Fyrsti í Airwaves

Mynd: Erki Luiten

Ég hóf minn fyrsta í Airwaves áður en ég náði í armbandið á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís. Þar sá ég dúett Loga og Júlíu, Wesen, framleiða fallegt trip hop með ómstríðri áferð þar sem raddir þeirra kölluðust á. Ég hef séð Just Another Snake Cult ótal sinnum áður það er einhvern veginn aldrei eins. Tónlistin hans er losaraleg í besta mögulega skilningi þess orðs, margir mismunandi partar sem rétt svo hanga saman. Eins og bútasaumsteppi sem er næstum rifnað í sundur en það er bara svo indælt að vefja því utan um sig. Rödd Þóris fer um víðan völl og dansar oft á barmi þess að vera fölsk eða úr takti, en það gengur bara allt upp. Fegurðin í ófullkomleikanum og skipulagið í óreiðunni er í hárréttum hlutföllum. “Aint nobody that can sing like me” syngur hann, meinar, og hefur algjörlega rétt fyrir sér.

 

Næstur á svið var bandaríkjamaðurinn Offlove sem kom fram með hvíta gardínu fyrir andlitinu. Hann söng nútímalegt R’n’B með alls konar raddeffektum og tilheyrandi átótúni og hélt uppi ágætis dampi. Þá var röðin komin að Miri sem grúvuðu sem mest þeir máttu með djössuðu instrumental gítarrokki. Þá var leiðinni haldið á Bar Ananas þar sem Jón Þór indírokkaði af sér endaþarminn með hressilega 90’s rokkinu sínu. Ef heimurinn væri sanngjarnari en hann er væri Stelpur einn stærsti smellur landsins í ár.

 

Ríðandi hæpinu

 

Það fyrsta sem ég sá á alvöru dagskránni voru Vaginaboys á Húrra. Þeir voru fjórir á sviðinu að þessu sinni og grímuklæddir eins og þeirra er von og vísa. Þeir verða alltaf betri og öruggari á sviði og 808 trommutakturinn í Elskan af því bara stakk mig í hjartað eins og ísnál. Hinn ungi og knái rappari GKR steig næstur á svið og það var unun að horfa á hann. Það er ómetanlegt að sjá ungan listamann í fyrsta skiptið póst-hæp, drekka það í sig, umvefja sig í því, riðlast á því, og spíta því öllu til baka í krádið.

 

Að GKR loknum hélt í áfram í hip hoppinu og fór yfir á Iðnó til að sjá Kött Grá Pé. Ég hreinlega þori ekki að skrifa hér allt hómóerótíska sjittið sem ég krotaði í nótbúkkið mitt. En maðurinn er skokkandi, hoppandi, rappandi kynlíf í föstu formi. Þvílíkt flæði. Hvílíkt hár. Orkan á sviðinu var mæld í tregawöttum og ekki beisluð af neinu stórfyrirtæki.

 

Magavöðva-swaggin’

 

Þetta var kvöld íslenska hipp hoppsins og endurkomu Nasa á Airwaves og þangað hélt ég til að sjá Gísla Pálma. Plötusnúður með klút fyrir andlitinu var fyrstur á svið og hann spilaði platínuhart trap til að hita mannskapinn upp fyrir GP. Hann mætti loks með swaggið sitt og magavöðvana og troðpakkaður Nasa ærðist. Svitinn drap af hverju strái og æstir aðdáendur öskruðu alla textana utan að. Tiny mætti og myrti versið sitt í 5 AM og allt var skrúfað upp í ellefu.

 

Þá var röðin komin að Retro Stefson en fátt skilgreinir Airwaves meira fyrir mér en sú hljómsveit á Nasa. Þau mættu með fullt af nýju efni í farteskinu og dansfönkrokkuðu þakið af Nasa-nu. Þá ætlaði allt að verða vitlaust þegar þau skelltu í eldri slagara eins og Sensení og Hermigervill tók Higher State Of Consciousness útúrdúr. Frábær botn í fyrsta kvöld af fimm. Fylgist með á straum.is næstu daga fyrir daglegar fréttir af hátíðinni. Verið hress. Verið mjöööööög hress.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *