglápsrokki og ýmsu öðru. Hann hefur smíðað takta fyrir inn- og erlenda rappara úr ýmsum áttum, þar á meðal fyrir Mudd Mob crew-ið sem hann er meðlimur í. Á tónleikunum mun hann njóta aðstoðar rapparans Svarta Laxness. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.

Kiriyama Family er um þessar mundir að semja efni á nýja breiðskífu en hafa ákveðið að taka sér hlé frá hljóðverinu og halda tónleika á Hressó með nýkrýndum sigurvegurum músíktilrauna Vök. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukkan 22:00.

Grasrótartónleikarröðin heldur áfram á Faktorý og að þessu sinni koma fram sveitirnar Sónn og Klaus. Sónn er nýstofnuð sveit skipuð ungum tónlistarnemum úr FÍH og spila vandaða dægurtónlist með tregafullum og sálarskotnum undirtón. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 23:00 og það er fríkeypis inn.

Laugardagur 4. maí

Það verður boðið upp á heljarinnar rokk- og diskókokteil á Volta þar sem sveitirnar Oyama, Muck, The Heavy Experience og Boogie Trouble venda kvæðum sínum í kross. Allar þessar sveitir eru með hressari tónleikaböndum landsins og að þær safnist saman undir sama þaki ætti virka ákaflega stuðvekjandi á áhorfendur. Gleðinnar dyr opnast klukkan 22:00 og 1000 krónur veita inngöngu að þeim.

 

Skúli mennski flytur brot af sínum bestu verkum frá árunum 2010-2013 auk þess sem óútgefnar perlur fá að njóta sín á Rósenberg. Við verkið mun hann njóta aðstoðar úrvals hljóðfæraleikara á bassa, gítar, trommur og munnhörpu en flutningurinn hefst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.

 

Tónlistarkonan Lay Low bryddar upp á þeirri nýbreytni að halda tónleika heima í stofu hjá sér sem verður streymt í gegnum veraldarvefinn. Streymið af tónleikunum er hægt að nálgast án gjalds á þessari vefslóð og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 21:00.

 

Rokkbrýnin í Brain Police halda tónleika ásamt Alchemiu og Why Not Jack á Gamla Gauknum. Miðaverð er 1500 krónur og húsið opnar klukkan 21:00.

Sunnudagur 5. maí

Straumur vill vekja athygli á Sunnu-djazzinum, vikulegum djasstónleikum á Faktorý þar sem ungir og efnilegir spilarar leika efni úr ýmsum áttum af fingrum fram. Þeir eru á hverjum sunnudegi og hefjast ávallt 21:30 í hliðarsalnum og ókeypis er inn.

 

 

Nýtt myndband með Retro Stefson

Það er skammt stórra högga á milli hjá gleðidanssveitinni Retro Stefson sem í dag frumsýndi glænýtt myndband við lagið Qween sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum landsins á síðasta ári. Einungis mánuður er síðan síðasta myndband sveitarinnar leit dagsins ljós en þar klæddu þrír hljómsveitarmeðlimir sig upp í dragi. Í nýja myndbandinu sem er tekið upp við rætur Esjunnar er söngvarinn Unnsteinn Manuel í veiðimannaham og skýtur hvítan ref með riffli. Refurinn umbreytist við það í skjannahvíta fegurðardís og óvænt atburðarás tekur við. Myndbandinu er leikstýrt af Reyni Lyngdal og hægt er að horfa á það hér fyrir neðan.

Útidúr senda frá sér Detour

Indípoppsveitin Útidúr gefur út sína aðra plötu, Detour, næstkomandi mánudag en í vikunni var gripurinn settur í forspilun á Gogoyoko. Platan er nokkur viðbrigði frá þeirra fyrstu plötu sem innhélt að mestu leiti akústískt kammerpopp en á Detour róa þau á öllu rafrænni og stuðsæknari mið. Platan var tekin upp á síðustu tveimur árum í hinum ýmsu stofum, svefnherbergjum og kjöllurum af Kára Einarssyni, bassaleikara sveitarinnar. Sveitin skrifaði nýverið undir samning við þýskt útgáfufyrirtæki sem mun dreifa Detour og This Mess We’ve Made, fyrstu plötu Útidúrs, þar í landi. Í sumar mun sveitin svo leggja land undir fót með heljarinnar tónleikaferð um Þýskaland. Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á lögin Maelstrom og Vultures af plötunni Detour.