Neutral Milk Hotel spila í Hörpu

Hin goðsagnakennda bandaríska indísveit Neutral Milk Hotel er væntanleg til landsins í sumar og mun leika á tónleikum í Silfurbergssal Hörpu þann 20. ágúst. Hljómsveitin er frægust fyrir plötuna In an Aeroplane over the Sea sem kom út árið 1998 en stuttu eftir úgáfu hennar lagðist hún í langan dvala og er fyrst núna að koma saman aftur. Miðasala á tónleikana hefst 5. apríl á harpa.is en upphitun verður tilkynnt þegar nær dregur. Hlustið á upphafslag In an Aeroplane over the Sea hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 19.-22. mars

 

Miðvikudagur 19. mars

 

Jordan Dykstra, Blewharp og Grímur koma fram á Gauk á Stöng. Jordan Dykstra er bandarískur fiðluleikari sem hefur unnið með listamönnum á borð við Dirty Projectors, Gus Van Sant og Atlas Sound. Blewharp er söngvaskáld frá Bandaríkjunum sem býr í Frakklandi sem blandar saman djassi og þjóðlagatónlist. Grímur hefur svo látið að sér kveða í akústísku senunni á Íslandi undanfarið. Húsið opnar 21:00 og tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar en það er ókeypis inn.

 

Latínsextett Tómasar R. Og Ojba Rasta halda tónleika í Kaldalónssal Hörpu. Latínsveit kontrabassaleikarans Tómasar R. Einarssonar leikur efnisskrá á lögum á nýjum geisladiski Tómasar, Bassanótt, sem kom út s.l. haust. Ojba Rasta hafa verið að gera það gott undanfarið ár með líflegu reggíi með íslenskum textum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 3000 krónur, en 2000 fyrir nema og eldri borgara og miðasala er á midi.is og harpa.is.

 

Fimmtudagur 20. mars

 

Hin nýstofnaða sveit Highlands sem inniheldur Loga Pedro Stefánsson bassaleikara Retro Stefson og söngkonuna Karin Sveinsdóttur spilar á Funkþáttarkvöldi á Boston. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Steindór Grétar Kristinsson leikur á tónleikum í Mengi. Steindór Grétar er raftónskáld og meðlimur raftónlistabandsins Einóma (Touching Bass, Vertical Form, LMALC, Shipwreck). Tónleikar Steindórs verða í samstarfi við listakonuna Lilju Birgisdóttur og sviðs- og búningahönnuðinn Eleni Podara þar sem lifandi raftónlist blandast rödd og sjónrænum þáttum sem eru lauslega byggðir á verkunum Vertical on Flow eftir Steindór og Vessel orchestra eftir Lilju. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Morðingjarnir, Strigaskór nr. 42, For a Minor Reflection og Smári Tarfur koma fram á styrktartónleikum fyrir Kristin Arinbjörn Guðmundsson á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast 22:00.

 

Þjóðlagaskotna rokksveitin Bellstop spilar á Hlemmur Square Hostelinu. Tónleikarnir hefjast 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Pungsig og Black Desert Sun koma fram á Dillon og stíga á svið 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 21. mars

 

Margrét Hrafnsdóttir söngkona og Þórarinn Sigurbergsson gítarleikari koma fram á tónleikum í Mengi. Þau munu leika m.a. lög eftir Petr Eben og John Dowland en lögin á efnisskránni spanna yfir 400 ár og margbreytileikinn eftir því, frá heitum ástarljóðum til dökkrar og drungalegrar dauðaþrár. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 22. mars

 

Good Moon Deer koma fram í Mengi. Good Moon Deer er tónlistarsjálf grafíska hönnuðarins Guðmundar Inga Úlfarssonar sem hófst með smávægilegu svefnherbergisgutli en í samkrulli með vininum og trommaranum Ívari Pétri Kjartanssyni (FM Belfast, Benni Hemm Hemm & Miri) hefur það tekið á sig áþreifanlegri mynd. Tónlistinni hefur verið lýst sem djass fyrir stafræna öld en á tónleikum Good Moon Deer má búast við framúrstefnulegum og geðklofnum smölunarbútum í bland við þunga trommutaktar og margvíslega, lifandi sjónræna skreytingar.

 

Rafsveitin Samaris sem mikið suð hefur verið í kringum kemur fram á tónleikum á Dillon en þeir hefjast 22:00 og aðgangseyrir er 500 krónur.

