Bestu íslensku plötur ársins 2015

10) Good Moon Deer – Dot

Austfyrski raftónlistarmaðurinn Good Moon Deer gaf sína fyrstu breiðskífu út ókeypis á netinu fyrri part árs. En platan er langt frá því að vera verðlaus, heldur mjög hugvitsamlega gert bútasaumsteppi sampla úr ýmsum áttum. Tempóið er flöktandi og síbreytilegt, hljóðbútar eru klipptir í agnarsmáar agnir og endurraðað, og þegar best lætur minnir Dot á taktmeistara á borð við Prefuse 73.

9) Lord Pusswhip – Lord Pusswhip Is Wack

Beitt og beinskeytt breiðskífa Lord Pusswhip. Pönkað hip-hop þar sem Lordarinn leiðir saman fjöldan allan af hæfileikafólki og útkoman er eins og ekkert annað sem er að gerast í íslenskri tónlist í auknablikinu.

8) Helgi Valur – Notes from the Underground

Notes from the Underground er ferðalag Helga Vals Ásgeirssonar til heljar og til baka. Platan sem var samin í geðrofi – niðurtúr í Berlín og í bata í Reykjavík fangar orku manns sem er á krossgötum. Falleg breiðskífa sem nær hápunkti sínum í hinu epíska lagi Love, Love, Love, Love.

7) Singapore Sling – Psych fuck

Sling hafa alltaf verið fánaberar íslensks innisólgleraugnarokks og ákveðinn fasti í tónlistarsenunni. Sama hvort að krútt eða rapp eru helsta trendið þá stundina standa Singapore Sling alltaf til hliðar og halda sínu striki í níhílísku töffararokkinu. Psych Fuck er þó jafnvel harðari og myrkari heldur en þeirra fyrri verk og er þá mikið sagt. Stundum er söngurinn hlaðinn svo mikilli bjögun að það hljómar eins og Henrik leigi stúdíótíma af satan.

6) Markús & The Diversion Sessions – The Truth the Love the Life

Biðin eftir þessari breiðskífu hefur verið löng og ströng en útkoman svíkur ekki neinn. Sterkir og skemmtilegir textar, létt kærulaus Pavement flutningur með smá Megas inn á milli.

5) Mr Silla – Mr Silla

Fyrsta plata tónlistarkonunar Sigurlaugar Gísladóttur eða Mr.Silla kom út í október 2015. Þrátt fyrir það hefur Sigurlaug verið áberandi í íslenskri tónlist í rúman áratug m.a. sem meðlimur hljómsveitarinnar múm. Platan sem heitir einfaldlega Mr.Silla er í senn einstök og angurvær sem oft fer ekki saman.

4)  Gísli Pálmi – Gísli Pálmi

Gísli Pálmi sprakk í loft upp í vor þegar hans fyrsta breiðskífa sem er samnefnd honum kom loksins út. Allir hip hop unnendur landsins og unglingar í efra Breiðholti misstu líkamsvessa af gleði og heyrst hefur að vinna hafi lagst af í Plain Vanilla í þrjá daga eftir útkomu gripsins. Og skyldi engan undra því hér er um að ræða einu bestu hip hop plötu sem komið hefur út á Íslandi. Bara bítin eru hátækni framtíðarmúsík í efsta klassa og Gísli Pálmi er frábær rappari sem hefur byggt upp karakter og söguheim sem eru algjörlega hans eigin. Hækkum bassann og gefum í botn.

3) Vaginaboys – Icelandick

Vaginaboys eru óvæntasta uppgötvun ársins í íslensku tónlistarlífi. 80’s elektró R’n’B með átótúnuðum söng og íslenskum textum sem þræða einstigi milli væmni og klámfengni. Þeirra bestu hliðar skína í gegn á stuttskífunni Icelandick sem kom út í lok árs. Við kaupum þetta í heildsölu og fáum ekki nóg!

2) Pink Street Boys – Hits#1

Annað árið í röð eiga Pink Street Boys næst bestu plötu ársins hjá Straumi. Allir þeir sem hafa séð bandið á tónleikum vita hversu krafturinn er mikill hjá þessu einstaka bandi. Á plötunni ná þeir að fanga þennan kraft og gott betur.

1) Tonik Ensemble – Snapshots

Snapshots er geysilega metnaðarfullt verk þar sem nostrað er við hvert einasta smáatriði. Hér er allt útpælt: frá uppbyggingu laga og plötunnar sem heild niður í smáhljóð sem heyrist í byrjun eins lags og svo aldrei aftur. Það er þykkt og sterkt heildarsánd yfir plötunni sem er bæði angurvært og melankólískt á sama tíma. Tonik Ensemble er kominn í fremstu röð íslenskra raftónlistarsveita og Snapshots er fagleg og fullorðins en samt með risastóra sál sem skín í gegnum alla plötuna.

Tonik Ensemble – Until We Meet Again (ft. Shipsea) from Sigrún Hreins on Vimeo.

Laugar- og sunndagskvöld á Airwaves

Mynd: Alexander Matukhno

Ég hóf fjórða í Airwaves á off-venue tónleikum Helga Vals í Bíó Paradís. Það var afslappaðra en tónleikarnir í Iðnó kvöldið áður og hann brá meðal annars á leik með tveimur frábærum ábreiðum af rapparanum Saul Williams. Á fjórða degi eru menn nokkuð lúnir ég setti því batteríin í hleðslu fram að tónleikum indísveitarinnar Beach House í Silfurbergi. Þau léku sitt hæglætis draumapopp af öryggi en eitthvað var þó um tæknilega örðugleika sem ollu pirringi hjá hljómsveitinni. Þá hefði líklega verið skemmtilegra að sjá þau á minna sviðið en algjörlega troðpökkuðum Silfurbergssalnum.

 

Næst hélt ég yfir á helíum hello kitty popparann QT og hafði enga hugmynd um við hverju ég ætti að búast, vissi ekki einu sinni hvort þetta var hljómsveit eða einstaklingur, stelpa eða strákur. Það sem við mér blasti á sviðinu var, að því er virðist, stelpa með bleikt hár að fremja einhvers konar DJ sett. Tónlistin var vissulega í anda PC Music en einnig var einstaka Rihönnu rímixi hent með.

