Indípoppsveitin Vampire Weekend var að senda frá sér nýtt lag rétt í þessu. Lagið heitir Ya Hey og er af væntanlegri plötu þeirra, Modern Vampires of the City, sem kemur út þann 13. maí. Í myndbandinu má sjá hljómsveitina sprauta úr kampavínsflöskum eins og þeir hafi unnið Formúlu 1 hundarð sinnum. Myndbandið má horfa á hér fyrir neðan og hlusta á lögin Diane Young og Step sem einnig eru á væntanlegri plötu.
Category: Fréttir
Tónleikar helgarinnar
Í föstum liðum eins og venjulega mun Straumur leiðbeina lesendum um rjómann í tónleikahaldi á þessari fyrstu helgi maí mánuðar.
Fimmtudagur 2. maí
Það verður þungarokksmessa í Austurbæ í kvöld þegar tvær helstu þungarokkssveitir landsins, Dimma og Sólstafir, leiða saman hesta sína. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaferðinni „Náttfararnir“ en sveitirnar hafa ferðast saman um landið síðustu misseri til að kynna nýjustu plötur sínar fyrir rokkþyrstum áheyrendum. Dimma gáfu út plötuna Myrkraverk í lok síðasta árs sem fékk einróma lof gagnrýnenda og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum ásamt vel völdu eldra efni. Sólstafir eru nýkomnir úr mánaðarlöngu tónleikaferðalagi um Evrópu og er þess vegna í rokna rokkformi um þessar mundir. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er 2900 krónur.
Föstudagur 3. maí
Pink Street Boys, Foma og Lord Pusswhip koma fram á fríkeypis tónleikaröð Dillon sem haldin eru vikulega og samviskusamlega á föstudagskvöldum. Pink Street Boys var stofnuð á grunni hinnar stórskemmtilegu sækadelik hljómsveitar Dandelion Seeds sem nú hefur lagt upp laupana. Lord Pusswhip er pródúsant, plötusnúður og rappari að nafni Þórður Ingi Jónsson sem gerir hip hop tónlist undir áhrifum frá fjólubláu hóstasafti, djassi, kvikmyndatónlist, skóglápsrokki og ýmsu öðru. Hann hefur smíðað takta fyrir inn- og erlenda rappara úr ýmsum áttum, þar á meðal fyrir Mudd Mob crew-ið sem hann er meðlimur í. Á tónleikunum mun hann njóta aðstoðar rapparans Svarta Laxness. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir.
Kiriyama Family er um þessar mundir að semja efni á nýja breiðskífu en hafa ákveðið að taka sér hlé frá hljóðverinu og halda tónleika á Hressó með nýkrýndum sigurvegurum músíktilrauna Vök. Tónleikarnir eru ókeypis og hefjast klukkan 22:00.
Grasrótartónleikarröðin heldur áfram á Faktorý og að þessu sinni koma fram sveitirnar Sónn og Klaus. Sónn er nýstofnuð sveit skipuð ungum tónlistarnemum úr FÍH og spila vandaða dægurtónlist með tregafullum og sálarskotnum undirtón. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 23:00 og það er fríkeypis inn.
Laugardagur 4. maí
Það verður boðið upp á heljarinnar rokk- og diskókokteil á Volta þar sem sveitirnar Oyama, Muck, The Heavy Experience og Boogie Trouble venda kvæðum sínum í kross. Allar þessar sveitir eru með hressari tónleikaböndum landsins og að þær safnist saman undir sama þaki ætti virka ákaflega stuðvekjandi á áhorfendur. Gleðinnar dyr opnast klukkan 22:00 og 1000 krónur veita inngöngu að þeim.
Skúli mennski flytur brot af sínum bestu verkum frá árunum 2010-2013 auk þess sem óútgefnar perlur fá að njóta sín á Rósenberg. Við verkið mun hann njóta aðstoðar úrvals hljóðfæraleikara á bassa, gítar, trommur og munnhörpu en flutningurinn hefst á slaginu 22:00 og það kostar 1500 krónur inn.
Tónlistarkonan Lay Low bryddar upp á þeirri nýbreytni að halda tónleika heima í stofu hjá sér sem verður streymt í gegnum veraldarvefinn. Streymið af tónleikunum er hægt að nálgast án gjalds á þessari vefslóð og hefjast tónleikarnir stundvíslega klukkan 21:00.
Rokkbrýnin í Brain Police halda tónleika ásamt Alchemiu og Why Not Jack á Gamla Gauknum. Miðaverð er 1500 krónur og húsið opnar klukkan 21:00.
Sunnudagur 5. maí
Straumur vill vekja athygli á Sunnu-djazzinum, vikulegum djasstónleikum á Faktorý þar sem ungir og efnilegir spilarar leika efni úr ýmsum áttum af fingrum fram. Þeir eru á hverjum sunnudegi og hefjast ávallt 21:30 í hliðarsalnum og ókeypis er inn.
Nýtt myndband með Retro Stefson
Það er skammt stórra högga á milli hjá gleðidanssveitinni Retro Stefson sem í dag frumsýndi glænýtt myndband við lagið Qween sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum landsins á síðasta ári. Einungis mánuður er síðan síðasta myndband sveitarinnar leit dagsins ljós en þar klæddu þrír hljómsveitarmeðlimir sig upp í dragi. Í nýja myndbandinu sem er tekið upp við rætur Esjunnar er söngvarinn Unnsteinn Manuel í veiðimannaham og skýtur hvítan ref með riffli. Refurinn umbreytist við það í skjannahvíta fegurðardís og óvænt atburðarás tekur við. Myndbandinu er leikstýrt af Reyni Lyngdal og hægt er að horfa á það hér fyrir neðan.
Aukatónleikar með Kraftwerk í Eldborg
Elektrófrumkvöðlarnir í Kraftwerk sem spila á Iceland Airwaves hátíðinni í byrjun nóvember hafa nú bætt við aukatónleikum hér á á landi. Tónleikarnir verða í Eldborgarsal Hörpu mánudaginn 4. nóvember og miðasala hefst á hádegi 6. maí eða næstkomandi mánudag, en þeir sem hafa tryggt sér miða á Airwaves býðst að kaupa miða í forsölu sem hefst á föstudaginn. Ekki er þó nauðsynlegt að eiga miða á Airwaves til að kaupa miða á aukatónleikana og miðaverð er 8.900, 11.900 eða 12.900 eftir staðsetningu í salnum.
Fyrri tónleikar sveitarinnar verða sunnudaginn 3. nóvember og munu slá botninn í Iceland Airwaves en þeir verða einnig í Eldborg og miðum á þá verður dreift til gesta hátíðarinnar í Hörpu föstudaginn 1. nóvember eftir „Fyrstur kemur, fyrstu fær“ reglu og er þá einn miði á hvert armband. Tónleikar sveitarinnar eru mikil upplifun fyrir augu og eyru og þrívíddargleraugu eru nauðsynleg til að njóta sjónarspilsins til fulls.
Myndband frá Legend
Hljómsveitin Legend sendi fyrr í mánuðinum frá sér myndband við lagið Benjamite Bloodline af plötunni Fearless sem kom út í fyrra. Hljómsveitin sem er skipuð Krumma Björgvinssyni og Halldóri Á Björnssyni tóku upp myndbandið fyrir tæpum tveimur árum en kláruðu það nýverið.
Lay Low með tónleika heima í stofu
Næsta laugardag þann 4. maí mun tónlistarkonan Lay Low bjóða uppá litla sóló tónleika frá stofunni heima hjá sér. Síminn mun hjálpa til við að stream-a tónleikunum beint þannig að fólk geti verið með yfir internetið. Tónleikarnir byrja klukkan 21 og eru ókeypis. Ef fólk er með eitthvað sérstakt Lay Low óskalag má setja það í komment á facebook síðu Lay Low
eða nota #laylowlive á twitter eða instagram. Slóðinn á tónleikana er http://www.siminn.is/
mynd: Pu The Owl
RIF senda frá sér myndband
Hljómsveitin RIF hefur verið starfandi í u.þ.b. tvö ár og er nú að senda frá sér myndband við lagið Draumur af væntanlegri plötu. Liðsmenn sveitarinnar koma úr ýmsum áttum – Náttfara, Leaves, Feldberg, Stafrænum Hákon og Miri.
Ný Boards of Canada plata kemur 10. júní
Ný plata með skosku ambíentbræðrunum í Boards of Canada kemur út þann 10. júní næstkomandi á vegum Warp útgáfunnar. Þetta var tilkynnt rétt í þessu á heimsíðu Warp og þykja mikil tíðindi en síðasta breiðskífa þeirra kom út 2005 og ekkert hefur heyrst af þeim frá EP-plötunni Trans Canada Highway sem kom út 2006. Nýja platan ber titilinn Tomorrow’s Harvest og inniheldur 17 lög og umslagið má sjá í fréttamyndinni. Tilkynningin kemur í kjölfarið á undarlegri atburðarás sem hófst fyrir um 10 dögum þegar vínilplata merkt sveitinni fannst í plötubúð í New York á alþjóðlega plötubúðadeginum. Á plötunni var ekkert nema 20 sekúndna hljóðbútur og rafræn rödd sem las upp 6 stafa talnaröð. Umslag plötunnar gaf síðan til kynna að sex slíkar runur væru til og staðsetningu þeirrar sem prýddi plötuna. Tvær aðrar talnarunur voru síðar spilaðar í útvarpsþáttum á BBC og NPR og sú fjórða fannst í youtube myndbandi. Sú fimmta kom síðan í leitirnar eftir að kóði af auglýsingaborða á BOC spjallborði var settur inn í wordpad og komu þá í ljós tveir hlekkir á soundcloud síður sem báðir innhéldu einungis suð. Ef hljóðdæmin eru hins vegar spiluð bæði á sama tíma heyrist tóndæmi svipað hinum og fimmta talnarunan í gátunni.