 

Frost, Different Turns og Morgan Kane koma fram á rokktónleikum á Gauk á Stöng. Aðgangseyrir er 1500 krónur og leikar hefjast 22:00.

Rafmagnsstóllinn: Þórður Grímsson

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

 

Þórður Grímsson, liðsmaður hljómsveitarinnar Two Step Horror, hlaut þann heiður að fá fyrstur að setjast í Rafmagnsstólinn, en hann stendur einmitt fyrir tónleikum í kvöld á Cafe Ray Liotta ásamt Vebeth hópnum. Þetta er það sem kom upp úr honum.

 

Hvað er það besta við að vera tónlistarmaður?
Það er held ég bara almennt gott að vera skapandi og búa til sinn eigin heim og loka sig af þar.

 

En versta?
Hlusta á skoðanir annarra sem eru á einhverri allt annarri bylgjulengd.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndirðu mest vilja hita upp fyrir?
Veit ekki með upphitun, en það væri gaman að gera eitthvað með Sonic Boom eða semja verk með Angelo Badalamenti til dæmis.

 

Hvað er besta tónlist sem þú hefur uppgötvað á árinu?
Ég enduruppgötvaði The Telescopes sem við erum að spila með á Berlin Psych Fest í Apríl. Annars er ég að fíla Russian.Girls mjög vel, það var góð uppgötvun þessa árs.

 

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt?
Krzysztof Komeda samdi mikið af frábærri tónlist fyrir kvikmyndir, t.a.m. Cul-de-sac, Rosemary’s Baby og Knife in the Water. Ég hef líka verið að hlusta á studio plötur og session sem hann var að fást við og það er allt saman alveg frábært.

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni?
Sjöundi áratugurinn af óteljandi ástæðum, en ég get nefnt nokkrar.
1. Skynvillutónlist á borð við July, Soft Machine, Pink Floyd, The Move, United States of America, Kaleidoscope, Red Krayola og óteljandi öðrum.
2. Fatastíllinn var góður.
3. Plötukoverin fengu áður óþekkt púður.
4. Síðasta tímabilið fyrir hnignunina.
5. Psych var ekki orðið sell out.

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?
Souvlaki Space Station – Slowdive (17)
Baby (Donnie & Joe Emerson cover) – Ariel Pink (14)
Mètché Dershé – Mulatu Astatke (13)
Jubilee Street – Nick Cave (12)
Head Over Heels – Tears for Fears (11)

 

En plötur?
Ég hugsa að Oscar Peterson og Mulatu Astatke sé frekar standard „go-to“ dinner músík, það er amk. tilefnið við að setja plötu á fóninn heima.

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega?
Pink Street Boys á undiröldutónleikum í Hörpu, Dirty Beaches í Hörpu og Nick Cave á All Tomorrow’s Parties.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Ég veit ekki, fer frekar sjalda á tónleika. Harpa kannski.

 

Uppáhalds plötuumslag?
Já Vebeth safnplötu umslagið er killer, en ég er bara ekki alveg búinn með það.

 

Þekkirðu Jakob Frímann?
Já, Anna kærastan mín þekkir hann. Hann mætti á myndlistasýninguna mína í sumar, ég hitti hann þá.

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Það hefði verið áhugavert að gera eitthvað með Syd Barret, ég hef alltaf verið mjög hrifinn af hans tónlist.

 

Uppáhalds plötubúð í heiminum?
Ég keypti fullt af góðum plötum í Rock and Roll Heaven í Orlando, en ætli að sé ekki mest PC að segja Lucky’s, frábær búð.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?
Snoop.

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er, hver myndi það vera?
Phil Spector.

 

Hvaða plata fer á á rúntinum?
FM Rondo.

 

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?
Ég eyddi rosa miklum pening í Pro Tools 11, annars er þetta genuinely erfið spurning.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?
Gleymt hvað kemur næst í sólói eða muldrað texta sem ég man ekki. Annars var það mjög neyðarlegt þegar ég sleit streng og kunni ekki að setja í nýjan á nýja gítarnum mínum og Baldvin þurfti að gera það fyrir mig á miðjum tónleikum.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?
Clinic.

 

Enn í eftirpartínu?
Einhver ný demo, ég verð sérlega ein- og sjálfhverfur þegar ég er kominn yfir áfengisþolmörk mín.