 

Træbalískt stærðfræðirokk

 

Þvínæst voru það stærðfræðirokkararnir í Battles sem fluttu dáleiðukennda og træbalíska súrkálstónlist með flottasta trommara hátíðarinnar hingað til, einn diskurinn hans var í ca tveggja metra hæð á trommusettinu. Þá var það bara hið íslenska kóngafólk danstónlistarinnar, hinn háheilagi Gusgus flokkur, sem áttu eftir að slá botninn í kvöldið. Þeir keyrðu allt í botn eins og þeirra er von og vísa, fóru um lendur helstu slagara og prufukeyrðu meiraðsegja nýtt lag sem hljómaði feikivel.

 

Á sunnudeginum var Vodafone höllin það eina sem komst að. Ég mætti einungis til að komast að talsverðri seinkun en náði í smávegis af Agent Fresco áður en ég fór upp í Extreme Chill salinn þar sem DJ Flugfél og Geimskip var í góðri framúrstefnusveiflu. Úlfur Úlfur héldu salnum við efnið í miklu stuði en eru bara ekki alveg mitt kaffi of choice.

 

Eins breskt og það gerist

 

Á eftir þeim á stóra sviðinu var svo breska sveitin Sleaford Mods, og hún er alveg eins bresk og þær gerast. Einhvers staðar mitt á milli The Streets og The Fall, úber breskur hreimur „söngvara“ sem talar/hrækir út úr sér lýsingu á lífi bresku lágstéttarinnar og ádeilu á kapítalisma og óréttlæti. Eða það segir mér fólk, því ég heyrði ekki neitt fyrir hreimnum. Svo gerði hinn gaurinn ekki neitt nema að ýta á play á tölvu og kinka kolli og drekka bjór. Nokkuð sérstakt allt saman.

 

This is the End

 

En allir voru að bíða eftir Hot Chip og þeir sviku engan í þetta fjórða skipti sem þeir koma fram á Íslandi. Maður fann gólfið í Vodafone höllinni dúa þegar allur salurinn hoppaði í takt í Over and Over og Ready for the Floor og Bruce Springsteen smellurinn Dancing in the Dark framkallaði alsælu hjá ungum sem öldnum. Þá var það bara síðustu tónleikar hátíðarinnar og lokatónleikar Árna Vill sem er víst á förum frá FM Belfast. Þau héldu uppi þeirri dúndrandi stemmningu sem Hot Chip höfðu skapað og dönsuðu á nærbuxunum inn í nóttina eins og enginn væri mánudagurinn daginn eftir. Airwaves 2015 var lokið og við teljum niður í næstu. Sjáumst þar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Föstudagskvöldið á Airwaves

Mynd:  Alexander Matukhno

Ég hóf föstudagsdagskránna eins og fyrri daga á off-venu í Bíó Paradís. Þar sá ég bandaríska pönkpopp-bandið Hey Lover þéttri keyrslu. Einfaldleikinn var í fyrirrúmi og bílskúrsrokk í anda Ramones ómaði. Það var engri nótu eða slagi ofaukið, allt var akkúrat eins og það átti að vera. Sykur hækkuðu stemmninguna um 110% með galsafullu rafpoppi sem ætlaði útlendingana að æra, það var crowdsörfað í bíóinu og villtasta andrúmsloft off-venuesins hingað til.

 

Á eftir gleðipoppinu hélt í þveröfuga átt til að sjá níhílísku rokkstofnunina Singapore Sling spila í plötubúðinni 12 tónum. Sling eru rokk alla leið og gefa engan afslátt. Þarna var fídbakk sem þú fannst á eigin skinni og fyrirlitning og tómhyggja draup af hverjum gítarhljómi. Enginn með sólgleraugu en allir með læti. Rokk í caps lock. Ég rölti næst yfir á Lord Pusswhip á Bar Ananas sem framleiddi skynvillukennt hip hop í hæsta gæðaflokki. Hljóðheimurinn er eins og hryllingsmyndasándtrökk í bland við eitilhörð bít. Þá hafði hann rapparann Svarta Laxness sér til halds og traust sem lagði þétt rímuakkeri við framsækna tónlistina.

 

Hinn íslenski Good Moon dansflokkur

 

Ég hóf leikinn á alvöru dagskránni með Helga Val Iðnó sem hefur umkringt sig með ótal hæfileikaríkum tónlistarmönnum. Hann og þeir fluttu lög Helga Vals af fádæma öryggi í síðasta laginu, Love, love, love, love, var öllu tjaldað til með hetjugítarsólói, rappi og öllum pakkanum. Good Moon Deer var í Norðurljósasal Hörpu og bauð upp á skrýtnasta sjó þessarar hátíðar en með honum á sviðinu voru ca níu nútímadansarar og viðvið sögu kom mjólkurkanna, umferðarkeila og risastór fáni.

 

Ég náði svo í lokin á Hjaltalín en það er langt síðan ég sá þau síðast. Spilamennskan var í hæsta gæðaflokki og bæði hljóð og ljós í Silfurbergi til mikillar fyrirmyndar. Söngur Högna og Sigríðar gjörsamlega dáleiðandi og allt einhvern veginn á hárréttum stað, hvert einasta slag og nóta útpæld, og engu ofaukið. Ég hjólaði svo í snarhasti yfir í Iðnó þar sem Oyama rokkaði af mikilli yfirvegun. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra ábreiðu þeirra af Vinur Vina Minna og ég veitti því athygli að einn áhorfandi bókstaflega faðmaði hátalarann.

 

Allar leiðir liggja til Ariel Pink

 

Ég skaust svo yfir á Nasa til að sjá kanadíska indíbandið Braids, sem fluttu framsækið popp og trommuleikarinn þeirra vakti athygli mína með algjörri þrumu keyrslu. Svo hjólaði ég aftur til baka í Hörpu þar sem Grísalappalísa fóru á kostum eins og þeirra er von og vísa. Skepta var í rokna stuði í Listasafninu og grjóthart grime-rappið lagðist vel í troðpakkað Hafnarhúsið. Ariel Pink var hins vegar aðalnúmerið í mínum bókum þetta kvöld og hjólaði ég því í þriðja skiptið þetta kvöld yfir í Hörpu og svo beinustu leið upp í Silfurberg.

