Lay Low með tónleika heima í stofu

Næsta laugardag þann 4. maí mun tónlistarkonan Lay Low bjóða uppá litla sóló tónleika frá stofunni heima hjá sér. Síminn mun hjálpa til við að stream-a tónleikunum beint þannig að fólk geti verið með yfir internetið. Tónleikarnir byrja klukkan 21 og eru ókeypis. Ef fólk er með eitthvað sérstakt Lay Low óskalag má setja það í komment á facebook síðu Lay Low
eða nota #laylowlive á twitter eða instagram. Slóðinn á tónleikana  er http://www.siminn.is/laylowlive/

mynd: Pu The Owl

Ný Boards of Canada plata kemur 10. júní

Ný plata með skosku ambíentbræðrunum í Boards of Canada kemur út þann 10. júní næstkomandi á vegum Warp útgáfunnar. Þetta var tilkynnt rétt í þessu á heimsíðu Warp og þykja mikil tíðindi en síðasta breiðskífa þeirra kom út 2005 og ekkert hefur heyrst af þeim frá EP-plötunni Trans Canada Highway sem kom út 2006. Nýja platan ber titilinn Tomorrow’s Harvest og inniheldur 17 lög og umslagið má sjá í fréttamyndinni. Tilkynningin kemur í kjölfarið á undarlegri atburðarás sem hófst fyrir um 10 dögum þegar vínilplata merkt sveitinni fannst í plötubúð í New York á alþjóðlega plötubúðadeginum. Á plötunni var ekkert nema 20 sekúndna hljóðbútur og rafræn rödd sem las upp 6 stafa talnaröð. Umslag plötunnar gaf síðan til kynna að sex slíkar runur væru til og staðsetningu þeirrar sem prýddi plötuna. Tvær aðrar talnarunur voru síðar spilaðar í útvarpsþáttum á BBC og NPR og sú fjórða fannst í youtube myndbandi. Sú fimmta kom síðan í leitirnar eftir að kóði af auglýsingaborða á BOC spjallborði var settur inn í wordpad og komu þá í ljós tveir hlekkir á soundcloud síður sem báðir innhéldu einungis suð. Ef hljóðdæmin eru hins vegar spiluð bæði á sama tíma heyrist tóndæmi svipað hinum og fimmta talnarunan í gátunni.

Þá birtist auglýsing frá sveitinni á Cartoon Network sjónvarpsstöðinni um helgina en í henni heyrist talnaröðin sem spiluð var í NPR og staðsetning hennar er gefin upp. Ekkert bólar enn á sjöttu og síðustu talnarununni og enginn veit enn út á hvað þetta allt saman gengur, en fyrir áhugamenn um talnaspeki er þetta tölurnar sem eru komnar: 699742 / 628315 / 717228 / 936557 / —— / 519225. Það sem mestu máli skiptir er þó að Boards of Canada eru vaknaðir úr dvalanum og því fagna allir góðir menn. Fyrir neðan er hægt að horfa á auglýsinguna sem birtist á Cartoon Network auk eina myndbandsins sem sveitin hefur gert, við lagið Dayvan Cowboy af plötunni Campfire Headphase.

Update: Síðasta talnarunan hefur nú litið dagsins ljós með aðferðum sem eru of flóknar fyrir fréttaritara straums að skilja til fullnustu með sinni takmörkuðu tölvuþekkingu. En í stuttu máli, ef talnarunan 699742628315717228936557813386519225 er slegin inn sem password á dularfullri vefsíðu fá menn aðgang að stiklu fyrir nýju plötuna. Til að spara lesendum þá vinnu hefur einhver góðhjartaður einstaklingur hlaðið henni inn á youtube og þið getið horft á hana hér fyrir neðan.


 

WU LYF liðar stofna nýtt band

Hljómsveitin WU LYF sem var stofnuð árið 2008 í Manchester gaf út sína fyrstu og einu plötu Go Tell Fire to the Mountain árið 2011 við einróma lof gagnrýnenda. Það kom því mörgum aðdáendum sveitarinnar í opna skjöldu þegar að Ellery James Roberts söngvari hennar setti tilkynningu inn á Youtube  í desember þar sem hann tilkynnti um endalok WU LYF. Það virðist einnig hafa komið hinum hljómsveitarmeðlimum WU LYF á óvart því í samtali við NME sagði trommari sveitarinnar Joe Manning að enginn annar úr hljómsveitinni hefði vitað um tilkynningu Roberts. Allir fyrrum hljómsveitarmeðlimir WU LYF að Roberts undanskildum hafa nú stofnað bandið Los Porcos og hægt er að hlusta á þeirra fyrsta lag hér fyrir neðan.

Tónleikar helgina 25.- 28. apríl

Fimmtudagur 25. apríl

Erlend Oye úr Kings of Convenience mun troða upp á afmæli Slippbarsins.

 

 

Föstudagur 26. apríl

Kristján Hrannar flytur lög af væntanlegri plötu sinni Anno 2013 á Stúdentakjallaranum. Aðgangur ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.