 

Uppáhalds borgin þín?
Berlin.

 

Þið eruð að fara að gefa út ykkar þriðju plötu, Nyctophilia, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?
Downtempo – draumkennt – trommuheilarokk – Reverb – Tremolo.

 

Þið eruð hluti af hóp eða hreyfingu sem kallast Vebeth, segðu okkur frá gildum og markmiðum hennar.
Vebeth fæddist í Reykjavík árið 2009 og samanstendur af fólki úr hinum ýmsu listrænu greinum sem deila svipaðri fagurfræði, tónlistarsmekk og listrænni sýn. Ætlun okkar var að gera meðlimum hópsins kleift að koma tónlist sinni og myndlist á framfæri og gefa tónlistina út án aðkomu þriðja aðila. Meðal meðlima Vebeth eru tónlistarmenn, myndlistarmenn, vídeólistamenn, textagerðarmenn, ljósmyndarar og hönnuðir sem gerir okkur kleift að vinna í margvíslegum miðlum og þar með skapa sjálfbæra útgáfu á eigin efni.

 

Við hverju má fólk búast við á tónleikunum ykkar í kvöld?
Rock’n’roll

Ný plata með tUnE-yArDs

Tónlistarkonan Merrill Garbus, betur þekkt sem tUnE-yArDs, tilkynnti á afmælisdegi sínum í dag að von væri á nýrri breiðskífu frá henni. Platan mun bera heitið Nicky Nack og kemur út þann 6. maí. Til að gefa forsmekkinn af plötunni var opinberað svokallað megamix þar sem blandað er saman smábútum úr öllum lögum af plötunnar. Hlustið á það hér fyrir neðan og horfið á myndbandið við lagið Bizness af síðustu plötu tUnE-yArDs, W H O K I L L, sem kom út árið 2011 og var með betri plötum þess árs.

Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónar hefst í dag – 10 spennandi listamenn

Tónlistarhátíðin Sónar hefst í dag og við hvetjum alla tónlistaráhugamenn sem vettlingi geta valdið til að mæta á þá þriggja daga veislu sem fram undan er. Hátíðin sem hefur verið haldin árlega í Barcelona síðan 1994 fór fram í fyrsta skipti hér á landi í Hörpu á síðasta ári og var feikilega vel heppnuð eins og lesa má um hér. Það eru meira en 60 tónlistarmenn og plötusnúðar sem spila á hátíðinni en hér verða kynntir 10 sem við mælum sérstaklega með. Fylgist vel með á straum.is næstu daga því við verðum með daglega tónleikarýni af hátíðinni.

Major Lazer

Major Lazer er tónlistarhópur sem er leiddur af ofurpródúsernum Diplo sem hefur undir því nafni framleitt tvær plötur þar sem Dancehall, dubstep, reggí og gamaldags dub er málað með breiðum penslum og skærum litum á striga nútímalegrar danstónlistar.

 

Trentemoller

Danski tekknóboltinn Trentemoller hefur þeytt skífum á Íslandi oftar en hönd á festir og er með þeim bestu í því stuðfagi. Eftir hann liggja margar meistaralegar endurhljóðblandanir og þrjár sólóskífur en sú síðasta, Lost, var með betri raftónlistarplötum síðasta árs og nokkuð poppaðari en fyrri verk hans þar sem margir gestasöngvarar komu við sögu. Hann mun koma fram með live hljómsveit á Sónar.

 

Gus Gus

Gus Gus eru aðals- og kóngafólk íslensku danstónlistarsenunnar og þurfa engrar frekari kynningar við. Fyrir utan það að sveitin er tilbúin með nýja plötu og ekki er ólíklegt að eitthvað af henni heyrist á tónleikunum.

 

Jon Hopkins

Hopkins er rúmlega þrítugur Breti sem hefur undanfarið starfað með Brian Eno auk þess að gefa út eigið efni. Með sinni þriðju breiðskífu, Immunity, sem kom út á síðasta ári skaust hann hins vegar upp á stjörnuhimininn en hún lenti ofarlega á árslistum margra tímarita og spekúlanta. Tónlistin þræðir einstigið milli sveimtónlistar og tekknós af miklu listfengi en hann sótti Ísland heim á síðustu Airwaves hátíð en þeir tónleikar voru einn af hápunktum hátíðarinnar.