 

Ariel Pink er ákaflega kynlegur kvistur en hann var klæddur eins og umrenningur og sviðsframkoman var út um allt. Hljómsveitin hans var frábær og lék frjóa skynvillupoppið hans Ariel af miklu öryggi. Ég neyddist þó til að fara af dýrðinni til að ná síðustu lögunum með H099009 á Nasa. Þetta var alveg eitilhart og pönkað hip hop, í anda sveita eins og Death Grips og clipping. Frábær endir á kvöldinu

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fimmtudagskvöldið á Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Annan daginn á Airwaves reif ég mig upp upp úr hádegi og hélt á Airwaves Off-venu dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar plantaði ég mér á stól og sat það sem eftir lifði dags. Það fyrsta á dagskránni var einyrkinn Laser Life. Hann kom fram með barítóngítar, synþa, tölvu og helling af pedölum og dúndraði út rokkaðri Nintendótónlist. Af mörgum fínum dráttum var sérstaklega ánægjulegt hvernig gítarinn kallaðist á við hljómborðslínuna í Castle. Eins og fullkominn bræðingur af megaman og guitar hero.

 

Gunnar Jónsson Collider spilar nokkurs konar skynvilluraftónlist og hóf leikinn á drunum og óhljóðum. En síðan kikkaði bítið sem minnti talsvert á Boards Of Canada. Gunnar virðist sæka innblástur í 90’s gáfumannaraftónlist og þegar best tekst upp nær hann að miðla anda sveita eins og Autechre, Future Sound Of London og Aphex Twin. Næst á svið var danska sveitin Sekuoia sem ég hafði aldrei heyrt áður. Hún er skipuð tveimur gaurum sem eru með lagar af tækjum og tólum sem ég kann ekki að nefna og spila einnig á gítar og hljómborð.

 

Engin apple tölva í augsýn

 

Tónlistin sem þeir framreiddu var léttpoppað elektró með mjög smekklegum taktpælingum. Þrátt fyrir að vera að syngja ekki notuðustu þeir meikið við radd sömpl, sem þeir oft “spiluðu” á með því að berja trommukjaða í rafgræju. Þetta var flauelsmjúkt og nálgunin skemmtilega “hands on”, þeir snertu ekki tölvu allan tímann.

 

Raftónlistarmaðurinn Tonik notast heldur ekkert við tölvu í sínum flutningi en hann byrjaði settið sitt á djúpum bassadrunum áður en takturinn kikkaði inn. Hann spilaði melódískt og dáleiðandi tekknó, með alls konar míkrótöktum og mögnuðum uppbyggingum og tilheyrandi sprengingum. MSTRO kom fram með gítar og tölvu og spilaði framsækið indípopp með mjög áheyrilegum söng. GKR sló svo botninn í dagskrána í Bíó Paradís og fékk allan salinn til að hoppa með sér við slagarann Morgunmat.

 

On-Venue dagskrána hóf ég svo í Hafnarhúsinu þar sem Sykur voru í rokna rafsveiflu að flytja slagarann Strange Loops. Þau tóku einni talsvert af nýju efni og söngkonan Agnes bauð upp á mikla flugeldasýningu í raddbeitingu, fór á kostum í bæði söng og rappi. Þvínæst var haldið á Gauk Á Stöng þar sem ég náði rétt svo í skottið á Just Another Snake Cult áður en spænska stelpubandið Hinds steig á stokk. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu poppað gítarpönk með keim af motown og 60’s stelpuböndum.

 

Mellur og Messías Fönksins

 

Í Hörpunni sá ég svo gamla póstpönkbandið The Pop Group. Þeir renndu beint í sinni helsta slagara, We Are All Prostitutes, og rokkuðu af firnakrafti miðað við aldur og fyrri störf. Tónlistin rambar á barmi pönks og fönks og söngvarinn er með svipaða hugmyndafræði í raddbeitingu og Mark E Smith, talar, öskrar og röflar í míkrafóninn. Hann mætti líka með gjallarhorn. Fimm stjörnur á það. En ég náði bara rúmum tíu mínútum því leið mín lá á LA Priest í Gamla Bíói. Hann var klæddur í hvít silkináttföt og fönkaði eins djúpt og hvítum manni er unnt. Vopnaður gítar, hljómborði og vörulager af raftólum spilaði hann tilraunakennt bútasaumsfönk sem fékk alla til að dilla sér. Á einum tímapunkti samplaði hann meira að segja krádið og bjó til bít úr því live. Maðurinn er spámaður grúvsins og fönk á færibandi. Lof sé honum og dýrð.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fyrsti í Airwaves

Mynd: Erki Luiten

Ég hóf minn fyrsta í Airwaves áður en ég náði í armbandið á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar sá ég dúett Loga og Júlíu, Wesen, framleiða fallegt trip hop með ómstríðri áferð þar sem raddir þeirra kölluðust á. Ég hef séð Just Another Snake Cult ótal sinnum áður það er einhvern veginn aldrei eins. Tónlistin hans er losaraleg í besta mögulega skilningi þess orðs, margir mismunandi partar sem rétt svo hanga saman. Eins og bútasaumsteppi sem er næstum rifnað í sundur en það er bara svo indælt að vefja því utan um sig. Rödd Þóris fer um víðan völl og dansar oft á barmi þess að vera fölsk eða úr takti, en það gengur bara allt upp. Fegurðin í ófullkomleikanum og skipulagið í óreiðunni er í hárréttum hlutföllum. “Aint nobody that can sing like me” syngur hann, meinar, og hefur algjörlega rétt fyrir sér.

 

Næstur á svið var bandaríkjamaðurinn Offlove sem kom fram með hvíta gardínu fyrir andlitinu. Hann söng nútímalegt R’n’B með alls konar raddeffektum og tilheyrandi átótúni og hélt uppi ágætis dampi. Þá var röðin komin að Miri sem grúvuðu sem mest þeir máttu með djössuðu instrumental gítarrokki. Þá var leiðinni haldið á Bar Ananas þar sem Jón Þór indírokkaði af sér endaþarminn með hressilega 90’s rokkinu sínu. Ef heimurinn væri sanngjarnari en hann er væri Stelpur einn stærsti smellur landsins í ár.

