Söngvari The Troggs látinn

Reg Presley söngvari bresku hljómsveitarinnar The Troggs lést í gærkvöldi 71 árs að aldri eftir baráttu við lungnakrabbamein. Presley gerði garðinn frægan ásamt hljómsveit sinni á 7. áratugnum með lögum á borð við Wild Thing, With a Girl Like You og Love Is All Around. The Troggs hafa haft gríðarleg áhrif á hina ýmsu bílskúrsrokk tónlistarmenn og hljómsveitir í gegnum tíðina og hægt er nefna MC5, Iggy Pop og Buzzcocks í því samhengi. Presley var helst þekktur í seinni tíð fyrir skrif sín um geimverur en árið 2002 gaf hann út bókina Wild Things They Don’t Tell Us.  Allar tekjur sem hann fékk fyrir ábreiðu Wet Wet Wet á lagi hans Love Is All Around sem var notað í  kvikmyndinni Four Weddings and A funeral gaf hann til rannsókna á hinum dularfullu„cropcircles“ eða akurhringjum. Fyrir neðan má sjá The Troggs flytja lagið With a Girl Like You og einnig heyra ábreiðu Dave Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio af laginu.