 

Bonobo

Bonobo er einyrki en í tónlist sinni vefur hann persneskt teppi úr þráðum ólíkra hljóðbúta úr öllum áttum og heimsálfum. Hann er á mála hjá hinni virtu Warp útgáfu, sem m.a. gefur út Aphex Twin og Boards of Canada, en platan hans Dial M for Monkey er algjört meistarastykki og ævintýri fyrir eyrun.

 

James Holden

James Holden er breskur plötusnúður og tónlistarmaður sem lét fyrst að sér kveða með kosmískri endurhljóðblöndun á lagi Nathan Fake, The Sky Is Pink. Hans nýjasta skífa, The Inheritors, sem kom út á síðasta ári er tilraunakennd diskósúpa undir sterkum áhrifum frá súrkáls- og síðrokki.

 

Sykur

Ein af hressari elektrósveitum landsins skartar grípandi lagasmíðum og groddalegum synþahljóm, en þau er vön því að tjalda öllu til á tónleikum.

 

Paul Kalkbrenner
Kalkbrenner er þýsk tekknógoðsögn sem varð gerð ódauðleg í myndinni Berlin Calling sem kortlagði hina víðfrægu berlínsku klúbbasenu.

 

Hermigervill

Sveinbjörn Thoroddsen, betur þekktur sem Hermigervill, hefur um árabil verið í fremstu víglínu íslenskrar raftónlistar. Í byrjun ferilsins með hugmyndaríkum Trip Hop plötum en í seinni tíð með hljóðgervladrifnum útgáfum af íslenskum dægurlögum og samstarfi við Retro Stefson. Hann er nú að vinna að sinni næstu breiðskífu og mun flytja nýtt efni á tónleikum sínum á Sónar.

 

Tonik

Einn af innlendu hápunktum síðustu Airwaves hátíðar var raftónlistarmaðurinn Tonik en melankólískt og sálarþrungið tekknóið bræddi bæði hjörtu og fætur í salnum. Hann kemur iðulega fram með selló- og/eða saxafónleikara sem gaman er að fylgjast með á sviði.

Michel Gondry myndband með Metronomy

Metronomy frumsýndu í dag myndband við lagið Love Letters sem fjallað var um á straumi á dögunum. Því er leikstýrt af franska meistaranum Michel Gondry en eftir hann liggja ógrynni frábærra tónlistarmyndbanda með stjörnum á borð við Björk, Daft Punk, Beck og White Stripes, auk kvikmynda eins og Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan en von er á breiðskífu frá Metronomy þann 10. mars næstkomandi.

Metronomy sendir ástarbréf

Metronomy sendi í dag frá sér lagið Love Letters. Í því rær hann á mið 7. og 8. áratugarins í lagi sem er í senn bítla- og bowie-legt. Það eru skoppandi píanóhljómar sem drífa það áfram og viðlagið er eins og eitthvað úr hippasöngleiknum Hárinu. Metronomy fékkst aðallega við raftónlist í byrjun ferilsins en á sinni síðustu plötu, The Englis Riviera frá 2010, sneri hann sér hins vegar að skúturokki. Love Letters er önnur smáskífan og titillagið af væntanlegri breiðskífu Metronomy sem kemur út 10. mars næstkomandi. Í haust kom út lagið I’m Aquarius og af hljómi laganna, titlum og myndinni á hulstrinu að dæma, virðist platan vera undir sterkum áhrifum frá sumari ástarinnar og hippatímabilinu.

Bestu íslensku lög ársins 2013

 

15) Looped – Kiasmos

 

 

 

14) Speed Of Dark – Emiliana Torrini

 

 

13) Punta Rosarito – Tonmo

 

 

 

12) Rafstraumur – Sigur Rós

 

 

11) Empire – Plúseinn

 

 

 

10) Cupid Makes a Fool Of Me – Just Another Snake Cult

Titillag hinnar frábæru plötu Cupid Makes a Fool of Me er marglaga ævintýri með ótal óvæntum beygjum. Hugmyndaauðgin á sér lítil takmörk í frumlegum kaflaskiptingum og útsetningum sem eru bæði lágstemmdar og epískar í senn.

 

 

 

9) Numbers And Names – Ólöf Arnalds

Numbers And Names er eitt bjartasta og aðgengilegasta lag Ólafar til þessa. Systir hennar Klara syngur með henni í ógleymanlegu viðlaginu þar sem raddir þeirra kallast á.

