Fimmtudagskvöldið á All Tomorrow’s Parties

Mynd: Óli Dóri

All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin var sett með trukki í gær og allsvakalegri dagskrá. Ég mætti í Keflavík um sjöleitið til að sjá Ninja Tune pródúsantinn Bug í Atlantic Studios og hann heiðraði lágu tíðnirnar svo um munar. Hann framleiðir einhvers konar blöndu af reggíton og hip hop og hljómaði dálítið eins og prótótýpan af Major Lazer. Bassadroppin voru eins og kjarnorkusprengjur og heil sveit af lögreglubílasírenum var mætt í síðasta lagið. Sér til halds og traust hafði hann söngkonu og tvo rappara sem peppuðu krádið upp í hæstu hæðir.

 

Byltingin verður ekki borðuð (allavega ekki í morgunmat)

 

Þar næst var komið að blökku byltingarfréttaveitunni Public Enemy. Þeir mættu með sex manna herdeild með sér sem hafði þann helsta starfa að standi vígalegir með krosslagðar hendur eða hnefa upp í loft eftir tilefninu. Chuck D fór í loftköstum um sviðið milli þess að predika yfir mannsöfnuðinum og Flavor Flav fór með hlutverk sitt sem hinn upprunalegi hype-maður af stakri sturlun. Á einum tímapunkti tilkynnti hann að daginn áður hafi hann verið að eignast sitt sjötta barnabarn og áhorfendaskarinn sjúllaðist í fagnaðarlátum. Ég fílaði leikrænu tilburðinu og hersýningar-væbið og það eina sem skemmdi fyrir var hljóðið. Það er ákveðinn glæpur að sjá eina byltingarkenndustu rödd tónlistarsögunnar á sviði en heyra stundum vart orðaskil því henni er drekkt í bassa.

 

Við erum öll hundar

 

Næstu á svið var pönkafinn og leðureðlan Iggy moðerfokking Popp. Hann var ekkert að tvínóna við hlutina heldur dúndraði strax í slagarana I Wanna Be Your Dog, Lust For Life og Passenger. Iggy virðist vera einhvers konar vampíra. Hann hefur litið eins út í 15 ár og hlýtur að hafa selt einhverjum vafasömum sál sína til þess að halda sinni frábæru rödd kominn á þennan aldur og geta hlykkjast svona um sviðið. Þekktur íslenskur söngvari spyr oft hvort það séu ekki allir sexí. Svarið er nei, en Iggy var það svo sannarlega þetta kvöld og miklu meira til. Við vorum öll hundurinn hans.

 

Fánaberar krúttindístefnunnar í Belle And Sebastian voru næst og léku á alls oddi í nýju og gömlu efni. Þau voru með strengjasveit, trompet og allar græjur þannig að lög eins og Summer Is Wasted, I’m a Coockoo og Boy With The Arab Strab hljómuðu frámunalega vel. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra eldgamla lagið Dog on Wheels þar sem íslenski trompetleikarinn Eiríkur fór á kostum.

 

Demantar sem glampar á

 

Það var farið að tæmast nokkuð í skemmunni þegar Run The Jewels byrjuðu en það var missir þeirra sem fóru. El-P og Killer Mike eru ferskasta rappdúó undanfarinna ára og kemistrían á milli þeirra var ósvikin og smitandi. Þeir skoppuðu í takt um sviðið, göntuðust og kláruðu línur hvors annars af fádæma krafti, öryggi og áreynsluleysi. Það verður þó að segjast að hljóðið hefði getað verið betra, líkt og á Public Enemy var bassinn full yfirgnæfandi og átti það til að fletja út raddirnar og háu tíðnirnar.

 

Heilt yfir var kvöldið helvel heppnað og það sem stóð upp úr var Afi Pönk, Iggy Pop, sem að sprengdi kúlskalann í loft upp af endalausu öryggi.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Topp 10 erlend atriði á ATP

Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties hefst á morgun og í tilefni af því setti Straumur saman lista með þeim tíu erlendu atriðum sem við mælum sérstaklega með. Við hvetjum alla til að leggja land undir fót (í 40 mínútna rútuferð til Ásbrú) og njóta þess mikla tónlistarhlaðborðs sem boðið er upp á um helgina. Á straum.is næstu daga verður svo hægt að lesa umfjöllun um hátíðina.