 

Ríðandi hæpinu

 

Það fyrsta sem ég sá á alvöru dagskránni voru Vaginaboys á Húrra. Þeir voru fjórir á sviðinu að þessu sinni og grímuklæddir eins og þeirra er von og vísa. Þeir verða alltaf betri og öruggari á sviði og 808 trommutakturinn í Elskan af því bara stakk mig í hjartað eins og ísnál. Hinn ungi og knái rappari GKR steig næstur á svið og það var unun að horfa á hann. Það er ómetanlegt að sjá ungan listamann í fyrsta skiptið póst-hæp, drekka það í sig, umvefja sig í því, riðlast á því, og spíta því öllu til baka í krádið.

 

Að GKR loknum hélt í áfram í hip hoppinu og fór yfir á Iðnó til að sjá Kött Grá Pé. Ég hreinlega þori ekki að skrifa hér allt hómóerótíska sjittið sem ég krotaði í nótbúkkið mitt. En maðurinn er skokkandi, hoppandi, rappandi kynlíf í föstu formi. Þvílíkt flæði. Hvílíkt hár. Orkan á sviðinu var mæld í tregawöttum og ekki beisluð af neinu stórfyrirtæki.

 

Magavöðva-swaggin’

 

Þetta var kvöld íslenska hipp hoppsins og endurkomu Nasa á Airwaves og þangað hélt ég til að sjá Gísla Pálma. Plötusnúður með klút fyrir andlitinu var fyrstur á svið og hann spilaði platínuhart trap til að hita mannskapinn upp fyrir GP. Hann mætti loks með swaggið sitt og magavöðvana og troðpakkaður Nasa ærðist. Svitinn drap af hverju strái og æstir aðdáendur öskruðu alla textana utan að. Tiny mætti og myrti versið sitt í 5 AM og allt var skrúfað upp í ellefu.

 

Þá var röðin komin að Retro Stefson en fátt skilgreinir Airwaves meira fyrir mér en sú hljómsveit á Nasa. Þau mættu með fullt af nýju efni í farteskinu og dansfönkrokkuðu þakið af Nasa-nu. Þá ætlaði allt að verða vitlaust þegar þau skelltu í eldri slagara eins og Sensení og Hermigervill tók Higher State Of Consciousness útúrdúr. Frábær botn í fyrsta kvöld af fimm. Fylgist með á straum.is næstu daga fyrir daglegar fréttir af hátíðinni. Verið hress. Verið mjöööööög hress.

 

Davíð Roach Gunnarsson

All Tomorrow’s Parties: Föstu- og laugardagskvöld

Eftir útsýnisferð um Keflavík og hangs kaffihúsi og síðar bar var ég mættur upp á varnarliðssvæði til að ná í skottið á bandarísku óhljóðasveitinni Lightning Bolt. Þeir framleiddu fyrirtaks hávaða og ágætis Mosh Pitt hafði myndast fyrir framan þá. Trommuleikarinn hamaðist af svo miklum móð að þetta var dálítið eins og að fylgjast með tugþrautarmanni sitjandi á sama stað, svo mikil er líkamlega áreynslan.

 

Gömlu kempurnar í Mudhoney grönsuðu skemmuna í ræmur og fólk hafði á orði að því liði eins Jordan Catalano í My So Called life. Drive Like Jehru tóku svo við og harðrokkuðu áhorfendur með frábærri spilamennsku og þéttri keyrslu í rúman klukkutíma eða svo.

 

Költ í rökkri

 

Þvínæst var komið að dulúðlega postrokksveitinni Godspeed You Black Emperor. Ég þekki lítið til hljómsveitarinnar en þau voru svona 20 á myrku sviðinu með endalaust af græjum og hljóðfærum og þetta leit eiginlega út eins og trúarathöfn hjá költi við varðeld út í skógi. Ég hafði ekki hugmynd um hver spilaði á fiðlu, gítar, bassa eða hljómborð en það skipti ekki máli, allt skipaði þetta þéttan múrsteinavegg af músík í endalausum uppbyggingum og cresendó-um sem enduðu í stórum hvellum og hljóðsprengingum.

 

Sænski ambíenttekknó galdramaðurinn The Field var næstur og byggði hægt en örugglega upp danstrylling á gólfinu fyrir framan sviðið með taktföstum og lágstemmdum endurtekningum sem hann byggði endalaust ofan á. Í lokin var stemmningin komin upp í 9 þegar dj-inn sem fylgdi honum eftir setti á lagið Open Eye Signal með Jon Hopkins sem passaði fullkomlega í kjölfarið og skemman dansaði áfram inn í nóttina. Þegar langt var liðið á morguninn heyrði ég hins vegar lag úr bíl með hljómsveitinni Clipping sem mér fannst alveg stórkostlegt. Þeir höfðu víst átt að vera að spila á föstudaginn en vegna flugvélavesens var þeim frestað til laugardagsins. Meira af því síðar.

 

Lútuprogg og bleikur bílskúr

 

Ég ákvað að hefja laugardagskvöldið á heimsókn í Andrews Theater bíóið í fyrsta skipti á þessari hátíð. Þar var sveitin Xylouris White að spila sem samanstóð af lútuleikara og flottasta trommara hátíðarinnar. Þeir spiluðu einhvers konar djassað lútuprogg sem hefði getað verið sándtrakk við grimms ævintýri eða 1001 nótt. Þetta var aðallega instrumental en af og til tók lútuleikarinn sig til og kyrjaði möntrur á einhverju tungumáli sem hljómaði arabískt. Þetta var dáleiðandi og mjög sérstakt og fín byrjun á þriðja í ATP.

 

Bílskúrsæringjarnir í Pink Street Boys voru næstir á dagskrá, nokkuð undarlega staðsettir í bíósal með sætum. En það kom alls ekki að sök, bleiku strákarnir eru með harða aðdáendur sem mynduðu dansstemmningu fremst, en mér þótti skemmtileg tilbreyting að sjá þá einu sinni sitjandi og í sal með góðu hljóðkerfi. En þrátt fyrir að umgjörðin væri meira fansí en þar sem þeir eru vanir að spila var hráleikinn og pönkuð framkoman ekkert fágaðari.