 

 

8) Bragðarefir – Prinspóló

Gleðigengið í Prins Póló er þekkt fyrir tíðar tilvísanir í matvæli og titill lagsins vísar væntanlega til hinnar vinsælu nammiísblöndu. Refurinn er lágstemmdur stuðsmellur með fönkí bassalínu og hljómborðum í anda 9. áratugarins en textinn er hnyttinn og súrrealískur eins og Prinsins er von og vísa.

 

 

7) Ég Veit Ég Vona – Ojba Rasta

Ojba Rasta létu engan bilbug á sér finna á árinu sem leið og héldu áfram að vera í fararbroddi íslensku reggí-senunnar með breiðskífunni Friður. Ég veit ég vona er ljúfsár ballaða með vaggandi grúvi og en einlægur flutningur og kjarnyrtur texti Teits fleyta því á toppinn.

 

 

6) Everything Some of the Time – OYAMA

Flestum lögum á fyrstu ep-plötu Oyama er drekkt í töffaralegu dróni, fídbakki og allra handa óhljóðum en besta lagið að okkar mati var þó það einfaldasta. Skoppandi bassalína og brimlegur gítarhljómurinn faðma angurværan sönginn og útkoman er ævintýri fyrir eyrun.

 

 

5) We Are Faster Than You – FM Belfast

Fyrsta smáskífan af væntanlegri FM Belfast plötu (sem vonandi kemur út á næsta ári).  Á meðan hljómur lagsins er einkar framtíðarlegur þá er eitthvað við það sem minnir á teiknimynd frá 8. áratugnum.

 

 

4) Hver Er Ég? – Grísalappalísa

Hver er ég? er bæði aðgengilegasta og harðasta lag Grísalappalísu sem kom eins og stormsveipur inn í íslenska tónlistarsenu á árinu. Byrjar á grípandi og trallandi kvenbakröddum en keyrir svo skyndilega út í skurð í ómstríðum harðkjarnakafla. Upphafin fegurð og hrár ljótleiki í jöfnum hlutföllum á hnitmiðuðum tveimur mínútum er eitthvað sem engin önnur íslensk sveit náði að afreka á árinu.

 

 

3) É Bisst Afsökunnar – Markus & The Diversion Sessions

Afsökunarbeiðni Markúsar er einn óvæntasti og frumlegasti smellur ársins. Með sterkan og skemmtilegan texta að vopni flæðir lagið á einstakan hátt líkt og ef Megas væri að fronta Pavement.

 

 

2) What’s Wrong With Your Eyes – Sin Fang

What’s Wrong With Your Eyes er enn ein framúrstefnulega poppperlan sem Sindri Már Sigfússon virðist framleiða áreynslulaust af færibandinu sínu. Marglaga raddanir og óaðfinnanlegur hljóðheimurinn eru eins og bútasaumsteppi utan um frábæra lagasmíð og einstaka söngrödd Sindra.

 

 

1) Candlestick – múm

Candlestick hefst á glettinni og nintendo-legri hljómborðslínu sem setur tóninn fyrir það sem koma skal. Þetta er eitt aðgengilegasta lag sem múm hafa gefið frá sér og laglínan límist við heilabörkinn við fyrstu hlustun. En það er líka yfirfullt af hljóðrænum smáatriðum og krúsídúllum þannig þú ert alltaf að uppgötva eitthvað nýtt við hverja hlustun. Lagið er bæði gáskafullt og útpælt, grípandi en ekki eins og neitt annað í útvarpinu, hnitmiðað en samt losaralegt. Múm hafa sjaldan hljómað jafn sjálfsörugg í því sem þau gera best og hér.





Lög ársins 2013

30) New York City – Christopher Owens

 

 

29) The Socialites (Joe Goddard remix) – Dirty Projectors

 

 

 

28) Retrograde – James Blake

 

 

 

27) Elliot – Roosevelt

 

 

 

26) Lanzarote – Lindstrom/Todd Terje

 

 

 

25) Jessica (ft. Ezra Koenig) – Major Lazer

 

 

 

24) Red Eyes – The War On Drugs

 

 

 

23) Fall Back – Factory Floor

 

 

 

22) Elise – Blondes

 

 

 

21) Zion Wolf (track 3) – Jai Paul

      1. 03 Zion wolf (Track 3)

 

 Plötur í 20. – 11. sæti