 

Belle and Sebastian

 

Eitt stærsta indí band allra tíma hefur aldrei klikkað í tvo áratugi þó svo plöturnar séu vissulega misgóðar. Þeir hafa hins vegar sannað sig sem spikfeitt live-band og síðasta plata þeirra inniheldur fádæma funky partýslagara á borð við Party Line. Við sáum þá á Primavera hátíðinni fyrir örstuttu síðan og það kemur enginn svikinn af tónleikum með þeim.

 

The Field

 

Sænski raftónlistarmaðurinn The Field reiðir sig á naumhyggju og endurtekningu sem fer með hlustendur í ferðalag um leiðsluástand. Hljóðheimurinn er byggður úr sekúndubrots hljóðbútum sem er raðað saman af nákvæmni og hugvitssemi sem eiga fáa sína líka.

 

Run The Jewels

 

Run The Jewels er samstarfsverkefni El-P og Killer Mike sem hófst þegar að sá fyrrnefndi pródúseraði plötu fyrir þann síðarnefnda. Meðan á upptökum stóð hófur þeir samstarf í stúdíóinu og ákváðu svo að gefa afraksturinn ókeypis á netinu. Það vatt svo aldeilis upp á sig og var valin ein besta plata ársins sem þeir fylgdu síðan eftir með Run The Jewels 2 sem toppaði marga árslista um síðustu áramót.

 

The Bug

 

Paddan er listamannsnafn hins breska Kevin Martin sem gefur út hjá hinni fornfrægu Ninja Tune útgáfu. Hann blandar saman reggí-i við trip- og hip hop í ómótstæðilega grautarsúpu sem unun er á að hlíða.

 

Iggy Pop

 

Gamli ber að ofan pönkafinn er ennþá í fullu fjöri og ristjórnarmeðlimir straum.is geta borið vitni um að tónleikar hans í Listasafni Reykjavíkur fyrir örfáum árum stóðu fyllilega undir öllum væntingum.

 

Swans

 

Goðsagnakennda no wave hljómsveitin Swans er nú loksins að koma til landsins eftir að fellibylurinn Sandy kom í veg fyrir tónleika þeirra á Airwaves árið 2012. Plata þeirra Be Kind lenti ofarlega á mörgum árslistum yfir bestu plötur 2014 og tónleikar þeirra eru alræmdir fyrir allra handa tæting og trylling.

 

Lighnting Bolt

 

Óhljóðadúettinn Lighting Bolt er frægur fyrir óhefðbundna nálgun á tónleika þar sem þeir spila iðulega niðrá gólfi frekar en uppi á sviðinu. Trommari þeirra Brian Chippendale vann með Björk á plötunni Volta.

 

Public Enemy

 

Svarta fréttaveitan má kannski muna fífil sinn fegurri en Chuck D býr yfir meiri orku en Kárahnjúkavirkjun og Flavor Flav veit svo sannarlega ennþá hvað klukkan slær. Trúið hæpinu og berjið niður valdið.

 

Ice Age

 

Dönsku unglingarnir í Ice Age sóttu Ísland heim á Airwaves í hittí fyrra og trylltu viðstadda með óviðjafnanlegum hávaða og ungæðislegri sviðsframkomu.

 

Mudhoney

 

Mudhoney hafa starfað í þrjá áratugi og voru leiðandi afl í grugg-senunni frá Seattle borg í byrjun tíunda áratugarins.

Straumur 29. júní 2015 – ATP sérþáttur

Straumur kvöldsins er helgaður ATP hátíðinni sem fram fer í Ásbrú um næstu helgi. Fjallað verður um bönd og listamenn á borð við Run The Jewels, Iceage, Mudhoney, Iggy Pop, The Field, The Bug, Belle and Sebastian og fleiri auk þess sem flutt verður viðtal við Michael Gira forsprakka hljómsveitarinnar The Swans. Straumur með Óla Dóra milli ellefu og tólf á X-inu 977!