 

Slípað popp og útpæld óhljóð

 

Þá var haldið aftur yfir í Atlantic Studios að sjá hina fornfrægu no wave/noise hljómsveit Swans. Hljóðstyrkurinn í skemmunni hafði verið hækkaður upp í að minnsta kosti 18 og hljómurinn keyrði yfir þig eins og 20 tonna trukkur. Þetta var mjög tilkomumikið og slatti af töff abstrakt óhljóðapælingum en þetta var full hátt og í of stórum skömmtum fyrir óvön eyru eins og mín þannig ég sagði þetta ágætt eftir 50 mínútur.

 

Sigursveit músíktilrauna í ár, Rhytmatik, voru í Andrews Theater og lofuðu ansi góðu. Þeir eru ekki að finna upp hjólið en grípandi melódíur og slípað klassískt gítarsándið á örugglega eftir að höfða til margra. Söngurinn hefði þó mátt vera aðeins betri, hann var einhvern veginn aðeins of mikið að reyna, en hann mun örugglega finna eigin rödd með áframhaldandi æfingu og spilamennsku.

 

Þegar við komum til baka í Atlantic Studios var Ghostigital að ljúka sér af með noise-hip hoppinu sem hann er frægur fyrir. Það skemmdi þó fyrir að rödd Einars Arnars heyrðist ekki nógu vel í mixinu. Þannig ég ákvað að hlaupa yfir á bandið sem ég hafði heyrt úr bílskotti nóttina áður, Clipping, og það var besta ákvörðun helgarinnar.

 

Uppgötvun hátíðarinnar

 

Hip Hop var mín fyrsta tónlistarást og hefur fylgt mér út lífið en ég verð að vera hreinskilinn með það að oft skilar það sér ekki vel á tónleikum. Yfirleitt bara DJ sem setur á taktana, rappið og orðin heyrast ekki nógu vel, og það vill brenna við sjóið úrkynjist í endalaust „Let me hear you say hell yeah!!“ peppupp-krádið rúnk. En því var svo sannarlega ekki fyrir að fara hjá Clipping sem fyrir mér voru uppgötvun og bestu tónleikar hátíðarinnar.

 

Þó þeir hafi spilað í bíósalnum var ekki sitjandi sálu að sjá í Andrews Theater. Það voru tveir menn á bak við tölvur og græjur og einn rappari sem var svo karismatískur að hann svitnaði sjarma. Hann var tekknískt frábær og svo skýrmæltur að ég heyrði megnið af textunum mjög vel þrátt fyrir að hafa aldrei heyrt lögin áður. Hann rappaði með mismandi röddum og stílum og á köflum hraðar en ljós ferðast. Taktarnir voru bæði tilraunakenndir og djammvænir og aldrei eins í fjórar mínútur, heldur fullir af óvæntum kaflaskiptingum og avant gard óhljóðaspuna.

 

Á einum tímapunkti sagði rapparinn, Daveed Diggs, „It’s all fucked up now“ og lét míkrafóninn detta í sviðið og labbaði í burtu. Hljóðgaurarnir tóku við keflinu og lúppuðu setninguna, hröðuðu á henni, klipptu hana niður í öreindir sínar og límdu aftur saman í svona 5 mínútur þangað til hún sprakk í loft upp og rapparinn kom aftur á sviðið við taumlaus fagnaðarlæti áhorfenda. Það var smá Andre 3000 í honum, smá Gift of Gab úr Blackalicous og nettur Saul Williams líka. Mig langar að segja stjörnu vera fædda en þetta er líklega aðeins of beitt fyrir það. Það eina sem slæma sem ég hef að segja um tónleikana var lengdin, 45 mínútur, glæpsamlega stutt og ég var glorhungraður í meira. Tékkið á Clipping núna!

 

Reif í nýklassík

 

Kiasmos í Atlantic Studios var síðasta atriði helgarinnar og þrátt fyrir að standast ekki samanburð við Clipping stóðu þeir sig með stakri prýði með blöndu af hörðu tekknói og nýklassík. Þrátt fyrir að vera tveir bakvið tölvur heyrði maður samt að þeir voru að gera slatta live og orkan og dansinn þeirra var smitandi. Eftir að þeir hættu tók plötusnúður við sem hélt stemmningunni áfram þar til vel rúmlega þrjú og dansiball myndaðist í skemmunni.

 

Ég tók rútuna heim í hamingjurússi eftir helgina. Eftirbragð af ótal fjölbreyttum tónlistaratriðum og vinalegri stemmningu maraði í meðvitundinni. Hæsti tindurinn fyrir mig persónulega var tilraunarapptríóið Clipping en leðureðlan og eilífðartöffarinn Iggy Pop fylgdi fast á þeirra hæla. Ég hlakka til morgna framtíðarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Secret Solstice – Evrópsk útihátíð í hjarta Reykjavíkur

Mynd: Óli Dóri

Secret Solstice hátíðin var haldin í annað skipti síðustu helgi og tókst í flesta staði feikivel upp. Þegar ég mætti á föstudagskvöldinu var ástralska sveitin Flight Facilities að hlaupa í gegnum grípandi rafpopp-sett og mannhafið hoppaði og skoppaði í fullkominni harmóníu. Það var strax ljóst að hér var eitthvað einstakt í gangi, andinn á hátíðinni var ólíkur öðru sem ég hef upplifað á Íslandi. Veðrið lék við alla sína fingur og hamslaus gleði og hedónismi lá í loftinu og fólkinu.

 

Ég hélt leið minni áfram á Gimli sviðið þar sem Hermigervill sveiflaði rauða hárinu sínu í takt við hnausþykkt tekknóið sem hann framleiddi. Retro Stefson komu beint í kjölfar hans og héldu áhorfendum uppteknum með mikið af nýju efni en enduðu á vel þekktum slögurum sem komu krádinu á mikla hreyfingu.

 

 Innvortis stuð – Hel frestað

 

Mitt innra stuð var hægt en örugglega að byggjast upp og þegar ég labbaði yfir á Gus Gus gerðist eitthvað og ég varð einn með tónlistinni, fólkinu og samvitundinni. Biggi Veira og Daníel Ágúst voru að taka mitt uppáhalds Gus Gus lag, David, þegar ég dýfði mér í mannhafið og dansaði í áttina að sviðinu. Fljótlega gekk Högni í lið með honum og samsöngur þeirra í Crossfade og Deep In Love var með endemum munúðarfullur.

