Raftónlistarmaðurinn Fort Romeau frá London sem átti eitt af lögum ársins hjá okkur á síðasta ári gefur út nýja smáskífu þann 11. mars. Lagið SW9 er á A-hliðinni, en það lag hefur verið í umferð frá því í fyrra, lagið á B-hliðinni Love (dub) kom svo á netið í dag og er það ekki síðra. Hlustið á það hér fyrir neðan.
Category: Fréttir
The Strokes gefa út Comedown Machine
Fimmta plata bandarísku indie-rokk hljómsveitarinnar The Strokes frá New York hefur fengið nafnið Comedown Machine og mun koma út 26. mars. Fyrsta smáskífan af plötunni heitir All the Time og kemur út 19. febrúar. Í síðustu viku sendi hljómsveitin frá sér lagið One Way Trigger sem einnig verður að finna á plötunni. Fyrir ofan má sjá plötuumslag Comedown Machine sem sýnir nafn hljómsveitarinnar og plötunnar á gömlu hulstri utan um upptökubönd frá plötufyrirtæki The Strokes RCA. Hlustið á One Way Trigger hér fyrir neðan.
Íslensk-kanadískur hrærigrautur á Faktorý
Tónleikahaldararnir Oki Doki sjá um íslensk-kanadíska risahrærigrautstónleika sem fram fara á Faktorý í kvöld. Viðburðurinn hefur fengið nafnið Sonic Waves og fram koma Prins Póló og Benni Hemm Hemm ásamt kanadísku tónlistarmönnunum Woodpigeon, Clinton St. John, Samantha Savage Smith og Laura Leif.
Tónlistarmennirnir vinna um þessar mundir saman að umfangsmiklu verkefni, þar sem þeir leika á tónleikum á Íslandi og í Kanada. Tónleikarnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem allir munu bæði koma fram með eigið efni sem og saman í einum hrærigraut. Miðaverð á tónleikana er 1000 kr og hefjast þeir á slaginu 22:00. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Oki Doki tóku á æfingu hjá tónlistarmönnunum á dögunum.
Wavves með nýja plötu
Nathan Williams og félagar úr hljómsveitinni Wavves munu gefa út sína fjórðu plötu þann 26. mars næstkomandi. Í gærkvöldi sendi sveitin frá sér smáskífuna Demon to Lean On af plötunni. Wavves gáfu síðast út plötuna King Of The Beach árið 2010. Hlustið á nýja lagið hér fyrir neðan.
Nýtt Surfer Blood lag
Florida hljómsveitin Surfer Blood sendu í kvöld frá sér lagið Weird Shapes sem er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu sem nefnist Pythons sem kemur út seinna á þessu ári. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu Astro Coast árið 2010 og ep plötuna Tarot Classics í fyrra. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og viðtal sem við áttum við hljómsveitina á Hróaskeldu árið 2011.
Viðtal við Surfer Blood 2011
Ný My Bloody Valentine í vikunni
Írska shoegaze hljómsveitin My Bloody Valentine tilkynnti það á tónleikum í kvöld að þriðja plata sveitarinnar muni koma út á næstu dögum. Hljómsveitin hóf tónleika sína í Brixton Electric í London á nýju lagi og eftir að því lauk tilkynnti söngvari sveitarinnar Kevin Shields að fyrsta plata My Bloody Valentine í rúm 20 ár myndi koma út á næstu tveimur til þremur dögum. Hljómsveitin gaf síðast út plötuna Loveless árið 1991. Horfið á hljómsveitina spila nýja lagið Rough Song hér fyrir neðan.
Nýtt lag með The Strokes
Hljómsveitin The Strokes sendi frá sér lagið One Way Trigger rétt í þessu. Lagið er fyrsta nýja efnið með bandinu í tvö ár. Hlustið á það hér fyrir neðan. Fyrir tæpum tveim vikum síðan sendi útvarpsstöðin 1077 The End í Seattle frá sér tilkynningu um að hún væri með undir höndum tvö ný lög með hljómsveitinni. Annað lagið heitir All the Time og er fyrsta smáskífan af væntanlegri fimmtu plötu sveitarinnar sem kemur út á þessu ári. Hitt hefur líklega verið One Way Trigger sem er syntha drifið og ólíkt flestu sem The Strokes hafa sent frá sér.
Dirty Projectors með Usher ábreiðu
Íslandsvinirnir í Dirty Projectors voru gestir í hljóðveri útvarpsstöðvarinnar Triple J í Ástralíu á dögunum og fluttu þar lagið Climax sem Usher gerði frægt á síðasta ári. Lagið var samið af Diplo sem Amber Coffman úr hljómsveitinni vann með á síðasta ári í laginu Get Free með Major Lazer. Horfið á Dirty Projectors flytja lagið hér fyrir neðan.
Daniel Johnston til Íslands
Hinn goðsagnakenndi tónlistarmaður Daniel Johnston frá Texas í Bandaríkjunum mun spila á tónleikum í Fríkirkjunni þann 3. júní næstkomandi. Johnston vakti fyrst athygli á níunda áratugnum fyrir heimagerðar upptökur sínar og kom meðal annars fram í þættinum Cutting Edge á MTV árið 1985. Það var svo snemma á tíunda áratugnum að frægðarsól Johnston hóf að rísa þegar að Kurt Cobain og fleiri vinsælir tónlistarmenn á þeim tíma hófu að mæla með honum. Árið 2006 var heimildarmyndin The Devil and Daniel Johnston frumsýnd en hún fjallar um baráttu Johnston við geðhvarfasýki og geðklofa auk þess sem farið er yfir feril hans í myndinni. Tónleikarnir er haldnir til minningar um tónlistarmennina Biogen og Sigga Ármanns sem báðir glímdu við geðræn vandamál.
Nýtt Knife lag
Sænska elektró hljómsveitin The Knife gefur út lagið Full Of Fire í næstu viku. Lagið er níu mínútur og fyrsta lagið af væntanlegri plötu sveitarinnar Shaking the Habitual sem kemur út þann 8. apríl. Platan er sú fyrsta frá The Knife í sjö ár. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.