Straumur 29. júní 2015 – ATP Iceland by Straumur on Mixcloud

1) Blockbuster Night Part 1 – Run The Jewels
2) Run Tee Jewels – Run The Jewels
3) Fight The Power – Public Enemy
4) Play For Today – Belle & Sebastian
5) Love Will Tear Us Apart – Swans
6) Remember – Iceage
7) Urban Guerilla – Mudhoney
8) Loose – Iggy Pop & The Stooges
9) A Paw In My Face – The Field
10) Void – The Bug
11) THe Modern Age – Chelsea Wolfe

Lag og myndband frá Belle and Sebastian

Skoska indípoppsveitin Belle And Sebastian gaf í dag frá sér nýtt lag og myndband af sinni næstu breiðskífu sem væntanleg er í janúar. Lagið heitir Nobody’s Empire og er annað lagið af skífunni sem hefur litið dagsins ljós, en hið fyrra var stuðsmellurinn Party Line. Platan ber titilinn Girls In Peacetime Want To Dance og verður fyrsta breiðskífa sveitarinnar frá því Write About Love Kom út árið 2010. Þá má geta þess að sveitin er væntanleg til Íslands að spila á All Tomorrow’s Parties hátíðinni næsta sumar. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Nýtt lag frá Belle and Sebastian

Skoska indíhljómsveitin Belle and Sebastian gaf frá sér nýtt lag í dag en það er hið fyrsta til að heyrast af breiðskífunni Girls In Peacetime Want To Dance sem kemur út 20. Janúar. Lagið heitir Party line og hljómurinn er í ætt við titillinn, lagið er dansvænt, með rafrænni áferð og léttfönkuðum ryðma. Belle and Sebastian gáfu síðast út plötuna Write About Love árið 2010 en sveitin er væntanleg á All Tomorrows Parties hátíðina í Ásbrú næsta sumar. Hlustið á Party line hér fyrir neðan.

Belle and Sebastian aðalnúmerið á ATP 2015

Skoska hljómsveitin Belle and Sebastian verður aðalnúmerið á fyrsta kvöldi tónlistarhátíðarinnar All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ 2. til 4. júlí á næsta ári. Hér er uppfjöllun okkar um hátíðina sem fram fór í ár.

Belle & Sebastian  valdi einmitt hljómsveitir á fyrstu ATP hátíðina sem haldin var, “The Bowlie Weekender” á Camber Sands, árið 1999.

“Við hlökkum ótrúlega mikið til að spila á ATP á Íslandi. Við höfum sterka tengingu við ATP og getum ekki beðið eftir að koma fram á ATP hátíð á einum af okkar eftirlætis stöðum. Við vorum yfir okkur hrifin af Camber Sands árið 1999 og Minehead árið 2010, þannig að það að fá að spila á Íslandi verður frábært. Það er rosalega langt síðan við spiluðum á Íslandi. Það verður æðislegt. Við getum ekki beðið!” – Richard Colburn, Belle & Sebastian 

Í dag hefst sérstakt tilboð á miðum sem kosta 60 evrur (85 evrur með rútu) fyrir passa á alla hátíðina, en þeir eru af afar skornum skammti. Er þetta gert svo erlendir gestir hafi meiri tíma til að bóka flug og gistingu en hefur verið. Þegar þessir miðar seljast upp verður svo boðið upp á tilboðsmiða á 90 evrur en venjulegt verð er svo 110 evrur. Hér má nálgast miða. Gistimöguleika og fleira verður tilkynnt um síðar.

Barry Hogan, stofnandi ATP segir: “Með hverju árinu stækkar hátíðin og við erum að vinna í að bóka frábærar hljómsveitir til að fylgja eftir Portishead og Nick Cave and the Bad Seeds. Belle and Sebastian eru nú fyrsta aðalhljómsveit dagskrár sem við lofum að verður spennandi þriðji kafli í sögu ATP á Íslandi.”