 

Þá var leiðinni heitið á gömlu bresku kempurnar í Nightmares on Wax. Plöturnar þeirra Carbout Soul og Smokers Delight voru á repeat hjá mér á ákveðnu tímabili lífs míns og ég var ansi spenntur að sjá hvað þeir höfðu upp á að bjóða. Þeir voru með blöndu af DJ og lifandi hljóðfærum og röppuðu yfir mörg sín frægustu lög með góðum árangri. Eftir það kíkti ég aðeins inn í Hel en stoppaði stutt til að spara mig fyrir restina af helginni. En það leit vel út og ég hugsaði I’ll be back þegar ég fór.

 

Dagur 2 – GP > Busta Rhymes

 

Gísli Pálmi er fenamón. Ég veit aldrei hvað mér finnst raunverulega um hann og hvað mér á að finnast um hann eða hvort að aðrir fíli hann af einlægni eða kaldhæðni. Fyrir mér er það hluti af aðdráttaraflinu. En akkúrat þarna þegar djúpsjávarbassinn nuddaði á mér innyflin og GP spígsporaði um sviðið eins og hani á kódeini með sjálfsálitið skrúfað í botn gat ég ekki annað en tekið minn táknræna hatt ofan í lotningu. Myndskreytingar á bak við hann eiga síðan skilið einhvers konar hönnunarverðlaun glæpamanna.

 

Þá var röðin komin að leiðinlegasta leikriti hátíðarinnar; Beðið eftir Busta. Leynigesturinn lét bíða eftir sér í þrjú korter meðan að Tiny og GP skiptust á að setja á Biggie lög úr símunum sínum og öskra með því, frekar vandræðalegt allt saman. Þegar Busta sjálfur mætti tók ekki mikið betra við, athyglisbresturinn var ótæmandi í endalausum medlys eða syrpum. Það er einfaldlega glæpur gegn hip hoppi að spila bara 45 sekúndur af Woo Hah og fara svo í annað. Þá var hann alltaf að hætta í miðju lagi og búast við að áhorfendur gætu þulið restina af textanum úr lagi sem kom út um, eða eftir, megnið af þeim fæddist. Ég sá Busta Rhymes fyrir um fjórum árum og þá var hann í rokna stuði en það verður bara að segjast eins og er; þetta var hundlélegt.

 

 Hercules í helvíti

 

Hercules & Love Affair voru hins vegar þrusu þéttir, hommahouse eins og það gerist allra best. Einn í dragi og restin eins og miklu meira hip og nútímalegri útgáfa af Village People. Söngvararnir báðir fáránlega góðir og dúnmjúkt diskóið ómaði meðan dannsinn dunaði fyrir framan sviðið. Foreign Beggars fluttu dubstep og grime skotið hip hop en breiður var vegurinn sem lá inn í Hel.

10348364_1620402171510969_4756834002203072884_n

Mynd: Sig Vicious

Þarna var ég loksins tilbúinn í djúpu laugina sem að Hel (skautahöllin) var þessa helgi. Niðadimmt myrkur fyrir utan neon geislabaug sem sveif yfir sviðinu fyrir ofan plötusnúðinn. Hrátt, rökkurt, industrial og ofursvalt. Þar sem takturinn fleytir þér burt frá raunveruleikanum og hver bassatromma ber þig lengra og lengra inn í leiðsluástand. Hvert einasta slag eins og sameiginlegur hjartsláttur þúsunda dansandi sála. Engin skil milli líkama og anda og allir jafnir fyrir myrkrinu og taktinum. Þar sem enginn er dæmdur og nautnin er taumlaus. Ég rankaði við mér klukkan 4 þegar ljósin voru kveikt og tími til að fara heim en óskaði þess að vera í Berlín þar sem transinn heldur áfram fram á næsta dag. Þetta var ansi nálægt því.

 

Dagur þrjú – Allt á einu sviði

 

Ég fórnaði „Eru ekki allir sexy“ Helga fyrir reggípartýi í Laugardalslaug þar sem RVK Soundsystem léku fyrir sundi. Mætti svo eiturferskur á gamla sálarhundinn Charles Bradley klukkan fjögur sem voru með betri tónleikum hátíðarinnar. Hann er um sjötugt og röddin og svipurinn eru alltaf eins og hann sé að bresta í grát af ástríðu. Sálartónlist af gamla skólanum um ást, guð og kærleika með pottþéttasta bandi helgarinnar. Hann sjálfur lék á alls oddi í dansi og kastaði míkarafónstadífinum til og frá um sviðið og skipti meirað segja einu sinni um föt.

 

Wailers voru einfaldir en skilvirkir og koveruðu alla helstu slagara Marley heitins af rokna öryggi og ástin var alls staðar og djass-sígarettur mynduðu hamingjuský í himninum. Ég færði mig aðeins frá og dáðist að Mo úr öruggri fjarlægt meðan ég slakaði á og sparkaði í Hackey Sack með vinum mínum. En var mættur galvaskur fremst aftur fyrir listaverkið sem FKA Twigs er. Ég nota orðið gyðja eða díva ekki frjálslega en kemst ekki hjá því hér. Í lillafjólubláum samfesting sveif hún um sviðið með engilfagra rödd og hreyfingar á við sjö íslenska dansflokka samanlagt. Frámunalega framsæknir taktar framreiddir á fágætan hátt. Trip Hip í annarri vídd og tívolí fyrir augun. Keysaraynja raftónlistar nútímans er fædd og nafn hennar er FKA Twigs.

IMG_8854

Mynd: Óli Dóri

Ruckusinn mættur

 

Eina sem var eftir var þá Wu Tang og væntingar höfðu verið trappaðar duglega niður eftir hip hop vonbrigði gærdagsins og ótal spurningamerki um hversu margir klíkumeðlimir myndu mæta. Ég spottaði Ghostface, Raekwon og GZA sem ollu mér alls ekki vonbrigðum. Hvort þeir þrír sem eftir stóðu voru U-God, Cappadonna, Masta Killa eða random hype-menn varðar mig ekkert um en hersingin stóð svo sannarlega fyrir sínu á sviðinu. Þeir keyrðu í gegnum mörg af bestu lögunum á 36 Chambers og GZA var frábær í nokkrum lögum af Liquid Swords, einni af mínum uppáhalds hip hop plötum. Kannski var það afleiðing af effektívri væntingarstjórnun en ég skemmti mér stórvel yfir klíkunni.

 

Þá var það bara að mjólka síðustu dropana úr Hel á yfirdrætti tímans. Ég er ekki frá því að það hafi verið smá tekknó í blóðinu frá því kvöldið áður því það byrjuðu ósjálfráðir kippir í líkamanum um leið og ég steig inn í myrkrið. Ég óskaði þess heitast að helgin myndi aldrei enda í þann mund sem að síðasta bassatromman sló sitt slag og ljós raunveruleikans og vikunnar kviknuðu. Ég vil enda þetta á nokkrum handahófskenndum hugleiðingum um hátíðina í engri sérstakri röð:

 

Þegar sólin byrjar að skína á reggítónleikana: Hamingjan ríkir þar hömlulaus.

 

Að varðveita innra barnið í sér með því að fara í fallturninn. Útsýnið úr honum yfir laugardalinn þegar sólin tindrar hæst á lofti. Þetta tvennt verður ekki metið til fjár.

 

Mér hefur aldrei liði jafn mikið í útlöndum á Íslandi og á þessari hátíð. Þó það séu ekki jafn mikið af stórum nöfnum í gangi þá var andinn og væbið ekki ósvipað hátíðum eins og Hróarskeldu og Primavera.

 

Það var aragrúi djass-sígarettna reyktar út um allt án þess að neinn skipti sér af. Kúdos á lögregluna fyrir að sjá í gegnum fingur sér með það.

 

Það er mikill kraftur í þessari kynslóð. Hún er einu aldursbili fyrir neðan mig og ég þykist ekki skilja hana. En hún smitaði mig af óbeislaðri orku og geipilegu frjálslyndi.

 

Breiður er vegurinn sem liggur í Hel.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun #3: Hvítt fönk, dubstep og djöfulgangur

 

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Ég mætti rúmlega 9 í Silfurberg til að sjá sænsku táningarappsveitinn Young Lean and the Sad Boys. Þeir spiluðu nokkurs konar átótjúnað emo-rapp, og ég meina það ekki á neikvæðan hátt. Þvínæst sá ég japanska stelpnatríóið Nisennenmondai. Þær spiluðu á bassa, trommur og gítar og framkölluðu dáleiðandi mínímalíska tekknótónlist þar sem taktföst endurtekningin hamraði sér leið inn í undirmeðvitundina.

Nisennenmondai

Þær virtust algjörlega í leiðslu og stemmningin var eins og týndi hlekkurinn milli frumstæðra ættbálkaathafna og nútíma tekknóklúbba. Stelpan á trommunum hélt úti mekanískri keyrslu allan tímann og missti ekki úr slag, og úr gítarnum komu hljóð sem minntu sitt á hvað á bílvél eða draugagang. Eftir svona hálftíma var ég samt farinn að þrá smávægilega tilbreytingu, það sem gerði þetta kúl var naumhyggjan og endurtekningin en það vantaði bara eitthvað pínu ponsu meira; þetta var einum of einsleitt en næstum því frábært.

reyan_hems2

Plötusnúðurinn Ryan Hemsworth spilaði léttari tónlist en margir aðrir plötusnúðar á hátíðinni en hann bauð upp á fjölbreytta blöndu af Hip Hop, R’n’B og poppuðu Dub Step og jók tempóið eftir því sem leið á settið. Næst á dagskrá var hinn breski sláni Adam Bainbridge sem gengur undir vinalega listamannsnafninu Kindness. Hann kom fram með heljarinnar hljómsveit og blökkum bakraddasöngkonum og lék fágað fönk og grúví diskó af fádæma öryggi næstu þrjú kortérin eða svo.

kindness

Ég hafði ekki heyrt neitt af tónlist hans áður en smitaðist af ryþmanum frá fyrsta lagi. Af og til var splæst bútum úr lögum eftir listamenn eins og Prince, Bobbie Womack og Art of Noise inn í settið og á einum tímapunktu brast á með Conga-röð hljómsveitarmeðlima um allt sviðið þar sem allir höfðu kúabjöllu, hristu eða annað ásláttarhljóðfæri í hönd. Þetta var algjört funkathon og skemmtilegustu tónleikar hátíðarinnar fyrir mig persónulega.

 

Þá var bara stærsta nafn hátíðarinnar eftir, ameríski dubstep æringinn Skrillex, sem er dáður eins og guð af glataðri æsku, en litinn hornauga af gömlum, bitrum og sjálfskipuðum spekingum eins og mér. Ég gat samt ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með tónleikunum og sé alls ekki eftir því. Ég myndi ekki nenna að hlusta á þessa tónlist heima hjá mér, en þetta var allsherjar loftárás á skilningarvitin af nördalegum unglingi með allt of dýrar græjur. Og ég meina það á góðan hátt. Svona tiltölulega. Þarna var dropp-um, grafík, lazer-um og reyk bombað í fésið á þér á hverju sekúndubroti þannig ekki gafst tækifæri til að hugsa eða greina eina einustu einingu, því þá var nýtt áreiti komið á sjóndeildarhringinn. Hann henti svo Björk, Stars Wars laginu og íslenska fánanum inn í settið meðan hann klifraði, hoppaði og bara almennt djöflaðist í og ofan á tækjaborðinu sínu.

skrillex4

Eftir þessa æskudýrkun og fjallstind sem Skrillex var fór ég alla leið niður í bílakjallaran til að sjá einn langlífasta og farsælasta plötusnúð landsins, DJ Margeir. Hann spilar tónlist sem er einhvern veginn viðeigandi hvar sem er fyrir hvern sem er, harðan kjarna með mjúkri áferð. Þar dönsuðu gestir með öllum frumum líkama sinna og reyndu hvað þeir gátu að halda lífsmarki í Sónarnum þegar endirinn var yfirvofandi.

margeir

En allt spennandi endar og Sónar hátíðin er engin undantekning þar á. Hún var samt frábærlega heppnuð og minningarnar lifa, allavega þangað til við fáum öll alzheimer eða drepumst. Ég er strax farinn að hlakka til næstu hátíðar en þangað til getið þið lesið umfjallanir Straums um fimmtudagskvöldið, föstudagskvöldið eða fyrri hátíðir.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Annar í Sónar: Súrefni, Helíum og Mugi-tekknó

Myndir: Aron Guðmundsson

 

Fyrsta atriði á dagskránni á föstudagskvöldinu var japanski tónlistarmaðurinn Ametsub á SonarPub sviðinu. Hann spilaði undurfallegt ambíent með sterku bíti, tónlistin var undir áhrifum frá Boards of Canada og Four Tet, og minnti líka stundum á ameríska ambíentsnillinginn Tycho. Því næst sá ég Fufanu rokka þakið af Silfurbergi með drungalegu kuldarokki. Þeir eru orðnir dáldið eins og yngri útgáfa af Singapore Sling með dassi af raftónlistar og Madchester áhrifum.