Þá birtist auglýsing frá sveitinni á Cartoon Network sjónvarpsstöðinni um helgina en í henni heyrist talnaröðin sem spiluð var í NPR og staðsetning hennar er gefin upp. Ekkert bólar enn á sjöttu og síðustu talnarununni og enginn veit enn út á hvað þetta allt saman gengur, en fyrir áhugamenn um talnaspeki er þetta tölurnar sem eru komnar: 699742 / 628315 / 717228 / 936557 / —— / 519225. Það sem mestu máli skiptir er þó að Boards of Canada eru vaknaðir úr dvalanum og því fagna allir góðir menn. Fyrir neðan er hægt að horfa á auglýsinguna sem birtist á Cartoon Network auk eina myndbandsins sem sveitin hefur gert, við lagið Dayvan Cowboy af plötunni Campfire Headphase.
Update: Síðasta talnarunan hefur nú litið dagsins ljós með aðferðum sem eru of flóknar fyrir fréttaritara straums að skilja til fullnustu með sinni takmörkuðu tölvuþekkingu. En í stuttu máli, ef talnarunan 699742628315717228936557813386519225 er slegin inn sem password á dularfullri vefsíðu fá menn aðgang að stiklu fyrir nýju plötuna. Til að spara lesendum þá vinnu hefur einhver góðhjartaður einstaklingur hlaðið henni inn á youtube og þið getið horft á hana hér fyrir neðan.
WU LYF liðar stofna nýtt band
Hljómsveitin WU LYF sem var stofnuð árið 2008 í Manchester gaf út sína fyrstu og einu plötu Go Tell Fire to the Mountain árið 2011 við einróma lof gagnrýnenda. Það kom því mörgum aðdáendum sveitarinnar í opna skjöldu þegar að Ellery James Roberts söngvari hennar setti tilkynningu inn á Youtube í desember þar sem hann tilkynnti um endalok WU LYF. Það virðist einnig hafa komið hinum hljómsveitarmeðlimum WU LYF á óvart því í samtali við NME sagði trommari sveitarinnar Joe Manning að enginn annar úr hljómsveitinni hefði vitað um tilkynningu Roberts. Allir fyrrum hljómsveitarmeðlimir WU LYF að Roberts undanskildum hafa nú stofnað bandið Los Porcos og hægt er að hlusta á þeirra fyrsta lag hér fyrir neðan.
Tónleikar helgina 25.- 28. apríl
Fimmtudagur 25. apríl
Erlend Oye úr Kings of Convenience mun troða upp á afmæli Slippbarsins.
Föstudagur 26. apríl
Kristján Hrannar flytur lög af væntanlegri plötu sinni Anno 2013 á Stúdentakjallaranum. Aðgangur ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.
Ásgeir Trausti heldur tónleika á efri hæð Faktorý ásamt Pétri Ben. Efri hæð opnar kl. 22 og hefjast tónleikarnir kl. 23:00. Miðaverð er 2500 kr.
Skúli mennski spilar ásamt Þungri byrði á Rósenberg. Það kostar 1500 krónur inn og tónleikar hefjast klukkan 22:00.
Skelkur í Bringu heldur tónleika á Kaffibarnum og spila lög af væntanlegri plötu. Krystal Carma hitar upp með ýmisum gjörningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Laugardagur 27. apríl
Morgan Kane og Axeorder halda ókeypis tónleika á Dillon sem hefjast klukkan 22:00.
Tónleikar með Retrobot, Kjurr, Vök og Just Another Snake Cult á Gamla Gauknum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.
Hjálmar spila á efri hæðinni á Faktorý laugardagskvöldið. Miðaverð: 2000 kr. Efri hæð opnar kl. 22:00.
Sunnudagur 28. apríl
Tónleikar með órafmagnaða blústríóinu Debess Blues Station frá Færeyjum á Cafe Haiti. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er aðgangur 1000 krónur.