Ásgeir Trausti heldur tónleika á efri hæð Faktorý ásamt Pétri Ben. Efri hæð opnar kl. 22 og hefjast tónleikarnir kl. 23:00. Miðaverð er 2500 kr.

 

Skúli mennski spilar ásamt Þungri byrði á Rósenberg. Það kostar 1500 krónur inn og tónleikar hefjast klukkan 22:00.

Skelkur í Bringu heldur tónleika á Kaffibarnum og spila lög af væntanlegri plötu. Krystal Carma hitar upp með ýmisum gjörningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

 

 

Laugardagur 27. apríl

Morgan Kane og Axeorder halda ókeypis tónleika á Dillon sem hefjast klukkan 22:00.

Tónleikar með Retrobot, Kjurr, Vök og Just Another Snake Cult á Gamla Gauknum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn.

Hjálmar spila á efri hæðinni á Faktorý laugardagskvöldið. Miðaverð: 2000 kr. Efri hæð opnar kl. 22:00.

 

 

 

Sunnudagur 28. apríl

Tónleikar með órafmagnaða blústríóinu Debess Blues Station frá Færeyjum á Cafe Haiti. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og það er aðgangur 1000 krónur.

Panda Bear ræðir samstarf sitt við Daft Punk

Random Access Memories væntanleg plata Daft Punk kemur út 21. maí en hljómsveitin hefur verið dugleg við að kynda upp í aðdáendum sínum síðustu misseri með viðtölum við samstarfsaðila og fleira í þeim dúr. Nú hafa Daft Punk liðar sett á netið viðtal við Panda Bear öðru nafni Noah Lennox úr hljómsveitinni Animal Collective.

 

Loft Hostel nýr tónleikastaður í miðbænum

Í gærkvöldi opnaði formlega nýr tónleikastaður í miðbænum. Um er að ræða hostel að nafninu Loft sem staðsett er á efstu hæð á Bankastræti 7. Á opnunarkvöldinu komu fram hljómsveitirnar Boogie Trouble, Prins Póló og Fm Belfast og var stemmingin í salnum rafmögnuð. Boogie Trouble hófu tónleikana rétt um hálf tíu og sönnuðu það að diskóið lifir enn góðu lífi. Prinsinn tók við af þeim og sá um að hver einasta hræða í salnum væri á hreyfingu og Fm Belfast slógu svo botninn í frábært kvöld með einstökum tónleikum þar sem þau spiluðu nokkur ný lög í bland við gömul.

Loft Hostel líkt og Volta sem opnaði í febrúar henta vel fyrir minni og millistóra tónleika en þannig aðstöðu hefur sárvantað síðustu misseri í Reykjavík. Straum.is tekur þessum stöðum fagnandi.

Hlustið á Get Lucky með Daft Punk

Fyrsta smáskífan af nýjustu plötu Daft Punk var loksins að detta á netið í nótt. Lagið Get Lucky er dúnmjúkur diskófönksmellur sem skartar Nile Rodgers á gítar og Pharrel Williams sér um sönginn. Rúmlega ein mínúta af laginu var spiluð í auglýsingu  í SNL þættinum síðasta laugardag og alla vikuna hafa falskar útgáfur af laginu sprottið upp eins og gorkúlur út um allt alnetið. En hér er það loksins komið í allri sinni dýrð. Breiðskífan Random Access Memories kemur út þann 21. maí og er beðið með mikilli eftirvæntingu. Hlustið á Get Lucky hér fyrir neðan og horfið á viðtöl við Nile Rodgers og Pharrel Williams um samstarf þeirra við vélmennadúettinn.


All tomorrows Parties – Öðruvísi tónleikahátíð

Mynd: Fyrrum flugskýlið og núverandi kvikmyndaverið Atlantic Studios verður aðal tónleikastaðurinn.

All Tomorrows Parties tónlistarhátíðin verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi helgina 28.-29. júní næstkomandi á varnarliðssvæðinu í Keflavík. Á mánudag var tilkynnt að Nick Cave and the Bad Seeds yrðu stærsta atriði hátíðarinnar en aðrir í erlendu deildinni eru meðal annars Deerhoof, The Notwist, Thee Oh Sees og The Fall. All Tomorrows Parties er óvenjuleg tónlistarhátíð að ýmsu leiti en hún hefur alltaf lagt áherslu á sjálfstæða og óháða tónlistarmenn. Venjan er að velja virtan tónlistarmann eða hljómsveit sem aðalnúmer hennar sem gegnir einnig því hlutverki að velja aðra tónlistarmenn til að spila. Hér á landi var dagskráin þetta árið þó valin af stjórnendum hátíðarinnar auk aðstandenda hér á landi, en á næsta ári er áætlað að fá tónlistarmann sem dagskrárstjóra eins og á aðalhátíðinni í Englandi.