 

Ég náði nokkrum lögum með Mugison sem komu svo sannarlega á óvart því að hann kom fram einn og flutti raftónlist! Ég hef ekki séð hann svona góðan í mörg ár og hef í raun verið að bíða eftir því að hann snúi aftur í raftónlistina sem hann hóf feril sinn með. Hann var á bak við græjusamstæðu sem minnti á könguló og fór á kostum í synþum, hamagangi og söng.

surefni

Gömlu kempurnar í Súrefni hristu síðan aldeilis upp í Norðurljósasalnum með frábæru sjói og sækadelik myndskreytingum. Eina minning mín um þetta band er smellurinn Disco sem var algjört Daft Punk ripoff, en samt gott Daft Punk ripoff. Þetta voru hins vegar öflugir tónleikar og þeir voru fjórir á sviðinu og spiluðu á hljómborð, bassa, trommur, gítar og tölvur og þetta var ansi rokkað á köflum.

SOPHIE

Ég kíkti aðeins við á plötusnúðinn Sophie en settið hennar var fullt af skrýtnu rafpoppi með helling af helíum-röddum, stefna sem hefur verið kölluð PC-Music. Þá var röðin komin að Prins Póló sem er einn allra skemmtilegasti tónlistarmaður landsins um þessar mundir. Í einu laga sinna sem hann flutti á tónleikunum spyr hann hvort það sé hægt að hamstra sjarma, og ég held að Prinsinn sjálfur sé lifandi sönnun þess að það sé mögulegt.

 

Í lok kvöldsins langaði mig að sjá SBTRKT og Paul Kalkbrenner og leysti það einfaldlega með því að flakka á milli Norðurljósa og Silfurbergs. SBTRKT kom fram með afríska grímu og dubstep-skotin popptónlistin kom dansgólfinu svo sannarlega á hreyfingu. Það var harðari brún í tekknó-inu hjá Kalkbrenner þar sem ég dansaði mig í algleymi inn í nóttina við dúndrandi taktinn.

paulkalk3

Föstudagskvöldið var prýðisgóð skemmtun og í kvöld eru svo listamenn eins og Skrillex, Jamie xx og Randomer að spila. Við munum að sjálfsögðu skrásetja það á morgun en hér má lesa umfjöllun Straums um fimmtudagskvöldið.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Sónarskoðun #1: Galsafullt geimdiskó og analog M-Band

Myndir: Aron Guðmundsson

Þriðja Sónarhátíðin í Reykjavík hófst með pompi og prakt í Hörpu í gær og fréttaritari Straums mætti galvaskur til að skrásetja stemmninguna. Ég rétt svo náði síðustu tónum Una Stefson þar sem hann söng af mikilli innlifun við tilkomumikla grafík sem varpað var á vegginn.

Unistefson

Þvínæst sá ég hús-tvíeykið Balsamic Boys á SonarPub sviðinu sem er staðsett á ganginum á efri hæð Hörpunnar. Þeir voru að spila lagið Rhodes Song þegar ég kom sem er mjög melódískur danssmellur sem minnir ansi mikið á slagarann Time með Pachanga Boys. Næsta lag sem þeir tóku var svo dúnmjúkt og silkislakt 90’s house grúv með heilum helling af saxafóni.

 

Stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð

 

Sin Fang var í essinu sínu í Silfurbergi og tveir trommu- ásláttarleikarar hans börðu taktinn í indíkrádið af miklum móð. Hann nauð aðstoðar Jófríðar úr Samaris í nokkrum lögum og eins og alltaf hjá honum var sjónræna hliðin til fyrirmyndar, einhvers konar stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð.

 

Dúettinn Mankan dútlaði í ýmsum tólum í Kaldalóni og hintuðu stundum að einhverju spennandi sem síðan aldrei kom, þetta var einum of stefnulaust og fálmkennt fyrir minn smekk. Drungalegur hljóðheimur Samaris naut sín hins vegar mjög vel í Silfurbergi og Jófríður söngkona fór á kostum.

samaris

M-Band er einn frjóasti raftónlistarmaður landsins og hann leggur líka frámuna mikinn metnað í tónleika sína sem var morgunljóst í Kaldalóni í gær. Hann býr til vegg af hljóðum og margfaldar og raddar eigin rödd með ótal effektum, en samt heyrir maður alltaf mennskuna undir niðri. Hann notast ekki við neina tölvu í sjóinu og þess vegna sér maður hann gera allt analog. Ég þurfti því miður frá að hverfa áður en tónleikarnir kláruðust til að fara á Todd Terje en langaði mjög að vera lengur.

 

Gleði og galsi

 

Þá var komið að stærsta númeri kvöldsins, hinum fúlskeggjaða norska prinsi geimdiskósins, Todd Terje. Hann dúndraði út flestum sínum helstu smellum af sviðinu í Silfurbergi og salurinn át þá úr höndum hans. Það var gleði og galsi í tónlistinni og honum og breið bros í öllum salnum. Það eina sem mætti setja út á var að það hefði verið gaman að sjá hljóðfæraleikara með honum og í byrjun var bassinn í hljóðkerfinu helst til yfirþyrmandi, vantaði aðeins tærari topp. En það lagaðist fljótlega meðan dansinn dunaði og svitinn flæddi. Frábær endir á fyrsta kvöldi Sónars sem var stórvel heppnað í alla staði. Topparnir fyrir mig voru þó Todd Terje og M-Band. Sjáumst í kvöld og fylgist með á næstu dögum með áframhaldandi umfjöllun Straums.

 

Davíð Roach Gunnarsson