Vannýttar byggingar

Tómas Young sem ber hitann og þungann af framkvæmd hátíðarinnar hér á landi segir að hugmyndin hafi kviknað árið 2011. Þá hefðu hann og aðrir innfæddir tónlistarbransamenn af Suðurnesjum verið boðaðir til fundar um hvernig nýta mætti byggingarnar á varnarliðssvæðinu í eitthvað tónlistartengt. Hann hafi strax komið auga á möguleika Atlantic Studios, gamals flugskýlis, sem undanfarið hafði verið nýtt sem kvikmyndatökuver og þess vegna með fullkomnum hljómburði. Tómas sagði í samtali við Straum að hugmyndin hafi fyrst verið að halda hátíð í anda ATP í febrúar 2012, og hafði m.a. í hyggju að fá MGMT til að spila en samningar hafi ekki náðst á endanum. „Þá datt mér í hug, fyrst hátíðin átti á annað borð að vera í anda ATP, því ekki að hafa samband við hátíðina sjálfa til að spyrja út í samstarf.“ Þeir tóku vel í hugmyndina og komu hingað til lands í ágúst í fyrra til að skoða aðstæður og heilluðust af flugskýlinu, offíseraklúbbnum og bíóinu. Þá fór öll skipulagning á blússandi siglingu og stuttu fyrir áramót var búið að tryggja Nick Cave & The Bad Seeds á hátíðina og fljótlega eftir það voru tímasetningar og fleiri sveitir bókaðar.

Tónleikar í fullri lengd

Eitt af því sem aðgreinir ATP frá öðrum festivölum er að flestar hljómsveitirnar spila tónleika „Í fullri lengd“, það er um og yfir klukkutíma prógramm og Nick Cave & The Bad Seeds munu spila í heilar 90-120 mínútur, þar á meðal smelli frá öllum ferlinum. Auk þess er dagskránni raðað þannig að með einbeittum vilja og kraftmiklum gangi ættu áhugasamir að komast yfir að sjá allar hljómsveitir hátíðarinnar. Tónleikar verða á tveimur sviðum, Atlantic Studios, sem tekur um 4000 manns, og hinum svokallaða offíseraklúbbi sem er stórglæsilegur gamaldags ballstaður en örstutt labb er þar á milli. Tónleikar hefjast milli 6 og 7 bæði kvöldin og standa yfir til um 2 eftir miðnætti. Hægt er að kaupa gistirými fyrir um 200 manns á hátíðarsvæðinu en fyrir drykkfellda Reykvíkinga er þó vert að vekja athygli á því að flugrútan gengur frá Keflavík alla nóttina. Þannig að skortur á gistingu, bíl eða edrúmennsku ætti ekki stöðva neinn í tónlistarveislunni.

Tónlist, bíó og takkaskór

Hátíðin mjög aðdáendavæn og leitast við að afmál skil á milli aðdáenda og tónlistarmanna, ekkert VIP svæði er fyrir tónlistarmenn sem fylgjast með tónleikum öðrum en sínum eigin meðal almennra hátíðargesta. Fyrir utan tónleika er einnig margs konar dægradvöl í kringum hátíðina og þar ber helst að nefna kvikmyndasýningar í hinu stórglæsilega Andrews Theater. Þær hefjast fyrr um daginn og áætlað er að hljómsveitir hátíðarinnar velji myndirnar á föstudeginum en leikstjórinn Jim Jarmuch sjái um kvikmyndaval á laugardeginum. Þá verður popppunkts keppni í boði Dr Gunna og einnig stendur til að halda fótboltamót þar sem hljómsveitir keppa hvor við aðra og aðdáendur sína. Nánari upplýsingar um hátíðina og miðfyrirkomulag má finna á vefsíðu hennar.

Tónleikar helgarinnar

 

Fimmtudagur 18. apríl

Hljómsveitirnar Casio Fatso, Japanese Super Shift and the Future Band og Sindri Eldon & The Ways sjá um menningarlega fræðslu lýðsins á Stúdentakjallarnum.  Fyrsta band á svið kl 22:30 og aðgangur ókeypis

 

Heiladans 23 fer fram á Litlu Gulu Hænunni COLD / JÓNBJÖRN / VÖK / SKENG spila og aðgangur er ókeypis.

 

 

Föstudagur 19. apríl

 

Ste Mccabe tónlistarmaður frá Liverpool og hljómsveitin Klikk sem inniheldur meðal annars meðlimi hljómsveitanna Logn og Swords Of Chaos halda tónleika á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn.

 

Laugardagur 20. apríl

 

Alþjóðlegi plötubúðadagurinn (International Record Store Day) verður haldinn hátíðlegur í 6. skipti. Í Lucky Records á Rauðarárstíg verður nóg um að vera og tónlistarmenn og DJ’ar munu halda uppi stuðinu frá opnun til lokunar.

12:00 – Þórir Georg

12:30 – DJ sett

14:00 – Monotown

14:30 – DJ Andri Freyr

16:00 – Samúel Jón Samúelsson Big Band

17:00 – Robert and the Roomates

17:30 – DJ sett

 

Mugison spilar á Tískudögum í Smáralind klukkan 14:00.

 

Hljómsveitirnar Plastic Gods, The Heavy Experience, Tundra og Godchilla halda heljarinnar tónleika á Volta, Tryggvagötu 22. Húsið opnar klukkan 21:00 og tónleikarnir byrja um 22:00. Aðgangseyrir 1000 kr.